Messa í Fella- og Hólakirkju 28. september 2003

Biðjum:
Elsku Guð! Gef okkur hljóðan hug þegar þú talar í hjarta okkar, gef að við finnum boðskap þínum farveg í orði og verki. Amen.

Ég byrja þessa prédikun á tveimur líkingum. Líkingarnar eru sóttar í dæmisöguna sem Jesús sagði af sáðmanninum. Ég skoða þessa sögu hér frá öðru sjónarhorni. Mig langar að biðja ykkur að opna augum fyrir þessu líkingamáli og setja ykkur í spor þeirrar persónu sem talar í líkingunni.

Ég er akur:
Guð kemur til mín á hverjum morgni og sáir yfir mig heilögum anda sínum. Sama hvaða dag það er kemur hún alltaf til mín og reynir af öllum mætti sínum að rækta mig, sem er akur hennar. Guð bregst ekki, er alltaf eins og ætíð jafn örlát á anda sinn. Það er ég, akurinn, sem er breytileg. Suma daga er ég grýtt og hróstug og Guði gengur illa að plægja mig. Ég get ekki meðtekið andann, treysti mér ekki til þess. Sný mér undan og þó ég viti að ég er ekki ein, ég þykist ekki sjá sáðkonuna Guð. Ég neita að koma auga á tækifærin í fræinu. Ekkert af því sem mér er gefið þennan morgun ber sýnilegan ávöxt í dag. Ég ætla heldur ekkert að gera í því. Ég bara get ekki opnað mig, það er ekki hægt að rækta mig í dag. Guð er heldur ekkert að stressa sig yfir því, hún kemur aftur á morgun, fer eflaust blíðlegar að mér og gefur mér önnur tækifæri.
Aðra daga er ég frjósöm, ég tek Guði fagnandi, opna mig fyrir anda hennar og stíg brosandi fram úr rúminu. Verk plógsins er auðvelt í dag. Ég tekst með bros á vör við verkefni dagsins. Ég blómsta og til mín kemur fólk sem hefur orð á […]