Upplýsingar

Jesús og samverska konan Jóhannes 4:1-29 (sjá guðspjallstexta í lok prédikunar)

Náð sé með yður og friður frá Guði skapara okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar ég hugsaði til þessarar stundar hér við þvottalaugarnar sá ég fyrir mér í huganum  bograndi konur  að þvo þvott.  Skrafandi saman því vinnan er jú meira en vinna, hún er líka félagslegt fyrirbæri.  Ég sá líka fyrir mér aðrar vinnandi konur.  Konur vestur á Ísafirði sem börðu klakann af kerjunum til að geta vaskað fiskinn sem beið þeirra.  Þessum konum kynntist ég á menntaskólaárum mínum, þó aðeins að sögn því þær voru löngu farnar héðan úr heimi á þeim tíma.  Hins vegar kom saga þeirra upp þegar ritgerð var unnin og þá fyrst áttaði ég mig á því að konur og karlar höfðu ekki staðið jafnfætis launalega séð á árum áður.  Og nú 100 árum síðar og 40 árum eftir að ég vann ritgerðina forðum er enn verið að tala um launamun karla og kvenna sem konurnar á Ísafirði vöktu athygli á og neituðu að vinna nema leiðrétt væri.

Þó enginn læri af annarra reynslu af því er sagt er þá er það nú svo að sögur um annað fólk, atvik og lífshagi kennir okkur margt og vekur okkur til umhugsunar um aðrar aðstæður og lífsviðhorf.  Konurnar á Ísafirði forðum daga áttu sinn þátt í því að launakjör kvenna breyttust þó enn megi betur gera.  Þær vöktu samtíð sína til umhugsunar og sú viðhorfsbreyting sem þá varð er liður í því að við erum hér samankomin í kvöld.  Okkur finnst margt einkennilegt sem var.  Að konur stæðu ekki jafnfætis körlum hvað kosningaþátttöku varðar til dæmis.  En samtímanum fyrir hartnær 100 árum fannst einkennilegt að konur nokkrar skyldu hafa orð á mismuninum.

Þannig breytist allt og flest til bóta.  Samt sem áður er grunnurinn hinn sami.  Von um betri tíð og bættan hag.  Og það verður margt til þess að breyting eigi sér stað í lífi og í samfélagi.  Dag einn hitti kona mann og líf hennar breyttist upp frá því.  Sú kona var uppi fyrir 2000 árum en samt er sagan enn sögð af því er líf hennar breyttist þó ekki sé hún nafngreind, aðeins sagt frá því hvaðan hún var.  Frá Samaríu.  Og maðurinn sem hún hitti var ekki frá sama stað.  Hann var Gyðingur og samkvæmt þeirra hefðum og siðum var bannað að hafa samskipti við Samverja.  Auk þess þótti ekki við hæfi að karl og kona hefðu opinská samskipti.  En maðurinn sinnti því engu og talaði við konuna eins og ekkert væri sjálfsagðara.  Já, þannig kom Jesús Kristur inn í líf hinnar samversku konu, sem hafði puðað við að ausa vatni úr brunninum djúpa.  Nú bauðst henni hið lifandi vatn sem enginn getur gefið nema sá er við hana talaði.   Hið lifandi vatn, sem andinn vekur, auðgar og viðheldur.  Andinn, sem aldrei þrýtur.  Jesús gaf henni frelsið sem Páll postuli talar um í Galatabréfinu, frelsið undan ánauðarokinu.   Gaf henni það sem okkur öllum stendur til boða, að þiggja hið lifandi vatn, andann heilaga sem huggar, hjálpar og fyllir djörfung.  Þiggja samfélagið við Guð, sem er andi og þeir sem tilbiðja Guð eiga að tilbiðja í anda og sannleika segir Jesús við samversku konuna.

Vatnið í brunninum sem samverska konan jós í skjólu sína getur orðið uppurið.  Og þó vatnið slökkvi þorstann um stund verðum við aftur þyrst.  Með því að þiggja hið lifandi vatn sem Jesús býður höfum við möguleika til að skapa nýtt líf, því andinn er óslökkvandi uppspretta nýrra tækifæra og spennandi lífs.

