Upplýsingar

Á undanförnum vikum hef ég nokkrum sinnum vaknað við að litlir sólargeislar dansa á sænginni minni og andliti. Ég hef stokkið frammúr og varla mátt vera að því að borða morgunmatinn áður en ég fer út í góða veðrið í göngutúr. En í hvert einasta skipti hef ég hlaupið inn aftur, til að sækja húfu, flíspeysu og vettlinga og á göngunni hefur nær undantekningarlaust náð að snjóa aðeins á mig. En þrátt fyrir kuldann hafa þessar göngur mínar verið yndislegar, dagana er farið að lengja svo um munar og birtan er langþráð. Það er eins og sköpunarverk Guðs hvísli því að mér að eitthvað stórkostlegt liggi í loftinu, vorið er að koma og náttúran vaknar af vetrardvalanum. Það færist líf í allt, grasið og lauf trjánna grænka og fuglarnir fara að syngja og loftið mun fyllast af röddum fólks sem er úti við að njóta vorsins. Enn á ný mun birtan og hlýjan ná að sigra myrkrið og kuldann. Á þessum gönguferðum mínum er Guð að hvísla í eyru mér fyrirheitinu um allt þetta. Og það besta er að ég hef náð að grípa það og varðveita í huga og hjarta. Og þess vegna orðið svo dæmalaust létt í spori.
Gönguferð og fyrirheit, þetta minnir mig á aðrar konur sem voru uppi fyrir langa löngu og lögðu af stað í gönguferð árla morguns. En í hjörtum þeirra ríkti sorg og örvænting og því hafa spor þeirra án efa verið þung. Vinur þeirra hafði verið tekin af lífi á hrottafenginn hátt. Maðurinn sem þær treystu og trúðu á, Jesú Kristur. Eftir handtöku hans hafði hópurinn tvístrast og Jesú svikinn og afneitað af þeirra eigin vinum. Hinn yndislegi tími sem þau áttu saman endað á annan hátt en vonir þeirra stóðu til. Vonbrigði, ótti og óvissa um framtíðina bættust því við sorgina og örvæntinguna. Konurnar voru að fara að vitja grafar Jesú. Við þekkjum allar / öll þessa frásögn og vitum að konurnar komu að gröfinni tómri og við vitum líka hver viðbrögð þeirra voru. Fyrst undrun og ótti en síðan hlupu þær af stað, léttar í spori til að flytja fregnina. Jesú er upprisinn! Fyrirheitið lá í loftinu, eitthvað stórkostlegt hafði gerst og eitthvað stókostlegt átti eftir að gerast og þær, já einmitt þær voru fyrstu vottar alls þessa. Síðan hélt líf þessara kvenna áfram, gleði og sorgir, vinátta og misskilningur, valdabarátta og landvinningar og þær þurftu að halda fast í þau réttindi sem Jesú hafði gefið þeim. En það sem stóð óhaggað hjá konunum var fyrirheitið um þetta stórkostlega og sú staðreynd að lifið hafði sigrað dauðann, ljósið sigraði myrkrið. Ég held að flestar ef ekki allar okkar eigi auðvelt með að setja okkur í spor þessara vinkvenna Jesú. Við þekkjum sorgina, vonbrigðin og jafnvel örvæntinguna og sem betur fer höfum við einnig fengið að kynnast dögun páskadags morguns í lífi okkar. Og þeirri góðu tilfinningu að vera handhafar fyrirheitsins. Því finnst mér ákaflega skemmtilegt að standa hér að kveldi pálmasunnudags og tala við ykkur um gleði páskanna nú þegar fastan er að renna sitt skeið.

Yfirskrift síðustu messu var; Gunna, Gunna safnaðu sjálfri þér saman, Gunna, Gunna farðu með sjálfa þig heim. Og við töluðum um það hvernig við notuðum föstuna til að koma til sjálfra okkar og njóta þess að dvelja þar. Nú göngum við til móts við páskasólina, endurnærðar og tilbúnar til að njóta hátíðardaganna, með fólki sem okkur finnst vænt um eða með sjálfum okkur. Sumar okkar leggja land undir fót og aðrar sitja heima og borða súkkulaði en það sem skiptir mestu máli að við njótum þess sem við gerum og séum sáttar. Það hendir kannski einhverjar okkar að þurfa að snúa fljótt aftur í kyrrðina innra með okkur til að sækja flíspeysu, húfu eða vettlinga. Af því enn er svolítið kalt utandyra. Og það er í lagi að staldra þar aðeins lengur við því fyrirheitið um ljósið sem sigrar myrkrið og gleði páskadagsins fer ekkert frá okkur. Við getum misst sjónar á því en það er nærtækara en við höldum. Og sú stund kemur alltaf á ný að við finnum heita og innilega löngun til að velja lífið. Og þá dettur mér aftur í hug saga um aðra konu í nýja testamentinu, konuna í Betaníu sem kom og smurði höfuð Jesú með dýrindissmyrslum. Með því gaf hún honum það besta sem hún átti og Jesú tók stundina frá til að njóta þess sem honum var gefið. Hann vissi hvað beið hans og án efa hefur þetta verið stund milli stríða þessa síðustu daga æfi hans. Þau sem sátu til borðs með honum fóru að ávíta konuna fyrir sóun á dýrum smyrslum. En Jesú þaggaði niður í þeim með orðum; hættið að angra hana, gott verk gerði hún mér. Kannski eru það einmitt orðin sem við ættum að nota þegar niðurbrjótandi hugsanir sækja að okkur og ræna okkur friðnum og fyrirheitinu. ,, hættið að angra mig, í dag ætla ég að vera sjálfri mér góð”. Á sama hátt getum við líka valið hvað við þiggjum af öðrum og það sem við viljum ekki taka á móti getum við vísa góðlátlega á bug með orðunum; hættið að angra mig. En kennir sagan okkur ekki líka að við eigum skilið það besta. Að við megum gefa og þiggja góðar gjafir án þess að mögla og finnast við ekki eiga það skilið. Höfum það í huga nú þegar við göngum út úr föstunni og til móts við páskasólina. Megi allt angur vera órafjarri okkur öllum, það líður að dögun kæru vinkonur og vinir!