Jólamessa 29. desember 2006

Við heyrðum jólaguðspjallið og hugleiðum það í kvöld, í öllum sálmunum og allri samveru okkar. Við sjáum fyrir okkur fjárhúsið í Betlehem þar sem Jesús liggur í jötunni í öruggu skjóli Maríu og Jósefs og þau eru öll umlukin friði Guðs. Við hugsum með okkur að þau séu óendanlega fegin því að hafa komist í húsaskjól áður en hann fæddist. En við vitum ekki hvað þau hugsuðu og hvernig þeim varð við þegar fjárhirðarnir komu allt í einu inn um dyrnar og sögðu frá því að englarnir hafi sungið fyrir þau úti á völlunum og sagt þeim að frelsarann væri nýfæddur og þau mættu fara að sjá hann.
Og svo komu vitringarnir líka. En það stendur að María hafi hlustað með athygli á það sem þau sögðu og geymt það í hjarta sínu. Svo það leið ekki á löngu þar til eftirvæntingin fór að búa í friðinum. Og það leið heldur ekki á löngu þangað til skelfingin gerðist. Heródes kóngur óttaðist þetta þetta nýfædda barn sem hann þekkti þó ekki frá öðrum börnum en lét drepa alla þá nýfæddu drengi sem sendiboðar hans náðu til. Þegar miklir og góðir atburðir gerast gerast líka skelfilegar atburðir, skrifaði enn af hinum góðu dönsku prestum sem ég les stundum hvernig útskýra Biblíuna. En Jesús var þá kominn til Egyptalands og kom ekki aftur fyrr en Heródes var dáinn. Og eftir það óx hann upp í visku og ást. Við getum hugsað okkur að við séum þátttakendur í þessu öllu, einfaldega af því að við erum það. Hver einasta manneskja allrar veraldarinnar á hlut í jólanóttinni og hver einasta manneskja á frelsarann sem fæddist. Við ætlum að tala um það í kvöld. Eins og við gerum í hverri messu. Hugsum […]

Gleði og friður aðventunnar. Seinni ræða 10. desember 2006

Núna er tími eftirvæntingarinnar. Núna er líka tími uppgjörsins þar sem tími gefst til að hugleiða árið sem er að líða. Einnig er þessi tími, tími kvíðans og hræðslunnar. Aðventan er tilfinningaríkur tími sem snertir okkur öll á einhvern hátt. Flest okkar geta tekið þessum tíma opnum örmum og gert það besta úr honum fyrir okkur sjálf, vinkonur okkar og vini. Við kunnum að njóta og látum aulýsingar og annað skrum ekki trufla okkur. Við vitum að jólin byrja ekki í IKEA heldur kl.6 á aðfangadagskvöld. Við vitum líka að undirstaðan að hamingju heimilisins fæst ekki í Húsasmiðjunni heldur er hún undir heimilisfólkinu komin.
En það er alls ekki auðvelt að vera svona skynsöm. Svona óskaplega skynsöm þegar allsstaðar er kallað. Vertu bara eyðslukló. Kauptu núna – borgaðu seinna. Kauptu einmitt þetta, þetta sem er alveg nýtt og svo allt öðruvísi. Æ, mig langar svo í blikkandi seríur, samt fannst mér þær ljótar í fyrra, en allar vinkonur mínar eiga svona núna. Ég get ekki gert krökkunum þetta, þau fá auðvitað nóg af því að heyra að mamma þeirra sé alltaf öðruvísi. Jú auðvitað geri ég krökkunum það að fá ekki alltaf allt sem þau suða um. Fara ekki allt sem þau langar til að fara. Þá er ég skynsöm. Þá er ég að velja fyrir mig og fólkið mitt, velja það sem ég held að sé best og réttast og er sátt við. Er ekki bara ágætt að börnum leiðist af og til, ég held það, það verður svo gaman þegar þau finna sér sjálf viðfangsefni. En það er vont fyrir fullorðið fólk að kvíða og vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Kvíða því sem verður og kannski enn meira því sem verður […]

