Upplýsingar

Vonarríkt sumar!

I.

Áhrifa sögunnar gætir hér í Hvalsneskirkju. Svipmyndir úr lífi sr. Hallgríms Péturssonar, sálmaskálds, sækja á. Það rifjast upp að hingað var hann vígður árið 1644 af sr. Brynjólfi Sveinssyni, biskupi í Skálholti. Þá var það líklega hér sem Hallgrími og Guðríði, konu hans, fæddist dóttirin Steinunn, litla stúlkan sem var eftirlæti föður síns og yndi. Og hér horfðu þau á bak henni er hún lést aðeins þriggja ára gömul. Hún var föður sínum mikill harmdauði, – eins og sorgarljóðin sem hann orti bera vitni um. Líka veðraður legsteinn hennar og grafskrift, en álitið er að Hallgrímur hafi sjálfur hafi unnið steininn úr grásteinshellu og ritað á hann nafn hennar og dánarár.

Hér steig Hallgrímur sín fyrstu spor í þjónustu kirkjunnar, – þjónustu sem átti eftir að bera mikinn ávöxt og móta trúaruppeldi flestra Íslendinga. Svo samofin eru sálmar hans – Passíusálmarnir, og öll bænaversin, trúararfi okkar og trúariðkan. Það er mjög við hæfi, á þessum 5. sunnudegi eftir páska, sem jafnframt er hinn almenni bænadagur kirkjunnar, að vera einmitt hér og minnast hans, sem gaf okkur svo óendanlega dýrmæt orð á tungu til að tjá með gleði okkar og sorg frammi fyrir Guði frelsara okkar.

II.

Í kringum borðið í Kvennakirkjunni eiga sér oft stað djúpar og einægar umræður um lífið og tilveruna og samskipti okkar við Guð, vinkonu okkar. Hvernig við finnum fyrir nálægð hennar, – og jafnvel stundum ekki, hvernig við tölum við hana um allt það sem hvílir á okkur og hvenær okkur reynist það svo erfitt. Við berum saman bækur okkar og miðlum af persónulegri reynslu. Hafi fluga verið á vegg í Þingholtsstræti þegar við síðast ræddum um bænina og bænarlífið hefur hún líklega heyrt eftirfarandi orðaskipti:„Hvernig er best að biðja og rækta trúna í hversdeginum?“ Spyr ein. „Ég nýti mér netið og fæ send ritningarorð og bænavers í upphafi hvers dags“ svarar önnur. „Ég tala við hana um allt þegar hún gengur með mér Laugaveginn“ segir sú þriðja. Við getum alveg sagt okkur hver það er! „Ég á stundum svo erfitt með að staldra við og finna innri ró til að biðja.“ Bregst þá ein við:„Mér finnst ég fjarlæg Guði og hún svo fjarlæg mér. Hvernig veit ég yfirleitt hvort hún er að hlusta á mig og hvernig veit ég hvort hún svarar mér?“ Þá svarar önnur:„Ef við snúum okkur til Guðs, þá er hún hjá okkur, þetta liggur bara hjá okkur sjálfum því Guð er alltaf hér hjá okkur.“ – „Já, við finnum að Guð er við hlið okkar og að hún bænheyrir okkur“ tekur enn önnur undir. „Við bara finnum það!“ Umræður í takt við þessar eru algengar við borðið okkar eins og við þekkjum svo vel.

Umræður um óvissuna og þreytuna sem við stundum finnum fyrir í hversdeginum, um gleðina og þakklætið, um áhyggjurnar og um bænina. Þær eiga sér stað aftur og aftur, á mismunandi hátt, með mismunandi áherslum. Aftur og aftur ræðum við hvernig við getum sem best talað við Guð vinkonu okkar reglulega, átt gott og opið samband við hana, hvernig við getum hlúð að því þegar okkur líður vel og erum glaðar og bjartsýnar en líka þegar við erum sorgmæddar, vonlausar og týndar. Hvernig við getum tekið okkur tíma, skapað okkur rými og gert bænina að órjúfanlegum hluta daglegs lífs okkar.

Bænin! Þetta undur sem bæði er leiðin að Guði, vinkonu okkar og staðurinn sem við mætum henni á. Leið sem stundum getur verið svo torveld yfirferðar og staður stundum svo vandfundinn.

