Markúsarguðspjall
Farísearnir heimtuðu tákn af því að þeir skildu ekki neitt í boðskap Jesú. Þeir heimtuðu ekki tákn til að skilja heldur til að safna ástæðum til að ákæra hann. En hópur Jesú skildi heldur ekki ennþá fagnaðarerindið sem Jesús boðaði með orðum og verkum. Það hlýtur að hafa verið sorglegt fyrir Jesúm. Í bátsferðinni yfir vatnið notar hann tækifærið til að tala við þau um árásir faríseanna og Heródesar á boðskap hans. Hann var ofsóttur fyrir boðskap sinn og þá voru þau líka ofsótt. Þau urðu að vara sig og sjá og skilja hvað var á seyði. En þau skilja það ekki. Þau hafa ekki skilið nokkurn skapaðn hlut í öllum þeim miklu kraftaverkum sem Jesús gerði. Þau sáu bara að hann gat gert mikið brauð úr litlum skammti. Ætli það sé ekki svipað núna þegar við dáumst að góðu velferðarstarfi en gerum okkur ekki nokkra grein fyrir því að það er kraftaverk Guðs? Hvað heldur þú? Síðustu versin segja frá enn einu kraftaverki. Þótt hópurinn hans skilji ekki kraftaverkin heldur Jesús samt áfram að gera þau. Við getum tekið það sem skilaboð til daglegs lífs okkar. Þótt annað fólk skilji ekki frábærar hugmyndir okkar og framkvæmdir skulum við samt halda áfram.
8.27-30
Jesús var við Galíleuvatnið og nú fer hann með hópinn norður með Jórdan og til Sesareu Filippí og þorpanna þar í kring. Hann talar við hópinn á leiðinni, alltaf tilbúinn til að kenna samstarfsfólkinu sem hann elskar og metur svo mikils. Þau hafa orðið fyrir miklum árásum ráðamanna. Þeir heimtuðu tákn um það að hann væri kominn frá Guði eins og hann sagði. Hvað er annars sagt um hann? Fólkið hans segir honum það. Þau vitna í samtölin sem við lásum um í 6.14-16. Þau segja að þú sért Elía eða einn af spámönnunum. En hvað hefur hópurinn hans skilið? Þau hafa sýnt að þau skilja lítið. Ætli einsemdin hafi ekki gagntekið Jesúm? Við lesum aftur og aftur um sorg hans yfir skilningsleysi síns eigin samstarfsfólks. En nú verður allt betra. Þau höfðu samt skilið meira en þau sýndu svo oft. Þú ert Kristur, segir Pétur. Það er trúarjátning, traustsyfirlýsing, gleðihróp. Þú ert sá sem er skrifað um í Ritningunni, þú ert sá sem Guð ætlaði að senda. Þú ert Guð. Kirkjan hefur alltaf vitnað með gleði til játningar Péturs. En hún leit fram hjá játningu Mörtu þangað til kvennaguðfræðin dró fram kaflann um hana í Jóh. 11.27. Hún sagði við Jesúm: Ég trúi að þú sért Guðs sonur, sem koma skal í heiminn. Nú er kominn tími til þess að kirkjan viðurkenni það að Jesús talaði líka við konur um boðskap sinn og gerði þær að samstarfskonum, sögðu brautryðjendur kvennaguðfræðinnar og við segjum það líka.
8.31-38
Markúsarguðspjall er hálfnað og tekur nýja stefnu. Markús hefur skrifað um hin miklu kraftaverk sem Jesús gerði. Þau voru til að sanna að hann átti máttinn sem þau sýndu. Hann átti mátt Guðs. Af því að hann var Guð. Um leið og hann var manneskja sem hafði alveg sömu takmarkanirnar og fólkið í kringum hann. Hann varð svangur og þyrstur, reiður, sorgmæddur og einmana. En hann var Guð. Eins og Marta og Pétur játuðu í djúpri gleði sinni. Það var undursamlegt að sjá það. Gott eigum við öll sem sjáum það í trú okkar. Nú fer alvaran að dýpka. Jesús tekur stefnuna til Jerúsalem. Og þar bíður krossinn. Hann veit það og segir hópnum sínum það. Þeir útskúfa mér. Og þeir lífláta mig. En ég rís upp. Pétur þykist vita betur en Jesús og Jesús reiðist honum gífurlega. Hann heldur áfram að segja hópnum sínum frá alvörunni sem bíður og kallar til sín mannfjöldann til að hlusta líka. Þið verðið að velja. Það er valið um mig eða allt sem þið látið fylla huga ykkar. Það gagnar ykkur ekkert að eiga það allt ef þið hafnið mér. Og ef þið hafnið mér þá verð ég að hafna ykkur. Alvaran er mætt. Líka til okkar. Nú er það okkar að velja. Versið sem ég vel getur hljómað svona: Hver sem metur mig meira en allt annað í lífinu mun finna líf sitt.
Jesús er farinn að tala um upprisuna. Bæði við hópinn sinn og mannfjöldann. Markús hefur aftur og aftur skrifað að Jesús hafi ekki viljað að fólkið sem hann læknaði segði frá sér. En nú fer hann að segja meira. En hann bannar þeim sem hann tók með sér upp á fjallið að segja hvað gerðist. Við trúum því að það hafi verið þrjár konur með í ferðinni þótt Markús geti þess ekki. Það kann bara að vera að þær hafi verið fimm eða tíu og Markúsi hafi ofboðið að þær skyldu vera svona margar þegar bara þrír af mönnunum fóru. Á fjallinu talaði Guð við þau og sagði þeim, eins og þegar Jesús var skírður, að Jesús væri sonur sinn. Fólkið hans er enn fast í umtalinu um táknin. En þau hafa heyrt um upprisuna og eru farin að skynja að það er hún sem verður mesta kraftaverkið.
