Upplýsingar

Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Predikun í Neskirkirkju sunnudaginn 12. nóvember 2023
Ég var að hugsa um að byrja þessa predikun á að segja að við erum alltaf að leita að sjálfum okkur eða að segja að við erum alltaf að lesa Biblíuna.   Það er hvort tveggja dagsatt.
Ég ætla að byrja á segja að við séum alltaf að leita að sjálfum okkur.  Eitthvern veginn líklega.  En líklega erum við löngu búnar að finna meiri hlutann af okkur.  Það kemur með árunum.  Eða hvað finnst þér?   
Er það ekki bara?  Finnst þér þú ekki þekkja þig heldur betur en fyrir 20 árum eða kannski bara fyrir 50 árum?  Við höfum safnað að okkur reynslu.  
Hvað segjum við þá um sjálfar okkur núna?  Ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að hafa hérna stuttan kafla um nokkur bókmenntaverk sem sum telja að séu um leitina að sjálfum okkur.  Það getur verið gagnlegt að sjá þessa leit í heimsbókunum.  Eins og Oddyseifsskviðu   eða Artúr kóngi við hringborðið eða Gúlíver í putalandi.  Verst að ég er búin að gleyma mestu um þessa menn sem ég las samt um einu sinni og ég held ekki að ég hafi gert mér nokkra grein fyrir því að Gúliver væri að leita að sjálfum sér.
Við getum líka vitnað í bækur sem við lesum núna.   Mér finnst það verða léttilegra en ætla samt ekki að nefna neinar.  Þú hefur leisið sumar.   Ég ætla hins vegar að vitna í viðtalið í sjónvarpinu milli Sigurlaugar Jónasdóttur og Guðrúnar okkar Pétursdóttur kvennakirkjukonu.  Það var í næstsíðustu viku.  Guðrún talaði um að taka lífinu léttilega.  Og hún sagði að sér liði ekki alltaf vel og depurðin ætti upptökin í einhverju sem gerðist í líkamanum og við gætum ekki dregið okkur upp úr henni á hárinu.  Ég ætla líka að tala um bókina hennar Höllu Tómasdóttur sem ég talaði um á mánudaginn í biblíutímanum, bókina um hugrekkið til að hafa áhrif.  Hún segir að við séum allar einhverskonar forstjórar.  Það eru ýmsar æfingar í bókinni.  Ein er um lífsbókina sem hún segir að við ættum að skrifa.   Í fyrsta kaflanum er spurt hvað við höfum lært og í öðrum um gildi lífsins og í þriðja um framtíðina.  
Nú fyndist mér skemmtilegt að ræða það á mánudagsfundi þegar við höfum tíma hvernig við viljum skrifa lífsbókina og hvort við viljum gera það með vandlegum rannsóknum á lífi okkar og tilfinningum eða hvort við viljum skrifa léttilega.  Og kannski ekki skrifa neitt.   Við höfum auðvitað oft talað um það en við getum talað um það einu sinni enn ef ekki tvisvar og meira.  Því mitt í allri reynslu okkar höldum við áfram að spyrja okkur spurninga.  Og margar eiga einmitt svör í okkar eigin lífsreynslu.  Eða hvað finnst þér?  
Þær eiga allar svör í bókinni sem Guð sendi okkur persónulega, þótt hún hafi ekki skrifað hana frá orði til orðs og ýmislegar viðbætur séu með sem geta ekki verið frá henni.
Gætum við sagt í stuttu máli hvað Guð segir okkur í Biblíunni?  Já.   Hún segir að hún sé vinkona okkar og sé alltaf, alltaf, alltaf hjá okkur.  Hún er Jesús sem gefur okkur upprisuna á hverjum einasta degi og hún hefur við hendina æðisleg hversdagsráð til að nota í þessum upprisudögum.   Hvernig sem okkur líður.   Við erum að lesa Postulasöguna og bréfin sem voru skrifuð til safnaðanna.  Þau eru full af ráðum.  Ráðin eru svona:  Vertu með í því sem gerist í kringum þig,  vertu heiðarleg og góð manneskja, vertu glaðvær, vertu vingjarnleg.  
Og það stendur að það eigi allt upptökin í upprisui Jesú.    Jesús elskar þig og það gefur þér gleði hvað sem gerist, gott eða erfitt.   Allt líf þitt á svarið í náð Guðs sem þú átt í Jesú Kristi.  Ekki orð um það meir í kvöld.  Þetta er svo stórkostlega stórkostlegt  að það er meira en nóg fyrir kvöldið.  Við förum með það heim.   Guð geymir okkur. Amen