Það vafðist ekki fyrir Jesú að brjóta hefðir og reglur trúar sinnar og samtíðar ef það var til hagsbóta fyrir mannfólkið.  Mannréttindi þau er hann boðaði í orði og verki voru ætluð báðum kynjum.  Og þess vegna erum við líka saman komin hér í dag.  Jesús fór ekki í manngreinarálit hvað kynin varðaði.  Hann læknaði bæði sjúkar konur og karla.  Hann ræddi guðfræði við bæði konur og karla og hann tók málstað kvenna þegar á þær var hallað.

Margar sögur eru til af því hvernig trúin á Jesú Krist gaf fólki kjark og þrek til að mótmæla óréttlæti og berjast fyrir bótum.

En hvernig er það í nútímanum?  Talar hann enn til okkar kvenna?  Það er merkilegt að sjá hvernig reynsla mótar skoðanir okkar á kvennabaráttunni.  Um leið og ein kynslóð kvenna telur að öllum réttindum sé náð lifir sú skoðun þar til árekstur verður milli skoðunar og raunveruleika.  Því er einnig haldið á lofti að komið sé að því að karlar verði að fara að verja rétt sinn.  Það er nefnilega þannig að hver verður að gæta að sínu.  Hver manneskja, hver hópur fólks, verður að finna sjálfur hvort eitthvað má betur fara og hvort ástandið er ásættanlegt.  Það getur engin manneskja fundið fyrir aðra hvort baráttu er þörf, en það er sjálfsagt að styðja og hvetja.  Konur berjast fyrir sínum réttindum og karlar fyrir sínum.  Þau sem standa höllum fæti og geta ekki staðið vörð um réttindi sín og bætur þurfa á öðrum að halda, en það er staða okkar flestra einhvern tímann á lífsleiðinni.

Undanfarnar vikur hef ég farið í nokkur viðtöl við erlendar sjónvarpsstöðvar og blöð.  Tilefnið er staða kvenna á Íslandi og sú staðreynd að konur gegna nú mörgum lykilstöðum í samfélaginu.  Þetta gæti ekki gerst í mínu landi segja sumir spyrlarnir.  Nú, hvers vegna ekki? Vegna þess að samfélagið leyfir það ekki.  Já, hver er ástæðan fyrir því að okkur Íslendingum finnst oft annað en grönnum okkar í Evrópu til dæmis?  Auðvitað er ástæðurnar margar, en lega landsins og náttúra spila líka þarna inn í.  Konur hafa þurft að gera meira en að gæta bús og barna í gegnum tíðina, enda oft einar þegar karlarnir eru á sjó eða í veri hér áður fyrr.  Svo er náttúran hér þannig og veðurfarið að við þurfum að vera við öllu búin.

En hvað var það sem gaf konunum kjark og styrk hér áður fyrri, þegar þær voru einar heima með börn og bú svo vikum skipti þegar veður eru hvað vályndust.  Ég hef heyrt margar sögur af því að traustið til Guðs hafi gefið þeim það sem þurfti til að lifa af.  Þær treystu handleiðslu Guðs.

Jesús treysti konum til að gegna mikilvægu hlutverki.  Þær voru ekki vitnisbærar í samfélaginu, en Jesús treysti konu til að vera fyrsti vottur upprisunnar.  Treysti henni til að flytja tíðindin sem eru grundvöllur trúar okkar.  Kristur er upprisinn.  Hann lifir.

Jesús samþykkti að konur þjónuðu og vildi að þær breiddu út fagnaðarboðskapinn.

Hann sendi þær hverja á fætur annarri til þeirra erinda.  Til að segja okkur að við erum fullgildar manneskjur.  Í postulasögunni má sjá að konur eru fullgildir meðlimir í kirkjunni.  Í upphafi var enginn munur gerður á körlum og konum eins og síðar varð raunin.

