Saga Kvennakirkjunnar – stikklað á stóru

Kvennakirkjan var stofnuð af konum sem sóttu námskeið í kvennaguðfræði í Tómstundaskólanum vorið 1991 undir stjórn séra Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur. Í messu á 20 ára afmæli Kvennakirkjunnar var eftirfarandi upprifjun flutt:

1993 – þann 14. febrúar héldum við fyrstu messuna í Kópavogskirkju, séra Agnes Sigurðardóttir prédikaði – létum við okkur dreyma um það þá að 20 árum seinna væri hún orðin biskup? Við héldum biblíulestra og stýrihópsfundi í Lækjarbrekku, messu í Borgarnesi með leikþætti um fyrirgefningu Guðs og byrjuðum í maí að selja hver annarri kaffi og hjálpast að við uppvaskið, lengst undir stjórn Steinunnar Pálsdóttur.

1994– Útgáfa fréttabréfs hefst og bókin Vinátta Guðs kemur út, messa þar sem við köstum af okkur hlekkjum í eiginlegri merkingu og Auður semur textann um Miriam, helgarnámskeið á Laugarvatni, útimessa á Laugardalsvelli, kvennaráðstefnan Nordisk Forum í Finnlandi og farið til Suðureyrar við Súgandafjörð vegna 20 ára vígsluafmælis séra Auðar. Sigga Magg semur textann Oft er örðug leið við baráttulagið fræga We shall overcome.

1995 – Náum að klófesta Öllu sem píanóleikara eftir margar tilraunir og óvissu í tónlistarstjórninni,  síðdegisnámskeið á Lækjarbrekku og kvöldnámskeið í Neskirkju, vorferð í Þykkvabæ, byrjum með bænakörfu í messunum, barn skírt við undirleik karlakórs 19. júní hér í Neskirkju.

1996 – Námskeið í slökun og bæn, slökunartímar í Grandaskóla og slökunarspóla gefin út, vorferð að Garðskagavita og haustferð kórsins að Skálholti, alþjóðleg kvennaguðfræðiráðstefna í Austurríki þar sem við lærum lagið Systir sækjum á og Kristjana þýðir á íslensku.

1997 – Auður Eir býður sig fram sem biskup, vorferð með messuhaldi á Akranesi, Hvanneyri og í Ólafsvík, fyrsta messan við þvottalaugarnar 19. júní, kvennaráðstefna í Lettlandi þar sem kirkjudyrnar voru lokaðar og við messuðum undir berum himni, fáum eigið húsnæði að Þingholtsstræti 17.

1998 – Kvennakirkjan gerð að formlegu félagi með félagskonum sem greiða árgjald, Guðrún B. Jónsson gerist gjaldkeri og hefur ekki sloppið síðan enda engin sem treystir sér í hennar spor, námskeiðshald vex og haldin opin hús og bakaðar vöfflur í Þingholtsstræti, vorferð að Stokkseyri og messa á Selfossi, þýðingarhópur snýr textum á mál beggja kynja sem endar í bókinni Vinkonur og vinir Jesú árið eftir.

1999 – Auður Eir hættir í Þykkvabæ og verður sérþjónustuprestur Kvennakirkjunnar,  Eygló Eyjólfsdóttir semur Mildu höndina, vorferð í Stykkishólm, ráðstefnan Hvert stefnir kvennabaráttan haldin í Hlaðvarpanum í tilefni af 25 ára vígsluafmæli Auðar, barist gegn klámi og vændi, farin hópferð á nektardansstaði og Rannveig og Ingibjörg skrifa opið bréf til forsætisráðherra sem margar undirrita.

2000 – Margvísleg umræðuefni í síðdegisboðum í Þingholtsstræti, Vorferð á Sauðárkrók, messa á Kristnihátíð á Þingvöllum, hópferð til Færeyja og messað í Kirkjubæ, útimessa við Hlaðvarpann á Menningarnótt, skilnaðarnámskeið hefjast, götumessa á Laugvegi í samstarfi við miðborgarprest, tökum þátt í stofnun Veranna ehf., útgáfufélags um tímaritið Veru.

2001 – Fyrsta fermingin og næstu ár fermast nokkur börn á ári og fá fermingarfræðslu, guðfræðinemar í Kvennakirkjunni stofna prédikunarhóp, vorferð að Skógum, fyrstu kirkjudagar á Jónmessu – okkar málstofa heitir Við viljum breyta, hvernig gerum við það?, samkirkjuleg kvennaráðstefna á Álandseyjum, göngumessa í Öskjuhlíð, haustferð í Þykkvabæ.

2002 – 40 konur á námskeiði um lífsgleðina og við fáum lánaða stóla frá Þuríði á 13, málþing um mál beggja kynja í samstarfi við guðfræði- og þjóðmálasvið Biskupsstofu, vorferð í Skálholt, opnuð heimasíða sem er hönnuð af Birgittu Jónsdóttur, haustferð til Þingvalla.

