Úr bókinni Vinátta Guðs eftir Auði Eir Vilhjálmsdóttur

Kvennaguðfræði er einfaldlega guðfræði um konur og Guð.  Kvennaguðfræði er skrifuð í mörgum trúarbrögðum, svo sem í gyðingdómi og múhameðstrú og líka í búddatrú og hindúatrú og þeirri trú sem er kennd við Konfúsíus og Tao og gyðjuna miklu og lengur mætti telja.  Mest af kvennaguðfræðinni er skrifað af konum, en menn skrifa líka.  Kvennaguðfræði Kvennakirkjunnar er kristin guðfræði sem fjallar um rétt kvenna til eigin sjálfsmyndar og baráttu fyrir frelsun kvenna og frelsi.  Hún er  baráttuguðfræði kvenna og er  kölluð feminist theology á ensku.  Nokkrar norrænar konur skýra orðið kvindeteologi á dönsku eða kvinneteolgi á norsku sem það eigi þá guðfræði sem fjallar um konur og leitar að því sem hefur verið sagt um okkur og segir frá því, en aðrar nota orðið um  baráttuguðfræði kvenna eins og við gerum.

Í því sem ég segi  hér vísa ég til bókar minnar Vináttu Guðs sem kom út á okkar vegum 1994 og aftur 2001.  Við förum í gegnum kafla bókarinnar til að fá yfirlit yfir það sem við höfum sagt og setjum okkur verkefni til framhalds.  Svo að við getum haldið áfram og hugsað nýjar hugsanir í kvennaguðfræðinni sem við lifum og skrifum.  Við stígum skrefin áfram þaðan sem við stöndum núna.  Þess vegna skulum við gæta að því og ræða það samna hvað við erum að hugsa núna.

Hvað er kvennaguðfræði? 

Kvennaguðfræði er guðfræði um lífið.  Hún er um trú okkar á opinberun Guðs.  Hún er um Guð og okkur, nærveru Guðs í baráttu og gleði lífsins.  Hvernig mætum við hinu mikla og óræða afli lífsins, og hvernig lifum við daga okkar einn eftir annan?  Öll guðfræði er guðfræði um lífið.  En það sem er nýtt og einstakt við kvennaguðfræðina er að hún er skrifuð um líf kvenna frá þeirra eigin sjónarmiði.  Bls. 9.

Reynsla kvenna er mismunandi.  Ég tel að sú sameiginlega reynsla sem allar konur eiga sé sú reynsla að hafa búið um aldaraðir við undirokun sem villti þeim sýn og knúði þær til að tileinka sér ranga sjálfsmynd.   Það eru hugmyndir feðraveldisins að karlar séu konum æðri.   Andstaða feðraveldisins er femínisminn, kvenfrelsið.  Þar er valdinu ekki raðað uppp í píramída heldur á  það að dreifast milli þeirra sem standa hlið við hlið.  Bls. 10.

Kirkjan þarfnast nýrrar guðfræði.  Kvennaguðfræði er straumur í djúpri og breiðri á allrar kristinnar guðfræði.  Þrír straumar hafa streymt lengi en fengu nýjan þrótt eftir 1960:  Kvennaguðfræðin, frelsunarguðfræðin og guðfræði svartra.  Bls. 12

Konur leita mikið og víða að trúarstyrk,  Það eitt hlýtur að vera kristinni kirkju umhugsunarefni.  Hvernig ætlar kirkjan að svara þeim konum sem segjast ekki skilja boðskap hennar og vilja heldur leita annars staðar að trú til að nota í lífinu?  Kvennaguðfræðin leitast við að hlusta á þær og íhuga það sem þær segjast hafa fundið.

Hugmyndir feðraveldisins eru ekki eini vandi okkar.  Þær eru hluti af vanda sem er miklu stærri.  Við glímum við vanda sem býr inni í sjálfum okkur.  Biblían kallar þennan vanda synd.  Guð kom sjálf til að takast á við vandann.  Hún var Jesús.  Hún sem var skapari okkar varð líka frelsari okkar.  Bls. 14

Brot úr sögunni

Í kvennaguðfræðinni eru báðar sköpunarsögurnar, í 1. og 2. kafla 1. Mósebókar, túlkaðar sem þær boði að konur og karlar hafi sama eðlið og séu jöfn að rétti og hæfileikum.

Svo kom syndafallið sem er sagt frá í 3. kafla 1. Mósebókar.  Upp frá því var litið á konur sem óæðri helming mannkynsins.  Jesús kom og gaf konum aftur sömu stöðuna og þær höfðu í sköpuninni.  Hann boðaði nýjan lífsstíl sem byggðist á djúpri vináttu við Guð.  Lífsstíllinn sem Jesús boðaði var ekki lífsstíll karla, hann byggði miklu meira á gildunum í lífi kvenna.  Bls. 17

Síðan er sagt frá stöðu kvenna í fyrstu söfnuðunum, og í klaustrunum á 4. öld til 12. aldar, begínunum á 13. öld og heilögum konum og nornum., nýjum möguleikum kvenna með siðbót Lúters á 16. öld og söfnuðum mótmælenda á næstu öldum.

Á 16. öld varð siðbót Lúters.  Konur töpuðu nú því frelsi sem þær höfðu átt í klaustrunum.  En það sem Lúter sagði um hinn almenna prestdóm var áhrifamikið fyrir konur, það að allar manneskjur væru kallaðar til að boða fagnaðarerindið.

Á 17. öld  fengu konur nýja möguleika í nýjum söfnuðum mótmælenda.  Þar uxu upp forystukonur sem voru menntaðar á vetgum hinna kristnu fjölskyldna sinna.  Ein þeirra, Anna Hutchinson, prestsdóttir og presetskona í Nýja Englandi var í fararbroddi hinna fjölmörgu kristnu baráttukvenna sem brátt létu til sín taka í kvenfrelsisbaráttunni sem breytti heiminum.  Bls. 22

Á 18. öld efldist kvenfrelsisbaráttan með miklum og almennum áhuga á auknu frelsi eins og birtist í Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna 1776 og Mannréttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar 1789.  Mary Wollstonecraft tók þátt í frönsku byltingunni og skrifaði bók sína Uppreisn æru kvenna.  Bls. 24 til 26

Á 19. öld setti kvennabaráttan mark sitt á framvinduna.  Hún var samofin baráttunni gegn þrælahaldi og drykkjuskap.  Konur héldu ræður opinberlega og sáu að þær gátu þá líka haldið ræður um sín eigin réttindi.  Menn skrifuðu áhrifamiklar bækur um kvenréttindi.  Enski heimspekingurinn John Stuart Mill gaf út bókina Kúgun kvenna en kona hans Harriet Taylor sem þá var látin átti sinn hlut í henni.  Friedrich Engels skrifaði að þegar konur fengju sjálfstæðan fjárhag myndi feðraveldið hrynja.  Svissneski lögfræðingurinn Johann Jakob Bachofen skrifaði um móðurréttinn og sagði að í upphafi hafi mannkynið lotið forsjá kvenna.