Konur skulu því líta til meistarans mikla frá Nasaret ef þær fara að efast um stöðu sína í samfélaginu eða á heimilunum.  Í guðspjöllunum má sjá að Jesús vill að við öll fáum að njóta hæfileika okkar og móta líf okkar og samfélag hvort sem við erum konur eða karlar.  Að við getum alið börnin okkur upp í trú á hann sem vill að allar konur verði hólpnar, sem og allir karlar, fólk á öllum aldri.

Konurnar sem komu hingað í þvottalaugarnar forðum voru bognar við tauþvottinn og krepptu hnefana til að vinda hann.  Þær hafa sennilega ekki allar gert sér grein fyrir því að nokkru síðar yrðu vélar sem sæu um verkin þeirra.  En víst er að þær hafa eins og konur allra tíma lifað í þeirri von að lífið yrði léttara og möguleikarnir til framtíðarstarfa fleiri.  Sú er raunin á tækniöld þegar lög landsins kveða á um jafna stöðu karla og kvenna.  En það er ekki sjálfgefið að svo sé og því má aldrei sofna á verðinum og gleyma þeim öllum er barist hafa fyrir okkur sem nú erum uppi.  Þegar ég fæddist er mér sagt að fólkið á Ísafirði hafi sagt við móður mína, prestsfrúna.  Verst að barnið er ekki drengur, þá gæti hann orðið prestur eins og pabbinn.  Já, þeim datt ekki í hug árið 1954 að stúlka gæti orðið prestur.  En nú hefur brautin verið raudd og hinar hempuklæddu systur mínar í Krist sem hér eru, eru lýsandi dæmi um að allt er hægt ef trúin á Jesú er með í verki.  Það stendur nefnilega hvergi í Ritningunni að prestar þurfi að vera karlkyns þó hægt sé að lesa Biblíutextana mismunandi augum.  Hinn kristni arfur sem við höfum alist upp í hefur bent okkur á hann sem mun kunngjöra okkur allt, eins og segir í guðspjallstexta Jóhannesar um samversku konuna.  Hans er mátturinn og dýrðin að eilífu.  Amen.

Jesús og samverska konan Jóhannes 4:1-29
1Farísear höfðu heyrt að Jesús fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes. 2Reyndar skírði Jesús ekki sjálfur heldur lærisveinar hans. 3Þegar Jesús varð þess vís hvarf hann brott úr Júdeu og hélt aftur til Galíleu. 4Hann varð að fara um Samaríu. 5Nú kemur hann til borgar í Samaríu er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu sem Jakob gaf Jósef syni sínum. 6Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður og settist þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil. 7Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: „Gef mér að drekka.“ 8En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.9Þá segir samverska konan við hann: „Hverju sætir að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“  10Jesús svaraði henni: „Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir hver sá er sem segir við þig: Gef mér að drekka, þá mundir þú biðja hann og hann gæfi þér lifandi vatn.“ 11Hún segir við hann: „Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn? 12Ertu meiri en Jakob forfaðir okkar sem gaf okkur brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?“ 13Jesús svaraði: „Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta 14en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“ 15Þá segir konan við hann: „Drottinn, gef mér þetta vatn svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa.“ 16Hann segir við hana: „Farðu, kallaðu á manninn þinn og komdu síðan hingað.“ 17Konan svaraði: „Ég á engan mann.“ Jesús segir við hana: „Rétt er það að þú eigir engan mann 18því þú hefur átt fimm menn og sá sem þú átt nú er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt.“
19Konan segir við hann: „Drottinn, nú sé ég að þú ert spámaður. 20Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið að í Jerúsalem sé sá staður þar sem tilbiðja skuli.“ 21Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. 22Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki. Við tilbiðjum það sem við þekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. 23En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. 24Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“25Konan segir við hann: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“ 26Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“ 27Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: „Hvað viltu?“ eða: „Hvað ertu að tala við hana?“
28Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn: 29„Komið og sjáið mann er sagði mér allt sem ég hef gert. Skyldi hann vera Kristur?“