Upplýsingar

Kæru systur og bræður
Ég óska okkur öllum friðar og farsældar á nýju ári og þakka fyrir gamla árið. Umfjöllunarefni hugleiðingarinnar sem ég ætla að flytja er um Ár yndisleikans. Árið sem nú er að hafið, árið 2003.
Hvað merkir yndisleiki? Nýja íslenska orðabókin segir yndisleika vera ljúfa fegurð. Það að vera ljúf felur í sér að vera mild, blíð eða fús til einhvers. Og að una sér, að eiga unaðsstundir með öðrum og að lifa í yndi er eftirsóknarvert. Til þess að geta lifað í yndi og ljúfri fegurð hlýtur markmið okkar að vera elska til hvers annars í gegnum samskipti. Vinátta Guðs í lífi okkar gefur okkur möguleika. Látum lífið tala, látum vermæt gildi og sannleika leiða okkur til einingar. Segjum við fjölskyldu okkar, vinkonur og vini: Láttu mig vita ef þér líður ekki vel, ert einmanna eða finnst þú vera misskilin. Það veitir mér styrk að vita að ég get hjálpað eða huggað þig, staðið við hliðina á þér. Ég get ekki alltaf lesið hugsanir.

Guð hefur gefið okkur yndislegar gjafir, hæfileika sem við notum til þess að gera líf okkar gott og innihaldsríkt. Við erum svo yndisleg sköpun Guðs. Við leitumst alltaf við að finna ljósið ef hugur og hjarta okkar er dapurt. Í svartasta skammdeginu á síðasta ári, rigndi oft og það var svo mikið myrkur, að við ákváðum að gera eitthvað í því. Við settum upp jólaljósin mun fyrr en tíðkast hefur og þegar við litum yfir borgina glöddumst við í hjarta okkar yfir fegurð ljósanna og birtunni sem þau gáfu okkur. Tilefnið var vissulega jólahátíðin, fæðing Jesú í þennan heim, sem ávallt markar nýtt upphaf, og dögun nýrrar vonar, eins og allar fæðingar barna í þennan heim eru. Yndislegar væntingar og yndislegir draumar. Það verður svo margt yndislegt sem bíður okkar á nýju ferðalagi á ári yndisleikans. Hver dagur er nýr dagur og hver dagur gefur ný tækifæri, tækifæri til að elska og fegra heiminn.

Desembermánuður er talinn tilfinningaþrungnasti tími ársins. Minningar liðins árs og liðinna ára verða skýrari. Tilfinningar sorgar og gleði rifjast upp og það getur verið mikil blessun að minnast liðins árs og finna og orða hvernig okkur hefur liðið, leggja það síðan í hendur Guðs og halda áfram veginn með það traust í hjarta okkar að vinátta Guðs snerti okkur hvern dag og hverja stund. Gæt því þessa dags því hann er lífið sjálft segir í texta úr Sanskrit. Í deginum býr allur veruleiki og sannleikur tilverunnar, unaður vaxtar og grósku, dýrð hinna skapandi verka, ljómi máttarins. Því gærdagurinn er draumur og morgundagurinn hugboð, en þessi dagur í dag sé honum vel varið umbreytir hverjum gærdegi í verðmæta minningu og hverjum morgundegi í vonarbjarma. Gætum því vel þessa dags.

Á ári yndisleikans kemur mér í huga stutt frásögn um gæsavit og hvernig við getum yfirfært eðli gæsanna á kærleiksrík samskipti okkar á milli. Næst þegar þú sérð gæsirnar fljúga í oddaflugi, ættir þú íhuga hvers vegna þær fljúga á þennan hátt. Þegar fugl sveiflar vængjunum býr hann til uppstreymi fyrir þann fugl sem fylgir á eftir. Með því að fljúga oddaflug eykur hópurinn flughæfni sína um að minnsta kosti 71%. Hvernig getum við notað þessar upplýsingar? Þegar við finnum fyrir samkennd og höfum sömu markmið komumst við fyrr og greiðar á áfangastað vegna þess að við ferðumst saman og með hjálp samferðafólks okkar. Þegar gæs dettur út úr hópnum finnur hún allt í einu álagið sem því fylgir að fljúga ein sins liðs. Hún flýtir sér því að komast aftur inn í hópinn til að njóta uppstreymisins frá fuglinum á undan. Hvað segir þetta okkur? Ef við hefðum gæsavit myndum við halda okkur innan þess hóps sem stefnir í sömu átt og við. Þegar gæs verður þreytt lætur hún sig dragast aftur úr og önnur gæs tekur forustuna.

Hvað getum við lært af þessu? Það er skynsamlegt að skiptast á að taka að sér ábyrgðarmikil störf, hvort sem um er að ræða fólk eða gæsir. Gæsir gagga á flugi til að fá þær sem á undan fljúga til að auka hraðann. Hver eru skilaboð okkar ef við þeytum bílflauturnar? Ég held að við íslendingar þeytum ekki bílflautur, nema þá helst ef brotið er á okkur í umferðinni, sennilega kemur frásögnin frá New York eða Ítalíu. En hvað með það. Þá er komið að mikilvægasta þættinum. Þegar gæs veikist eða særist af völdum byssu fellur hún út úr hópnum. Hinar gæsirnar láta sig þá líka falla og veita þannig gæsinni aðstoð og öryggi. Þær dvelja hjá föllnu gæsinni uns hún tekur flugið á ný eða deyr. Þá loks fljúga þær af stað á ný, annaðhvort einar sins liðs eða með næsta hóp sem á leið hjá. Ef við hefðum gæsavit myndum við aðstoða hvert annað á þennan hátt.

Við syngjum:
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknar ráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.

Janúar, fyrsti mánuður ársins, er góður tími til að líta fram á veginn og gleðjast yfir nýju ári sem okkur hefur verið gefið. Hvernig vil ég lifa lífinu? Hvernig get ég lifað lífinu? Þetta eru spurningar sem mér finnst gott að íhuga. Skynjun okkar og hugmyndir um lífið gefa okkur möguleika að ganga inn í nýja árið með von af því að við erum yndislegar manneskjur. Traustið er öryggi og sú fullvissa um að við getum alltaf byrjað upp á nýtt. Guð er sífellt að bjóða okkur nýja ferska byrjun. Sjáið það er nýtt ár. Það er ferskt. Göngum það saman. Biðjum Guð um að fylla okkur af kærleika sínum svo að við getum gefið öðrum af kærleika hennar. Þannig getum við dreift kærleikanum líkt og fræjum, sem hinar fegurstu jurtir síðan vaxa af.

Við höfum allar og öll tækifæri til að gera þetta ár að ári yndisleikans. Og vitið, það er svo yndislegt að vera með þetta endalausa verkefni. Gangi okkur vel kæru vinkonur og vinir. Gleðilegt ár.