9.14-32
Flest úr hópnum voru eftir þegar Jesús fór með nokkur þeirra upp á fjallið. En þau sem voru eftir fá það erfiða verkefni að gera kraftaverk. Þau geta það ekki. En seinna gefur Jesús þeim máttinn til að gera kraftavekin sem hann gerði sjálfur. Þau voru enn ekki tilbúin og Jesús verður sorgmæddur yfir því hvað þau eru treg. Hann dregur þau út úr skaranum, fer með þau inn, til að tala við þau ein. Þeir handtaka mig. Þeir framselja mig til Rómverjanna sem taka mig af lífi. En ég rís upp eftir þrjá daga. Samtalið er svo þrungið að hópurinn fær ekki af sér að segja Jesú að þau skilji þetta ekki. Þeim svipar til föður drengsins sem Jesús læknaði þegar hópurinn hans gat það ekki. Jesús bað hann að vantreysta sér ekki. Þau geta allt sem trúa, sagði hann, og maðurinn játaði trú sína og játaði líka veikleika trúar sinnar. Versið sem ég vel gæti hljómað svona: Ég trúi. En ég ræð ekki við vantrú mína. Breyttu henni í trú. Það er gott fyrir okkur að vita og íhuga oft og vel að trúin er ekki próf heldur vinátta við Jesúm.
9.33-37
Við sjáum hvað Markús hefur talað mikið um kraftaverk. Ég skrifaði í hugleiðingu við versin í 5.35-43 að flest kraftaverkin sem Jesús gerir núna eru öðru vísi en lækningarkraftaverkin sem hann gerði þá. En þau gerast jafn oft og þá. Og í sama mætti og þá. Og þau eru eins og þá sigur Guðs yfir því sem eyðileggur sköpun hennar. Þau gerast í hvert skipti sem góðar hugmyndir og góðar framkvæmdir verða sterkari en vondar hugmyndir og vond verk. Þau gerast þegar við náum taki á hugsunum sem annars eyðileggja okkur og annað fólk. Eins og þessi afar merka frásaga segir. Ég held að hún beri okkur einn þann allra nauðsynlegasta boðskap sem við þurfum að heyra einmitt núna. Við erum alltaf að glíma við samkeppnina og hún vegur að menningu okkar og okkur sjálfum. Það er ekki nýtt. Hópur Jesú fór að tala um það hvert þeirra væri mest þótt Jesús væri nýbúinn að segja þeim að hann myndi bráðum verða tekinn frá þeim. Jesús segir: Hvert ykkar sem vill verða fremst verði síðast allra og þjóni öllum. Þetta eru svo mikilvæg skilaboð að Jesús þurfti að tala meira um þau og við finnum þau aftur í tíunda kafla.
9.38-41
Umræðan um það hver séu mest og hver eigi réttinn heldur áfram. Einhver óviðkomandi maður gerði kraftaverk og sagði að hann gerði það í Jesú nafni. Samstarfshópurinn hafði ekki geta gert kraftaverk þótt hann væri á vegum Jesú. Hvað var þá þessi maður að þykjast vera meiri en þau? En Jesús sagði: Hann getur ekki snúist á móti mér eftir að hafa unnið í mínu nafni. Þetta er svar við okkar eigin umræðu um það hver komi fram með boðskap Jesú af fólki í öðrum trúarbrögðum eða vísindum eða velferðarstarfi. Þau sem eru ekki á móti okkur eru með okkur, sagði hann. Samt sjáum við að fólk sem vinnur að góðum störfum sem gera mörgu fólki mikið gagn andmælir kristinni trú. Hvernig stemmir það við orð Jesú? Svarið við því er að það sé á snærum Guðs en ekki okkar. Og að guðsríkið sé leyndardómur í hendi hennar. Við skiljum ekki allt og þurfum þess heldur ekki sem betur fer.
9.42-50
Þessi vers eru úr ræðu Jesú á fjallinum sem Matteus skrifaði í köflunum fimm til sjö í guðspjalli sínurog eru kölluð Fjallræðan. Það er vitnað til þeirra víðar í guðspjöllunum. Jesús sýnir okkur eins og við höfum áður lesið að það eru hugsanir hjarta okkar sem skipta máli. Það er afstaða okkar sem skiptir máli. Við getum lagt okkur fram um að koma vel fyrir og gæta þess að annað fólk fái ekki ástæðu til að gagnrýna okkur. En það er ekki það sem skiptir máli heldur innsti kjarni okkar. Og innst inni megum við vera bragðmikil eins og bragðið sem saltið gefur og líka logandi eins og eldurinn. Þá sést það líka í framkomu okkar og framkvæmdum. Við munum öll saltast eldi, öll mæta einhverri lífsreynslu. Jesús verður hjá okkur og styrkir okkur. Í kristinni vináttu megum við finna styrk okkar og innbyrðis frið í hópnum.
