Markús

Góðu vinkonur.  Við töluðum í síðasta mánudagstíma um 2. kaflann hjá Markúsi.  Mikið er gaman að vita að þið lesið með okkur.  Við töluðum um reglurnar sem Jesús var að fá landsfeðurna til að hætta að halda og hætta að heimta.  Erum við  sjálfar að halda einhverjar reglur sem við ættum að létta af okkur?  Já,  einhverjar en okkur fannst daglegt líf bara ágætlega frjálslegt í okkar eigin góða landi.  Við ráðum því sjálfar að vera ekki að glepjast til að herma eftir siðum sem  okkur þykja óskynsamlegir.  Hvað segir þú?  Blíðar kveðjur,  Auður

By |28 október 2021 9:01|Dagleg trú|

Heilög önd – Örhugleiðing sr. Huldu Hrannar

Heilög önd.

 Á Hebresku og arameisku er andinn kvenkyns, í grísku er hann hvorkyns, en á íslensku er hann karlkyns.  Gamla testamentið er skrifað á hebresku og arameisku og Jesús talaði arameisku.  Nýja textamentið er skrifað á grísku.  Svo hvers vegna er Heilagur andi karlkyns á Íslensku?  Spyr sú sem ekki veit.  Skiptir það máli að persónur guðdómsins séu ritaðar í karlkyni?  Hefur það áhrif á guðfræði okkar að Heilagur andi er karlkynsorð á íslensku?

Það gæti verið góð hugmynd að lesa eitt guðspjallanna og setja alls staðar Heilög önd í stað Heilags anda til að sjá hverju það breytir.

 

Er allt fólkið lét skírast var Jesús einnig skírður.  Þá bar svo við, er Jesús gerði bæn sína, að himininn opnaðist og Heilög önd steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni:  “Þú ert minn elskaði sonur, í dag hef ég fætt þig.” (Lk.3:21-22)

By |10 mars 2021 19:45|Dagleg trú|

Sýn okkar á Jesús – Örhugvekja sr. Huldu Hrannar

Sýn okkar á Jesús

Jesús fylltist af fagnandi gleði Heilagrar anda og vegsamaði Guð. (Lúk.10:21a)

Flestar gerum við okkur í hugarlund mynd af Jesús.  Hver er þín mynd?  Er hann glaður, leiður, sorgmæddur, þjáður?  Brosir hann með augunum, blíðu brosi, með umhyggju, kærleika, miskunn, vináttu o.s.frv. eða er hryggð í svip hans?  Ritningarversið hér að ofan minnir okkur á að Jesús var einnig glaður þrátt fyrir að flest öll málverk af honum sýni annað.  Og hann kom til að flytja fátækum gleðilegan boðskap (Lk.4:18b). Getur ekki verið að Guð brosi til þín og sé ánægð með þig?  Taktu á móti gleðinni.  Leyfum gleði Heilagrar andar að fylla líf okkar, lofum Guð og brosum út í eitt, því brosið eykur gleði okkar.  Og gleði Guðs er styrkur okkar (Nem.8:10c).  Jesús sagði:  Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé heill.  Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.” (Jóh.15:11-12)

 

Við biðjum:

“Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.” (Sálm.90:14)

By |4 mars 2021 19:44|Dagleg trú|

Hvert er uppáhalds jólaskrautið þitt?

Örhugleiðing sr. Huldu Hrannar M. Helgadóttur

Hvert er uppáhalds jólaskrautið þitt?

     Flest eigum við okkur okkar uppáhalds jólaskraut.  Jólaskraut getur kallað fram gleði, notalegheit og jólatifinningu í huga okkar.   Og mörgum finnst heldur fátækleg jól án nokkurs jólaskrauts.  Við höfum mismunandi smekk á skrauti.  Sum eru t.d. meira ljósafólk á með önnur eru meira dúkafólk, sum eru meira fyrir einfalt handgert skraut á með önnur vilja glit og glans. Hvert er uppáhaldsjólaskrautið þitt?  Og hvers vegna er skrautið í uppáhaldi hjá þér?

