Upplýsingar

I.
Takk fyrir þetta yndislega samfélag kæru vinkonur,  – samfélagið okkar við Guð sem kom til okkar sem Jesús og við hver aðra þar sem við tókum þátt í heilagri kvöldmáltíð og útdeildum brauði og víni okkar í milli. Eins og þið vitið var það Jesús sjálfur sem stofn¬setti heilaga kvöldmáltíð. Um það getum við lesið hjá guðspjalla¬¬-mönnunum, þeim Matteusi, Markúsi og Lúkasi, einnig hjá Páli postula.  Þeir greina allir frá síðastu kvöldmáltíðinni sem Jesús átti með lærisveinum sínum áður en hann gekk í gegnum þjáningu og dauða á krossi, – og reis upp frá dauðum á þriðja degi. Með kvöldmáltíðinni og fyrirheitinu henni tengdri gaf hann kirkjunni sinni, okkur öllum, tækifæri til að mæta sér á persónulegan og áþreifanlegan máta og taka við gjöfinni sem líf hans og fórnardauði er. Gjöf sem felur í sér fyrir¬gefn¬ingu misgerða okkar og endurnýjar og endurnærir samfélag okkar við Guð vinkonu okkar aftur og aftur.
Í guðfræðiumræðu fyrri tíma var tekist kröftuglega á um með hvaða hætti mætti skýra nálægð Jesú í heilagri kvöldmáltíð. Þau átök voru fyrirferðarmikil í tengslum við gagnrýni Lúthers á rómversk-kaþólsku kirkjuna á sínum tíma. Andstætt sjónarmiði hennar taldi Lúther það ekki þurfa mikilla skýringa við heldur ætti fyrst og síðast að treysta fyrirheiti Jesú um að vera nálægur, í brauðinu og víninu, eins og orð hans í ritningunni gefa skýrt til kynna. Þau voru fullnægjandi að mati Lúthers, enda Biblían mælisnúran er allt skyldi miðast við.
Það er við hæfi nú þegar páskahátíðin er ný yfirstaðin, að staldra aðeins við og hugleiða innhald og tilgang heilagrar kvöldmáltíðar, -altarissakramentisins, og samhengið sem hún sprettur úr. Í því kristallast merkingarþrungin saga Jesú. Saga kærleiksboðskapar og þjónustu, mótlætis og þjáningar, en um leið saga óumræðilegrar gleði sem við eigum hlutdeild í og minnumst á hverjum páskadegi og alla dagana þar í milli.
II.
Munið þið eftir rokkóperunni Jesus Christ Superstar eða Jesús Kristur Súperstjarna eftir þá Tim Rice og Andrew Loyd Webber?
Ég geri ráð fyrir að þið þekkið hana flestar og hafið séð hana í einni eða annarri uppfærslu liðinnar ára og áratuga. Sjálf minnist ég þess að hafa séð fyrstu uppfærsluna, í leikstjórn Péturs Gunnarssonar, í Austurbækjarbíói árið 1972, en helstu popparar þess tíma fóru með hlutverk í sýningunni. Það var mikil upplifun fyrir 11 ára stúlku að sjá og njóta þessa viðburðar. Ég heillaðist af tónlistinni og hef oft hlustað á hana í gegnum árin, – gríp jafnvel til plötunnar minnar enn þann dag í dag. Einmitt þess vegna ákvað ég að horfa á kvikmynd sem byggð er á þessu verki og sýnd var í danska sjónvarpinu á annan í páskum. Ég var að dútla heima við, undirbúa komandi viku og fannst tilvalið að hlusta á þessa yndislegu tónlist á meðan.
Í rokkóperunni og myndinni þar á meðal er píslarsagan sögð frá sjónarhóli Júdasar – lærisveinsins sem sveik Jesú. Sjónarhornið er þröngt og ekki öll sagan sögð. Eins og þið kannski munið lýkur henni á krossfestingu Jesú. Þannig var upprisan, – upprisa Jesú á þriðja degi ekki  hluti hennar.