Iðnbyltingin breytti öllum högum og bæði gaf og heimtaði útivinnu kvenna sem varð bæði til ills og góðs.  Bls. 26 til 27

Fyrsta bylgja kvennahreyfingarinnar hófst.  Elizabeth Cady Stanton og Lucretia Mott stofnuðu fyrstu kvennasamtök Bandaríkjanna 1848.  Elizabeth skrifaði Kvennabiblíuna með fleiri konum og gaf hana út 1885 og 1889.  Ein þeirra, Julia Smith, þýddi Biblíuna úr hebresku og grísku.  Fræðakonur sem voru boðnar til samstarfs afþökkuðu og kvenfrelsiskonur töldu að Kvennabiblían gerði baráttunni ógagn.  Kristniboðskonur fóru að stofna sín eigin kristniboðsfélög og konur sem stunduðu kristniboð í fjarlægum löndum kynntust nýrri menningu og gagnrýndu afstöðu kirkjunnar til kvenna í heimalöndum sínum.  Bls. 27 til 30

Á 20. öld hélt fyrsta bylgja kvennahreyfingarinnar áfram að streyma um fyrstu tvo áratugina en fór lækkandi.  Það er ekki hægt að halda áfram án hvíldar.  En margt var samt að gerast.  Konur skrifuðu nýja guðfræði um stöðu kvenna og bók um stöðu kvenna í ensku kirkjunni kom út 1917.   Evelyn Underhill og Dorothy Sayers sem var fræg sem sakamálahöfundur skrifuðu kvennaguðfræði.  Kristniboðskonur bundust formlegum samtökum 1921.  Kirkjurnar bundust samtökum í Lúterska heimssambandinu 1947 og Alkirkjuráðinu 1948.

Simone de Beauvoir sendi frá sér tímamótaverkið Hitt kynið 1949.  Ég tel að það hafi verið upphaf annarrar bylgjunnar en sumar telja það skrifað við endalok hinnar fyrstu.  Það skiptir engu.  Valerie Saving skrifaði tímamótagrein um kvennaguðfræði 1960.  Betty Friedan skrifaði tímamótaverkið The Feminine Mystique 1963.  Kate Millett gaf út tímamótaverkið Sexual Politics 1969.  Hver bókin rak aðra.  Önnur bylgja kvennahreyfingar hóf sig hátt og breytti heiminum og kvennaguðfræðin átti mikinn þátt í allri þeirri gagnlegu gleði.  Bls. 30 til 32

Biblían

Kvennahreyfing hefur spurt margra spurninga um Biblíuna.  Sumar konur kvennabaráttunnar sóttu þangað styrk til að breyta lífi sínu og hafa áhrif.  Þær þekktu uppsprettulindirnar og notuðu þær.  Þær vissu að Guð var að tala.   Aðrar konur kvennabaráttunnar andmæltu Biblíunni.  Þær sögðu að einmitt hún væri rótin að þeirri undirokun sem þær voru að berjast við.  Þær sögðu að það væri útilokað fyrir kvennahreyfinguna að nota trúarbók sem talaði um Guð í karlkyni.  Naomi Goldenberg, trúarlífssálfræðingur, segir að konur verði að reiða sig minna á Biblíuna, kirkjuna og Jesúm og fara að reiða sig meira á sjálfar sig.  Bls. 33 til 34

Bæði fyrr og síðar hefur verið vitnað til Biblíunnar til að styðja og andmæla margvíslegum baráttumálum.  Biblían er saga margskonar menningar.  Við skulum hafa það skýrt í huga okkar að Biblían er ekki uppspretta feðraveldisins.  Hún mótaði ekki feðraveldið í upphafi, heldur mótaðist hún af feðraveldinu.  En hún varð boðberi þess um leið og hún var andmælandi þess.  bls. 34 til 35

Jesús boðaði konum aldrei undirgefni.  Hann kom aldrei með tvenns konar boð, önnur til kvenna og hin til karla.  Hann sagði ekki að konur væru fæddar til að ala börn og þjóna fjölskyldum.

Við þurfum að nota textana um frelsi kvenna í söfnuðunum.  Biblían er orð Guðs sem boðar konum og körlum ábyrgð á sjálfum sér.  Við þurfum að hugsa djúpar hugsanir og hafa mikla samstöðu til að vilja taka orð Guðs um frelsi okkar alvarlega og móta líf okkar eftir því.

Er leyfilegt að velja úr orðum Biblíunnar?  Það er ekki bara leyfilegt heldur nauðsynlegt.  Til þess að hinir neikvæðu kaflar sem tala um undirgefni og undirokun kvenna sem sjálfsagðan hlut haldi ekki áfram að hljóma sem boð Guðs.  Þegar við lesum Biblíuna með okkar eigin skilningi, tölum um Guð í kvenkyni og snúum dæmisögum og endursegjum ritningaravers erum við einfaldlega að leggja út af Biblíunni til að skilja hana betur.  Biblían stendur áfram eins og við höfum hana og er uppspretta guðfræði okkar og prédikunar.  Lesum Biblíuna.  Mótum okkar eigin aðferðir til þess.  Bls. 36 til 48

Hvers vegna Guð í kvenkyni?

