Upplýsingar

Guð vinkona. Já, Guð vinkona, vinkona mín sem er með mér allan daginn, gengur við hlið mér og er til alltaf til staðar. Það virtist ekki erfitt að segja frá þessari frábæru vinkonu, ekki í fyrstu, en til að þið trúið mér þarf ég fyrst að trúa og mér hefur gengið erfiðlega að tileinka mér þessa nýju lífssýn að Guð sé kvenkyns.
Ungum er að allra best að óttast Guð sinn herra, lærði ég í barnæsku og það að Guð væri strangur, fylgdist með mér allan daginn og allar mínar yfirsjónir voru skráðar í stóra bók sem ég myndi þurfa að svara fyrir þegar ég berði að dyrum að himnaríki. Ef syndalistinn yrði langur beið mín vist í helvíti og þar voru ekki neinir sæludagar um alla eilífð. Það var eldri systir mín sem sá um þessa uppfræðslu og efa laus verið langþreytt á að reyna að hafa hemil á púkunum mér og yngri systkinum okkar og því reynt að nýta sér guðsóttann. Svo fluttum við að vestan og hættum að vera púkar og það eru ekki ýkja mörg ár síðan mér varð ljóst að við vorum ekki svona óskaplega erfið viðureignar að eiga þetta púkatal skilið eða hún svona ósanngjörn í okkar garð, enn í dag eru börn á Vestfjörðum allavega Ísafirði kölluð púkar. Þetta voru fyrstu kynnin af Guði, ríki hans og réttlæti. Um fermingu var Guð frekar orðin sem faðir: Vertu Guð faðir, faðir minn þuldi ég á fermingardaginn og mundi síðan ekki eftir Guði nema þegar eitthvað bjátaði á og vonaði að hann myndi eftir mér þó ég myndi nú ekki alltaf eftir honum. Á ákveðnum tímapunkti varð ég síðan mjög ósátt við ákvarðanir hans og var sem minnst að ónáða hann lengi á eftir. Þegar ég þurfti kannski hvað mest á honum að halda gerði ég hann hvorki ábyrgan né bað um aðstoð og fannst ég ekkert hafa neina þörf fyrir hann, að þessu sinni var goggunarröðin en ósanngjarnar að mínu mati en þá læddist hann inn í líf mitt, var kannski aldrei langt undan. Sumt er engum að kenna og allra síst Guði það gerist bara. Líklega nú í hlutverki verndara en alltaf sem hann Guð. Svo á gamalsaldri er Guð allt í einu orðin vinkona mín, þetta gekk ekki alveg upp að mér fannst, ef ég ætlað að biðja þess vinkonu um aðstoð hljómaði í huga mér: Að biðja sem mér bæri mig brestur stórum á æ, herra Kristur kæri kenn mér íþrótt þá. Yfir vöggu barnanna minna hafi ég raulað Ástarfaðir himinhæða og Ó, Jesús bróðir besti. Allstaðar var herra, faðir og bróðir, óljóst rámaði mig í sálm þar sem minnst var á móðurfaðm, en þó fannst mér helst að Guð væri hvorki karl eða kona. Var ekki bara Guð á himni og Guð á jörð og Guð í okkur öllum? Er Guð kona? Er þetta ekki bara einhver sérviska í henni Auði? Hún fer nú sjaldan troðnar slóðir. Til að fá einhverja innsýn í kvennaguðfræði – sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir að væri eitthvað frábrugðin annarri guðfræði, – var þetta ekki sami Guð hvort sem hann var karl eða kona? – fór ég að lesa mér til. Vinátta Guðs eftir Auðir Eir er holl og góð lesning og opnaðar mér nýja sýn, fyrst ætlaði ég að stytta mér leið og lesa aðeins um vináttu Guðs en fljótlega var ég byrjuð á byrjuninni og las ekki lengur til að komast vel frá þessu verkefni heldur af áhuga og uppgötvað eitthvað nýtt á hverri síðu. Eftir að hafa lesið síðu eftir síðu um niðurlægingu og auðmýkingu kvenna í karlaguðfræði, þar sem flestir höfðu verið sammála um þær væru körlum óæðri vegna gáfnaskorts og Lúter haldið því fram að konur hefðu misst jafnréttið vegna syndarinnar og það væri mátulegt á þær, missti ég þráðinn og fann ekki neitt samhengi í því sem ég var að lesa. Áður en ég kyngdi því að ef til vill væri eitthvað rétt í þessum um vitsmuni kvenna, – sá ég konan, – full af smámunasemi og visku að sjálfsögðu, að í mitt eintak bókarinnar vantaði 16 blaðsíður en ekki neitt á skilning minn að þessu sinni. Ég sá og skildi að kvennaguðfræðin er allt önnur og betri guðfræði en sú sem ég hafði áður kynnst. Kvennaguðfræðin berst ekki fyrir því að konur fái réttinn sem feðravaldið hafði gefið körlunum, hún berst fyrir því að valdinu verði dreift. Loks skildi ég hvað femínismi er og að ég er femínisti. Guð gerir aldrei upp á milli okkar og það er hlutverk kvennakirkjunnar að finna og nota vináttu Guðs í óvenjulegum og venjulegum atburðum daganna. Það er ekkert sem mælir í raun á móti því að Guð sé kona, þvert á móti því lengur sem ég las því minna efaðist ég, þetta var alveg frábært að eiga í raun vinkonu sem er til staðar og gengur við hlið mér allan daginn , allstaðar, alltaf. Ekki til að njósna um mig og skrifa það í stóru bókina, nei til að liðsinna mér, segja mér hvað ég sé frábær þegar öllum öðrum finnst það alls ekki og ég skil ekki af hverju. Og þegar ég veit hvað ég er frábær, finnst mér hin líka frábær þó ég hafi ekki alveg sömu skoðanir á öllu hlutum og þau. Ég er falleg, góð og skemmtileg, og yndisleg manneskja, úr því að Guði finnst það má mér finnast það líka og fyrst það sendur í bókinni hennar Auðar hlýtur það að vera satt. Guð vinkonu okkar finnst það um alla hina líka og þess vegna er við öll falleg, góð og skemmtileg og yndisleg og á hverjum degi getum við gengið með þessari góðu vinkonu, hvort sem leiðin liggur niður Laugaveginn eða eitthvað annað. Ég ætla að ganga með vinkonu minni inn í kyrrðarvikuna, gegnum bænadagana, minnast síðustu kvöldmátíðarinnar á skírdag, krossfestingarinnar á föstudaginn langa og gleði upprisunnar á páskadag, Og síðan inn í vorið og sumarið Það er gott að eiga vinkonu sem er máttug og mild alltaf til staðar fyrir mig og þig að eilífu.