Upplýsingar

Góðu konur, góða fólk. Það er yndislegt að sjást og heyrast á þessu góða kvöldi 19. júní.
Það er vel til fallið að tala um boð í kvöld, eins og Helga Guðrún las fyrir okkur úr Biblíunni um boð Guðs. Það er mikil hátíð í dag, endurómurinn af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar í fyrradag og 100 ára afmæli Háskóla Íslands, og svo okkar sameiginlegu hátíðahöld í allan dag. Ég byrjaði á að lesa kvenfrelsismoggann með morgunkaffinu og svo hlustaði ég á Erlu Huldu og svo kvennamessuna í Grafarvogskirkju. Og núna erum við hér allar saman til að halda hátíð.

Það er miklu skemmtilegra að vinna saman. Kvenfélagasambandið og kvenréttindafélalgið og Kvennakirkjan hafa haldið 19. júní messu í Laugardal í fjölmörg ár og þær byrjuðu undir forystu Ingu Jónu Þórðardóttur á lýðveldisafmælinu 1994.
Við skulum líka minnast Steinunnar Ingimundardóttur, sem nú er nýlátin. Hún var í undirbúningshópi þessa guðþjónustuhalds í byrjun sem fulltrúi Kvenfélagasambands Íslands. Hún var framúrskarandi, röggsöm og hógvær og alúðleg og það var gott að vera með henni. Hún var húsmæðrakennari og tók sér margt fyrir hendur og var meðal annars skólastjóri húsmæðraskólans á Varmalandi og starfaði síðar á Leiðbeiningartöð heimilanna hjá Kvenfélagasambandi Íslands.

Við skulum halda áfram hugleiðingum um góðar konur sem við höfum þekkt og hafa styrkt okkur og glatt. Það er fátt jafn gott og að þekkja verulega góðar manneskjur og yndislegt að fá að vinna með þeim. Ég hef margoft, og þú líklega líka, verið í kvennahópum þar sem einhver fór að lýsa einhverri góðri konu og hinar tóku við. Þær sögðu kannski frá henni Sigríði frænku sinni vestur í bæ sem fluttist ung austan af fjörðum og vann fyrir sér í fiski eða við uppþvott á Hressó hérna í Reykjaví, eða frá henni Margréti ömmu sinni sem ól upp mömmu þeirra og mörg systkini og var alltaf á þjóðbúningi eftir hádegi og tók á móti fjölda vinafólks í ettirmiddagskaffi. Eða frá henni Halldóru sem var æðst og flottust á skrifstofu á Akureyri strax á fyrri hluta fyrri aldar. Þær áttu stórar fjölskyldur og voru þeim dýrmætar, hvort sem þær bjuggu undir sama þaki og þær eða voru sjálfra sín á sínu eigin heimili. Þetta eru alltaf stórkostlegar sögur, svo sannar og fallegar, og gleðja okkur svo mikið sem fáum að heyra þær. Og falla vel í hátíðahöld dagsins.

Þú, elskan mín, hefur alltaf verið aðalatriðið. Og í kvöld ætla ég að hafa framhaldið af ræðum og hugleiðingum og hátíðahaldi dagsins um þig.

Ég ætla að fela þig inn í söguna um Guð sem sópar húsið sitt og inn í sögurnar um Sigríði, Margréti og Halldóru sem voru svo yndislegar eins og hún. Og eins og þú. Ég ætla að tala um þig í kvöld.

Ég ætla að gleðja þig. Með því að segja þér að þú ert yndisleg manneskja og festa fyrir fólkið í kringum þig í ringulreiðinni sem gengur yfir.

Með því að segja þér að þú skiptir svo miklu fyrir fjölda fólks. Og það skiptir svo miklu að þú vitir það og gleðjist yfir því. Því það skiptir svo miklu hvað þú hugsar um sjálfa þig. Það skiptir máli fyrir þig. Og það skiptir máli fyrir allt fólkið í kringum þig.

Með því að segja þér að kvennabaráttan sem er barist núna á upphaf sitt hjá kristnum konum úti í heimi sem voru aldar upp í mótmælendakirkjunni. Það voru konur sem lærðu það heima hjá sér og í kirkjunni að þær væru mikils virði og algjörlega hæfar til að taka þátt í kirkjunni, til að prédika og til að stjórna.

Með því að segja þér að þetta sýnir mátt kristinnar trúar. Það sýnir ást Guðs sem sópaði húsið sitt til að leita að kvenfrelsinu sem var týnt og gefa það öllum konunum sem hún bauð í ettirmiddagskaffið.