Af því að Guð talar um sjálfa sig í kvenkyni.  Í Biblíunni eru margar myndir af Guði.  Jesús líkti sjálfum sér við móður.  Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sína, Lúk.13.34 og Matt. 23.37.  Hann líkti Guði við konur í dæmisögum sínum, konu sem bakar og konu sem sópar, Lúk. 13.20-21 og 15.8-9.  bls. 49-51

Við eigum fyrirmyndina í Guði, í mildi hennar og mætti.  Í guðfræði aldanna er mildinnar krafist af konum en konum sagt að finna fyrirmynd hennar í karlmynd Guðs.  Mildi Guðs föður gerir móðurmynd Guðs óþarfa.  En við þörfnumst hennar.  Og við eigum hana.  Ef við óttumst að brjóta á móti boðum Jesú með því að kalla Guð móður okkar eða vinkonu skulum við hugleiða það að þótt Jesús hafi ekki ávarpað Guð sem móður sína og kennt okkur að segja Faðir vor þá ávarpaði hann Guð á þann hátt að hann gæti vel verið að ávarpa móður sína.  Hann sagði Abba, sem getur bæði þýtt mamma og pabbi.  Þetta var í andstöðu við guðfræðina sem gilti.  Hann andmælti hefðunum og talaði um nýja möguleika til blessunar í dýpri vináttu Guðs og okkar.  Bls. 49 til 53

Síðan skrifa ég um guðfræðina um mynd Guðs í heilögum anda og heilagri visku og fleiri kvenmyndir Guðs í guðfræðinni.  Bls. 54 til 56

Ég er þess fullviss að það mun hafa djúp áhrif á konur að tala um Guð í kvenkyni.  Það mun líka hafa góð áhrif á karla.  Karlar hafa átt guðlega fyrirmyndi í kristinni trú.  Guð var einn af þeim.  Hann styrkti þá með eiginleikum sem voru karlmannlegir, og gaf þeim fyrirmynd með karlmannlegum störfum.  Hann var foringi, dómari og konugur.

Konur áttu ekki þessa sömu fyrirmynd í kristnni trú.  Guð þeirra var ekki úr þeirra hópi  Guð tilheyrði hinum hópnum, körlunum, mun meira en þeim.  Konum var ekki ætlað að líkja eftir Guði eins og körlunum var ætlað.  Í kvennaguðfræðinni er það hiklaust sagt að guðsmynd feðraveldisins sé sterkur þáttur í því að konur urðu lægra settar en karlar, bæði í augum samfélagsins og sjálfra sín..

Það styrkir stöðu karla að tala um Guð í karlkyni.  – Ef Guð er karlkyns eru karlar guðir, sagði Mary Daly.  Í kvennaguðfræðinni er sagt að guðfræðin um Guð sem er faðirinn, valdið og uppspretta alls máttar, hafi gefið körlum hugmyndir um að þeir séu uppspretta máttar kvenna og barna.  Bls. 57 til 58

Karlar hafa mótað mynd af valdamiklum Guði til að styðja sjálfa sig, segir í kvennaguðfræðinni.  Þeir skrifa um Guð sem er hátt upp hafinn og duttlungafullur, er gerir samt samninga við þá, við þá en ekki konur.

Kvennaguðfræðin gagnrýnir þá guðfræði sem talar um Guð sem hátt upp hafinn og fjarlægan Guð.  Og svo vitna ég í orð nokkurra kvennaguðfræðinga:

Sallie McFague:  Það er hættulegt að tala svona um Guð sem konung og sigurvegara sem hefur allan máttin sín megin.  Við fyllumst þá lotningu fyrir “gæsku” Guðs og ótta og auðmýkingu.  Í þessari mynd getur Guð aðeins verið Guð ef við erum ekkert.  Guð tekur okkur að sér af því að við erum algjörlega hjálparlaus.  En þessi almáttuga konungsmynd gerir Guð fjarlægan.

Dorothee Sölle:  Kristin trú getur ekki blómgast nema yfirgefa þennan alvalda, óháða og hátt upp hafna Guð í eitt skipti fyrir öll.  Hún spyr hvort það geti verið að hugmyndir okkar um karlmennskuna séu að einhverju leyti komnar frá hugmyndunum um Guð.  Hvers vegna talar fólk og hugsar um Guð sem óháðan alvald?  Karlar vilja vera sjálfráðir, sjálfum sér nógir og engum háðir, það er það besta sem þeir vita.  Í trúarbrögðunum hafa karlar mótað þessa drauma í þágu sjálfra sín, það eru þeir sem ákveða hvað það er að vera sjálfum sér nógir, og það eru þeir sem eiga að njóta þessa hnoss.

Brian Wren,  er einn þeirra karla sem hafa skrifað kvennaguðfræði.  Hann bjó til tákn um karlmennskuna:  MAWKI, Masculinity As We Know It.  Það sem við teljum karlmennsku.  Hann segir að við verðum að horfast í augu við að karlmennskan sé til vandræða í guðfræði kirkjunnar.  Hún sé skrumskæling á guðfræðinni vegna þess að hún sé bara skrifuð frá sjónarhorni karla.  Karlar hafa búið til fyrirmynd sem hentar þeim sjálfum.  Hann býr til annað tákn:  KINGAFAP:  King, God, Almighty, Father, Protector.  Guð er konungur, Guð almáttugur, faðir og verndari..  Karlar velja þessa fyrirmynd.  Allt annað er talið kvenlegt og óæðra en það karlmannlega.

Naomi Goldenberg trúarlífssálfræðingur:  Menning sem hefur karlkynsmynd sem æðsta guðdóm sinn leyfir konum ekki að líta á sjálfar sig  sem jafningja karla.  Kvenfrelsiskonur verða að segja skilið við Krist og Biblíuna og hætta að afneita því að kynjamisréttið sé þungamiðjan í kristinni trú og gyðingdómi.  Þá fara þær að treysta sjálfum sér betur og reiða sig minna á Jesúm, kirkjuna og Biblíuna.

Hún segir líka að konur í kristinni kirkju og gyðingdómi séu að umrita helgisiðina svo að þar sé ekki bara talað um bræður heldur líka um systur.  Þær berjast fyrir því að konur verði prestar og rabbíar og deili allri stjórnun með körlum.  Sjálfar líta þær ekki á þessa breytingu sem ógnun við grundvallaratriði trúarinnar, heldur sem endurbætur á siðum kirkjunnar.  En þegar konur breyta stöðu kvenna í kristinni trú og gyðingdómi hrista þær þessi trúarbrögð niður að rótum þeirra.  Eðli trúarbragða býr í eðli táknanna og ímyndanna sem koma fram í helgisiðunum og kenningunum.  Þess vegna breyta konur aðaláhrifum trúarinnar þegar þær viðurkenna konur sem trúarleiðtoga og eftirmynd guðdómsins.

