Biblían

Biblían er grundvöllur kristinnar trúar, bæði í samfélagi trúaðs fólks og lífi allra kristinna einstaklinga.  Biblían er Orð Guðs sem hún hefur opinberað til að láta skrifa niður.  Hún er opinberun Guðs sem kristin guðfræði byggist á.  Kjarni hennar er Jesús Kristur, orð hans og líf, dauði og upprisa.   Nýja testamentið segir frá komu Jesú en Gamla testamentið segir frá eftirvæntingunni eftir komu hans.   Í Gamla testamentinu talar Guð í sögu fólksins sem hún kallaði til að varðveita og útbreiða Orðið um að hún ein væri Guð og uppspretta alls góðs.  Í Nýja testamentinu er hún sjálf komin í Jesú.

Það er aðeins vegna Biblíunnar sem við eigum þessa þekkingu.  En  Biblían sjálf segir að Guð tali víðar en í Ritningunni.  Guð talar í sköpuninni og sögunni og í sögu þeirra sem trúa og í hjarta þeirra.  Boðskapur Biblíunnar kennir lesendunum að læra af sögunni, njóta náttúrunnar og daglegs lífs.  Í fylgd Biblíunnar heldur kristið fólk áfram að eignast opinberun Guðs.  Það er vegna samverunnar við Biblíuna sem það mótar trú sína í kristinni trú en ekki hinum ýmsu kenningum og vangaveltum sem sífellt bjóðast á öllum öldum.

 

BIBLÍAN –  ritun Gamla testamentisins

Fólk Ísraelsþjóðarinnar kunni alltaf að skrifa.  Það kunni líka að segja sögur bæði skrifaðar og óskrifaðar frá kynslóð til kynslóðar.  Móses og Jósúa eftirmaður hans skrifuðu, líka konungarnir og ritspámennirnir.

Bækur Gamla testamentisins fjalla bæði um samtímaatburði sem þáttakendur sögðu frá og um liðna tíð þar sem engir sjónarvottar voru viðstaddir.

Sköpunarsagan er ekki skrifuð af sjónarvottum né heldur  sagan um Eden og brottförina þaðan.   Þær eru vitnisburður um að Guð hafi skapað og elski sköpun sína óendanlega og bregðist henni aldrei.  Með frásögunni um Nóaflóðið, sem varð líklega um 3000 árum fyrir Krist, hefjast skrif um atburði sem var hægt að vitna um í sögunni.

Gamla testamentið er næstum allt skrifað á hebresku, nema hluti Daníelsbókar og spádómsbók Esra sem voru skrifaðar á arameisku.  Margar bækur Gamla testamentisins eru kenndar við aðalpersónur þeirra, eins og Mósebækurnar og Rutarbók.  En þær geta átt aðra höfunda og sumar marga. Útgefendur hafa oft safnað efni þeirra og flokkað það.  Þess vegna getur stundum verið ósamræmi í frásögunni og hver bók sagt frá atburðum frá ýmsum tímum.