     Norman Vincent Peale segir frá því bókinni Fjársjóður jólanna (Reykholt 1993) þegar hann hélt upp á jólin í Kenía 87 ára að aldri.  Ekki var hann beint jákvæður þegar fjölskylda hans kom með þessa hugmynd að búa í tjaldi um jól innan um villt dýr.  Aðstæður voru frumstæðar og sólarhiti.  Hann varð andvaka þarna úti vegna þess að ekkert minnti hann á jólin, engin jólatré og engin jólaljós.  Hann var dapur í bragði.  Svo kom að jólunum.  Þá var fjölskyldan sett niður við árbakka svo hún gæti horft á tvo hirða gæta nautgripa.  Þessi friðsæla sýn vakti með honum viðkvæmni, því þarna tengdi hann við fjárhirðana í Betlehem og einfaldleika jólafrásögunnar.  Hann fékk fullkomna vissu og frið fyrir því að þar sem jólin væru annars vegar, skiptir umhverfið ekki neinu máli.  Andi Guðs væri nefnilega alls staðar.  Skrautið væri umbúðirnar um hið raunverulega djásn, sem er að Guð hefur í lotið að mannheimi í litlu barni, til að gefa þeim af kærleika sínum.

 

By |24 desember 2020 10:29|Dagleg trú|

Gleðilegt haust

Er ekki gott að fá að hittast eftir sumarið?   Við komum sem getum í messuna á sunnudaginn kemur og gætum vandlega að fjarlægðinni eins og  við eigum að gera.  Verðum samt nálægar.

Þökkum Guði fyrir blessun hennar nú sem alltaf.  Þegar myrkrið umlykur okkur í haustinu er eins og alltaf næðið til að kveikja á lömpunum og hreiðra um okkur í kvöldværðinni sem við óskum hver annarri.  Það er mikil gjöf að eiga ró hjartans og við biðjum hver fyrir annarri.  Megir þú þiggja frið Guðs á þessum haustdögum svo að það sé bjart framundan hjá þér.  Við vitum allar að við eigum möguleikana til að gleðjast og vera glaðværar og vitum hvað það hefur góð áhrif á okkur og hvað glaðværð okkar verður öðrum til góðs.

Þið frelsist fyrir afturhvarf og rósemi og styrkur ykkar er í þolinmæði og trausti.  Það er góð tvenna að eiga bæði rósemi og glaðværð.  Það læknar okkur og gefur okkur fögnuð í lækningu okkar.  Svo að við eigum eins og áður kjarkinn til að njóta daganna sem Guð gefur okkur og efast engan veginn og aldrei um návist hennar og ást.  

 

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

 

By |22 september 2020 18:27|Dagleg trú|

Jólamessan

Jólamessan okkar í Háteigskirkju var í alla staði yndisleg eins og vænta mátti.   Við komum margar sem komum eiginlega alltaf en sumar komust ekki eins og gengur og við hinar söknuðum þeirra eins og vonlegt er.  Það er mikið gleðiefni að hittast í messunum og við þökkum Guði hver fyrir aðra. 

Það var líka gleðiefni að kvennakirkjukonur sem hafa ekki átt kost á að koma um hríð birtust og vöktu okkur mikla gleði.  Svo komu líka konur sem hafa aldrei komið fyrr og þeim var líka fagnað af öllu hjarta.

Við drukkum kaffi eftir messu í litla salnum niðri og það var yndisleg stund.  Kirkjan tekur alltaf vel á móti okkur og annast um okkur.  

By |14 janúar 2020 22:18|Dagleg trú|

Gleðilega aðventu

Við skulum njóta daganna til jóla.  Þeir verða svo góðir ef við förum rétt með þá.  Það vitum við allar.  Þeir verða eins og undur  fallegur söngur sem breytist svo af sjálfu sér í jólasálmana og gleðina sem jólin færa okkur.

Er það ekki gott að við skulum sjálfar geta haft stjórn á þessum dögum sem er svo mikið talað um að verði órói og erfiði og kannski vonbrigði líka?