Við stöndum frammi fyrir miklum spurningum.  Viljum við í rauninni taka þátt í að móta kvennaguðfræði og kvennakirkju sem hrista tákn kristinnar trúar niður að rótum.  Hvaða afleiðingar hefur það og hvaða afleiðingar hefur það að þora það ekki?  Það, að þora ekki,  hefur þær afleiðingar, að mínu mati,  að kristin trú heldur áfram að styðja mismunun kvenna og karla og að konur, og kannski karlar líka, munu yfirgefa kirkjuna til að leita leiða fyrir hugmyndir sínar.  Bls. 57 til 60

Sallie McFague skrifar um Guð sem móður elskanda og vinkonu.  Þessi þrefalda mynd er af undursamlegri ást og er allt önnur en myndin af Guði sem er sigrandi konungur.

Guð móðir okkar elskar lífið sem hún gaf af sér. Veröldin er hennar eigin líkami og samt óháð henni, eins og börn eru komin af foreldrum sínum en eru samt sjálfstæð.  Hún reiðist því sem vegur að sköpun hennar og aftrar því að hún fái allt sem hún þarf til að blómstra og njóta sín í öllum fögnuði sínum.  Hún gleðst yfir því að einmitt þú skyldir hafa fæðst og yfir því að þú sért til.

Guð sem er elskandi heimsins dáir lífið og finnst heimurinn dýrmætur eins og elskendum finnst þau sem þau elska.  Guð sem er elskandi er frelsari heimsins, þjáist með honum og vill lækna hann og sameina.  Henni finnst þú, einmitt þú,  hafa ómetanlega kosti.

Guð sem er vinkona er hjá okkur, vinátta hennar er í sjálfum okkur og hún vinnur með okkur að því að lækna heiminn.  Hún segir að við skulum öll vera saman og vinna saman og svo skulum við setjast niður og borða saman.  Þessi skapandi, frelsandi og gagnkvæma ást er hin djúpa ást sem Guð gefur okkur til að geta unnið að sameiningu heimsins og þjáðst með þeim sem verða fórnarlömb þess að saneiningin rofnar.  Bls.  60 til 61

Við erum skjól Guðs.  Það breytir miklu fyrir okkur hvort við hugsum aðeins um skjólið og hjálpina sem við fáum hjá Guði, eða hvort við hugsum einnig um það að við erum líka hjálp Guðs, skjól hennar þegar hún kemur til okkar í öðru fólki og í heiminum sem hún skapaði.  Guð elskar sköpun sína og við bregðumst henni ef við viljum ekki elska verk hennar og njóta þeirra og hjálpa henni við að varðveita þau.

Dorothee Sölle segir  að allt sé mögulegt í baráttunni fyrir breyttum heimi.  Hún segir að eitt af nöfnum Guðs sé “Allt er mögulegt”.  Hún segist ekki geta lifað án þess að trúa því og hafa það alltaf í huga.  All you need is love sungu Bítlarnir og hún vitnar í þá og segir:  Allt sem þú þarft er ástin og kærleikurinn og þetta tvennt verður aldrei aðskilið.  Guð er hæfileiki okkar til að elska, styrkurinn og neistinn sem tendrar kærleika okkar.  Við skulum sökkva okkur í ást Guðs, drekkja okkur í ást Guðs.

Í ást Guðs  höfum við möguleikana og skyldurnar til að berjast fyrir réttlætinu, fyrir þau sem eru þjáð og einskis metin.  Jesús kom til að deyja og rísa upp til þess að við héldum verki hans áfram  og berðumst fyrir fullu réttlæti í stjórnmálum, félagsmálum og efnahag. Svo að allar manneskjur hafi rétt og séu frjálsar.  Frelsunarguðfræðin og guðfræði svartra taka í sama streng.

Öll þessi vissa byggist á þeirri vissu að við og Guð eigum með okkur vináttu sem sé eftirsóknarverð bæði fyrir Guð og okkur.  Frelsun okkar og frelsi felst í því sem við sköpum með Guði og við sköpum sífellt nýja sköpun með Guði með því að vinna að frelsun og frelsi sjálfra okkar og allrar sköpunarinnar.

Carter Heyward og Beverly Wildung Harrison voru fyrstar til að skrifa kvennaguðfræði hinnar gagnkvæmu vináttu. Hún frelsar okkur undan aðskilnaði milli skaparans og sköpunarinnar.  Carter talar um “power in relationship”.  Beverly segir að hin almenna og gagnkvæma vinátta sem við notum í daglegu lífi okkar sé alveg það sama og hinn einstaki kristni kærleikur.  Bs. 62 til 63

Getur karlmaður verið frelsari kvenna?

Smátt og smátt fór ég að skilja þessa  spurningu kvennaguðfræðinganna.  Þær segja:  Frelsari sem er karlmaður gefur hugmyndir um að karlar séu frelsarar kvenna.  Kristin trú leggur svo mikla áherslu á að konur eigi að leggja allt í hendur föðurins og sonarins að það aftrar þeim frá því að trúa á sjálfar sig.

Þrenningin hefur þrjár karlpersónur.  Faðirinn skapar, sonurinn frelsar og heilagur andi helgar.  Trúarjátningar kirkjunnar voru skrifaðar til að hjálpa kirkjufólkinu að gera sér grein fyrir trúnni og hrekja allan efa á braut.  En þegar tímarnir líða kunna táknin sem einu sinni voru skjól gegn efanum að skapa nýja efa.  Þá reynir á þor kirkjunnar til að takast á við þessar surningar og móta nýja guðfræði.

Í gagnrýni kvennaguðfræðinnar er sagt að guðdóminum hafi verið skipað í valdaröð vegna þess að karlar mótuðu guðfræðina eftir valdaröðinni sem  þeir skipuðu sjálfum sér í.  Svo mótuðu þeir guðfræðina um guðdóminn eftir því, settu föðurinn æðstan og svo soninn og heilagan anda honum undirgefinn.

Þess er spurt í kvennaguðfræðinni hvernig við eigum að móta orðalag þrenningarinnar án þess að tala um föðurinn, so, heilagan anda,  sem kvenpersónu.  Hebreska orðið ruah, er líka kvenkyns.  En kvenmyndin varð fljótlega undirokuð af tveimur karlkynsmyndum, föður og syni.

