Prédikun Auðar Eir 12. mars 2023

Predikun í guðþjónustu í stofum Kvennakirkjunnar í Þingholtsstræti 17
12. mars 2023

Við ætlum að tala um Söru og Abraham.  Ef við vildum gátum við lesið um þau í vikunni eins og ég skrifaði í pistlunum okkar.  Sagan um Söru og Abraham segir frá fyrstu skrefunum inn í kristna kirkju og  er orðin fjögur þúsund ára gömul.  Við höfum ekki hugmynnd um hvers vegna Guð valdi þetta ártal því það voru milljónir ára síðan hún skapaði heiminn og fólkið. Hún var sífellt á tali við það og gaf því listir og lögfræði, eins og í skipulögðum stórborgunum í Mesópótamíu, Egyptalandi og Indlandi og í lögunum sem hún gaf Hammúrabí, kóngi í Mesópótamíu þar sem Sara bjó um leið og hann.  Seinna fékk Móse boðorðin úr þessu safni.

Við höfum heldur ekki hugmynd um hvers vegna Guð valdi einmitt hjónin Söru og Abraham og kippti sér ekki upp við það að þau voru hálfsystkin.   Þau hljóta að hafa verið góðar manneskjur og  reisnarleg úr því hún valdi þau.  En þau voru líka verulega gölluð.  Það kom fyrir að þau reyndust hvort öðru illa og líka öðru fólki.  Eins og Abraham sem kom Söru tvisvar í kvennabúr, stórfalleg sem hún var og eins og Sara sem var svo kolbrjáluð út í Hagar sem hún hafði valið sem staðgöngumóður að hún rak hana tvisvar út af heimilinu.  Hagar reyndist Söru líka hræðilega illa.   Hún fann mikið til sín yfir hlutverkinu og fór að fyrirlíta Söru fyrir að geta ekki átt barn sjálf.  Þetta var löng og þung harmsaga þessarar fjölskyldu.

En Guð greip alltaf inn í.  Hún tók Söru snarlega úr kvennabúrunum, gaf Hagar nýtt heimili og gaf Söru og Abraham soninn Ísak sem þau elskuðu bæði.  Svo dó Sara.  […]