Þessi kafli er lesinn við skírnina. Við skírn í okkar lútersku þjóðkirkju eru lesnir tveir textar, þessi orð í Markúsargupjalli og boð Jesú í Matt. 28.18-20 um að boða öllum þjóðum fagnaðarerindið og skíra þær í nafni föður, sonar og heilags anda og kenna þeim að láta fagnaðarerindið vera leiðarljósið. Þessir tveir textar eru valdir til að leggja áherslu á að Jesús bauð skírnina og að börnin eru skírð af því að Jesús blessar þau. Þau eru skírð í náð Guðs sem gefur trúna. Trúin sem við skírumst til er ekki okkar verk heldur gjöf Guðs. Það er gjöf Guðs að við getum tekið við henni og notað hana í lífi okkar. Texti morgundagsins vitnar um það eins og fjöldi annarra texta beggja testamentnna. Við játumst því að ala börnin sem skírast upp í kristinni trú. Til þess þurfum við að annast okkar eigin trú og það er auðvitað hin mikla gjöf lífsins að mega annast hana með Jesú sjálfum. Við þurfum að eiga trúnaðartraust barnanna til Guðs, segir Jesús.
10.17-31
Enn er Jesús að leggja upp í ferð. Hann hittir margt fólk eins og alltaf. Hann hittir ríka unglinginn sem vissi ekki hvað hann ætti að gera við líf sitt. Hann sér Jesúm og hleypur til hans og leggur fyrir hann óró sína og angist mitt í iðandi lífinu á götunni. Hann er kominn á réttan stað til hans sem á svarið. Jesú tekur honum með mikilli vináttu. Hann sér hvað þjáir hann. Hann er rígbundinn við auðævi sín. En ef hann vill breyta um afstöðu er hann velkominn í hópinn. En ungi maðurinn grípur ekki tækifærið. Þetta atvik ristir djúpt í samstarfshópnum og Jesús heldur áfram að ræða það, bæði við hópinn sinn og fólkið í kring. Hann talar um peningana sem geta orðið aðalatriðið sem stendur í vegi fyrir því að við lifum í guðsríkinu. Hvað þarf eiginlega til að ganga inn í guðsríkið? Vinkonurnar og vinirnir höfðu bókstaflega yfirgefið allt til þess. Það er nóg, sagði Jesús. Þið fáið laun ykkar. Launin eru þau að eiga guðsríkið í hjarta sér og taka þátt í að rækta það og útbreiða í kringum sig. Það er ekki hægt að skilja þetta. Þau sem koma síðast verða kannski þau fyrstu og þau fyrstu síðust þegar upp er staðið. Við þurfum ekki að skilja þetta heldur treysta Guði.
10.32-40
Ferðinni sem var að hefjast er heitið til Jerúsalem. Alvaran verður þyngri og þyngri. Jesús hefur smátt og smátt sagt hópnum sínum að hann og þau geti ekki vikist undan þessari djúpu og sársaukafullu alvöru. Yfirvöldin handtaka hann og dæma hann til dauða og fá hin hæstu og heiðnu yfirvöld landsins til að taka sig af lífi. Nú gengur hópurinn ekki glaðlega og eftirvæntingarfullur um götuna. Þau eru hrædd og fólkið sem fylgir þeim líka. En hópurinn er farinn að skynja að það verður líka upprisa. Tveir þeirra vilja tryggja sér sæti hjá Jesú í dýrð himnanna. En það er ekki hægt. Það eru ekki tekin frá sæti. En Jesús kom til að segja allri veröldinni að það yrðu sæti fyrir allt fólk. Jesús tekur á móti öllum sem vilja koma.
10.41-45
Það er ekki bara á himni sem er beðið um frátekin sæti heldur líka hér á jörðu. Það er barist um þau og fólk hrifsar þau hvert af öðru. Jesús endurtekur það sem hann hefur áður sagt um fremstu sætin í lífinu. Við lásum það í níunda kaflanum, versi 33 og áfram. Valdið safnaðist til fárra. Kóngar og höfðingjar kúga fólkið með valdi sínu. Það er fyrirmyndin. En hún er ekki fyrirmynd þeirra sem fylgja Jesú og eiga guðsríkið. Fyrirmyndin er til. Það er fyrirmynd Jesú. Hann kom til að þjóna. Þau sem vilja vera fremst hjá honum eiga að þjóna hinum. Og nú eru þau á leið til Jerúsalem þar sem það bíður hans að gefa líf sitt. Þessi vers eru tvennt í senn. Þau eru gullið tækifæri í daglegri umgengni sem leysir þá flóknu erfiðleika sem verða til í samstarfi okkar og samveru. Og þau eru leyndardómurinn sem aleinn gefur okkur möguleikann til að taka þessu tækifæri. Ég er kominn til að gefa líf mitt til lausnargjalds fyrir alla, sagði Jesús. Það jaðrar við að við eygjum örlítið brot af skilningi á þessum orðum þegar við finnum hvað það er flókið að vera þjónn annarra. Lausnargjaldið bjargar okkur. Lausnargjaldið er upprisa Jesú sem við megum eiga þátt í. Ríki unglingurinn hafnaði því, hópurinn á eftir að þiggja það. Við megum taka á móti því. Án þess að skilja það.
10.46-52
Þau eru komin til Jeríkó. Suður til Júdeu og alveg að koma til Jerúsalem. Jeríkó var mikil borg sem oft er sagt frá í Biblíunni. Þau fara gegnum borgina og Jesús læknar Bartímeus blinda við veginn. Fólkið talaði um Jesúm og Bartímeus kallaði til hans. Og Jesús stansaði. Og Jesús læknaði. Enn og aftur kunna frásögurnar af kraftaverkunum að vekja okkur spurningar. Getur það verið að kraftaverkin sem við biðjum um gerist ekki af því að við trúum ekki nóg? Nei, ekki held ég það. Ég held að við þurfum ekki að trúa nóg heldur megum við bara trúa. Trúin er ekki prófraunir okkar. Hún er vinátta Guðs. Vinátta Jesú sem heyrir til okkar gegnum ysinn og þysinn. Hann kallar á okkur, talar við okkur, sér hvað er að okkur, og læknar okkur. Hvað heldur þú?