Hér stytti ég mér leið til þeirrar guðfræði sem við höfum skapað síðan ég skrifaði vináttu Guðs.   Mary Daly vildi tala um Guð með sagnorðum.  Ég lýsi þrenningunni svona í trúarjátningu okkar:

Ég trúi á Guð sem skapar og er Jesús sem frelsar og heilagur andi sem er alltaf hjá okkur.

Með þessu orðalagi segjum við að Guð sé bæði Guð og líka Jesús og heilagur andi.

Svo skrifa ég um hugmyndirnar um Jesu Kristu og slæ því að lokum föstu að karlmaður geti verið frelsari kvenna.   Jesús frelsaði ekki með hetjudáðum og hann gerði ekki þau sem hann frelsaði háð sér og ósjálfstæð.  Hann frelsar okkur frá vondum hugmyndum. Misskilningi og vanmætti og gefur okkur traust á sjálf okkur og hvert annað.  Hann var ekki frelsari vegna þess að hann var karlmaður.  Hann var frelsari vegna þess að hann var Guð.  Bls. 65 til 71

Í kaflanum um hið kvenlega og hið karlmannlega tala ég um hugmyndir guðfræðinnar í Biblíunni, í sköpunarsögunum tveimur , í 1. og 2. kalfa 1. Mósebókar.  Kvennaguðfræðin les þann boðskap úr báðum að Guð hafi skapað tvo fullkomna einstaklinga í sinni mynd sem gátu og vildu tengjast öðrum sjálfstæðum einstaklingum.  Ég vísa til guðfræði sem segir að eðli karla sé æðra en kvenna.

Ég vísa í bréf Páls sem segja bæði að menn og konur séu jöfn, Gal. 3.28 og að konur eigi að vera mönnum undirgefnar, 1. Tím. 2.11-13, 1. Kor. 14.34 og 11.7-10.  En strax í versunum á eftir, 11. og 12. versi segir að kynin séu hvort öðru nauðsynleg.  Páll á erfitt með að samræma boðskapinn frá Jesú og boðskap grískrar menntunar sinnar.  Ég vísa líka í 5. kafla Efesusbréfsins um að konur eigi að vera undirgefnar en líka að konur og menn skuli vera jafn undirgefin hvort öðru.  Páll er sífellt í vandræðum með misræmið milli boða Jesú og þess sem ríkir í umhverfi hans.

Síðan vitna ég í tvíhyggju grísku heimspekinganna sem töldu konur óæðri mönnum og líkamann óæðri sálinni og hugmyndir Hebreanna sem aðhylltust ekki tvíhyggju heldur sögðu að manneskjan væri heil og óskipt.  Þótt Hebrear skipuðu líkamanum ekki neðar en sálinni skipuðu þeir konum neðar en mönnum.

Svo tala ég um guðfræði kirkjufeðranna en þeir voru guðfræðingar kirkjunnar á fyrstu öldunum.  Þeir höfðu sumir skelfilega kvenfyrirlitningu en aðrir höfðu trú á boðum Jesú um jafnréttið.

Síðan ræði ég guðfræði Lúters og svo skoðanir Simone de Beauvoir og Sigmund Freud og tala um hugmyndir um það að konur séu fjötraðar af líkama sínum.  Er það eðli kvenna að vera mæður?  Hvers vegna hlakka stelpur ekki til að verða fullorðnar?  Og ég rek fáein ummæli menningarinnar sem niðurlægja konur.

Við skulum hætta að skipta eiginleikunum í kvenlega og karlmannlega eiginleika.  Við skulum hætta að tileinka konum mýktina og umhyggjuna og körlum vitið og hreystina.  Við skulum hætta að tala um hina karlmannlegu þætti kvenna og hina kvenlegu þætti karla.  Við skulum tala um það manneskjulega sem allar manneskjur eiga, konur og karlar, en misjanflega eftir einstaklingum.  Og við skulum leyfa hverju okkar að vera þeir einstaklingar sem við erum, svo að við fáum að njóta þeirra eiginleika sem blessa sjálf okkur og annað fólk.  Bls. 73 til 92

Í kaflanum um leitina að kvenlegum átrúnaði tala ég um trúarleit kvenna, bæði í kristinni trú og öðrum trúarbrögðum.  Ég tala um átrúnaðinn á Maríu, í grísk-orþódoxu  kirkjunni og rómversk-kaþólsku kirkjunni og mótmælendakirkjunni.  Ég staðhæfi að María sé ekki fyrirmyndin sem kvennaguðfræðin leitar.

Síðan skrifa ég um nornir og trú þeirra á gyðjuna miklu.  Ég vitna í frábærar setningar þeirra:  Það eru hugsanirnar sem skipta mestu máli.  Ef kona nær tökum á hugsunum sínum nær hún tökum á lífi sínu.  Kona sem stjórnar hugsunum sínum stjórnar lífi sínu.  Nornin þarf fyrst að læra að búa til sína eigin sjálfsmynd.  Ég tala líka um seiðkonur sem sækja líka styrk sinn til gyðjunnar og störf þeirra í annarri bylgju kvennahreyfingarinnar eftir 1960.  Ég tala um áhrif austurlenskra trúarbragða og gyðjuna miklu og mæðraveldið sem er sagt að hafi verið undanfari feðraveldisins.  Ég tala um amasónurnar sem er sagt að hafi verið þjóðfélag sem var mótað af mæðraveldinu.  Ég vitna í kvennaguðfræðinga í kirkjunni sem telja að þessi leit sé afar gagnleg.

Ég sé ástæðu til að skrifa þennan kafla um gyðjurnar, nornirnar og seiðkonurnar hér í bókina til að kynna okkur þetta.  Sjálfri finnst mér speki nornanna heillandi og álít að við getum lært margt af henni í kristinni kvennaguðfræði.  Trú nornanna er heiðin trú og ég mæli engan veginn með því að við kristnar konur aðhyllumst hana.  Ég mæli með því að við finnum trúna á kvenlegan styrk Guðs og á okkar eigin styrk í trúnni á Guð, móður okkar, systur og vinkonu.  Bls. 93 til 106

Þörfnumst við frelsara?