III.
„Kirkja við opið haf
Í kórnum lýt ég skörðum
steini, fer augum og höndum
um letrið, um helgan dóm
Sé lotinn mann, heyri glamur
af hamri og meitli, sé tár
hrökkva í grátt rykið

Sé hann hagræða hellunni á gröf
síns eftirlætis og yndis,
og ljóðið og steinninn verða eitt

Ég geng út í hlýjan blæinn
og finnst hafið sjálft ekki stærra
en heilög sorg þessa smiðs.“

Á þennan hátt tjáir ljóðskáldið Snorri Hjartarson áhrifin sem hann varð fyrir við að sjá legstein Steinunnar litlu Hallgrímsdóttur þegar hann heimsótti kirkjuna í upphafi 7. áratugarins, – nokkru eftir að steinninn kom aftur í leitirnar eftir að hafa verið týndur í hálfa aðra öld. Snorri dregur upp áhrifamikla mynd af hinum syrgjandi föður og viðbrögðum hans. Við sjáum hann fyrir okkur með hamarinn og meitilinn, við sjáum rykið tárum blandið. Við sem þekkjum sögu sr. Hallgríms vitum að lífshlaup hans var litað af miklum erfiðleikum og áföllum: Fátækt og hokri, barnamissi, bæjarbruna og erfiðum veikindum, og allt hefur það haft áhrif á trúarmótun hans og lífssýn. Persónulegur skáldskapur hans endurspeglar enda að hafi hann stundum átt í glímu við Guð sinn „…sjálfan grunn tilveru sinnar og allra hluta,…“. Í sálmunum sjáum við hann finna og játa að hann var „víst veikur að trúa“ og að hann kannast við sjálfan sig sem „reyrinn brotna“, – svo vitnað sé í umfjöllun sr. Sigurbjörns Einarssonar um boðun Hallgríms. Á sama tíma er trúarvissan þó aldrei langt undan, vissan um að Guð er. Guð sem fyrirgefur okkur, Guð allrar vonar og hjálpar. Þessi vissa er grunntónninn í verkum hans.

Og sá tónn er í samhljóman við orð Jeremía spámanns sem hann flytur herleiddum Ísraelslýð í Babýlon og esin voru hér áðan:

„Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín, mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn.“

Þessi orð flutti hann óttaslegnu og vonlausu fólki til uppörvunar, í að því er virtist óbreytanlegum kringumstæðum, fólki sem sumt var orðið fráhverft hinum eina sanna Guði og efins í trú sinni. Með þeim reyndi hann að uppörva og glæða vonarneista. Hann reyndi að fullvissa þau um að Guð er. Guð sem fyrirgefur okkur, Guð allrar vonar og hjálpar sem þekkir sjálf þær fyrirætlanir sem hún hefur í hyggju með okkur, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita okkur vonarríka framtíð.“

IV.

Það eru ekki bara við sem sveiflumst á milli þess að snúa okkur til Guðs, deila með henni í bæn gleði okkar og sorgum og þess að efast um áhuga hennar á lífi okkar, snúa okkur frá henni og berjast áfram á hnefanum einum. Við eigum það sameiginlegt með öllu kristnu fólki á öllum tímum. Með sr. Hallgrími, með Ísraelslýð, með hver annarri. Þetta er okkar sammannlega glíma. Glíma við að vera agaðar, taka frá tíma, skapa rými til að leita til hennar í bænum okkar, rækta trú okkar í hversdeginum og næra þá vissu að hún er og að við skiptum hana máli. Í þeirri glímu er óendanlega dýrmætt að eiga hverja aðra að, eins og við eigum hver aðra í Kvennakirkjunni. Við veitum hverri annarri stuðning á svo margan hátt; með því að biðja hver fyrir annarri, með því að tala saman og veita innsýn inn í okkar eigin reynslu og annarra, aftur og aftur, eins og við gerum í kringum borðið í Kvennakirkjunni.

V.

Í dag er, eins og áður sagði, hinn almenni bænadagur en við það tækifæri sameinast kirkjan öll, Kvennakirkjan þar á meðal, í bæn fyrir sérstöku bænarefni. Í þetta sinn er það bæn fyrir kirkju og þjóð á krossgötum og fyrir nýkjörnum biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur, sem fær það hlutverk að varða leiðina með okkur áfram. Kirkjan er á krossgötum og við erum á krossgötum. Sennilega þurfum við á krossgötunum að halda einmitt nú, því það er svo nauðsynlegt að staldra reglulega við, íhuga hvar við erum, hvaðan við komum og hvert við stefnum. Því miður gerum við það alltof sjaldan og oft ekki nema mjög sérstakar aðstæður knýi okkur til þess, s.s. samfélagsleg og andleg kreppa. Hugsum til þessa í bænum okkar hér á eftir. Biðjum um visku og styrk til að velja „réttu“ leiðina til framtíðar fyrir Kirkjuna og fyrir okkur sjálfar. Hvílum um leið í fullvissunni um að Guð, elsku, besta vinkona okkur muni leiða okkur til vonarríkrar framtíðar eins og hún hefur gefið okkur fyrirheiti um.

Biðjum að lokum með orðum sr. Hallgríms Péturssonar úr 4. Passíusálmi:

,,Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freistingin ýmisleg.
Þá líf og sál er lúð og þjáð,
lykill er hún að Drottins náð.

Guð gefi okkur öllum, kæru kvennakirkjukonur, vonarríkt sumar!