Upplýsingar

Kæru vinkonur og vinir. Mikil dásemd og dýrð er að hittast hér í Breiðholtskirkju í kvöld og njóta samverunnar.
Hvað geri þú þegar þú er búin á því og færð þá tilfinningu að þú sért að gefast upp, ert bara frekar óánægð með þig? Skiptir það Guð máli? Er hún að virkilega að hlusta á mig, þegar ég er að leggja málin fyrir hana?
Kvennakirkjan hefur alltaf hvatt okkur hverja og eina til að þrauka þegar hversdagurinn, erfiðleikar eða áföll dynja yfir. Vinona okkar hlustar og það varðar hana að við döfnum vel, séum ánægðar með okkur og lífið í þeim farvegi sem skiptir hverja og eina máli. Við getum verið þess fullvissar að vinkona okkar leiðir okkur, hún sleppir aldrei hönd sinni af okkur og þess vegna þurfum við ekkert að óttast og við þurfum ekki að láta hugfallast.
Ég var að lesa um leikritið Shirley Valentine eftir Willy Russell sem fjallar um miðaldra húsmóður sem gift var verkamanni. Hún var gjörsamlega búin að fá nóg af lífi sínu þar sem hún bjó í úthverfi borgar, það var orðið ófullnægjandi vægast sagt leiðinlegt.
Lífið gekk út á að koma bóndanum í vinnuna og hjálpa börnunum í gegnum skólann. Yfir daginn kláraði hún skipulega venjubundin verk: Versla í matinn, baka, strauja og elda. Að kveldi fór hún í rúmið, næsta dag fór hún á fætur og sami vanagangurinn hófst á nýjum degi.
Húsmóðirin fór að hugleiða hvað hefði eiginlega komið fyrir sig, henni fannst hún stöðnuð, vera í sama hjólfarinu. Reglulega talaði hún við eldhúsvegginn á meðan hún var að útbúa matinn fyrir eiginmanninn. Dag einn segir hún „Flest okkar eru dáin áður en við deyjum, og það sem drepur okkur er allt þetta ónotaða líf sem við berum með okkur.“
Margir bókstaflega lifa líkt og þessi kona: Fara á fætur á morgnanna, sinna daglegum verkefnum, fara svo í rúmið og næsta dag eru sömu verkefnin sem bíða.
Þegar besta vinkona Shirley vinnur ferð fyrir tvo til Grikklands, pakkar hún niður í tösku, skilur eftir miða á skáphurðinni í eldhúsinu og fer í hálfsmánaðar hvíld og slökun. Dagarnir eru sveipaðir ævintýralegum blæ og ný tilfinning gerir vart við sig, hún fer að átta sig á að tilvera hennar gæti verið öðruvísi, bara ef hún sýndi dálitla viðleitni, breytti hugarfari sínu og færi að gera hlutina öðruvísi.
Mér var hugsað til kirkju sem gerir það sama ár eftir ár hún, það kemur að því að hún hættir að vera lifandi skapandi samfélag. Guð vinkona okkar er starfsöm, kirkjan hennar er rík af helgisiðum, messuformum, skemmtileg, uppbyggileg, fræðandi, nærandi og tónlistin fyllt andagift.
Þannig er Kvennakirkjan okkar kraftmikil, kirkja vonar, hún er græðandi og þess vegna er hún mikilvæg. Við erum mikilvægar vegna þess að við erum kirkjan og við ráðum ráðum okkar saman, hvetjum hvor aðra, skiptumst á skoðunum og sköpum. Það gerum við með gagnkvæmum kærleika og vináttu.
Jesús Kristur er fyrirmyndin okkar og orð hans og gjörðir eru útgangspunkturinn. Við erum svo lánsöm að vera margbreytilegar og engin okkar nákvæmlega eins. Páll postuli orðar það svo vel í Rómverjabréfinu (12:4-6) þar segir hann:4Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa.5Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir. 6Við eigum margvíslegar náðargáfur samkvæmt þeirri náð sem Guð hefur gefið.
Það kemur fyrir að við séum ekki ánægð með okkur og förum að bera okkur saman við einhvern annan: eins og t.d Anna sem var ekki ánægð með sig. Henni fannst miklu meira til Báru koma, svo Anna fór að ganga og tala eins og Bára. En Báru líkað heldur ekki við sig. Hún dýrkað Diddu. Svo Bára fór að ganga og tala eins og Didda.
Anna reyndi að líkjast Báru, sem reyndi að líkjast Diddu. Það kom svo í ljós að Didda þjáðist af vanmáttakennd. Henni fannst Ella miklu flottari en hún. Svo Didda gekk og talaði eins og Ella. Þannig var Anna að reyna að líkjast Báru, sem reyndi að líkjast Diddu sem vildi vera eins og Ella.
Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað gerðist næst. Ella var bara alls ekki ánægð með sig. Henni fannst Anna æðisleg. Svo hún fór að ganga og tala eins og Anna.
Nú skulum við staldra við og sjá hvort við fáum einhvern botn í þetta: Anna vildi líkjast Báru, sem vildi líkjast Diddu, sem var að líkja eftir Ellu, sem þá hlýtur að hafa reynt að líkjast sjálfri sér!

Sannleikurinn í þessarri sögu er sá að fólk sem þú vilt líkjast vill oft líkjast þér. Það getur dáðst að þér jafnmikið og þú dáist að því. Það er ekkert athugavert við að líta upp til fólks. Það er gott að sýna virðingu og aðdáun. En það sem við verðum að hafa í huga er að týna ekki eiginleikum sínum, vanmeta þá, þykja þeir ekki merkilegir.
Þú hefur eitthvað mikilvægt fram að færa. Þegar þú beinir sjónum þínum að því að vera eins og Guð skapaði þig finnur þú kraftinn og áræðnina og það sem skiptir mestu blessun Guðs. Guð vinkona okkar hvetur okkur til dáða, heldur í hendina á okkur ef við hrösum reisir hún okkur upp aftur svo við getum haldið ótrauðar áfram í þjónustu við heiminn hver og ein með sinn sérstaka eiginleika, sinni löngun og getu.
Saman hönd í hönd getum við gert stórkostlega hluti með því að vera besta útgáfa af okkur sjálfum með Guði vinkonu okkar undir arminum. Amen.

„Til að þjóna og gefa Mt. 20:2525En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. 26En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. 27Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. 28Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“