Getur karlmaður verið frelsari kvenna?  Þetta er hin merkasta spurning.  En það er samt miklu merkilegra að spyrja hvort við þörfnumst yfirleitt frelsara og svo hvort ein manneskja geti frelsað aðra.  Kristin trú segir að við þörfnumst frelsara vegna þess að í okkur búi eitthvað sem við ráðum ekki við á eigin spýtur.  Biblían kallar það synd.  Kristin trú staðhæfir að við séum alls ekki sjálfráða.  Um þetta skrifa ég nú fyrir okkur upp úr lúterskri guðfræði:

–          Öll kristin kirkja játar að allt frá syndafallinu sé mannkynið í fjötrum sem það getur ekki komist úr á eigin spýtur.  Þessir fjötrar eru afleiðing syndarinnar, en hún býr í mannkyninu sjálfu, og hennar vegna eigum við öll skilið fordæmingu Guðs.  Í lúterskri guðfræði er lögð áhersla á að syndin sé ekki bara það sem við gerum, heldur líka það sem við erum, við erum syndarar og getum ekki neitt annað af eigin rammleik.  En Guð getur gert okkur að öðrum manneskjum.  Hann réttlætir okkur af náð sinni sem er okkur gefin ókeypis.  En syndugt eðli okkar þurrkast ekki út meðan við lifum, við höldum alltaf áfram að hafa tilhneiginguna til að syndga. Og við höldum alltaf áfram að mega tkaka á móti náð Guðs. –

Hvað er syndin eiginlega?  Alveg síðan á dögum Ágústínusar hefur það verið talin góð guðfræði að segja að syndin sé hroki.  Kvennaguðfræðín hefur hins vegar gert alvarlegar athugasemdir við þá guðfræði.  Ung amerísk kona, Valerie Saving, guðfræðinemi, skrifaði grein um þetta árið 1960 og vakti mikla athygli.  Þetta var skrifað þremur árum áður en Betty Friedan skrifaði The Feminine Mystique sem er talið hafa valdið þáttaskilum í kvennabaráttunni.  Grein Valerie hefur verið mikilvæg í kvennabaráttunni og hún átti stóran þátt í að hrinda af stað þeirri kvennaguðfræði sem síðan var farið að skrifa.

Valerie vitnaði í guðfræði tveggja karlguðfræðinga og andmælti skoðunum þeirra.  Guðfræði þeirra, sagði hún, er skrifuð frá sjónarmiðum karla en látin gilda sem guðfræði kvenna.  Hún er hins vegar alls ekki gild sem guðfræði kvenna.  Þannig er það um mestan hluta allrar guðfræði, hún er guðfræði sem karlar skrifa fyrir sjálfa sig og er látin vera guðfræði kvenna þótt hún geti ekki verið það.

Það er ekki hrokinn sem er synd kvenna, synd þeirra er þvert á móti auðmýktin, skrifaði Valerie Saving.

Syndin verður okkur sorglegur veruleiki vegna þess að við missum alltaf friðinn og öryggið sem vð þó eignumst inn á milli.  Við sjáum raunveruleika syndarinnar í heimsfréttunum og finnum hvað öll heimsbyggðin stendur ráðþrota.  Þá skiljum við sum eitthvað af því sem Biblían segir um þetta dularfulla afl, að það er eins og öskrandi ljón og lymskufull slanga sem kann að tala og segir hálfan sannleika sem dómgreind okkar ræður ekki alltaf við.

Hvað segir kirkjan um lækningu okkar við syndinni?  Í lúterskri kirkju er kennt að við verðum aftur heil í skírninni.  Guð tekur okkur að sér í skírninni og fullvissar okkur um að nú séum við aftur heil.  Jesús barðist bæði við sína eigin synd og synd alls heimsins.  Hann barðist við sína eigin synd í óbyggðinni þegar Satan freistaði hans.  Á skírdagskvöld í Getsemane barðist hann vð synd alls heimsins.  En bak við hvort tveggja var hið sama afl syndarinnar.  Jesús sigraði þetta afl hvernig sem það birtist.  Kristin trú segir að Jesús hafi sigrað sínar eigin hugsanir og dauðann sjálfan vegna þess að hann var bæði Guð og maður.

Við getum efast um þetta allt, spurt hvers vegna þetta hafi endilega þurft að vera svona.  En þær stundir koma í lífi margra okkar að við erum ólýsanlega fegin að vita það, þótt við skiljum það ekki.  Bls. Til 107 til 112

Hugmyndir kvennaguðfræðinnar um syndina og frelsunina

Ég vitna í nokkra kvennaguðfræðinga:

Syndin er það að vilja ekki lifa lífinu af þeim þrótti sem Guð gefur okkur möguleika til, vilja ekki verða þau sem við getum orðið og vilja ekki taka þátt i því að vernda sköpun Guðs og gefa henni möguleika til að blómstra.

Syndin er að vilja ekki nota kraftana sem Guð gaf okkur.

Syndin er það sem við gerum hvert öðru, það sem skilur okkur hvert frá öðru, frá vinnunni sem við vinnum, hún er það sem gerir okkur tóm og áhugalaus.  Syndin er uppgjöfin, afskiptaleysið og firringin.

Syndin er það sem við gerum sjálfum okkur, hvert öðru og heimi Guðs og hún á upptök sín í aðskilnaðinum frá Guði.

Synd okkar er að þora ekki, vilja ekki, nenna ekki að líta á okkur sem þær sterku og fallegu manneskjur sem Guð skapaði okkur til að vera á haverjum degi lífs okkar.

Synd kvenna er auðmýkt þeirra, það að hafa trúað því að þær ættu að þurrka út sinn eigin vilja.

Víða í kvennaguðfræðinni er ekki lögð áhersla á illsku okkar heldur hik okkar.  Jesús gefur okkur aftur og aftur þrótt til að verða og vera þessar manneskjur.  Í kvennaguðfræðinni er mikil áhresla lögð á möguleikana.  Við getum allt i vináttuni við Gð.  Áherslan er lögð á samvinnu okkar og  Guðs í frelsun okkar.  Við læknumst með því að vinna með Guði af því að vernda heiminn, hvert annað og sjálf okkur, og lifa í frelsi Guðs.  Bls. 112 til 113

Svo lýsi ég hugmyndum Mary Daly, Carter Heyward og Dorothee Sölle um syndafallið.  Mary segir að syndafallið sé fall úr fölsku sakleysi.  Carter segir að syndafallið sé ekki bara fall í synd heldur líka í nýja möguleika til að takast á við syndina.  Syndafallið hefur gert okkur hæf til að verða til ills.  En líka til að verða til góðs.  Mary talar ekki um að falla í synd heldur að falla í frelsi.  Carter talar ekki um erfðasyndina heldur erfðagæskuna.  Vonska okkar breiðist út, en gæskan gerir það líka. Dorothee segir að í syndafallinu hafi lífið breyst.  Adam og Eva kynntust hvort öðru á nýjan hátt og þau kynntust Guði á nýjan hátt.  Guð var ekki foreldri þeirra heldur félagi, hún fordæmdi þau ekki og yfirgaf þau ekki heldur fór með þeim út í veröldina.  Þetta segja þessar þrjár merku konur.