Myrkur og hlýja. Seinni ræða 12. nóvember 2006

Það að kveikja ljós og lýsa öðrum veginn í myrkrinu. Mér fannst það svo gott og fallegt og göfugt. En svo vaknaði spurning. Hver lýsti mér veginn í myrkrinu? Hvernig átti ég að rata minn veg, ef ég væri alltaf að að lýsa upp veginn fyrir aðra? Átti enginn ljós fyrir mig?
Jú, svarið kom til mín.Ég átti líka ljós fyrir mig. Við eigum öll ljós fyrir okkur. Við þurfum bara að muna eftir því að nota það. Að ganga um dagana okkar með ljósið okkar og leyfa því að skína á okkar veg og þá lýsir það svo bjart, að aðrir njóta þess líka. Það tók mig þó nokkurn tíma að finna ljósið mitt og líka þó nokkurn tíma í viðbót að sannfæra sjálfa mig um, að það væri alveg í lagi að ég sjálf nyti góðs af þessu ljósi. Mér fannst það í fyrstu svo eigingjarnt og sjálflægt að ætla fyrst að njóta einhvers sjálf og svo að hugsa um aðra á eftir. En núna veit ég að ég er jafn mikils virði og allir aðrir og mér er treyst til þess að bera mitt ljós, bæði fyrir mig og aðra. Ég treysti því að ljósið mitt sé bjart og fallegt og geti lýst upp bæði mitt myrkur og annara. Og þegar við vinkonurnar, Guð og ég fáum okkur göngu saman í skammdeginu, þá er aldrei dimmt hjá okkur, því ég segi: Jæja Guð, nú leggjum við í ´ ann. Nú þurfum við að kveikja. Og við notum ljósin okkar og ljómum báðar af gleði. Svona einfalt er nú þetta. Og það sem meira er, það virkar.

Myrkur og hlýja. Fyrri ræða 12. nóvember 2006

Við höfum löngu komið okkur saman um að hjálpa hver annarri til að horfast í augu við veruleikann í skugga hans og ljósi. Það er best svoleiðis. Að sjá að lífið er bæði bjart og dimmt, til skiptis í lífi okkar allra. Svo að við erum allar stundum glaðar og stundum eitthvað annað, hryggar eða hræddar eða niðurbrotnar eða eitthvað sem við vildum eiginlega ekki vera. En svona er nú lífið. Og það er betra að vita það. Til þess að það komi okkur ekki á óvart þegar skyggir og til þess að við vitum að það birtir alltaf aftur. Og til þess að við vitum að það er óhætt að taka á móti gleðinni án þess að óttast að hún hverfi strax. Við höfum sagt hver annarri söguna um konuna á Hringbrautinni. Hana sem stoppaði á græna ljósinu og sagði löggunni að það hefði verið af því að það var búið að vera grænt ljós svo lengi að það hlaut að vera alveg að verða búið.
Við heyrðum í því sem þær Ásdís og Inga sögðu að það er gott að eiga vináttu hver annarrar. Og það er þessi vinátta sem er aðal markmið okkar. Það er það að geta hist og fundið að við eigum hver hjá annarri uppörvun til að fara með þangað sem við förum þegar við förum hver í sína átt. Okkur langar svo til að vera bæði griðastaður og uppspretta dugnaðar og dómgreindar hver fyrir aðra. Við erum stundum spurðar hvers vegna við gerum ekki miklu meira til að auglýsa okkur og svörum því að það sé kannski vegna þess að við nennum ekki að auglýsa okkur en miklu frekar vegna þess að við þurfum allra helst að vera griðastaður […]