10.1-12
Markús lætur okkur fylgjast með ferðalögum Jesú og hópsins. Þau fóru víða og gengu mikið. Þau voru komin til Kapernaúm þar sem Jesús átti heima. Nú leggja þau aftur af stað og fara til Júdeu. Farísearnir sitja um ástæður til að draga hann fyrir dóm. Þeir spyrja hann: Mega menn skilja við konur sínar? Þetta er enn flókin spurning þótt hún hafi verið önnur þá. Því þá gáfu rabbíar út ýmsar reglur um skilnaði og báru Móse fyrir þeim. Ein var sú að menn mættu reka konur af heimilinu fyrir fullt og allt ef þær brenndu matinn við. En Jesús segir allt annað. Hann gerir rétt hjónanna jafnan. Það var vegna þverúðar ykkar sem Móse leyfði mönnum að skilja við konur sínar. En menn eru ekki meiri en konur. Hjón eru ein manneskja. Það er ekki á vegum annarra að gefa þeim skilnað sem Guð hefur tengt saman. Orðin hafa valdið miklum heilabrotum og erfiðleikum og þau hafa verið notuð til að kúga konur til að halda áfram í skelfilegum hjónaböndum. Það gerist bæði fyrr og síðar að hjón eru alls ekki ein manneskja frá upphafi eða geta ekki lengur verið það þegar tíminn líður með ýmsum atburðum. Þá verður að treysta vináttu Jesú við þau bæði. Og ráðum hans til hverrar einustu manneskju hvað sem gerist í lífi hennar. Versið sem ég vel stendur ekki í kaflanum en er hinn undursamlegi boðskapur Jesú til kvenna.
Þau eru komin að þorpunum kringum Jerúsalem þar sem Olíufjallið er. Það er komið að leiðarlokum. Dómurinn er á næsta leyti. Jesús veit það en ætlar að gefa þjóð sinni tækifæri til að afstýra dómnum. Nú segir frá innreiðinni í Jerúsalem. Það er múgur manns í borginni til að taka þótt í páskahátíðinni. Urmull tjalda alls staðar. Jesús er þekktur um allt landið og þegar hann kemur á folanum vekur það athygli allra og það er uppi fótur og fit í borginni. Markús segir að Jesús hafi komið á ungum fola sem enginn hafði setið. Þetta er mikill dagur. Jesús er hylltur sem konungur. Eftir þessar miklu móttökur fer Jesús inn í helgidóminn. Þangað fór hann tólf ára gamall og staðhæfði að hann væri sonur Guðs. Nú lítur hann yfir allt, segir Markús. Kvöldið er komið og hann fer með hópinn sinn til Betaníu sem er eitt af þorpunum í grenndinni. Þar búa systkinin góðu, Marta og María og Lasarus. Kannski gistu þau hjá þeim.
11.12-21
Jesús er á leið frá Betaníu. Það er samt ekki líklegt að hann hafi gist hjá systkinunum af því að það er eins og hann hafi ekki fengið morgunkaffi. Hann er orðinn sársvangur og ætlar að fá sér fíkjur af fíkjutréi við veginn og eys skömmum yfir blessað tréið sem hefur ekkert nema lauf. Þau ganga inn í Jerúsalem og hann rekur sölufólkið út af því að musterið átti ekki að vera sölubúð heldur bænahús. Þau eru allan daginn í Jerúsalem og fólkið er stórglatt yfir boðskap hans en fræðimennirnir halda áfram að brugga ráð gegn honum og óttast það enn sem fyrr hvað fólkið hlustar mikið á hann. Þau fóru líklega aftur til Betaníu um kvöldið og sömu leið til baka inn í Jerúsalem næsta morgun. Og þá var fíkjutréið visnað. Frásagan af fíkjutréinu hefur áreiðanlega djúpan boðskap í tengslum við boðskapinn um hreinsun musterisins. Gætirðu hugsað þér að það sé boðskapur um innihaldslausa trú sem þarf að rífa burt? Trúin á ekki að vera yfirborðsleg heldur djúp og gleðileg.
11. 22-26
Aftur og aftur talar Jesús um trúna og vantrúna. Trúin getur lyft fjöllum og vantrúin verður til þess að við fáum ekki það sem við biðjum um. Við megum hafa í huga það sem við höfum lesið af prédikun Jesú í fyrri köflum Markúsar. Það er ekki bara að við megum það heldur líka að við þurfum það. Til þess að við förum ekki, eins og ég hef áður skrifað hér, að hugsa okkur að trúin sé próf. Við skulum renna huganum til pabba stráksins eða unga mannsins í níunda kaflanum sem hrópaði: Ég trúi, hjálpaðu vantrú minni. Og til orðanna í 10. 13 og áfram, þar sem Jesús segir að við eigum ekki að treysta mætti okkar heldur mætti hans. Eins og börnin treysta þeim sem elska þau. Það sagði hann aftur og aftur. Trú okkar er vináttan við hann. Gagnkvæm vináttan sem hann gefur og við tökum á móti og rækjum í gleði og ýmsu góðu framtaki. Jesús segir líka í þessum versum að við verðum að fyrirgefa svo að okkur verði fyrirgefið. Það er heldur ekki próf. Fyrirgefningin er gjöf Guðs. Við getum ekki fyrirgefið nema í vináttu Jesú. Fyrirgefningin er kraftaverk. Það er kraftaverk sem Jesús gerir fyrir okkur. Og við þiggjum í gleði og trúnarðartrausti til hans.
