Upplýsingar

Hugvekja í aðventumessu Kvennakirkjunnar, 10. desember 2023

I wonder as I wander out under the sky

How Jesus our Savior did come for to die.

For poor orn’ry people like you and like I;

I wonder as I wander out under the sky.

 

When Mary birthed Jesus, ‘twas in a cow stall,

With wise men and farmers and shepherds and all.

But high from the Heavens, a star’s light did fall,

The promise of ages it then did recall.

 

If Jesus had wanted of any wee thing,

A star in the sky or a bird on the wing,

Or all of God’s angels in Heav’n for to sing,

He surely could have had it ‘cause He was the King.

 

I wonder as I wander out under the sky

How Jesus our Savior did come for to die.

For poor orn’ry people like you and like I;

I wonder as I wander out under the sky.

 

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvers vegna fólk trúir á guð eða annað æðra afl.

Eftir því sem ég eldist og vonandi þroskast, sannfærist ég meira og meira um að þetta sé eina vitið í þessari veröld. Mér finnst þetta bara svo lógískt og praktískt. Við höfum t.d. ekkert við það að gera að hafa áhyggjur af hlutum sem við ráðum ekki við. Maður þarf ekki annað en að tala við guð og leggja spilin á borðið og treysta henni fyrir vangaveltum okkar og hún tekur áhyggjurnar af herðum okkar og finnur útúr öllu fyrir okkur. Þetta hljómar kannski einfalt og það er það í raun og veru en ég sjálf hef prófað þetta og það virkar. Mér tekst þetta auðvitað ekki alltaf, af því ég er svo ófullkomin, en alltaf oftar og oftar.

Þá er það þetta með ófullkomleikann. Mín kenning er að á meðan við leitumst við að bæta okkur, þá erum við fullkomin. En um leið og við höldum að við fullkomleika okkar sé engu við að bæta, erum við orðin ófullkomin.

Guð skapaði okkur mennina eins og við erum. Þess vegna elskar guð okkur nákvæmlega eins og við erum. Við erum svo undursamlegt sköpunarverk. Hugsið ykkur hverju við höfum áorkað í allskonar sköpun. En við erum líka soldið vitlaus. Það tekur á að hugsa um öll þau voðaverk sem maðurinn hefur unnið.

En nú skulum við sleppa því og hugsa bara um það góða, það gerir mér alla vega alltaf gott.

Guð er svo sniðug, hún gaf okkur frjálsan vilja til að gera allt mögulegt og við getum nefnilega valið að gera gott.

Er það ekki yndislegt að fylgjast með öllu því góða sem fólk gerir t.d. um jólin.

Ég fór í fangelsi í vikunni og söng, ásamt nokkrum félögum mínum, nokkur jólalög fyrir fangana. Ég hélt kannski að þeim myndi finnast við heldur hátíðleg og uppskrúfuð í sálmavali en það var sko ekki svo. Tveir þeirra komu til mín eftir stundina og þökkuðu sérstaklega fyrir, þetta hafi verið svo hátíðlegt og fallegt. Og svo lofuðu þeir að koma á kóræfinguna, fyrir jólamessuna, og syngja með. Þeir voru svo einlægir og fallegir á svipinn að mér hitnaði allri innan í mér. Þeir þurftu ekkert að segja þetta!

Sagan um Jesúbarnið, þegar það fæddist og var lagt í jötu, ekkert flott hótel eða svoleiðis, minnir mann alltaf á að veraldleg gæði hafa ekkert með það að gera hvort manneskja er stór eða lítil, góð eða vond (minna góð), örlát eða nísk. Það kemur hins vegar best í ljós með því hvernig við umgöngumst samferðafólk okkar og dýrin og náttúruna.

Það eru mörg verkefni framundan, eins og vitum, við að vernda náttúruna og jörðina sem við höfum fengið að búa við og á og njóta. En þó okkur finnist við vera lítil og fá í samanburði við stóru þjóðirnar, þá skiptir það máli að við leggjum okkur fram eins og við getum, byrjum á okkur sjálfum áður en við förum að ætlast til einhvers af öðrum.

En nú nálgast jólin og við fáum að upplifa fagnaðarerindið enn einu sinni. Þá vilja flestir gera sitt besta til að hátíðin verði sem stórkostlegust. Við dettum oft í þá grifju að missa sjónar á aðal atriðinu, Frelsari heimsins fæddist á jólunum og svo seinna dó hann svo við mennirnir gætum öðlast eilíft líf. En það líf á ekki að vera neinn táradalur, svo munum að það er ekki að ástæðulausu að jólin eru líka tíminn til að njóta með fjölskyldu og vinum. Það er bjart framundan ef við leggjum okkur fram um að vera góð við hvert annað og okkur sjálf.

Gleðilega aðventu.