Ertu þar sem þú vilt vera? Prédikun 15. október 2006

Ég ætla bara rétt að vona að þú sérst einmitt núna þar sem þú vilt vera þ.e. hér í Breiðholtskirkju í kvöld að halda messu með Kvennakirkjunni. En erum við alltaf þar sem við viljum vera í lífinu? Ég er búin að vera að velta þessari spurningu fyrir mér að undanförnu. Ég held ég hafi loksins dottið niður á lausnina og komist að því, að ég fyrir mitt leyti er þar sem ég vil vera og ég ætla að segja ykkur hvernig ég komst að þeirri niðurstöðu. Ég ætla að færa ykkur lausnina í kvöld. Því eins og þið margar vitið þá lifum við í Kvennakirkjunni í lausninni.
Guðspjallið sem hún Gyða las áðan fyrir okkur er ein af mörgum uppáhaldssögum sem ég á í Biblíunni. Þessi frásögn um Jesú og vinkonur hans og vini úti á vatninu hefur verið mitt uppáhald allt frá því ég var lítil stelpa. Pabbi minn var sjómaður og það var oft sem við vorum hræddar systurnar um hann úti á sjó í vondum veðrum en þá huggaði þessi saga mig. Í dag legg ég aðeins annan skilning í boðskap hennar en ég gerði þá. Ég tel að þessi frásögn um Jesú og vinkonur hans og vini í bátnum í vonda veðrinu lýsi nokkuð vel á hvern hátt við bregðumst við aðstæðum í lífinu og hvernig Guð kemur inn í þær aðstæður og hvernig við getum í trú hvílt í hendi Guðs. En fyrst ætla ég að segja ykkur sögu sem ég las fyrir nokkrum árum, sögu sem fjallar um páfagaukinn hana Betu og daginn sem hún lenti í ótrúlegum hrakningum. Eigandinn hennar Betu, hún Hanna, hugsaði alltaf afskaplega vel um hana, það var alltaf nógur matur og vatn og Beta […]

Við þvottalaugarnar í Laugardal 19. júní 2006

Til hamingju með hátíðisdaginn. Það er yndislegt að eiga afmæli og stórkostlegt að halda upp á það góða sem gerðist. En það er eitthvað athugavert við baráttuna. Eða það held ég. Hvað finnst þér? Ég held að það sé annað hvort það að við erum ekkert að berjast af því að við erum eitthvað svo þreyttar, eða við erum svo þreyttar af því að við erum ekkert að berjast.
Konurnar sem börðust fyrir kosningarétti okkar fyrir 90 árum börðust ógurlega. Og það var voða erfitt – en voða gaman. Og það var af því að það var svo gaman sem þær gátu barist. Og það var af því að þær sáu að þær urðu að berjast. Þær urðu að fá kosningarétt. Menn höfðu kosningarétt. Menn fengu að fara í skóla, menn fengu embætti. Ekki konur. Ekki Ólafía Jóhannsdóttir. Ekki Bríet Bjarnhéðinsdóttir, ekki Stína og Bína og Bóthildur og Lína og allar hinar sem eru ekki taldar nokkurs staðar upp. Engin þeirra fékk að fara í skóla. Ekki ein einasta. Engin þeirra fékk að kjósa, engin þeirra. Þess vegna börðust þær. Hvað sjáum við núna? Við sjáum að við förum í skóla, við fáum stjórnunarstöður, við kjósum og erum kosnar á þing og til embætta. Og þá gerist það sem er sagt frá í Biblíunni að geti gerst þegar við fáum það sem við vildum og hættum að berjast. Og hvað er það? Það er það að við missum ástina á lífinu sem við áttum þegar við sáum að við urðum að berjast. Það var ástin til Guðs, ástin sem hún gaf okkur til að teygja okkur eftir lífinu sem hún sagði okkur að við ættum skilið. Hvað sjáum við núna? Hvað segjum við núna? Við segjum: […]

