Upplýsingar

Jólapredikun í Háteigskirkju 28. desember 2023
Við heyrðum jólaguðspjallið.  Við skulum hugsa okkur að það gæti líka verið svona.  Jósep og María voru komin austan úr Þykkvabæ til að kjósa í Reykjavík af því að þau eru héðan  og eiga lögheimili hérna.  Þau pöntuðu hvergi og allt var fullt en þau hittu Elisabetu í Bankastrætinu og tókust tali og hún sagði:  Ykkur er svo velkomið að gista í Kvennakirkjunni hérna rétt fyrir hornið í Þingholtsstrætinu.  Og þau fóru inn í stofnurnar okkar og þar fæddist Jesús.  Og vestur á Grund vakti starfsfólkið yfir heimilisfólkinu.  Og engill Guðs stóð hjá þeim og sagði:  Frelsari ykkar er fæddur.  Og  himneskar hersveitir sungu á öllum göngum og lofuðu Guð og sungu:  Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim sem hún elskar.  Og starfsfólkið þusti yfir Tjarnarbrúna og inn Þingholtssrætið og fann Jesúm.  Og söngur englanna bjó í hjarta þeirra alla ævina:  Dýrð sé Guði í upphæðum og friður með þeim sem hún elskar.
Sagan passar auðvitað ekki alveg en það passar að Jesús er í stofunum okkar í Þingholtsstrætinu.  Það passar að Guð kom.  Og varð manneskja eins og við. Það er það sem jólaguðspjallið segir.  Þess vegna töllum við við hana eins og vinkonu okkar.  Við getum haldið áfram að segja:  Almáttugi Guð og faðir okkar á himnum.  Af því að svona er Guð.  En við getum líka sagt:  Elsku vinkona sem situr hjá mér.  Af því að hún er svona.
Guð heldur áfram að vera Guð á himnum sem talaði við Móse í runnanun eins og þú manst en lét ekki sjá sig og lýsti sér með því að segja að hún væri sú sem hún er.  Það er ýmislegt sem hún sagði ekki fyrr en seinna og margt sem hún á líklega eftir að segja okkuir.  Hún á eftir að segja okkur hvers vegna hún grípur ekki inn í skelfingu heimsins, inn í stríðin núna og yfirganginn í keisurunum og hershöfðingjunum í gamla daga eins og þeim sem við lesum um í Biblíunni og svo þeim Alexandeer mikla og Napóleoni og Hitler og Stalín og Pútin og þessum skelfilegu mönnum.  Það er í rauninni bara nýlega sem hún sagðist vera komin og væri Jesús og manneskja eins og við.  
Jesús er ekki hjá okkur eins og hann var hjá fólkinu sem fylgdi honum.  Hann er samt hjá okkur eins og engin önnur manneskja.  Hvorki þær sem eru dánar né þær sem lifa og við sjáum og tölum við og kannski á hverjum degi og elskum og treystum og vitum að bregðast okkur aldrei.  Hann er líka hjá þeim.  Og elskar okkur og á  öll ráð og bregst okkur aldrei.
Við segjum hver annarri af dögum okkar, góðum og öðruvísi.  Sumir eru yndislegir en á öðrum dögum erum við angistarfullar, kannski af því sem gerist, það gerist svo margt, en kannski, eins og ég segi aftur og aftur bara af okkar eigin hugsunum sem við ættum ekki að vera að hugsa.  
Það er ein mesta gleði lífsins að hugsa glaðlegar hugsanir.  Eins og við vitum.  Og það er ein mesta spurning lífsins hvers vegna við gerum það ekki en hugsum frekar óþarfar hugsanir sem draga okkur niður.  Ég veit ekki hvers vegna og ég hef ekki heyrt þig segja að þú vitir það.  En ég hef heyrt þig segja að Guð hafi aftur og aftur tekið þig að sér og tekið frá þér hugsanirnar sem þú réðst ekki við.  Í staðinn fyrir angistna gaf hún þér dýrð himnanna í hjarta þitt eins og englarnir sungu á Betlehemsvöllum og göngunum á Grund.  Það er kraftaverk.  Alltaf sama yndislega kraftaverkið.  Dýrð himnanna er komin í frið hjarta þíns.  
Er það ekki yndisleg?.  Amen