11.27-12.12
Þau hafa líklega haldið til í Betaníu og koma á hverjum morgni til Jerúsalem þar sem Jesús er að gefa fólkinu síðasta tækifærið til að opna augu sín og taka á móti trúnni sem hann boðar. Það er trúin á að hann sé sjálfur uppspretta allra góðra hugsana þess og framkvæmda. Af því að hann er Guð sem er komin sjálf til fólksins sem hún elskar og er sköpun hennar í heimi sem hún á og skapaði. Ráðamennirnir halda fund til að finna ráð til að ákæra hann. Þeir halda áfram að spyrja hann um valdið sem hann þykist eiga. Jesús svarar með annarri spurningu sem þeir ráða ekki við. Þeir hætta sér ekki í lengra samtal af því að fólkið er með Jesú og móti þeim. Þeir eru að verja það sem þeir telja trú þjóðarinnar. Þeir geta ekki séð að það sem Jesús boðar er trúin sem Guð hefur alltaf gefið þjóðinni og að þeir eru farnir að styðja misskilda trú með ótal reglum sem eru ekki frá Guði. Jesús segir þeim og öllum sem eru þarna dæmisögu um söguna sem þau þekkja öll og Ritningin segir. Hún er um óendanlega ást Guðs sem sendi þeim sendiboða eftir sendiboða til að segja þeim frá hinni undursamlegu trú sem hún vildi gefa þeim. Og síðast sendi hún son sinn. Ritningin sem þjóðin metur svo mikils vitnar um hann. Ráðamennirnir vilja nú taka af skarið og handtaka hann en þora það ekki enn.
Þau hafa líklega haldið til í Betaníu og koma á hverjum morgni til Jerúsalem þar sem Jesús er að gefa fólkinu síðasta tækifærið til að opna augu sín og taka á móti trúnni sem hann boðar. Það er trúin á að hann sé sjálfur uppspretta allra góðra hugsana þess og framkvæmda. Af því að hann er Guð sem er komin sjálf til fólksins sem hún elskar og er sköpun hennar í heimi sem hún á og skapaði. Ráðamennirnir halda fund til að finna ráð til að ákæra hann. Þeir halda áfram að spyrja hann um valdið sem hann þykist eiga. Jesús svarar með annarri spurningu sem þeir ráða ekki við. Þeir hætta sér ekki í lengra samtal af því að fólkið er með Jesú og móti þeim. Þeir eru að verja það sem þeir telja trú þjóðarinnar. Þeir geta ekki séð að það sem Jesús boðar er trúin sem Guð hefur alltaf gefið þjóðinni og að þeir eru farnir að styðja misskilda trú með ótal reglum sem eru ekki frá Guði. Jesús segir þeim og öllum sem eru þarna dæmisögu um söguna sem þau þekkja öll og Ritningin segir. Hún er um óendanlega ást Guðs sem sendi þeim sendiboða eftir sendiboða til að segja þeim frá hinni undursamlegu trú sem hún vildi gefa þeim. Og síðast sendi hún son sinn. Ritningin sem þjóðin metur svo mikils vitnar um hann. Ráðamennirnir vilja nú taka af skarið og handtaka hann en þora það ekki enn.
12.13-27
Ráðamennirnir gefast ekki upp. Þeir skiptust í nokkra mikils metna klúbba. Við skulum hafa í huga að þeir voru einlæglega sannfærðir um að þeir væru að verja trú hinnar útvöldu þjóðar fyrir villutrú Jesú. Jesús bauð þeim eins og öðrum að taka við boðskap sínum en þeir gátu það ekki. Af því að þeir vildu það ekki. Þrír eru nefndir í þessum versum. Farísearnir voru menn af ýmsum stéttum og ein var stétt fræðimannanna sem útskýrðu Ritninguna og útskýringar við Ritninguna sem löng röð af fræðimönnum höfðu skrifað. Heródesarsinnar voru flokkur sem studdi Heródus kóng og vildi þess vegna engar breytingar. Saddúkear réðu yfir ráðinu sem brátt átti eftir að dæma Jesúm. Þeir voru ríkir menn og sumir voru prestar. Rómverjar voru herraþjóð Gyðinga og enn einn flokkur, Selótarnir, vildu gera uppreisn gegn þeim. Ráðamennirnir áttu í miklum vanda og stjórnmálin voru eldfim. Allir þessir þrír hópar taka sig saman um að leggja gildrur fyrir Jesúm. Það þýðir ekki frekar en fyrri daginn. Jesús afvopnar þá alltaf með svörum sínum.
12.28-37
Einn fræðimannanna dáðist að svörum Jesú. Hann spyr ekki til að leggja snörur fyrir hann heldur til að heyra meira af boðskap hans. Hvert er æðst allra boðorða? Jesús vitnar í Ritninguna. Í 1. Mós. 6.4. sem var játning sem allt trúað fólk hafði yfir á hverjum degi. Jesús bætir við öðru versi úr Ritningunni. 3. Mós. 19.18: Þú skalt ekki hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Guð. Trú þjóðarinnar var trú á einn Guð og hún var ekki einkamál heldur kom hún fram í starfi alls þjóðfélagsins. Kærleikurinn til annarra átti aðeins eina rót og það var kærleikur Guðs. Hann gat ekki sprottið upp af öðru. Boðskapur Jesú var í samræmi við boðskapinn sem farísearnir og fræðimennirnir boðuðu. Þess vegna var fræðimaðurinn í þessari frásögu ekki fjarri guðsríkinu. Hann átti enn eftir að sjá að Jesús var Guð sem var komin. Guðsríkið kom með honum.