Förum vel með þá.  Við segjum að það sé samstarf okkar og Guðs að gera dagana eins og okkur langar svo til að þeir séu.  Það stendur ekki á Guði að rétta okkur hendina og hjálpa okkur við þetta mikla og góða verk.  Verkið er í trú okkar og trausti til hennar og gleðinni yfir því að eigahana sem vinkonu okkar.  GLEÐILEG JÓL.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |6 desember 2019 19:37|Dagleg trú|

Boðberar

Boðberar

Það rennur upp fyrir mér ljós,

svo skært að mér liggur við blindu.

Það voru konur sem fluttu fyrstar fréttirnar

á páskum

ótrúlegar fréttir.

Það voru konur,

sem skunduðu til að hitta vinkonur og vini Jesú

og andstuttar, forviða,

létu mestu orðin falla:

Hann lifir.

Hugsum okkur,

hvað, ef konur hefðu þagað?

Marta Wilhelmsson

By |26 nóvember 2019 19:37|Dagleg trú|

Bænin

Enn og aftur er talað um þungann af angistinni.  Það er von.  Kvíðinn er alltaf
nálægur fyrr og síðar þótt misjafnlega mikið sé talað um hann.   Eins og við
vitum eru Sálmar Biblíunnar að miklu leyti um angistina.  Hjálpaðu mér, Guð,
sagði fólkið.  Komdu og hjálpaðu mér. Jesús talaði um angistina og bauð fólki
 að koma til sín og fá frið.

Boðið stendur alltaf.  En óróin sem vekur angistina hefur ekki horfið.  Ég
ætla ekki að taka ykkur út úr veraldarvafstrinu, sagði Jesús í síðustu
kvöldmáltíðinnni.  En ég ætla að vera þar með ykkur.  Ég ætla að gefa ykkur
frið í heiminum, ekki eins og heimurinn gefur heldur eins og ég einn gef.

Bænin er besta vörnin gegn angistinni.  Við getum orðað angist okkar  við Guð
eða við getum bara farið til Guðs og verið hjá henni.  Ég hef sagt það fyrr,
við getum verið hjá Guði eins og við vorum einu sinni hjá mömmu okkar eða
pabba eða öðru fólki sem við treystum og vissum að elskaði okkur og myndi
alltaf hjálpa okkur, vernda okkur og uppörva okkur.  Það var sama hvað
gerðist, þau myndu aldrei bregðast.

Finnurðu ekki hvað það er alltaf gott að vera með góðu fólki, svo að þið
talaði saman og finnið að þið eigið svo margt saman í lífinu?  Er það ekki
ein af undursamlegum gjöfum Guðs?

Blíðar kveðjur,  Auður

By |13 nóvember 2019 9:13|Dagleg trú|

Blíðir dagar haustsins

Guð, þú hefur verið okkur athvarf frá kyni til kyns.
Líka frá ári til árs og mánuði og viku, degi til dags
og klukkutíma og mínútu til mínútu.  Alltaf.

Við sögðum í mánudagssamtali í Þingholtsstræti
að yfirskrift trúar okkar væri traust.  Við treystum.
Við hugsum ekki um Guð allan daginn en við vitum að
hún er alltaf hjá okkur í öllu sem við gerum.  Við
tölum við hana þegar við vöknum og þegar við keyrum
um á daginn og á kvöldin þegar við komum heim. Við
þökkum hennni fyrir að hafa verið með okkur allan
daginn.

Guð er með okkur í þessum mildu haustdögum og
hún var hjá okkur í ótrúlegum sólardögunum.  Í
stóru og smáu.  Séra Kristín Pálsdóttir sagði í
morgunbæninni á mánudaginn að við fyndum það
stóra í því smáa.  Við finnum mikla návist Guðs
í smáum atburðum og augnablikum daganna.

Til hamingju með það.  Til hamingju með þig
sjálfa og vináttu þína og Guðs.

Biðjum hver fyrir annarri.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |24 september 2019 19:52|Dagleg trú|