audurilitminnstVið höldum jólin af því að Guð kom. Sjálf. Í eigin persónu. Hún sem átti allt og hafði sjálf skapað það. Og falið það í hendur fólksins síns sem hún elskaði. Það var ekki að því að spyrja, og hún hlaut að vita það áður en allt byrjaði, að fólkið sem hún elskaði fór með allt út í móa. Svo hún ákvað að koma sjálf. Og vera Jesús. Þetta heppnaðist stórkostlega. Breiður af alla vega fólki slógust í hópinn um alla veröldina öld eftir öld. Og þess vegna erum við núna að lesa þetta bréf og hittast í Kvennakirkjunni okkar.

Nú skulum við fela henni allt. Henni sem kom til okkar. Til þín. Sem fórst líklega stundum út í móa eins og við hinar. Hún sótti þig alltaf. Af því að henni finnst til um þig og þarfnast þín og elskar þig. Nú þegar aðventan bíður okkar með annir og frið skulum við hvíla í þessu og gefa okkur næði til þess. Og við skulum láta það gleðja dagana svo við getum gert það sem við þurfum að gera og það sem við ætlum að gera þótt við þurfum þess ekki, við gerum það bara af því að það er svo gaman.

Guð gefur okkur allt sem við þurfum. Og við gefum fólkinu í kringum okkur eitt og annað og fáum frá því svo magt gott á dögunum til jóla.

Blíðar kveðjur. Auður