12. 38-44
Fræðimennirnar, sem elskuðu Ritninguna, misskildu hana samt sumir og það stórlega. Þeir töldu sig ýmsir meiri en annað fólk og undirstrikuðu það með klæðaburði og heimtuðu sérstaka virðingu. Og sumir þeirra hafa fé út úr fólki. Og svo segir Jesús frá venjulegri og fátækri konu sem var þó meiri en þeir. Hún elskaði Guð og lagði fram fé til að styrkja málefni trúarinnar. Þótt það væru aðeins fáeinir aurar var það meira en ríku yfirmennirnir gáfu. Þá munaði ekkert um gjöfina. En hún fann fyrir gjöfinnni en gaf samt. Hún elskaði Guð svo mikið að hún gaf allt sem hún átti og þessi kærleikur er ómetanleg auðlegð. Þessi yndislega kona gladdi Jesúm áreiðanlega ósegjanlega. Tími hans er að renna út. Hún veit það ekki og hefur ekki hugmynd um að hún hefur gefið frelsara sínum þessa skilnaðargjöf.
Við lesum allan kaflann. Fyrst segir Jesús að musterið sjálft verði lagt í rúst. Það var ótrúlegt en það gerðist árið 70. Þjóðin safnaðist ekki aftur til Jerúsalem fyrr en á síðustu öld. Jesús talar um dómsdag og endi veraldarinnar og allt sem verður á undan. Fólk hefur oft talið að það sem gerist sé aðdragandi dómsins. En við getum ekki dæmt um það. Náttúruhamfarir verða stöðugt og falsspámenn koma sífellt fram og fólk gerir sína eigin leiðtoga að nýjum Kristi. Við getum ekki dæmt um atburðina. En við eigum að vaka. Vita að Kristur kemur og gerir alla hluti nýja. Dómsdagur kemur skyndilega og þá kemur Kristur í skýjunum. Næstu áratugi væntu söfnuðirnir endurkomunnar og það olli ýmsum vandræðum hvað hún dróst. Þau mættu ofsóknum eins og Jesús sagði. En Guð studdi þau eins og hann sagði líka. Því Orð Guðs líður aldrei undir lok. Þótt himinn og jörð farist.
Það voru bara tveir dagar til páska. Páskarnir voru haldnir til að minnast þess að Guð leiddi þjóðina út úr þrælahaldinu í Egyptalandi, gegnum eyðimörkina og inn í nýtt land. Dagar ósýrðu brauðanna voru minningardagar um gerlaust brauðið sem þjóðin tók með sér þegar hún fór í flýti frá Egyptalandi og enginn tími var til að láta það hefast. Allar fjölskyldur á dögum Jesú slátruðu páskalambi og héldu hátíðamáltíð til að minnast brottfararinnar. Þegar Ísraelsfólki var boðið að rjóða lambsblóði á dyrastafi húsa sinna svo að engill Guðs færi fram hjá þegar hann refsaði Egyptum. Um þetta getum við lesið í 2. Mós. 12.1-30 og 5. Mós. 16.1-8. Ráðamennirnir eru orðnir fastákveðnir í að láta lífláta Jesúm. Og einn af vinum hans, Júdas, gengur í lið með þeim.
En Jesús nýtur lífsins. Hann fer í boð til Símonar í Betaníu. Óboðið fólk gat slæðst inn eftir vild. Kona kemur með dýr smyrsl og smyr höfuð Jesú með þeim. Markús segir ekki hver hún er en skrifar niður orð Jesú um að hennar verði getið um allan heiminn þar sem fagnaðarerindið verði boðað. Þess er víðar getið að konur hafi smurt Jesúm ilmandi smyrslum á síðustu dögum hans. Í Matt. 26.6 er þessi sama frásögn, og í Jóh. 12.1-8 er sagt frá því að í boði hjá systkinunum í Betaníu, sex dögum fyrir páska, hafi María smurt fætur Jesú með dýrum nardussmyrslum og þerrað með hári sínu. Mér finnst við ekki þurfa að velta því fyrir okkur hvort ónefnda konan sé María, það skiptir engu máli. Við gleðjumst yfir ástúðinni sem Jesús sýndi konum opinberlega og þær sýndu honum.
14.12-25
Nú segir frá síðustu kvöldmáltíðinni. Og í þessum kafla standa orðin sem eru kölluð innsetningarorð altarisgöngunnar. Þau eru endurtekin í 1. Korinþubréfi 11.23-25 og það orðalag er haft yfir í altarisgöngunni. Það er sagt frá loftsalnum sem Jesús valdi og samtalinu við máltíðina. Jesús veit að Júdas svíkur hann. Máltíðin er sama páskamáltíðin sem var haldin í öllum fjölskyldum landsins. Hópurinn sem situr til borðs með honum er fjölskylda hans. Kvennanna er ekki getið, en við treystum því að þær hafi verið þar. Páskalambið er alls staðar á borðum. Alls staðar tekur húsráðandinn brauðið og vínið og lætur ganga til allra við borðið. Það er gert til minningar um sáttmálann sem Guð gerði við fólkið sitt: Ég er Guð ykkar ef þið eruð fólkið mitt, stendur í 5. Mós. 6. kafla. Í 2. Mós. 24.8 er sagt frá sáttmálablóði gamla sáttmálans. Jesús gerir nýjan sáttmála. Brauðið og vínið er sáttmáli Guðs sem hún gerir við nýtt fólk sem treystir upprisu Jesú og tekur á móti mætti hennar í daglegu lífi sínu. Fólkið er afkomendur fyrri kynslóða og smáttmálinn endurnýjun fyrri sáttmálans. Og páskar kristins fólks er framhald fyrstu páskanna sem voru haldnir til að minnast frelsunar Guðs frá þrældómi Egyptalands. Kristnir páskar eru haldnir til að minnast þess að Jesús dó og reis upp frá dauðum til að frelsa fólk sitt frá þrældómi sinna eigin hugsana.