En af hverju er ég að velta þessu upp hér og gera hálfsagða sögu, – hluta fagnaðarerindisins, að umfjöllunarefni prédikun minnar?
Jú, það er vegna þess sem fangaði athygli mína þegar ég datt inn í myndina, – eitthvað sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir þegar ég sá hana á sínum tíma. Það var frásagnarmátinn sem notaður var bæði í máli og mynd og þá kannski sérstaklega þær hugsanir og tilfinningar sem gerðu vart við sig í huga mínum og hjarta.
Myndin, sem tekin var upp í Ísrael og nærumhverfi, hófst á því að leikarahópurinn sem tók þátt í uppfærslu rokkóperunnar kemur með rútu á tökustað. Umhverfið allt var eins litlaust og þurrt eins og eyðimörkin ein getur verið og leikmynd lítil sem engin. Svona eftir á að hyggja studdi það við vonlaust og lífvana andrúmsloft sögunnar sem varð æ fyrirferðarmeira eftir því sem henni vatt fram. Á þeim tímapunkti þegar ljóst er að Jesús hefur fengið valdhafa samfélagsins upp á móti sér með orðum sínum og framkomu og sýnt er að það muni draga dilk á eftir sér, er sjónarhorninu beint að lærisveinum hans, – Símoni Pétri og Maríu Magdalenu sérstaklega. Þau tjá vonina sem þau bundu við Jesú og boðskap hans og væntingarnar sem virtust nú vera við það að bresta. „Þetta kom okkur á óvart“ segja þau. Líklega hafi Jesú og þau þar á meðal gengið of langt í að koma fagnaðarboðskapnum á framfæri. „Skynsamlegast væri nú að staldra aðeins við.“ – „Gætum við kannski byrjað upp á nýtt?“ spyrja þau Jesú. Á meðan þetta á sér stað er sýnt hvernig Jesús fjarlægist og hverfur sjónum þeirra smátt og smátt. Þau fylgja honum ekki, heldur standa eftir. Þeim tekst ekki að horfa til framtíðar því í huga þeirra er öllu þegar lokið. Hefðu þau gert það, trúað á boðskap hans og fylgt honum til enda, til nýs lífs, hefði allt orðið öðruvísi. Í lok myndarinnar þegar Jesús hefur verið krossfestur er sjónarhorninu breytt og kastljósinu aftur beint að leikarahópnum í heild sinni. Einn af öðrum stíga þeir inn í rútuna, án Jesú, og hún ekur á brott.
Myndmálið var svo áhrifaríkt og sannfærandi. Það kallaði fram tómleikatilfinningu og vangaveltur um hvernig allt hefði getað orðið fyrir mig og fyrir þig, fyrir okkur allar, ef þjáningin og dauðinn hefði ekki beðið ósigur gagnvart lífinu.
Hvernig væri allt ef sjónarhorn okkar væri það sama og sjónarhorn Símon Péturs og Maríu Magdalenu var í kvikmyndinni? Hvernig væri allt ef engin væri upprisan? Hvernig væri líf okkar án páskanna?
TÓNLIST – ALLA
„Ég kveiki á kertum mínum“ – sálm. 143
III.
Frásagan sem bókmenntaform er sterk í gyðing – kristinni trúarhefð. Með því að segja sögu og lifa okkur inn í hana ræktum við trú okkar og minnumst þess hver Guð er og hvað hún hefur gert fyrir okkur og gerir fyrir okkur. Frásagan er sérstaklega áberandi á föstunni og páskahátíðinni þegar píslarsagan og sagan af upprisu Jesús er rakin í tali og tónum í kirkjum hér á landi og út um allan heim. Í þessu sambandi minnist ég sérstaklega páskahátíðarinnar í Jerúslem þar sem ég bjó á sínum tíma. Minningin er svo litrík og lifandi, kannski sveipuð pínulítilli dulúð, enda annað óhjákvæmilegt þegar að manneskja á mót við fortíð, nútíð og framtíð í einu og sama augnablikinu. Vorið var komið, litríkar plönturnar blómstruðu allt í kring, líka í þurrum jarðveginum, – andstætt því sem kvikmyndin sýndi og ég lýsti fyrir ykkur hér áðan. Pílagrímarnir streymdu alls staðar að til að feta í fótspor frelsarans í aðdraganda hátíðarinnar, – á pálmasunnudegi, í kyrruviku og til að fagna á upprisuhátíðinni sjálfri. Kirkjurnar tóku hlutverk sitt svo sannarlega alvarlega; að segja sögu Jesú í orði og verki svo hægt væri að upplifa hana á sem áhrifaríkastan hátt. Sagan, staðreyndirnar og tilfinningarnar sem henni fylgja, á svo greiðan aðgang að hjörtum okkar, hefur mótandi áhrif á okkur og byggir okkur upp fyrir dagana.