Fastan og koma páskanna. Síðari prédikun í apríl 2006

Guð vinkona. Já, Guð vinkona, vinkona mín sem er með mér allan daginn, gengur við hlið mér og er til alltaf til staðar. Það virtist ekki erfitt að segja frá þessari frábæru vinkonu, ekki í fyrstu, en til að þið trúið mér þarf ég fyrst að trúa og mér hefur gengið erfiðlega að tileinka mér þessa nýju lífssýn að Guð sé kvenkyns.
Ungum er að allra best að óttast Guð sinn herra, lærði ég í barnæsku og það að Guð væri strangur, fylgdist með mér allan daginn og allar mínar yfirsjónir voru skráðar í stóra bók sem ég myndi þurfa að svara fyrir þegar ég berði að dyrum að himnaríki. Ef syndalistinn yrði langur beið mín vist í helvíti og þar voru ekki neinir sæludagar um alla eilífð. Það var eldri systir mín sem sá um þessa uppfræðslu og efa laus verið langþreytt á að reyna að hafa hemil á púkunum mér og yngri systkinum okkar og því reynt að nýta sér guðsóttann. Svo fluttum við að vestan og hættum að vera púkar og það eru ekki ýkja mörg ár síðan mér varð ljóst að við vorum ekki svona óskaplega erfið viðureignar að eiga þetta púkatal skilið eða hún svona ósanngjörn í okkar garð, enn í dag eru börn á Vestfjörðum allavega Ísafirði kölluð púkar. Þetta voru fyrstu kynnin af Guði, ríki hans og réttlæti. Um fermingu var Guð frekar orðin sem faðir: Vertu Guð faðir, faðir minn þuldi ég á fermingardaginn og mundi síðan ekki eftir Guði nema þegar eitthvað bjátaði á og vonaði að hann myndi eftir mér þó ég myndi nú ekki alltaf eftir honum. Á ákveðnum tímapunkti varð ég síðan mjög ósátt við ákvarðanir hans og var sem minnst að ónáða hann […]

Fastan og koma páskanna – Prédikun í apríl 2006

Á undanförnum vikum hef ég nokkrum sinnum vaknað við að litlir sólargeislar dansa á sænginni minni og andliti. Ég hef stokkið frammúr og varla mátt vera að því að borða morgunmatinn áður en ég fer út í góða veðrið í göngutúr. En í hvert einasta skipti hef ég hlaupið inn aftur, til að sækja húfu, flíspeysu og vettlinga og á göngunni hefur nær undantekningarlaust náð að snjóa aðeins á mig. En þrátt fyrir kuldann hafa þessar göngur mínar verið yndislegar, dagana er farið að lengja svo um munar og birtan er langþráð. Það er eins og sköpunarverk Guðs hvísli því að mér að eitthvað stórkostlegt liggi í loftinu, vorið er að koma og náttúran vaknar af vetrardvalanum. Það færist líf í allt, grasið og lauf trjánna grænka og fuglarnir fara að syngja og loftið mun fyllast af röddum fólks sem er úti við að njóta vorsins. Enn á ný mun birtan og hlýjan ná að sigra myrkrið og kuldann. Á þessum gönguferðum mínum er Guð að hvísla í eyru mér fyrirheitinu um allt þetta. Og það besta er að ég hef náð að grípa það og varðveita í huga og hjarta. Og þess vegna orðið svo dæmalaust létt í spori.
Gönguferð og fyrirheit, þetta minnir mig á aðrar konur sem voru uppi fyrir langa löngu og lögðu af stað í gönguferð árla morguns. En í hjörtum þeirra ríkti sorg og örvænting og því hafa spor þeirra án efa verið þung. Vinur þeirra hafði verið tekin af lífi á hrottafenginn hátt. Maðurinn sem þær treystu og trúðu á, Jesú Kristur. Eftir handtöku hans hafði hópurinn tvístrast og Jesú svikinn og afneitað af þeirra eigin vinum. Hinn yndislegi tími sem þau áttu saman endað á annan hátt en […]

