Stefnumót við Guð – Kristin íhugun og hugleiðsla

Skipuleggur þú stefnumót við Guð? Hefur þú áhuga á að dýpka samband þitt við Guð? Fjögurra kvölda námskeið Kvennakirkjunnar þar sem kristnar íhugunar- og hugleiðslu aðferðir verða kynntar og iðkaðar. Námskeiðið stendur yfir 4 mánudagskvöld, frá 20. Janúar til og með 10. febrúar í stofum Kvennakirkjunnar, Þingholtsstræti 17. Námskeiðið kostar 4000,- kr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn prestur Kvennakirkjunnar kennir fyrstu 3 kvöldin og Þóra Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur kennir síðasta kvöldið.

Með aldagömlum aðferðum kristinnar trúar lærum við að opna hjarta okkar og taka á móti Guði, í þögn og kyrrð og dýpka þannig  tengslin við Guð og þroska trú okkar.

20. janúar kl. 19:30. Með Guði í kyrrð: Kynning á aðferð Kyrrðarbænarinnar (Centering Prayer) fyrri hluti
27. janúar kl. 19.30  Með Guði í kyrrð; Kynning á aðferð Kyrrðarbænarinnar (Centering Prayer) seinni hluti
3. febrúar kl. 19:30  Með Guði í Biblíunni: Biblíuleg íhugun (lectio divina)
10. febrúar kl.19:30 Upppörvun og slökun með Þóru Björnsdóttur hjúkrunarfræðing

By |12 janúar 2014 15:38|Fréttir|

Fyrirætlanir til heilla

Um leið og við göngum til móts við nýja árið er gott að rifja upp fyrirheitin sem Guð hefur gefið okkur og við finnum um alla Biblíuna. Guð hefur lofað þér að fara á undan þér og vera með þér, hún ætlar hvorki að sleppa af þér hendinni né fara frá þér og þú þarft hvorki að óttast né missa móðinn. (5. M  31.8).  Og ekki nóg með það heldur hefur Guð líka í hyggju að gera stórkostlega hluti ;  Því að ég þekki sjálf þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með ykkur, segir Guð, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita ykkur vonarríka framtíð.  Jer 29.11.

Er það ekki dásamlegt veganesti að hafa inní nýja árið og nýju dagana sem koma á móti okkur?

Arndís Linn

 

By |12 janúar 2014 13:14|Dagleg trú|

Hugmyndafundur Kvennakirkjunnar

Um leið og Kvennakirkjukonur óska öllum nær og fjær  velfarnaðar á nýju ári er blásið til hugmyndafundar næstkomandi fimmtudag, 9. janúar. Hugmyndafundurinn verður í sölum Kvennakirkjunnar að Þingholtsstræti 17 og hefst kl. 17:30. Á fundinum verða settar fram og unnið úr hugmyndum um starfið framundan, námskeið og guðsþjónustur.

By |6 janúar 2014 15:23|Fréttir|

Jólamessa í Háteigskirkju

Jólamessa Kvennakirkjunnar verður haldin í Háteigskirkju 27. desember kl. 20:00. Séra Arndís G. Bernhardsdóttir Linn prédikar,  Hallfríður Ólafsdóttir leikur á þverflautu og Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng.  Aðalheiður Þorsteinsdóttir leiðir jólasöng með kór Kvennakirkjunnar og á eftir verður jólakaffi.

By |21 desember 2013 23:29|Fréttir|

Þegar Guð kom – til okkar

Við höldum jólin af því að Guð kom. Sjálf. Í eigin persónu. Hún sem átti allt og hafði sjálf skapað það. Og falið það í hendur fólksins síns sem hún elskaði. Það var ekki að því að spyrja, og hún hlaut að vita það áður en allt byrjaði, að fólkið sem hún elskaði fór með allt út í móa. Svo hún ákvað að koma sjálf. Og vera Jesús. Þetta heppnaðist stórkostlega. Breiður af alla vega fólki slógust í hópinn um alla veröldina öld eftir öld. Og þess vegna erum við núna að lesa þetta bréf og hittast í Kvennakirkjunni okkar.

Nú skulum við fela henni allt. Henni sem kom til okkar. Til þín. Sem fórst líklega stundum út í móa eins og við hinar. Hún sótti þig alltaf. Af því að henni finnst til um þig og þarfnast þín og elskar þig. Nú þegar aðventan bíður okkar með annir og frið skulum við hvíla í þessu og gefa okkur næði til þess. Og við skulum láta það gleðja dagana svo við getum gert það sem við þurfum að gera og það sem við ætlum að gera þótt við þurfum þess ekki, við gerum það bara af því að það er svo gaman.

Guð gefur okkur allt sem við þurfum. Og við gefum fólkinu í kringum okkur eitt og annað og fáum frá því svo magt gott á dögunum til jóla.

Blíðar kveðjur. Auður

By |18 desember 2013 22:25|Dagleg trú|

Aðventan – Jólafastan

María og Jósef voru fólk á ferð. Þau voru á ferðalagi frá Nasaret til Betlehem til að láta skrásetja sig því það var manntal í ríkinu. Þannig var hin fyrsta aðventa. Þau voru bíða fæðingar barnsins, undirbúa komu þess ásamt því að sinna því sem þurfti.

Við erum einnig að undirbúa komu barnsins á aðventunni. Að mörgu þarf að hyggja. Við erum fólk á ferð og sjaldan vill ferðin á okkur verða meiri en á aðventunni. Á aðventunni sem endra nær er Biblían vegakortið okkar og vísar okkur veginn til fyrirheitna staðarins sem í þessu tilfelli eru jólin.

