Upplýsingar

Prédikun Arndísar G. Bernhardsdóttur Linn í guðþjónustu í Laugarneskirkju.

Ég fyrirgef þér – vilt þú ekki gera það líka?

Biblíutextinn sem ég ætla að tala út frá í dag er úr Lúkasarguðspjalli þar sem sagt er frá því að einn daginn var Jesús að kenna vinum sínum og vinkonum. Í hópnum var kona. Hún hafði verið veik í átján ár. Hún var öll kreppt og gat alls ekki rétt úr sér. Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: ,,Kona, þú ert laus við það sem hrjáir þig“ svo lagði Jesús hendurnar sínar ofurblítt yfir hana og um leið gat hún rétt algjörlega úr sér. Og hún upplifði frelsi og þreyttist ekki á að láta alla í kringum sig vita hvað Guð væri góð og hversu megnug hún væri. (Luk 13:10 – 13)

Fyrir nokkru heyrði ég örstutta sögu sem hefur setið í mér og mig langar að segja ykkur. Einu sinni voru nokkrir pínulitlir fuglsungar, nýkomnir úr eggjunum sínum sem fóru á námskeið til að læra að fljúga. Fyrstu dagana æfðu þeir sig í að hoppa um. Næsta dag byrjuðu þeir að teygja út vængina og blaka þeim hægt og rólega. Svona gekk þetta dag eftir dag þangað til þeir höfðu allir náð góðum tökum á fluginu og gátu brunað milli trjánna á fullri ferð. Þar sem þeir voru orðnir fullfleygir var námskeiðið búið og það var haldin útskrift. Foreldrum þeirra var boðið  og við hátíðlega athöfn fengu allir ungarnir viðurkenningarskjöl. Þegar útskriftin var búin stungu ungarnir viðurkenningarskjölunum undir vængina og löbbuðu heim.

Ég held við getum heimfært þessa sögu uppá svo margt í lífi okkar jafnvel  trúna okkar og traustið sem við berum til Guðs.  Lífið færir okkur ótalmörg verkefni, það er endalaus runa af ýmiskonar námskeiðum. Við lifum í margskonar veruleikum, lendum í ólíkum aðstæðum. Við biðjum, finnum og skynjum verkuleika trúarinnar, upplifum nálægð og bænheyrslu Guðs , verðum fyrir uppljómun eða við upplifum kraftaverk.  Við finnum að traust okkar á Guði vex. En svo klárast námskeiðið, dagurinn eða tímabilið, tíminn líður og minningin og reynslan fölnar. Við hættum að vera meðvituð um að við höfum lært að treysta Guði. Við gerum eins og ungarnir , við fyllumst efa,  stingum traustinu undir vænginn eða í vasan og gleymum að við getum nýtt okkur traustið og trúna á Guð á hverjum degi, alla daga, allt lífið.  Okkur hættir til að gleyma að ef treystum Guði algörlega er allt mögulegt.

Á sama hátt getum við heimfært söguna uppá fyrirgefningu Guðs – þó við þurfum að vera með það alveg á hreinu, eins og Auður lagði áherslu á í prédikun sinni í Fríkirkjunni, að hún fyrirgefningin kemur utanfrá –– Við búum hana ekki til sjálf.  Hún kemur til okkar frá Guði sjálfri.

Samt eru við svolítið eins og ungarnir. Við heyrum og skynjum að Guð hefur fyrirgefið okkur og svo er eins og við snúum okkur í hring og gleymum. Stundum er jafnvel einsog við séum ekki tilbúin til að leyfa Guði og fyrirgefningunni að virka af alvöru í lífi okkar.– jafnvel þó Guð standi þétt við hliðina á okkur og láti blíðlega í sér heyra – ,,Fyrirgefðu vinan, ég er löngu búin að fyrirgefa þér – af hverju vilt þú ekki gera það líka ?“

Konan sem við heyrðum um í upphafi í Lúkasarguðspjalli var kreppt og gat ekki rétt úr sér. Við vitum ekki hvað það var sem hrjáði hana. Ég ætla að gefa mér í dag að þessi kona sé nútímakona og það sem hrjái hana og kreppi sé það sem hrjáir margt fólk í dag. Hugsanir. Óboðnar og erfiðar hugsanir. Hugsanir um fortíðina sem fylltu hana skömm, um mistökin sem hún hafði gert, um allt sem hún var ósátt við, reið og ringluð yfir. Hugsanir sem fengu hana til að segja við sjálfa sig, Ég hefði átt að gera svona en ekki hinseginn, ég hefði ekki átt að segja þetta, ég hefði ekki, ég hefði ekki…..

Og svo hrjáðu hana líka og krepptu hugsanir um framtíðina sem gerðu hana áhyggjufulla og fylltu hana kvíða. Hvað ef ég hef ekki efni á að borga reikningana næsta mánuðinn? Hvað ef ég missi vinnuna? Hvað ef makinn minn verður veikur, Hvað ef ég get ekki sinnt öllum hlutverkunum sem ég á að sinna, Hvað ef , ef, ef…

Ég veit það ekki en Kannski getur þú bætt við nokkrum hugsunum, sem þú þekkir sjálf eða hefur heyrt hjá öðrum.

Um helgina var ég að glugga í bók eftir hollenskan prest sem heitir Henry Nouwen og hann er svolítið að velta fyrir sér hvernig við horfum á lífið.

Hann segir að þegar við lítum til baka yfir lífið hætti okkur til að skipta því upp í góðu hlutina sem við erum þakklát fyrir og vondu hlutina sem við viljum helst gleyma. Hann segir að það sé  erfitt að skipta fortíðinni þannig og það geti verið óskaplega erfitt að gleyma. Og ef það er margt sem við höfum hugsað okkur að gleyma þá sé  hætt við að göngum kreppt inní framtíðina.

En það getur tekið á að skoða líf sitt og atburði í ljósi fyrirgefningarinnar. Það er eitt og annað í lífi okkar allra sem við höfum tilhneygingu til að hafa sektarkennd yfir og skammast okkar fyrir og væntanlega líka einhverjir atburðir sem við vildum einfaldlega að hefðu aldrei gerst. En í hvert skipti sem við höfum hugrekki til að meðtaka fyrirgefningu Guðs og skoða allt líf okkar í ljósi þeirrar staðreyndar að Guð hefur þegar fyrirgefið okkur það þá breytist allt.

Þá getum við fundið hvernig fyrirgefningin og frelsið sem henni fylgir breytir því hvernig við hugsum um okkur sjálf og umheiminn. Og þá fyrst getum við rétt almennilega úr okkur.

Jesús lofaði okkur að hann myndi hjálpa til því hann sagði: ,,Komið til mín öll þau sem erfiðið og þunga eru hlaðin og ég mun veita ykkur hvíld“(Matt 11.28)

Hér á eftir ætlum við að hafa altarisgöngu. Um leið og við minnumst Jesú tökum við á móti  fyrirgefningu Guðs á táknrænann hátt, borðum brauðið og drekkum safan og hugsum um hvernig Jesús og fyrirgefning Guðs verkar í okkur. Jesús sér okkur og kallar okkur til sín. Ég hvet ykkur til að hlusta vel hið innra því þið gætuð heyrt hann segja við ykkur eins og konuna í Biblíunni; ,,Kona, þú ert laus við það sem hrjáir þig“ Ég fyrirgef þér – vilt þú ekki gera það líka?

Amen