Það er ekki auðvelt að setja þetta einstaka andrúmsloft í Jerúsalem forðum í orð. Það lá eitthvað í loftinu þegar nær dró páskum og þetta eitthvað kallaði fram eftirvæntingu, gleði og samhljóm. Ég minnist eins skírdagskvölds þegar ég gekk í hópi fólks leiðina sem Jesús fór á sinni síðustu páskahátíð í borginni. Við stöldruðum við staðinn þar sem hann naut síðustu kvöldmáltíðarinnar með lærisveinum sínum, lásum saman úr ritningunni og hlýddum á hljóma trompetsins óma í kvöldmyrkrinu. Hið sama átti sér stað þegar við stoppuðum við Getsemane garðinn þar sem Jesús var handtekinn og við Grafarkirkjuna sem byggð var á staðnum þar sem hann var grafinn. Á páskadegi – degi gleðinnar, minntumst við svo kraftaverksins sem Guð gerði á páskum þegar hún reisti son sinn upp frá dauðum. Við fögnuðum vegna gleðiboðskaparins um að Jesús sigraði dauðann fyrir okkur, mig og þig, og gaf okkur með því eilíft líf og frelsi. Hún sýndi okkur að við erum í hendi hennar í lífinu, í dauðanum og handan grafar og dauða. Þannig horfðum við ekki á eftir Jesú í vonleysi eins og María Magdalena og Símon Pétur í kvikmyndinni heldur vorum og erum við hjá honum í voninni.
TÓNLIST – ALLA
„Sigurhátíð sæl og blíð“ – sálm. 147
IV.
Með upprisu Jesú á páskahátíðinni er öll sagan sögð. Páskarnir breyttu öllu. Á grundvelli upprisunnar eignuðumst við hlutdeild í nýju lífi, eilífu lífi, með Guði. Á þeim grundvelli byggir samfylgd okkar og nálægð við Jesú, – í heilagri kvöldmáltíð eins og hann gaf okkur fyrirheiti um og við tókum þátt í hér saman áðan, og hvar og hvenær sem er. Á hverjum páskum minnumst við þessa. Á hverju degi lifum við þetta og reynum, – líka hvernig það mótar samskipti okkar og líf með hver annarri.
Í textum þessa sunnudags, 2. sunnudags eftir páska, er hirðirinn miðlægur, – hirðirinn umhyggjusami sem stendur vörð um og hlúir að samfélagi trúaðra. Við, ég og þú, erum líka hirðar, alveg eins og við erum allar prestar. Okkar hlutverk er að hlúa að samfélagi okkar hér í Kvennakirkjunni og passa upp á hver aðra. Það gerum við m.a. með því að hlusta hver á aðra og heyra hvað við þráum og hvað Guð þráir fyrir okkur.
Í umræðum okkar eitt sinn sem oftar ræddum við einmitt þetta. Í því sambandi sagði Elísabet okkur frá því að aðspurð hefði Móðir Teresa sagt eitt sinn að í bæn sinni til Guðs hlusti hún í stað þess að tjá hana í orðum. Og að Guð svaraði henni á sama hátt, – með því að hlusta!
Megi gleði páskanna streyma um alla daga okkar. AMEN