Elizabeth Cady Stanton var frumkvöðull kvennabaráttunar og stofnaði fyrstu kvenfrelsissamtök Bandaríkjanna árið 1848 með vinkonu sinni Lucretiu Mott sem vr prestur kvekara.   Þegar Elizabeth um var um áttrætt gaf hún út Kvennabiblíuna með konum sem höfðu menntast stórlega í nýjum möguleikum kvenna.  Þær endurþýddu og endurskýrðu kafla um konur í Biblíunni til að gá hvað væri raunverulega sagt þar um konur.

Í Kvennabiblíunni er meðal annars skýring  á  dæmisögunni um meyjarnar tíu í 25. kafla Matteusarguðspjalls.  Elizabeth lýsir hinum óhyggnu meyjum sem miklum kjarkkonum.  Einar um miðnættið standa þær útilokaðar í myrkrinu og verða af veislunni miklu sem þær ætluðu til.  Þær höfðu ekki útbúið sig eins og þær áttu að gera en þær tóku ábyrgðina á því.  Vitru stúlkurnar höfðu útbúið sig og nutu framtaksseminnar.

Sagan um meyjarnar tíu er um tíu ungar konur  sem voru allar boðnar í brúðkaup.  Veislan átti að byrja einhvern tíma um kvöldið og allar stúlkurnar svo dauðþreyttar steinsofnuðu meðan þær biðu.  Þær vöknuðu við útkallið og þá var komið miðnætti.  Myrkrið var skollið á og fimm þeirra sáu sér til skelfingar að það var slokknað á lömpunum þeirra og þær höfðu ekki tekið með sér neina olíu.  Þær stóðu bjargarlausar í myrkrinu og eina ráðið var að biðja hinar fimm um hjálp, en þær höfðu tekið olíu með.  Þá verðum við allar olíulausar, sögðu þær.   Þið verðið bara að drífa ykkur í búðina.  Og stúlkurnar fimm fóru til að kaupa.  En  þegar þær komu að veislusalnum var búið að loka.  Þær misstu af sameiginlegri göngunni í veisluna og svo af veislunni sjálfri.  Það var trúlega af því að þær höfðu verið að snúast í að setja olíu á lampana hjá mönnunum i fjölskyldum sínum, feðrum, bræðrum og frændum í staðinn fyrir að sjá um sína eigin lampa, segja höfundar Kvennabiblíunnar og þannig var lífið þótt það standi ekki í sögunni.

Og þær segja:  Þær stóðu fyrst eins og aðskotadýr í göngunni, útundan með dimma og tóma lampana.  Það komu engir skilningsríkir menn til að hlaupa eftir olíu fyrir þær og þegar þær standa við lokaðar dyrnar á veislusalnum í skininu frá uppljómuðum gluggunum og óminum af veislugleðinni kom ekki nokkur  manneskja til að hugga þær í auðmýkingu þeirra og einsemd.  Aleinar verða konur að mæta hræðilegri neyð lífsins og annað hvort farast þær eða bjarga sér með sínu eigin hugrekki.

Konur fórna sér til að efla menn í menntun þeirra og störfum.  Þær eiga ekki að gera það heldur efla sjálfar sig til að taka þátt í störfum og framförum heimsins. Biblían kennir þeim að það eiga þær að gera,  eins og stúlkurnar fimm sem tóku með sér olíu til að hafa lampa sína logandi.