14.26-31
Þau sungu lofsönginn og gengu út í kvöldið til Olíufjallsins og Jesús hélt áfram að tala við þau af djúpri alvöru. Þið bregðist mér öll. Þið svíkjið mig öll. Hann vitnar til Ritningarinnar, í Sakaría 13.7. Nú gætum við farið að sjá eftir því að staðhæfa að konur hafi verið með í síðasta boðinu. Annars hefðum við getað staðhæft að þær hafi aldrei svikið hann. En við þurfum ekki að búast við því. Ekki frekar en við getum haldið því fram að við stöndum betur við loforð okkar við Jesúm en mennirnir í kringum okkur. Jesús talar um upprisuna og heitir hópnum sínum að upprisinn muni hann hitta þau í Galíleu. Þau skilja þetta ekki enn en vilja öll vernda hann, vininn sem þau elska svo mikið, og Pétur segir það sem þeim býr öllum í hjarta.
14.32-42
Þau koma til Getsemane, blómlega garðsins í Jerúsalem. Vinkonurnar og vinirnir hljóta að hafa fengið mikla hjálp Guðs til að horfast seinna í augu við þessa nótt. Þau sofnuðu aftur og aftur þótt Jesús bæði þau í angist sinni að vaka með sér og skilnaðarstundin rann upp án þess að þeim auðnaðist að tala meira við hann. En Jesús hrópar til Guðs. Hann segir: Abba. Það er ávarp sem getur þýtt pabbi og líka mamma. Það sýnir að Jesús talaði við Guð á nýjan hátt og annan en þann formfasta máta sem fræðimennirnir kenndu. Ávarp Jesú styður það að við getum talað við Guð sem vinkonu okkar. Meðferðin sem Jesús fær er hroðaleg. Aðkomumenn umgangast hann eins og hann sé óvinur þjóðarinnar, en það var það sem þeir töldu að hann væri. Við þekkjum vel orð hans: Tak þennan kaleik frá mér. Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.
14.43-65
Hver kaflinn eftir annan flytur okkur mestu sögu heimsins. Frásagan er full af angist og ótta og hyldjúpri sorg. Júdas vinur þeirra kemur með vopnaða útsendara landsstjórnarinnar. Hann kyssir og svíkur. Og einhver úr hópi Jesú bregst við með vopnum. En það verða engin vopnaviðskipti. Jesús verst ekki. Vinkonurnar og vinirnir flýja. Hvert einasta þeirra. Guð hefur þurft að hugga þau seinna, þegar þau hugsuðu um þessa örlagaríku nótt. Eða það held ég. Það var ólöglegt að stofna til yfirheyrslu að næturlagi en allt er sett í gang og vitnum stefnt á staðinn. Lokaniðurstaðan verður sú að ásaka Jesúm fyrir að segjast vera sá sem Guð hafði lofað að senda. Fyrirmennirnir berja hann. Þeir hrækja á hann. Binda fyrir augu hans og hæða hann meðan þeir láta hnefahöggin dynja á honum. Sama gerðu undirmenn þeirra. Þarna voru engar konur. Það voru engar konur í hinu rúmlega þrjátíu manna ráði Gyðinga og þjónum þess.
Við höfum lesið um yndislegar morgunstundir sem Jesú átti, einn eða með fólkinu sínu. Nú er síðasti morgunn hans runninn upp, fullur óréttlætis og yfirgangs í garð hans. Þjóðarleiðtogarnir fara með hann til Pílatusar embættismanns Rómverja. Það er ekki ljóst hvort þeir höfðu samt vald til að dæma hanns sjálfir en vildu koma ábyrgðinni yfir á Rómverjana. Jesús veitir ekki viðnám. Hann svarar Pílatusi aðeins einu sinni og vísar þá orðum hans aftur til hans. Hann er kominn til að deyja svo að óréttlætið og yfirgangurinn ríki ekki lengur. Allt það fólk sem átti eftir að játast honum öld eftir öld fékk það hlutverk að berjast fyrir réttlætinu í upprisukrafti hans. Samt ríkir óréttlætið enn og yfirgangurinn og gerir þangað til Guð gerir allt nýtt. En baráttan fyrir réttlætinu heldur aftur af óréttlætinu.
15.6-15
Pílatus vissi að það var af öfund sem æðstu prestarnir framseldu Jesúm. Það er merkilegt að hann skyldi vita það. Þau sem standa fyrir utan sjá stundum sannleikann sem hin sem standa mitt í deilunum sjá ekki. Mannfjöldinn hafði fyrir nokkrum dögum fagnað Jesú í útjaðri borgarinnar og kastað fötum sínum í götuna til að heiðra hann. Nú láta þau æðstu prestana æsa sig upp í að krefjast þess að Jesús verði krossfestur. Múgæsingin er skelfileg. Hún er svo hræðileg að Pílatus þorir ekki að standa við þá einlægu vissu sína að Jesús sé algjörlega saklaus af öllum ákærunum. Rolan sú. Hann sá þá útleið að láta fólkið velja hann sem þann fanga sem var sýknaður á hverjum páskum. Það gekk ekki. Hann gaf þær fyrirskipanir að Jesús yrði húðstrýktur og krossfestur.