2003 – Flutt í Kvennagarð að Laugavegi 59, 4. hæð, sönghefti kemur út á 10 ára afmæli, helgistundir í hádegi á miðvikudögum og borðað saman á eftir, vorferð til Vestfjarða og gist á Ísafirði, hópur fer á kvennaráðstefnuna European Women’s Synod í Barcelona, haustferð til Akureyrar og messað í Hrísey.

2004 – Vorferð í Gróttu, fyrsta messan í Strandarkirkju um Jónsmessu, haustferð að Holti í Önundarfirði og messað á Suðureyri í tilefni af 30 ára vígsluafmæli Auðar, einnig haldið málþing af því tilefni í Hallgrímskirkju undir yfirskriftinni: Hvað viltu gera í kirkjunni sem þú átt? Bókin Gleði Guðs kemur út.

2005 –  Tökum þátt í málþingi um mál, kyn og kirkju í tilefni af nýrri Biblíuþýðingu, vorferð til Grindavíkur, Kirkjudagar á Skólavörðuholti þar sem við ræðum um mál beggja kynja, haustferð til Vestmannaeyja, 30 ár frá Kvennafrídegi 24. október og kvennakirkjulög sungin á Ingólfstorgi, Ævisaga séra Auðar Eirar selst vel í jólabókaflóðinu.

2006 – Gróska í námskeiðahaldi í salnum í Kvennagarði eins og fyrri ár og haldin örþing einu sinni í mánuði, vorferð í Hveragerði, Stokkeyri og endað með messu í Strandarkirkju, kvöldmessa í Heiðmörk í ágúst, haustferð til Keflavíkur.

2007 – Bókasafn Kvennakirkjunnar opnar eftir nákvæma skráningu Herdísar, fyrsta og eina útvarpsmessan,  Auður Eir 70 ára og Neskirkja full út út dyrum henni til heiðurs, vorferð í Bláfjöll, haustferð að Kirkjubæjarklaustri, Bára Grímsdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir semja fyrir okkur messustef.

2008 – Umræðuefni vetrarins er streitan enda hrunið í uppsiglingu, vorferð að Sólheimum í Grímsnesi, námsstefna um kvennakirkjuna í Stokkhólmi í apríl og í október kemur sænska vinkonan okkar Karin Danielsson til landsins og segir okkur frá niðurstöðum rannsóknar sinnar um áhrif þess á sjálfsmynd kvenna að líta á Guð sem vinkonu en rannsóknina byggði hún á viðtölum við Kvennakirkjukonur.

2009 – Rætt um áhrif hrunsins einu sinni í viku á fundum sem nefnast Torgið, leshópur um þjónandi forystu, vorferð í Reykhólasveit þar sem Elína er orðin prestur, haustferð að Eyrarkoti í Hvalfirði.

2010 – Settur upp tengillinn biblíulestur á heimasíðunni og reynt að koma af stað guðfræðiorðabók á sama stað, vorferð á Álftanes og Bessastaðir skoðaðir, haustferð með strætó upp á Akranes, fréttabréfið fer á rafrænt form, Þuríður setur okkur á Facebook og sendir sms til að minna á messur.

2011 – Sveinbjörg stýrir vinnu eftir hugmyndafræðinni að byggja á því sem blómstrar sem endar með hugmyndasmiðju heilan dag, flytjum aftur í Þingholtsstræti 17 eftir átta góð ár á Laugavegi, hittumst í sumarbústað Súsönnu við Hafravatn og ákveðum m.a. að hafa opna stýrihópsfundi til að skipuleggja starfið.  Þróun á litúrgíu og nýjum messuformum hefst.

2012 – Mánudagssamverur með biblíulestri einn mánudag, svo kvennaguðfræði, bókmenntum og kirkjupólitík – 30. janúar ræddum við t.d. hvort við vildum konu sem næsta biskup,  – og það varð! –  bænastundir í hádegi einu sinni í mánuði, vorferð á Reykjanes og messa í Hvalsnesi, bókin Bakarí Guðs prentuð undir stjórn Öllu á nýja ljósritunarvél í Þingholtsstræti, Iðunn Steinsdóttir semur tvo sálma fyrir okkur.

2013 – Árið rétt að byrja en þegar hafa þau stórtíðindi gerst að auglýstar hafa verið stöður tveggja presta við Kvennakirkjuna sem munu reyndar vinna kauplaust eins og við allar. Höldum í dag upp á 20 ára afmæli, gleðjumst yfir vináttu okkar og horfum björtum augum fram á veginn.

Að lokum verð ég að fá að segja frá tveimur hugmyndum sem enn hafa ekki komist í framkvæmd –  önnur kom fram á hugmyndasmiðjunni góðu og er um útgáfu bókar með innleggi 100 kvenna um trúna og Kvennakirkjuna. Það er meira að segja komið nafn á bókina – hún á að heita Nærvera Guðs.

Hina hugmyndina hefur Auður gengið með lengi og er auðveldari í framkvæmd – hún snýst um að safna saman alls konar myndum af Kvennakirkjukonum og hengja þær upp í Þingholtsstræti – Er ekki lítið mál að láta þennan draum verða að veruleika á afmælisárinu?

Elísabet Þorgeirsdóttir tók saman.