Upplýsingar

Við höfum löngu komið okkur saman um að hjálpa hver annarri til að horfast í augu við veruleikann í skugga hans og ljósi. Það er best svoleiðis. Að sjá að lífið er bæði bjart og dimmt, til skiptis í lífi okkar allra. Svo að við erum allar stundum glaðar og stundum eitthvað annað, hryggar eða hræddar eða niðurbrotnar eða eitthvað sem við vildum eiginlega ekki vera. En svona er nú lífið. Og það er betra að vita það. Til þess að það komi okkur ekki á óvart þegar skyggir og til þess að við vitum að það birtir alltaf aftur. Og til þess að við vitum að það er óhætt að taka á móti gleðinni án þess að óttast að hún hverfi strax. Við höfum sagt hver annarri söguna um konuna á Hringbrautinni. Hana sem stoppaði á græna ljósinu og sagði löggunni að það hefði verið af því að það var búið að vera grænt ljós svo lengi að það hlaut að vera alveg að verða búið.
Við heyrðum í því sem þær Ásdís og Inga sögðu að það er gott að eiga vináttu hver annarrar. Og það er þessi vinátta sem er aðal markmið okkar. Það er það að geta hist og fundið að við eigum hver hjá annarri uppörvun til að fara með þangað sem við förum þegar við förum hver í sína átt. Okkur langar svo til að vera bæði griðastaður og uppspretta dugnaðar og dómgreindar hver fyrir aðra. Við erum stundum spurðar hvers vegna við gerum ekki miklu meira til að auglýsa okkur og svörum því að það sé kannski vegna þess að við nennum ekki að auglýsa okkur en miklu frekar vegna þess að við þurfum allra helst að vera griðastaður og uppspretta dugnaðar og dómgreindar fyrir hver aðra. Það myndi skipta svo litlu þótt við værum mörg þúsund ef við værum ekki vænar og yndislegar manneskjur. Það er eins og stendur í Korinþubréfinu að þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleikann væri ég ekki neitt. Kannski verðum við einhvern tíma mörg þúsund vænar manneskjur. En þangað til verðum við bara við. Þú og við hinar. Og það er nú alveg nóg. Við heyrðum í ritningarlestrinum að fólk Guðs, fólkið okkar, fólkið sem við tilheyrum, hefur alltaf talað um myrkrið og ljósið. Það vissi að Guð er ljósið. Og að Guð kom og var Jesús, frelsari okkar. Og að hann frelsar okkur frá dimmum hugsunum svo að við getum hugsað bjartar hugsanir. Og svo að við getum búið með dimmu hugsunum þegar við getum ekki annað. Við getum búið með þeim án þess að þær bugi okkur og án þess að við reynum að hlaupa frá þeim. Við búum bara með þeim þangað til þær fara. Og þær fara þegar við getum opnað fyrir bjartari hugsununum. Þetta er allt einhver leyndardómur og ekki alveg á okkar snærum. Því Guð er hjá okkur í dimmu hugsununum og gefur okkur sínar björtu og þægilegu og skemmtilegu og dugmiklu hugsanir. Og Guð gefur okkur dómgreind þegar við þurfum hana. Stundum gerist eitthvað sem við getum ekki bara búið með og beðið eftir að fari. Það er eitthvað sem gerist og við verðum að bregðast við, segja eitthvað eða gera eitthvað, svara, verjast og sækja á. Það er þá sem við þurfum að grípa til dómgreindarinnar, vita hvað við eigum að gera og hvernig og hvenær. Þetta er allt til umhugsunar þegar við sveipum um okkur myrkrinu í skammdeginu. Það er líka þar sem við förum að hugsa um undirbúninginn fyrir jólin. Jólagjafirnar og jólakortin og jólaboðin. Sumum okkar finnst þetta allt svo skemmtilegt og kvíða engu, sumum finnst þær ekki hafa tíma til að stússa þetta og sumar vildu fara til Spánar og eiga jólin í friði. Við skulum uppörva hver aðra til að fara okkar eigin leið. Það er hægt að byrja núna og kaupa jólagjafir. Það er hægt að fá vinkonur með okkur í búðir. Það er hægt að kaupa kökur og láta þvo dúka í þvottahúsum. Og það er hægt að senda jólakortin eftir jól, alveg þangað til í maí og júní og löngu eftir það. Og það er hægt að fara til Spánar, líka þótt einhverjum öðrum finnist það út í bláinn og myndu aldrei gera það sjálf. Það er best að hafa þetta eins og best liggur fyrir hjá þér og þínum. Njótum nú ljóssins í myrkrinu alla þessa góðu daga til jóla. Og svo auðvitað áfram. Það er okkar eigin ákvörðun hvernig við tökum á móti þessum tíma. Ég er sterklega að hugsa um að gefa okkur eitt ráð til að búa með í myrkrinu. Og ég er viss um að það er ljós í myrkrinu og gerir myrkrið svo mjúkt og glaðlegt. Það er þetta: Gerðu bara eitthvað sem gerir þessa daga til jóla betri. Eitthvað sem passar fyrir þig. Eitthvað sem gerir þér gott. Eitthvað sem ver þig gegn því að finnast þú vera að verða alltof sein með allt. Veldu það sjálf. En veldu það og gerðu það og láttu þér svo vera alveg sama um það sem þú ætlar ekki að gera, af því að þú hefur ekki tíma til þess eða langar ekki til þess eða nennir því ekki. Ég held að það sé að vinna með Guði. Taka í hendina á henni og þiggja það að hún geri þetta með okkur. Þá verða dagarnir betri. Þér líður betur. Þú verður glaðari. Hin verða glaðari. Það er það að finna ljós Guðs og taka það og nota það og njóta þess. Því Guð er í dögum okkar og dagarnir í hendi Guðs. Hún blessar þig. Amen