Upplýsingar

Ég ætla bara rétt að vona að þú sérst einmitt núna þar sem þú vilt vera þ.e. hér í Breiðholtskirkju í kvöld að halda messu með Kvennakirkjunni. En erum við alltaf þar sem við viljum vera í lífinu? Ég er búin að vera að velta þessari spurningu fyrir mér að undanförnu. Ég held ég hafi loksins dottið niður á lausnina og komist að því, að ég fyrir mitt leyti er þar sem ég vil vera og ég ætla að segja ykkur hvernig ég komst að þeirri niðurstöðu. Ég ætla að færa ykkur lausnina í kvöld. Því eins og þið margar vitið þá lifum við í Kvennakirkjunni í lausninni.
Guðspjallið sem hún Gyða las áðan fyrir okkur er ein af mörgum uppáhaldssögum sem ég á í Biblíunni. Þessi frásögn um Jesú og vinkonur hans og vini úti á vatninu hefur verið mitt uppáhald allt frá því ég var lítil stelpa. Pabbi minn var sjómaður og það var oft sem við vorum hræddar systurnar um hann úti á sjó í vondum veðrum en þá huggaði þessi saga mig. Í dag legg ég aðeins annan skilning í boðskap hennar en ég gerði þá. Ég tel að þessi frásögn um Jesú og vinkonur hans og vini í bátnum í vonda veðrinu lýsi nokkuð vel á hvern hátt við bregðumst við aðstæðum í lífinu og hvernig Guð kemur inn í þær aðstæður og hvernig við getum í trú hvílt í hendi Guðs. En fyrst ætla ég að segja ykkur sögu sem ég las fyrir nokkrum árum, sögu sem fjallar um páfagaukinn hana Betu og daginn sem hún lenti í ótrúlegum hrakningum. Eigandinn hennar Betu, hún Hanna, hugsaði alltaf afskaplega vel um hana, það var alltaf nógur matur og vatn og Beta átti rólu og spegil. Og það var alltaf svo hreint og fínt í búrinu hennar Betu og hún söng og rólaði sér og flögraði um hreina og fína búrið sitt allan liðlangan daginn. Svo var það dag einn að Hanna var að snurfusa í kringum þær einu sinni sem oftar og hún ákvað að ryksuga botninn á búrinu hennar Betu. Í því sem hún stingur ryksugubarkanum inn í búrið hringir síminn, Hanna snýr sér við til að svara og áður en hún veit af er Beta búin að sogast inn í ryksuguna. Hanna henti frá sér símanum, opnaði ryksugun og sem betur fer var Beta en lifandi, rykug og skítug en lifandi. Hanna tók Betu sína í lófann, hljóp með hana inn á bað og skellti henni beint undir kranann í vaskinum. Nú var Beta ekki lengur rykug og skítug nú var hún blaut og köld og aðeins eitt til ráða, Hanna greip til hárblásarans. Aumingja Beta, hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Nokkrum dögum síðar kom vinkona Hönnu í heimsókn og spurði eftir líðan Betu. Jú, sagði Hanna, hún Beta mín syngur voðalega lítið þessa dagana, hún stendur bara úti í horni í búrinu sínu og starir út í loftið. Ég held að við getum að mörgu leyti alveg skilið hvernig henni Betu litla páfagauk leið því okkur finnst oft sem að lífið fari nú ekkert of mjúkum höndum um okkur. Það getur verið eitthvað smávægilegt sem getur sett okkur út af laginu eins og þegar einhver sem við teljum vera vinkonu okkar eða vin segir eitthvað sem særir okkur eða það getur verið eitthvað stóvægilegt eins og þegar við missum ástvini okkar eða fáum erfiða sjúkdómsgreiningu. Þá er ekkert skrítið þó allur vindur fari úr okkur og við sitjum bara og störum eins og Beta. Góðu fréttirnar eru þær að þrátt fyrir alla erfiðleikana þá hefur Guð ýmislegt upp í erminni, hún hefur áætlun fyrir okkur og veit hvernig á að hjálpa okkur til að komast í gegnum þessi tímabil og veita okkur frið sem er ofar öllu. Jesús, hann var með vinkonum sínum og vinum þessa óveðursnótt á vatninu fyrir 2 þúsund árum, og þegar Jesús er með okkur þá skiptir engu máli hvað gengur á. Margir úr vinahópi Jesú voru reyndir fiskimenn og óveður líkt því sem þau börðust við þessa nótt var ekkert nýnæmi fyrir þá. En þrátt fyrir að vera vön slíku óverðri var vinahópurinn áhyggjufullur. En okkur hættir stundum til að gera mikið úr erfiðleikunum sem við þurfum að takast á við og jafnvel álíta þá verri heldur en þeir eru í raun og veru. Ég er viss um að þið hafið flest hitt manneskjur sem eiga alltaf við meiri vandamál að stríða en aðrir. þeirra vandmál eru alltaf einu sinni verri. Það gefur á í lífinu þeirra og þau telja það víst að engin önnur en þau hafi þurft að reyna nokkuð þessu líkt. Þau ættu að reyna að snúa vandamálunum upp í lausnir t.d með því að hugsa um þær stundir þegar allt lék í lyndi, það er ekkert auðvelt en vel þess virði að reyna það því útkoman gæti komið þeim á óvart. Ég get ekki eignað mér þessa tillögu, því við lesum hana í Biblíunni. Svo er önnur aðferð þessari tengd, aðferð sem við gleymum svo oft en það er að þakka það sem við höfum, þökkum fyrir allt þetta pínulitla sem gerist í dögum okkar, alla pínulitlu smá sigrana sem við vinnum með Guði. Þökkum fyrir alla þá gleði sem Guð gefur okkur í erli dagsins. Þegar Jesús og vinahópurinn hans lagði frá landi tel ég fullvíst að Jesús hafi vitað að stormur væri í aðsigi, samt lagðist hann niður og fór að sofa, hann steinsvaf. Þau voru mörg í bátnum og óveðrið geisaði og öldurnar skullu á bátnum og þau óttuðust um líf sitt. En Jesús var með þeim, hann vaknaði sussaði á vindinn og það varð stillilogn. Jesús var með þeim og þau voru einmitt þar sem þau áttu að vera. Ekki vegna þess að þau voru í stödd í snarbrjáluðu veðri! Ekki vegna þess að líf þeirra var í hættu! Nei! Heldur vegna þess hver það var sem var með þeim. Þau sluppu ekkert undan erfiðleikunum þó Jesús væri með þeim, þau sluppu ekki en nærvera Jesú studdi þau. Ég tel að það hafi ekki verið nokkur betri staður fyrir þau að vera en einmitt í bátnum með honum. Þau voru einmitt þar sem þau áttu að vera. Stundum getur okkur fundist sem að við höfum lent í ryksugupokanum, okkur verið hent í kalda sturtu og við blásin um koll og í kjölfarið ekki vitað hvar í veröldinni við erum staddar. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur þó að á móti blási, og við þurfum ekki að hafa áhyggjur þó við höldum að við séum ekki þar sem við ættum að vera í lífinu. Við skulum stíga óhræddar um borð í bátinn sem siglir með okkur um lífið, því Jesús er með okkur og þess vegna erum við þar sem við eigum að vera.