Upplýsingar

Predikun í guðþjónustu í stofum Kvennakirkjunnar í Þingholtsstræti 17
12. mars 2023
Við ætlum að tala um Söru og Abraham.  Ef við vildum gátum við lesið um þau í vikunni eins og ég skrifaði í pistlunum okkar.  Sagan um Söru og Abraham segir frá fyrstu skrefunum inn í kristna kirkju og  er orðin fjögur þúsund ára gömul.  Við höfum ekki hugmynnd um hvers vegna Guð valdi þetta ártal því það voru milljónir ára síðan hún skapaði heiminn og fólkið. Hún var sífellt á tali við það og gaf því listir og lögfræði, eins og í skipulögðum stórborgunum í Mesópótamíu, Egyptalandi og Indlandi og í lögunum sem hún gaf Hammúrabí, kóngi í Mesópótamíu þar sem Sara bjó um leið og hann.  Seinna fékk Móse boðorðin úr þessu safni.
Við höfum heldur ekki hugmynd um hvers vegna Guð valdi einmitt hjónin Söru og Abraham og kippti sér ekki upp við það að þau voru hálfsystkin.   Þau hljóta að hafa verið góðar manneskjur og  reisnarleg úr því hún valdi þau.  En þau voru líka verulega gölluð.  Það kom fyrir að þau reyndust hvort öðru illa og líka öðru fólki.  Eins og Abraham sem kom Söru tvisvar í kvennabúr, stórfalleg sem hún var og eins og Sara sem var svo kolbrjáluð út í Hagar sem hún hafði valið sem staðgöngumóður að hún rak hana tvisvar út af heimilinu.  Hagar reyndist Söru líka hræðilega illa.   Hún fann mikið til sín yfir hlutverkinu og fór að fyrirlíta Söru fyrir að geta ekki átt barn sjálf.  Þetta var löng og þung harmsaga þessarar fjölskyldu.
En Guð greip alltaf inn í.  Hún tók Söru snarlega úr kvennabúrunum, gaf Hagar nýtt heimili og gaf Söru og Abraham soninn Ísak sem þau elskuðu bæði.  Svo dó Sara.  Þau höfðu farið víða, bæði til Egyptalands og Kanaan og Sara dó í Kanaan, landinu sem varð fósturland Ísaelsþjóðarinnar sem var valin til að vera sérstök þjóð Guðs. 
Við lesum líka um konuna við brunninn sem stendur í 4. kafla Jóhannesarguðspjalls.  Sagan gerist í Samaríu sem er mitt í Gyðinglandi.  Það fólk þótti ekki nærri eins göfugt og Gyðingar.  Þessi kona var Samverji.   Hún var steinhissa á því að Jesús, rabbí Gyðinga gæfi sig á tal við sig, þessa útlensku konu af óæðri þjóð.  Við vitum ekki mikið um líf hennar.  En  Jesús vissi það.   Hún hafði átt fimm menn og bjó nú með einhverjum.  Hún var trúuð kona.  Hún sagðist trúa á Messías sem myndi koma.  Jesús sagði að Messías væri kominn.  Ég er hann, ég sem er að tala við þig.  Ég er Kristur, Guð sem er komin.   Konan trúði.  Hún hljóp heim í borgina sína og sagði öllum að Kristur væri kominn.  Hún var fyrsti predikari fagnaðarerindisins. Jesú valdi alltaf konur.
Hvernig finnst þér við eiga að taka á móti þessum sögum um Söru og samversku konuna til að blessa okkur í okkar eigin lífi?   Guð blessar okkur.  Það er skrifað í sögunni að hún blessaði Söru.  Og hún blessaði konuna við brunninn.  Eigum við að hugsa um okkar eigin ævi sem varð alla vega og við sjálfar stundum líka?  Eigum við að hugsa um það hvernig Guð greip inn í okkar sögu og bjargaði okkur?  Eigum við að hugsa um það hvernig Guð kallar okkur og þarfnast okkar og er alltaf með í lífi okkar?  Eigum við að hugsa um fyrirgefninguna?  Og þakklætið fyrir að fá alltaf að halda áfram þótt við séum ekki alltaf reisnarlegar?  Eigum við að hugsa um þakklætið fyrir að vera samt stundum og verulega oft bæði reisnarlegar og  velviljaðar?  Eigum við að þakka fyrir að vera vinkonur Guðs?  Við erum það.  Eigum við að hugsa um það að fyrir Söru og konunni við brunninn var köllun þeirra aðalatriði lífs þeirra?  Verum glaðar og hugrakkar. Amen