Upplýsingar

Til hamingju með hátíðisdaginn. Það er yndislegt að eiga afmæli og stórkostlegt að halda upp á það góða sem gerðist. En það er eitthvað athugavert við baráttuna. Eða það held ég. Hvað finnst þér? Ég held að það sé annað hvort það að við erum ekkert að berjast af því að við erum eitthvað svo þreyttar, eða við erum svo þreyttar af því að við erum ekkert að berjast.
Konurnar sem börðust fyrir kosningarétti okkar fyrir 90 árum börðust ógurlega. Og það var voða erfitt – en voða gaman. Og það var af því að það var svo gaman sem þær gátu barist. Og það var af því að þær sáu að þær urðu að berjast. Þær urðu að fá kosningarétt. Menn höfðu kosningarétt. Menn fengu að fara í skóla, menn fengu embætti. Ekki konur. Ekki Ólafía Jóhannsdóttir. Ekki Bríet Bjarnhéðinsdóttir, ekki Stína og Bína og Bóthildur og Lína og allar hinar sem eru ekki taldar nokkurs staðar upp. Engin þeirra fékk að fara í skóla. Ekki ein einasta. Engin þeirra fékk að kjósa, engin þeirra. Þess vegna börðust þær. Hvað sjáum við núna? Við sjáum að við förum í skóla, við fáum stjórnunarstöður, við kjósum og erum kosnar á þing og til embætta. Og þá gerist það sem er sagt frá í Biblíunni að geti gerst þegar við fáum það sem við vildum og hættum að berjast. Og hvað er það? Það er það að við missum ástina á lífinu sem við áttum þegar við sáum að við urðum að berjast. Það var ástin til Guðs, ástin sem hún gaf okkur til að teygja okkur eftir lífinu sem hún sagði okkur að við ættum skilið. Hvað sjáum við núna? Hvað segjum við núna? Við segjum: Við höfum fengið allt. Við eigum svo gott. Við megum ekki vera vanþakklátar. Við megum ekki vera frekar. Við megum ekki vera öfgafullar. Öfgafullar konur eru skelfilegar. Þær hata menn, þær eru á móti því að konur séu konur, svona eins og konur eiga að vera. Svona svoleiðis að menn geti verið eins og menn eiga að vera. Konur eru ekki eins og menn. Menn eru ekki eins og konur. Við höfum núna allt sem menn hafa. Það er engin ástæað til að berjast. Þeir hafa gefið okkur það sem við höfum fengið, og við skulum ekki vera öfgafullar. Það er svo púkalegt, svo andstyggilegt, svo leiðinlegt. Þetta hjal okkar er að fara með okkur. Það gerir okkur svo þreyttar. Af því að það er tóm della. Við höfum ekki sömu tækifæri og menn. Þeir hafa ekki gefið okkur helgminginn af tækifærunum sem þeir áttu einir áður en við fengum að kjósa og fara í skóla. Eða segðu mér hvað margar konur eru í hópi nýju sendiherranna okkar sem fara bráðum út um víða veröld. Og hvað eru þar margir menn? Ég er ekki að segja að menn séu vondir. Ég er bara að segja að það er fjarri því að vera satt að þeir hafi gefið okkur helminginn af því sem þeir eiga. Ég segi það og ég stend við það. Og ég stend við það án þess að það sé neitt sérstakt að standa við það. Það er nefnilega bara hreina satt. Og það getur hver einasta manneskja séð ef hún vill. Af hverju ætli menn hafi ekki gefið okkur helminginn af því sem þeir áttu einir áður en við fengum að kjósa og læra og vinna úti í bæ? Hvað heldur þú? Ég held að það sé af því að það er miklu skemmtilegra fyrir þá að eiga það en gefa það. Það er miklu skemmtilegra að fá að vera sendiherra en fá ekki að vera sendiherra. Eða fá að vera hvað sem það er sem við sækjumst eftir. Hvers vegna ætti nokkur manneskja að gefa það eftir ef hún þarf þess ekki? Og hvers vegna skyldi nokkur manneskja þurfa að gefa eftir það sem hún hefur? Af því að aðrar manneskjur eiga jafn mikinn rétt á því. Konur eiga jafn mikinn rétt og menn á að eiga möguleikana . Ég ætla að segja það aftur. Konur eiga jafn mikinn rétt og menn á að eiga möguleikana. Konur vilja bara ekki taka á móti möguleikunum. Þær hafa verið spurðar og það hefur verið skráð og vottfest. Konur vilja bara ekki taka á móti möguleikunum. Þær vilja ekki taka á sig ábyrgð. Þær vilja ekki hætta sér út í að hafa áhyggjur af vinnunni. Þær þola ekki óvissu og kunna ekki að taka gagnrýni og hafa enga burði til að taka ákvarðanir. Þær eru algjörar rolur. Þær geta alveg tekið próf. Próf í verkfræði og heilaskurðlækningum og guðfræði. En þær nota þetta aldrei eins og menn. Af því að þær eru rolur. Þetta eru ekki mín orð. Eru það þín orð? Þetta eru orð sem eru sögð. Aftur og aftur. Ekki segja okkur hinum að þú hafir nokkurn tíma sagt þau. Af því að það á ekki að segja þau. Af því að þau eru lygi. Konur hafa alltaf tekið ákvarðanir. Konur hafa alltaf tekið áhættur. Þær hafa aldrei hikað við að taka erfiðar ákvarðanir sem héldu fyrir þeim vöku og fylltu þær hyldjúpri örvæntingu þegar þær reyndust illa og þær sáu að þær urðu ekki til góðs. Konur tóku oftast þessar ákvarðanir heima. Af því að þær unnu mest heima. Þær sáu um menn og börn. Og það var ekki verndað starf heldur kröfuhart og stundum ómanneskjulega einmanalegt. Ekki alltaf, en stundum. Eða hvað heldur þú? Núna eru konur farnar að heiman. Þær eru farnar út í veröldina og þær eru ásakaðar um allt þetta sem ég var að tala um. Þær eru ásakaðar. Við erum ásakaðar. Og það sem við erum ásakaðar fyrir, það sem er sagt um okkur, verður til þess að við fáum ekki tækifærin. Sumar okkar fá þau. Einhver tækifæri. Og það er gott. Þær eiga að fá þau. Við eigum allar að fá okkar tækifæri, ekki af því að við erum konur, heldur af því að við erum manneskjur. Menn eiga líka að fá tækifæri. Ekki af því að þeir eru menn, heldur af því að þeir eru manneskjur. Hvaða tækifæri höfum við? Öll möguleg. Yndisleg og heillandi. Og við skulum sjá þau. Við skulum sjá að það sem konur hafa alltaf séð og alltaf gert, er gott. Konur hafa alltaf séð um annað fólk. Og það er gott. Konur hafa oft dregið sig í hlé fyrir aðrar manneskjur. Og það er gott. Konur hafa stjórnað og tekið að sér völd og forystu. Og það er gott. Þetta er það sem við gefum veröldinni þegar við komum að heiman og út. Það er aldalöng kunnátta okkar í að vera ekkert, sjást ekki og heyrast ekki. En lifa samt, stjórna samt, bera samt umhyggju, sýna samt vináttu. Og hvað er gagnlegt við það? Það að geta gert heiminn betri. Miklu betri. Miklu fjölbreyttari. Miklu litríkari, skemmtilegri, blíðari, sterkari, óttaminni, manneskjulegri. Það að sýna að tækifærin erum óteljandi. Það að sýna að það er hægt að fara eftir aldagömlum hugmyndum okkar kvenna. Amen