Guð horfir ekki með hryllingi á synd okkar og hún ætlar okkur ekki að geta lifað í nánd við hana dag eftir dag án þess að geta hugsað sér það sjálf.  Hún er hjá okkur og hjálpar okkur til að takast á við syndina.  Það er ekki þrátt fyrir synd okkar sem hún elskar okkur, heldur vegna þess að við erum henni dýrmæt eins og við erum.  Bls. 113 til 114

Krossinn

Hvers vegna er krossinn tákn kristinnar trúar?  Hann er það fyrst og fremst vegna þess að Jesús dó á krossi.  Svo sjáum við að tákn krossins, dauðinn og sigurinn yfir dauðanum, er alls staðar í lífinu.  Þjáningin er alls staðar, en vonin er líka alls staðar.  Guð er alls staðar hjá okkur. hún þjáist með okkur og lætur sólina alltaf rísa aftur upp í lífi okkar.  Það segir krossinn okkur.  Á föstudaginn langa virtist allt tapað og vonlaust.  En á páskadagsmorgun birtis ný og undursamleg gleði sem aldrei hefði birst án sorgar föstudagsins.  Og þá sást líka að það sem virtist vonlaust hafði aldrei verið vonlaust.  Bls. 114

Svo rek ég ýmsar skoðanir kvennaguðfræðinga á Kristi á síðum 115 til 118.

Vináttan og völdin

Vináttan er svo dýrmæt að engar manneskjur mega vera án hennar.  Öll vinátta sem við eigum er vinátta Guðs.  Hún er hjá okkur í vináttunni sem við gefum og þiggjum, hvort sem það er vinátta daglegrar umgengni eða djúp vinátta sem tvær eða leiri manneskjur eiga saman.,   Vináttan er mikill máttur.  Hún hefur unnið stórvirki í kvennahreyfingunni.  Guð hefur opinberað þar vináttu sína.  Bls. 119

Svo rek ég skoðanir úr kvennahreyfingunni og einkum þeirra Luise Eichenbaum og Susie Orbach og Janice Raymond og Mary Daly.  Janice talar um samstöðu valdalausra kvenna á jaðrinum þegar konum var ekki leyft að eiga vináttu hver annarrar.  Þessi vinátta splundraðist þegar sumar konur komust af jaðrinum inn á miðjuna þar sem valdið er í höndum karla.  Þetta veldur angist sem við verðum að bregðast við.

Við eigum að bregðast við henni með því að viðurkenna hana en óttast hana ekki eða skammast okkar fyrir hana, segja Luise og Susie.  Konur hafa aldrei haft eins mikið frjálsræði og núna til að velja sér lífsstíl, störf og búsetu.  Þær geta tekið tillit til sjálfra sín og tekið sjálfstæðar ákvarðanir.  Í þessu frelsi skulum við halda fast við gömlu góðu leiðina kvenna, vináttuna og stuðninginn.  Konur eru aldar upp við að finna hvernig öðrum líður og bera umhyggju fyrir öðrum.  Við erum aldar upp við að skilja sjálfar okkur út frá samskiptum okkar við aðra.  Við skulum nota þessa æfileika og hjálpa hver annarri til að skilja tortryggni okkar, öfund, samkeppni og ótta, með því að tala saman um erfiðleikana.

Mary Daly segir að aðeins konur sem hlusta hver á aðra geti skapað aðra veröld en þá sem er. Bls. 119 til 122

Það hafa orðið miklar breytingar.  En vinnumarkaðurinn er enn sniðinn eftir hugmyndum karla og konur geta átt erfitt með að samræma hann hugmyndum sínum.  Það er eðlilegt vegna þess að þessi heimur er ekki mótaður eftir þeim reglum sem konur hafa alist upp við.  Konur sjá oft betur en karlar hvað heimili og vinna falla illa saman.  Þær sjá að tengslin eru enn notuð eins og karlar séu fyrirvinnur en konur húsmæður.

Það þarf að sveigja reglurnar á vinnumarkaðinum og endurmeta heimilisstörfin svo þau njóti virðingar og ráðstafa umönnun barnanna.  Við þurfum að gera miklu meira en það.  Við þurfum að móta nýja lífsýn um líf einstaklinganna, heimilin og vinnuna, starfsframann og vinnugleðina.  Og um lífsgleðina og þau gildi sem við viljum sækjast eftir.  Bls. 122 til 123

Svo skrifa ég um guðfræði heimilisstarfanna, guðfræði fjölskyldunnar og guðfræði valdanna og stjórnendur.  Ég vitna í hugmyndir Janice Raymond um konur sem komast áfram og telja sig ekki eiga kvennahreyfingunni neitt að þakka.  Ég vitna í bók Lee Bryce um áhrifakonur.  Hún segir eins og Luise og Susie að konur eigi að beita þeim stíl sem þær eru aldar upp við.  Það er að láta sér annt um aðra.  Konur sem hafa lítið sjálfstraust og lítinn innri styrk reyna að ráðskast með aðra.  Þær taka af þeim völdin til að vernda sín eigin völd.  Við þurfum fyrst að gera upp okkar eigið álit á völdunum sem við höfum.  Þá fyrst getum við samræmt styrkinn og umhyggjuna.  Það krefst mikillar kunnáttu sem við þurfum að afla okkur.

Konur hika oft við að nota völd.  Þær eru aldar upp við að konur séu valdalausar en karlar valdamiklir.  Þess vegna sætta þær sig við að karlar hafi völd en konur ekki.  En konur sem nota völdin sem þær hafa sjá að það er ábyrgðarmikið og heillandi og gefur þeim kraft til að framkvæma.  Það er miklu betra að dreifa þessum völdum, hafa fólkið sem á að vinna verkið með í ráðum.  Fólk vill frekar gera það sem það skilur hvers vegna er gert og hvers vegna einmitt svona.  Auðveldasta leiðin til að beita valdinu er gamla hefðbundna leiðin að skipta sér ekkert af því sem annað fólk vill, skipa því fyrir og nota sér þjónustu þess.  Á þeirri leið er lögð áhersla á ytri styrk og breitt yfir veikleika og innri óró, segir Lee Brice,  bls.  123 til 128.