Og nú skulum við tala um þetta mikla boð. Jesús segir að Guð sem hélt þetta boð hafi verið kona. Það var Jesús sem sagði það.

Guð sem skapaði himin og jörð og fólkið er ekki María mey og ekki gyðjan mikla og ekki alheimskrafturinn sem knýr allar manneskjur til að leita að einhverjum guði. Guð er guð sem kom og var Jesús. Guð sem leitar og finnur og heldur boð þegar hún finnur.

Við skulum tala um það í kvöld hvernig hún leitar að þér. Ætli það sér ekki svoleiðis að þú rápir stundum frá henni með því að fylla huga þinn af asnalegum hugsunum eða einhverjum öðru vísi hugsunum sem eru bráðvondar fyrir þig.

Ég held að það sé alls ekki fjarri því að fagnaðarerindið sé einmitt um það, um það hvernig Guð fer þá strax að leita að þér til að gefa þér aftur góðar hugsanir sem gera þér gott. Hún gefur þér sínar eigin hugsanir. Og engar eru betri.

Það voru hugsanirnar sem konurnar fengu í kvennabaráttunni og hugsanirnar sem Sigríður, Margrét og Halldóra fengu þótt þær hugsuðu aldrei um kvennabaráttuna og höfðru kannski aldrei heyrt á hana minnst. Þær voru samt hluti af henni, af því að þær voru flottar og góðar manneskjur.

Eins og þú. Kannski talar þú ekkert um baráttu þótt þú takir þátt í kvennabaráttunni með því að vera og gera lífið betra fyrir þér og öðrum.

Þér tekst aftur og aftur að gera lífið betra af því að alltaf þegar það mistekst ögn á ýmsum dögum og af ýmsu þá leitar Guð að þér. Og gefur þér aftur hugsanir sínar. Ég er handviss um að það er bara fagnaðarerindið sjálft.

Það er fagnaðarerindið að þú mátt vakna á hverjum morgni í þeirri fullvissu að Guð hefur fyrirgefið þér og þú mátt líka fyrirgefa þér. Þú mátt vera viss um að náð Guðs sveipast um þig og það eina sem þú þarft að gera er að fylla hjarta þitt af Jesú Kristi frelsara þínum sem er Guð sem er hún, vinkona þín, sem heldur boð og býður öllum af því að hún á þig.

Ég ætla að ljúka með tilvitnun í hátíðlegt ljóð sem við syngjum stundum hérna í 19. júní messunum.
Gunna, Gunna, safnaðu sjálfri þér saman,

Gunna, Gunnar, farðu með sjálfa þig heim.

Ég ætla að gleðja þig í lokin með því að þetta, að geta safnað sér saman og farið með sig heim, er ekki bara á þínum snærum. Það væri svo erfitt ef þú ættir bara að gera þetta ein. En þetta er samstarfsverkefni okkar og Guðs.

Við getum það ekki án hennar – og hún getur það ekki án okkar.

Þú hefur áreiðanlega oft séð og fundið hvernig það sem þú hugsar og finnur fer eftir því sem þú gerir. Og hvað það sem þú gerir fer eftir því sem þú hugsar og finnur. Og þessi samvinna þín við þig er líka samvinna þín og Guðs.

Ég ætla bara að taka eitt dæmi. Það er um jafn hversdaglegan viðburð og að sópa okkar eigin hús. Hún Steinunn Ingimundardóttir sem ég talaði um í upphafi og vann í leiðbeiningarstöð heimilanna hjá kvenfélagasambandinu gaf þau gullgóðu ráð að þvo með ediki og sítrónum. Og það er minn persónulegi vitnisburður að það er alveg dásamlegt. Og þegar ég sópa og þvæ allt sem ég þori með sítrónum og ediki þá ljómar húsið og hugsanir mínar verða eins og fjallavötning fagurblá og þegar ég er komin niður á Laugaveg og hitti fólk sé ég hvað því finnst bara verulega gott að spjalla við mig stundarkorn.

Þú ert kona sem sópar þitt eigið hús. Og kona sem sópar þinn eigin hug. Og Guð er vinkona þín sem sópar sitt hús þegar þarf að leita að þér og heldur boð þegar hún finnur þig og gefur þér sínar eigin hugsanir – um sig og um þig og um okkur allar hinar. Þess vegna er það svo mikilvægt fyrir okkur að þú og hún séuð alltaf vinkonur og að þú sért hjá okkur. Amen.