Fastan og koma páskanna – Prédikun í apríl 2006

Á undanförnum vikum hef ég nokkrum sinnum vaknað við að litlir sólargeislar dansa á sænginni minni og andliti. Ég hef stokkið frammúr og varla mátt vera að því að borða morgunmatinn áður en ég fer út í góða veðrið í göngutúr. En í hvert einasta skipti hef ég hlaupið inn aftur, til að sækja húfu, flíspeysu og vettlinga og á göngunni hefur nær undantekningarlaust náð að snjóa aðeins á mig. En þrátt fyrir kuldann hafa þessar göngur mínar verið yndislegar, dagana er farið að lengja svo um munar og birtan er langþráð. Það er eins og sköpunarverk Guðs hvísli því að mér að eitthvað stórkostlegt liggi í loftinu, vorið er að koma og náttúran vaknar af vetrardvalanum. Það færist líf í allt, grasið og lauf trjánna grænka og fuglarnir fara að syngja og loftið mun fyllast af röddum fólks sem er úti við að njóta vorsins. Enn á ný mun birtan og hlýjan ná að sigra myrkrið og kuldann. Á þessum gönguferðum mínum er Guð að hvísla í eyru mér fyrirheitinu um allt þetta. Og það besta er að ég hef náð að grípa það og varðveita í huga og hjarta. Og þess vegna orðið svo dæmalaust létt í spori.
Gönguferð og fyrirheit, þetta minnir mig á aðrar konur sem voru uppi fyrir langa löngu og lögðu af stað í gönguferð árla morguns. En í hjörtum þeirra ríkti sorg og örvænting og því hafa spor þeirra án efa verið þung. Vinur þeirra hafði verið tekin af lífi á hrottafenginn hátt. Maðurinn sem þær treystu og trúðu á, Jesú Kristur. Eftir handtöku hans hafði hópurinn tvístrast og Jesú svikinn og afneitað af þeirra eigin vinum. Hinn yndislegi tími sem þau áttu saman endað á annan hátt en […]