Lee Brice segir:  Í vinnunni eiga allar manneskjur rétt til að vera virtar og metnar.  Rétturinn felst í virðingu, í því að segja skoðanir sínar og tilfinningar, að aðrir hlusti og taki þær alvarlega, að setja sér sjálf forgangsröð, að segja nei án þess að finna til sektarkenndar, að biðja um upplýsingar frá sérfræðingum, að mistakast, að kjósa að bregðast ekki við þótt aðrir sýni þeim yfirgang.  Bls. 129

Ég vitna til Helenu Jansson sem fékk stjórnunarstöðu í sænsku flugmálastjórninni og sagði að það gæfi sér ekki æðri stöðu heldur aðra stöðu.

Sylvia Buchell segir: Stjórnun er allt annað en að ráðskast með fólk.  Hún er líka allt annað en að smjaðra fyrir fólki.  Hún beitir ekki neinum brögðum sem fólk skilur ekki.  Stjórnun er að vinna með fólki og bera virðingu fyrir því og virða það að allir hafi sinn eigin rétt.

Þetta eru allt nánari útskýringar á því sem Jesús gerði.
Jesús segir:  Þið eruð ekki þjónar, því þjónar vita ekki hvað stjórnendurnir eru að gera.  Þið eruð vinir mínir

Njóttu þeirrar vinnu sem þú vinnur

Eitt mikilvægasta verk kvennaguðfræðinnar er að gagnrýna valdastigana þar sem völdin safnast saman hæst uppi.  Valdið er gott þegar það er vel notað og þar er gott að konur séu í valdastöðum.  Ég vitna í Berit Andersen prest í Noregi.  Hún segir að í preststarfinu  skulum við fyrst og fremst leggja áherslu á að læra alltaf eitthvað nýtt og leggja áhersluna á starfsgleðina um leið og við leggjum áherslu á að konur komist til áhrifa og valda.

Margaret Henning og Anne Jardin gerðu könnun um það hvers konur væntu af næstu tíu árum starfsævinnar.  Þær vildu verða hæfari til að takast á við erfiðari verkefni og auka menntun sína til þess.  Læra að standa fyrir máli sínu og leggja fram árangurinn af verkum sínum.  Sumar vildu þjálfa konurnar sem tækju við af þeim þegar þær færu sjálfar til annarra starfa.  Engin þeirra talaði um að stefna að starfsframa sem fælist í hærri stöðu, engin talaði um stuðning forstjórans eða samstarsfólksins til að komast þannig áfram í fyrirtækinu.  Þeim fannst best að stefna að markmiðum sem þær gætu náð og gerðu þær glaðari og hæfari starfsmenn í hópi sem þær treystu og fannst gott að vinna með.

Þessar konur eru samstarfskonur Guðs.  Þær vinna með Guði að því að skapa og frelsa.  Þær frelsa sjálfar sig og hver aðra frá ótta samkeppninnar og hégómans með því að treysta því að vinna þeirra sér mikils virði.

Dreifing valdsins er ekki það að allar manneskjur eigi að stjórna öllu eða hafa vald til að mótmæla öllu, heldur ekki að allar menneskjur eigi að hafa sams konar vald.  Valdinu er dreift til að nota það sem best, hafa verkaskipti og framkvæma.  Það þarf að bera virðingu fyrir valdinu.  Það þarf að virða og styðja þau sem hafa völd af því að það er ábyrgðarmikið að hafa völd.  Öll höfum við einhver völd og þess vegna þörfnumst við viðurkenningar og annars stuðnings til að nota þau vel.  Bls.  130 til 132

Trúin mótar lífið og lífið trúna

Ég tala um vináttu Guðs sem fyllir okkur friði og bregst ekki þótt friðurinn hverfi í erli daganna.  Hann kemur aftur af því að Guð er vinkona okkar og alltaf hjá okkur.  Ég tala um  leitina að dýpri vináttu Guðs og gleðina yfir vináttu hennar.

Ég tala um Guð sem vinkonu mína.  Ég hugsa um hana eins og vinkonu sem situr við hliðna á mér og ég get sagt allt sem ég vil.  Ég veit að hún hlustar og heyrir og tekur þátt í því sem ég tala um.  En ég veit um leið að Guð er Guð og ég er ég.  Ég hugsa ekki eins og nornirnar sem trúa á gyðjuna miklu í sjálfum sér og segja hver við aðra:  Þú ert gyðjan.  Samt er Guð í mér, í gagnkvæmri vináttu okkar sem býr í hjarta mínu af því að Guð er þar hjá mér.  Það er sagt aftur og aftur í Biblíunni.  Þar er sagt að Guð komi og búi innra með okkur og að vináttan sem Guð gefur okkur verði í okkur að streymandi lind.   Bls. 137

Ég vitna í sálm kvennaguðfræðinnar sem segir að Guð hafi þúsund andlit.  Hún er krafturinn og mildin, birna sem ver ungana sína, lindin og eldurinn.  Við getum valið nöfnin.  Mary Daly segir að það sé miklu betra að nota sagnorð um Guð því þetta þriggja stafa orð geti ekki fangað allt sem hún er og nái ekki kraftinum sem sagnorðin lýsa.  Ég er, sagði Guð um sjálfa sig.  Það er kraftmikið að segja að Guð ER, segir Mary.

Hver eru aðalatriði kristinnar trúar?  Við sem erum kristin trúum á Krist.  En í trúnni á Krist er nóg rúm fyrir margvíslega guðfræði okkar.  Kristin trú er ekki reglur, hún er nærvera Guðs.  Í þeirri nærvist og vináttu veljum við með henni þær leiðir sem við förum.  Og leyfum hinum að velja sínar leiðir.  Við megum móta okkar eigin kristnu guðfræði.  Það er ekki hættulegt heldur gagnlegt fyrir sameiginlega guðfræði kirkjunnar.  En til þess þurfum við að þekkja grundvöll sameiginlegrar kristinnar trúar þeirra kirkju sem við tilheyrum og hefur gefið okkur þessa trú.  Við getum ekki hugsað og sagt hvað sem er og krafist þess að öll kirkjan fagni því sem hluta af trú sinni.