Gunna, Gunna safnaður sjálfri þér saman. Prédikun í mars 2006

Þegar ég var í Verslunarskólanum las ég dönsku blöðin. Þau voru skruggugóð. Mér fannst Söndags BT best. Og líka fallegast. Einu sinni var skrifað í einni greininni sem birtist innan í ramma um konu sem kom til læknisins síns til að tala um sjálfa sig. Góða, sagði læknirinn, taktu þig nú saman. Og konan trylltist. Og eyðilagði eitt og annað hjá læknininum, kannski stóla og borð, kannski bara blómavasa, ég man það ekki. En niðurstaða greinarinnar var sú að hún kom einmitt af því að hún gat ekki tekið sig saman. Og það var einmitt það sem átti ekki að segja við hana að hún gæti tekið sig saman.
Það eru fimmtíu ár síðan ég las þessa grein. Ég hugsa að ég hugsi ekki um hana á hverju ári síðan, en ég hugsa samt oft til hennar. Af því að ég skildi aldrei hvað var verið að segja. Og ég skil það ekki enn. En kannski skil ég það seinna í kvöld, þegar ég er búin að spjalla um þetta við ykkur. Mér finnst ég skilja að hún var búin að fá nóg af einhverju sem hún réði ekki við og var komin til læknisins í von um að hann hjálpaði henni. Og ég hugsa mér ein og önnur skiptin sem ég stóð nálægt þessum sporum sem hún stóð í. Og það er ekkert gaman að rifja þau upp. Það var þegar ég sagði við dætur mínar NEMA HVAÐ þegar þær litlar og góðar helltu mjólkinni yfir allt kvöldmatarborðið og ég þreytt af erli dagsins megnaði ekki að segja neitt annað. Það var þegar ég gekk þrisvar kringum Tjörnina til að reyna að finna út hvað ég ætti að hugsa um ein og önnur mál í […]

Það sem er

Það var seinnipart vetrar árið 1993, fyrir 13 árum, að Guðný vinkona mín sagði mér að búið væri að stofna Kvennakirkju og hún hefði fengið það hlutverk að finna konur til að leiða safnaðarsöng í messum.„Heldurðu að þú getir kannski sungið eitthvað?“ spurði hún. Mér fannst auðvitað bráðfyndið að Guðný væri söngmálastjóri Kvennakirkjunnar og féllst umsvifalaust á að mæta á æfingu kvöldið eftir úti í Mýrarhúsaskóla – það skemmdi ekki fyrir að ég bjó þá og bý enn örstutt þar frá.
Ég man nú ekki sérlega mikið eftir þessum fyrstu söngæfingum og alls ekki hvaða sálma við æfðum en svo var allt í einu komið að messu. Ég mætti samviskusamlega í kirkjuna klukkutíma áður en messan átti að hefjast eins og okkur var uppálagt og þá fyrst fóru að renna á mig tvær grímur. „Í hvað er ég nú búin að koma mér? Hefði hreint ekki verið skynsamlegra að koma fyrst í eina messu og sjá hvernig mér líkaði? Ætli ég sé búin að koma mér í einhvern sértrúarsöfnuð?“ Þessar hugsanir flugu mér í hug þegar ég fylgdist með undirbúningi messunnar. Þarna voru ótal konur á ferð og flugi – það þurfti að leggja á borð í safnaðarheimilinu og koma kaffinu af stað, ein var beðin að bjóða kirkjugesti velkomna, önnur fékk það hlutverk að flytja kveðjuorð og það var einhvern veginn svo mikið um að vera að ég varð hálfringluð á þessu öllu. „Best að sjá hvað setur,“ hugsaði ég. „Ef mér líst ekki á þetta er ég ekkert að koma aftur.“ En svo hófst sjálf messan. Presturinn, séra Auður Eir, flutti predikun og ég tók að leggja við hlustir. Ég man ekki einu sinni hvert umfjöllunarefnið var í þetta skipti, en ég man að […]

