Ræða í Seltjarnarneskirkju

sunnudagskvöldið 17. september 2023

Við skulum tala um eftrvæntinguna.  Það kemur alltaf ný eftirvænting á haustin.  Finnst þér það ekki?  Þegar sólskinið verður öðruvísi á litinn og nýr ferskur andardráttur í veðrinu.   Og þegar við söfnumst saman.  Ég fór í stofurnar okkar í Þingholtsstræti í vikunni til að senda Fréttabréfið og fann eftirvæntinguna í friðinum og fegurðinni strax og ég opnaði dyrnar.  Nú verður eitthvað nýtt og gott í stofunum okkar í vetur.   Mitt í því góða  og venjulega sem við þekkjum frá því í fyrra og árunum á undan.  Við ætlum að hittast strax á morgun í fyrstu samverustundinni og tala saman um veturinn.

Við segjum það alltaf þegar við tölum um gleðina að við vitum líka um sorgina.  Þegar við tölum um eftrivæntinguna vitum við líka um kvíðann.  Við vitum að lífið er alla vega og segjum það hver annarri.  Þess vegna segjum við hver annari frá eftivæntingunni.  Af því að við vitum allar að við megum  alltaf  vænta gleðinnar.   Líka þegar andradrátturinn í lífi okkar er ekki blíður blær haustsins heldur gustur vetrarins.

Við lesum Biblíuna.  Af því að það sem hún segir okkur er grundvöllur og uppspretta eftirvæntingar okkar.  Gáum að eftirvæntingu fólksins í Biblíunni.  Þau væntu þess fyrst og fremst að hitta Guð í musterinu.   Þar var Guð í réttlæti sínu sem hún umvafði um þau.

En hvað við hlökkum til að koma til þín í musterið, það er það yndislegasta sem við eigum.  Þar ríkir réttlæti þitt. Í réttlæti þínu verndar þú okkur gegn öðru fólki og líka gegn sjálfum okkur.  Þegar Jesús kom vænti fólk þess að sjá hann.  Og hlusta á hann.  Og finna friðinn sem hann gaf.  Í kirkjunni væntu þau þessa nýja og djúpa friðar og fóru til annarra landa til að segja öðrum frá því hvað þetta var undursamlegt.

Þau voru fólk Guðs, fólk Gamla testamentisins og Nýja testamentisins. Þau vissu að þau voru útvalin.  Það var alltaf rauði þráðurinn í lífi þeirra.  Guð hafði  kallað þau.  Og í rauða þræðinum var það sama alltaf endurtekið:  Vertu hjá mér.  Þau voru hjá henni en gerðu samt alla vega vitleysur, voru vond og púkaleg, líka við Guð.  Í Gamla testamentinu fannst þeim sniðugra að treysta Bal sem var Guð Kanverjanna.   Af því að hann var guð rigningarinnar sem var alltaf svo brúkleg.  Og svo vildu þau fá kóng eins og hinar þjóðirnar höfðu og þótt Guð segði að hún væri Guð  þeirra og það yrði bara vont fyrir þau að fá kóng lét hún þau samt fá kóng og röð af kóngum.

Svo útvalda þjóðin átti musterið og kónginn.  Þangað til allt hrundi.  Einn af hinum kóngunum kom og tók þau og flutti heim til sín og brenndi musterið og sló eign sinni á landið. Kóngurinn þeirra var í útlegð með þeim og musterið var brennt og sjálfstæðið horfið.  Allt var í rúst.  Og Guð sem sagðist ein vera Guð var gjörsigruð af útlendum guði.  En það var ekki svoleiðis.  Guð sem ein var Guð var ein Guð.  Hún leiddi fólkið sitt aftur heim og gaf þeim nýja eftirvæntingu.  Þau héldu áfram að vera útvalda þjóðin hennar en hinar þjóðirnar voru líka útvaldar og þjóðin hennar átti að segja þeim það.

Við sjáum ást Guðs í Biblíunni.  Hún hefur útvalið okkur.  Rauði þráðurinn í Biblíunni er rauði þráðurinn í okkar lífi. Hún ein er Guð.  Og hún býður okkur að eiga eftirvæntinguna í því að vefja allt marglitt líf okkar saman við rauða þráðinn, áreiðanlega og undursamlega vissuna um að hún elskar okkur.  Við vitum það og segjum það hver annarri,  Guð hefur aftur og aftur talað við okkur, í örvæntingu okkar og gleði, hún breytir angist okkar í frið og gefur okkur eftirvæntingu daganna.  Þess vegna finnum við vellíðan okkar í þakklæti til hennar.  Amen