Upplýsingar

Guð hugsar til þín

Gleðilega jólahátíð elskulegu vinkonur og vinir.

Hátíð jólanna er hátíð ljóss og friðar. Á hverju ári á sama tíma erum við minnt á komu Jesús. Við erum minnt á hringrás lífsins, það er e.t.v. réttara að segja að lífið sé eins og spírall, því ekkert verður nákvæmlega eins aftur, þrátt fyrir endurtekningar.

Við upplifum oft sterkar tilfinningar um jólin, vegna þess að jólin eru tími viðkvæmra tilfinninga bæði gleði, saknaðar og eftirsjár. Þess vegna er þessi tími, tími minninga, drauma og vona. Við finnum líka svo vel að Jesú og jólahátíðin eru hluti af lífinu, samofin lífi okkar og tilveru. Þetta er sagan okkar. Saga sem lýsir þrá manneskjunnar að ekki sé allt sem sýnist. Að til sé Guð sem vill það besta fyrir okkur öll og að allt fari vel að endingu.

Í Biblíunni er sagan um Elísabetu frænku Maríu móður Jesús, sem langaði til að eignast barn. Þau hjónin Elísabet og Sakaría voru komin á miðjan aldur þegar hún varð þunguð. Hún var haldin hugarvíli á þessum tíma vegna þess að í margar vikur fann hún ekki fyrir barninu og var farin að örvænta að hún væri í raun þunguð.

Svo var það einn daginn að María þá unglingsstúlka kom óvænt í heimsókn, bankaði á dyrnar, Elísabet bauð Maríu inn sem faðmaði frænku sína og sagði „Elísabet! Til hamingju! Ég hef heyrt yndislegar fréttir, að þú eigir von á barni. Í Lúkasarguðspjalli (1.41) segir: þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda.

Svona er Guð , fólk kemur inn í líf okkar til þess að lífga við drauma okkar og væntingar, blása lífi í vonir okkar. Þetta eru einstaklingar sem eru jákvæðir og vilja hjálpa okkur. Okkur líður vel í návist þeirra, vegna þess að þeir eru gleðigjafar á öllum stundum lífs okkar.

María var send af Guði til þess að færa von, trú og sýn inn í líf frænku sinnar. María þurfti ekki að segja neitt af djúpri speki. Hún sagði einfaldlega „Halló“ og fyrirheit Elísabetar lifnaði við.

Guð vinkona okkar hefur sent þér þína Maríu. Þegar við hittum rétta fólkið þá þarf það einfaldlega ekki að segja annað en „Góðan daginn“ og draumar okkar taka stökk – við fyllumst von og gleðitilfinning brýst innra með okkur.

En það er eitt sem við verðum að gæta að: Ef við opnum sífellt hurðina þegar bankað er og draumar okkar og vonir verða ekki að neinu, þá erum við að opna hurðina fyrir röngu fólki. Manneskjum sem hafa ekki góð áhrif á okkur, henta okkur einfaldlega ekki. Við ættum t.d. ekki að opna hurðina fyrir slúðurberum, þeim sem sífellt eru kvartandi, neikvæðir eða vilja nota okkur, fólki sem okkur líður illa innan um, verðum óörugg og finnum til vansældar í návist þeirra.

Við skulum opna hurðina fyrir þeim sem hvetja okkur, uppörva og skora á okkur að leysa spennandi verkefni. Þegar við hittum og eigum samskipti við fólk, sem á fallega og stóra drauma, vinnur vel, hreyfir það við okkur. Og þegar við tengjumst því þá finnum við kraftinn og lífið sem bærist innra með okkur. Við finnum að Guð er að gera eitthvað dásamlegt í lífi okkar. Vegna þess að vinkona okkar vill okkur alltaf hið allra besta.

Það er okkar að sleppa takinu á þeim sem halda aftur af okkur og halda í þau sem lyfta okkur upp. Guð hefur sent þau til að banka á dyrnar okkar. Hleypum þeim inn. Ég trúi því, eins og með Elísabetu, munum draumar okkar og væntingar sem Guð hefur lagt í hjarta okkar verða að veruleika og við verðum eins og Guð skapaði okkur til að vera.

Það er mín trú að öll þín umhyggja og ást fyrir fólkinu þínu sé liður í svari Guðs við öllu því góða sem við getum gert fyrir hvort annað.

Elskan, kærleikurinn til annarra er jú, tilstand jólanna. Við þörfnumst þessa tíma, til að árétta að við erum lifandi greinar á lífsins tré.

Megi gleðiboðskapur Guðs berast ykkur, berast hverri sál. Auðga anda kærleikans, ljóssins og lífsins.

Guð vonarinnar fylli okkur öll fögnuði og friði í trúnni, svo að við séum auðug að voninni í krafti Heilags anda. Amen.