Barnið er að fara að fæðast. Jólafastan, aðventa, er andlegt ferðalag til móts við birtu jólanna, fagnaðarerindi jólanna, gleðiboðskapinn: Yður er í dag frelsari fæddur. Undirbúum komu jólanna með tilhlökkun í hjarta. Iðrumst og hreinsum til í lífi okkar með hjálp Guðs. Þá fær ljós Guðs að lýsa upp hjörtu okkar og lýsa upp jólin.

Sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |15 desember 2013 23:12|Dagleg trú|

Hvað gerir þú á aðventunni?

Að vera búin að kaupa allar jólagjafir og baka og hafa hreina glugga áður en ég skreyti þá. Sem sagt að hafa allt á hreinu og hafa aðventuna fyrir mig og fara á tónleika og gera það sem mér var huglægast. Jú, jú, svolítil sjálfselska, það má líka.

En við tökum á móti dögunum sem koma, þeir koma bara, og við fáum engu breytt um hvað þeir boða, þeir eru bara misgóðir og misbjartir og sumir boða sorg, við sköpum ekki þá reynslu sem dagarnir koma með, við göngum í gegn um hana, þeir spyrja ekki hvað við viljum.
En manni finnst að þessi tími eigi að vera án áfalla. Við stöndum frammi fyrir því hvað við erum lítil, þegar sorglegir atburðir koma, og þegar veikindi verða hjá okkar nánustu og þeim sem manni þykir vænt um þá verðum viðdöpur og áhyggjufull. En þetta má ekki, ég veit að Guð hefur bannað það að hafa áhyggjur og depurð, hún er búin að segja „ég skal taka þínar áhyggjur og verð alltaf með þér, sama hvað sem er að gerast hjá þér“. Svo ég hef sett þetta allt í hennar hendur, þess vegna ætla ég að einblína á ljósið sem er framundan, með tilhlökkun til aðventunnar, og þegar ljósið kemur til okkar.

Þökk fyrir jólin elsku Guð og kærleikann sem umvefur okkur í þínu ljósi með fjölskyldum okkar og vinum, megi nýja árið vera á þínum vegum svo við megum þjóna þér og samferðafólki okkar í kærleika þínum.

Súsanna Kristinsdóttir

By |10 desember 2013 15:02|Dagleg trú|

,,Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi“ til sölu

Þá hefur annað upplag að nýútkomnu hefti í ritröð Kvennakirkjunnar, Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi  eftir Auði Eir Vilhjálmsdóttir verið gefið út.

Þetta er lítið hefti í 5 köflum og 5 fallegum litum og er um möguleikana til að lifa hversdagslegu lífi okkar með hin undursamlegu ráð Fjallræðunnar í hjarta okkar. Heftið var upprunalega kynnt á nýafstöðu námskeiði í Kvennakirkjunni með sama nafni.
Heftið fæst á 1500 krónur.

Hægt er að hafa samband  við þær sem bralla daglega í Þingholtsstræti – og svo verður heftið  líka til sölu í Kirkjuhúsið.  Síminn okkar er 551 3934 og netfangið kvennakirkjan (hja) kvennakirkjan.is. Nú svo er líka hægt að hringja til Auðar í 864 2534.

Bókin vakti svoddan lukku á námskeiðinu að konum fannst nauðsynlegt að gefa tækifæri til að hafa hana til gjafa svo Aðalheiður prentsmiðjustóri okkar prentaði meira fyrir okkur.

By |3 desember 2013 14:23|Fréttir|

Aðventumessa Kvennakirkjunnar 1. desember

Aðventumessa  verður 1.  desember klukkan 20 í Kirkju Óháða safnaðarins við Háteigsveg á fyrsta sunnudegi í aðventu
Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar. Kór Kvennakirkjunnar leiðir aðventusöng undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur
Kaffi á eftir . Þær sem sjá sér fært að færa okkur góðgerðir með kaffinu fá alúðarþakkir

Við komum til að finna frið og hugrekki og förum heim  með þessar undursamlegur gjafir Guðs

By |27 nóvember 2013 13:55|Fréttir|

Hvað segirðu um þig í dag?

Ég var að rifja upp ýmsar skemmtilegar lýsingar sem við höfum um okkur sjálfar og annað fólk.  Eins og:  Ég ætlaði að segja þeim meiningu mína en missti kjarkinn og varð eins og smjör í volgri hendi.  Ég er alveg niðurbrotin eins og samanbrotið pappírsblað, þótt það sjáist ekki á mér.  Ég er eins og mulin paprikka í glæru glasi og allt fólk sér það.  En þetta er best:  Hún Sigríður er svo dugleg.  Og svo er nú Jónína eins og hún er.

Biblían er full af ýmsum lýsingum á fólki sem var alla vega  uppgefið og vonlaust leynt eða ljóst og fékk þann úrskurð hjá öðrum að það væri nú eins og það er.  Ég held að uppgjöfin sé stundum eins og öryggisventill svo að það sjóði ekki upp úr í huga okkar.  Ég held að við megum læra að gefast stundum upp.  Hvað heldur þú?

Fólkið í Biblíunni endaði aldrei lýsinguna í uppgjöf.  Endirinn var svona:  Þá rétti Guð mér hendina og reisti mig aftur upp.  Þegar Guð kom sjálf og varð ein af okkur, Jesús frelsari okkar, þá sagði hún:  Þú ert ekki lengur þjónustustúlka.  Þú ert vinkona mín.  Þú átt allt með mér og ég geri þig með mér að ljósi heimsins.  Hvað segirðu um það í dag?

Blíðar kveðjur, Auður

By |27 nóvember 2013 13:47|Dagleg trú|