Guð er vinkona okkar

Við skulum þakka hver annarri og hvert öðru fyrir að koma í messuna okkar í kvöld.
Þú heldur þessa messu með þeim sem sitja við hliðina á þér og fyrir framan þig og aftan þig. Það skiptir öllu máli í kvöld eins og alltaf að þú komst því þessi guðþjónusta væri ekki eins ef þú hefðir ekki komið.
Þessi messa eins og allar aðrar messur eru hið gullna tækifæri til að endurnýja hugsanir okkar. Við komum með áhyggjur okkar og tölum um þær við Guð meðan við syngjum og biðjum og hlustum í nærveru hinna. Og við komum með gleði okkar og þökkum Guði fyrir hana. Þú veist það áreiðanlega af reynslunni hvað það er óendanlega gott að hugsa um það sem gengur vel hjá okkur, hugsa til þess sem við höfum bara gert svo ljómandi þokkalega, og til gleðinnar sem við höfum haft af því. Og hugsa um fólkið sem hefur verið vænt við okkur og við höfum heldur glatt en hitt. Það er fátt eins gott og að fá að vera með verulega góðu fólki, þótt það sé ekki nema að fá að vera nálægt því, hvað þá að vinna með því eða búa með því, sagði hún Karen Horney sem var ein af þeim sem stofnuðu til nútíma sálgreiningar.

Hvernig líður þér í kvöld? Naustu dagsins eða glímdirðu við eitthvað
erfitt eða dauflegt? Það er sem oftast sitthvað af ýmsum sortum í
dögunum. Eða hvað finnst þér? Ég held að það verði aldrei öðru vísi. Og ég held það sé betra að sjá það. Við glímum alltaf við eitthvað Ég segi enn og aftur eins og maðurinn frá Húsavík. Það er alltaf eitthvað. Og ef það er ekki eitthvað þá er það bara eitthvað annað.

Ég held að […]

Það sem var, er og verður

Ég get ekkert án þín vinan mín

og veit þú skilur það

og veist að ekkert gerist nema allt sé sameinað.

Verkin þín og verkin mín

og viskan sem að nær í mark

og vináttan sem gefur okkur

frelsi, gleði og kjark.

Þannig talar Guð til okkar í sálminum sem Auður Eir orti á upphafsárum Kvennakirkjunnar og er í takti við þann anda sem ríkt hefur hjá okkur.

Sá andi byggist á persónulegu sambandi við Guð sem er vinkona okkar og stendur með okkur alltaf, í öllu sem við gerum. Við erum vinkonur hennar og hún þarfnast okkar til að vinna að því að gera heiminn betri. Vináttan við hana gefur okkur gleði og kjark, hverri og einni þar sem hún er stödd í lífi sínu og hún streymir á milli okkar í messum Kvennakirkjunnar. „Það ert þú, elskan mín, sem ert að halda þessa messu,” er setning sem Auður hefur sagt marg oft og smátt og smátt fórum við að trúa því að við værum ekki bara að þiggja heldur líka að gefa. Ég held að þessi afstaða prestsins okkar hafi skipt sköpum um það hvernig Kvennakirkjan hefur þróast og dafnað þau þrettán ár sem hún hefur nú starfað. Hún leysti úr læðingi einhvern galdur sem felst í jafnræðinu, því að deila trú okkar, vonum og væntingum í bænum, söng og nærveru og finna að við erum allar jafn mikilvægar, bæði í augum Guðs og hver annarrar. Og það er eimitt þetta atriði sem ég tel mikilvægast að við höldum í heiðri og hlúum að þegar við horfum fram á veginn á þrettán ára afmælinu okkar – að við séum allar jafnar, að hver rödd fái að njóta sín og að messan sé sameiginleg lofgjörð okkar allra. Við þurfum til dæmis að […]