15.40-47
Nú eru þær nefndar konurnar sem voru með Jesú allan tímann sem hann starfaði en eru ekki nefndar í guðspjallinu. Nú er það loksins staðfest að þær voru alltaf í hópnum. Af því að hann bauð þeim og þær þáðu boðið. Þrjár eru nú nafngreindar, María Magdalena og María móðir Jóse og Jakobs og Salóme. Markús segir að þær hafi verið miklu fleiri. Þetta styður staðhæfingu kvennaguðfræðinganna sem segja að konur hafi alltaf verið í hópi þeirra sem eru kallaðir lærisveinar. Krossfestingardagurinn er kominn að kvöldi. Ekki hafa allir fyrirmenn þjóðarinnar stutt æðstu prestana. Jósef ráðherra frá Arímaþeu var vinur hans. Nú sýnir hann það hugrekki að fara til Pílatusar og biðja um líkama hans og sýnir þá virðingu og kærleika að leggja hann í virðulega gröf. Gröfin var höggvin í klett og hann lokaði henni með steini. Tvær konur sáu hvar gröfin var, báðar Maríurnar sem voru nefndar.
Nú lesum við páskaguðspallið. Frásöguna um upprisuna. Salóme er aftur komin með vinkonum sínum. Þær fara allar þrjár mjög árla sunnudagsins út að gröfinni. Dagurinn eftir krossfestinguna var hvíldardagur og þær máttu ekkert gera. En snemma sunnudagsins keyptu þær ilmsmyrsl til að smyrja Jesúm. Það er alltaf sama gleðin að lesa páskaguðspjallið. Lesa um ferðina í búðina og um samtalið á leiðinni. Steinninn fyrir klettagröfinni var níðþungur. Þær gátu ekki velt honum frá hjálparlaust. Skyldi einhver vera þarna? Þær gátu ekki ímyndað sér hver myndi vera þar. Það var engill. Hann var búinn að opna gröfina. Þær gátu gengið inn. Og þær heyra fagnaðartíðindin: Hann er ekki hér. Hann er upprisinn. Farið og segið hinum. Og farið til Galíleu og hittið hann. Hann bíður ykkar þar eins og hann sagði. En Markús segir fyrst að þær hafi alls ekki þorað að segja hinum það sem þær sáu.
16.9-10
Það er nóg að lesa tvö vers í dag. Þau eru um fyrsta boðbera upprisunnar, Maríu Magdalenu. Markús er annað hvort að leiðrétta það sem hann skrifaði um að konurnar hafi ekki þorað að tala eða hann segir frá því að María Magdalena hafi verið sú eina sem hafði kjarkinn til þess. Á hvorn veginn sem það var er víst að það voru konur sem fluttu upprisuboðskapinn. María Magdalena hefur nú loksins fengið sannmæli í kirkjunni. Langa lengi var sagt að hún væri ónefnda konan sem var sagt frá í boðinu hjá Símoni í 14. kafla hér á undan. Í Lúk. 7.36 og áfram er sagt frá konu sem kom í boð hjá farísea og smurði Jesúm með smyrslum. Þessi konar var ekki siðsöm manneskja og Jesús var gagnrýndur fyrir að skynja það ekki og ýta henni frá sér. Það var sagt í kirkjunni að þessai ósiðsama kona, sem var vissulega góð manneskja, hafi verið María Magdalena. Það var stutt með því að Jesús rak út af henni sjö illa anda og sagt að það hafi verið ósiðlæti hennar. Þessi skýring var vísvitandi blekking kirkjunnar sem upphófst á 6. öld til að gera lítið úr Maríu Magdalenu. En Jesús valdi hana til að starfa með sér og vera vitni upprisunnar og boðandi. Sögurnar um að hún hafi verið ástkona Jesú eiga engan stuðning og heldur ekki í guðspallinu sem er kennt við hana.
16.11-18
Vinir Maríu trúa henni ekki. En Jesús birtist tveimur úr hópnum á leiðinni út í sveit. Seinna birtist hann öllum hópnum, og enn trúum við því að konurnar hafi verið með. Þau sátu til borðs. Jesús ávítar þau fyrir að hafa ekki trúað Maríu. Samt felur hann þeim mikið verk, að boða trúna á sig út um allan heiminn og skíra þau sem taka við trúnni. Hann talar um tákn sem fylgja þeim sem trúa. Þessum táknum er tekið á ýmsan máta í kristinni kirkju svo sem við vitum. Sumir hópar leggja mikla áherslu á tungutal og lækningar með handayfirlagningu og í sumum eru illir andar reknir út og á það treyst að banvænir drykkir muni ekki skaða þau sem treysta Guði. Við deilum ekki um þetta en virðum hvert annað. Við látum það heldur ekki skipta okkur nokkru þótt ágreiningur sé milli fræðafólks um þennan kafla frá 9. versi til enda, en hann er afmarkaður með hornklofum.
16.19-20
Í síðustu versunum er sagt frá því að Jesús fór til himna eftir að hafa falið fólkinu sínu trúboðið. Hann settist við hægri hönd Guðs, hann var hjá Guði. En þau fóru til starfa og Guð var með þeim.
