Upplýsingar

Við höfum ofið þessa messu inn í uppistöðu stefsins okkar: Við komum, Guð, til þín. Við höfum komið til hennar núna í messunni með áhyggjur, sorg og gleðina djúpu – og hlustað á hana svara. Við höfum heyrt svörin. Þau eru: Vertu hjá mér. Ég er alltaf hjá þér. Treystu því. Treystu mér. Treystu þér. Það er svo margt sem þú getur notið í lífinu. Gerðu það. Og notaðu kjark þinn og kraft til að gera það sem þú getur til að lifa lífinu í gleði og mætti. Og það er þá sem þú getur haft áhrif á fólkið í kringum þig.
Við höfum öll í landi okkar talað og talað og talað um kreppuna á undanförnum mánuðum og ekkert er skiljanlegra og eðlilegra, af því að kreppan hefur umturnað lífi okkar allra. Hún hefur gert sumt fólk févana ogsumt fólk atvinnulaust og sum okkar þurfa að gera hlé á námi sínu og gera eitthvað annað í bili en önnur fara til náms sem þau ætluðu sér ekki en gefur þeim nýja möguleika. Kreppan snertir okkur á mismunandi máta en hún hefur gert okkur öll að stórum spurningamerkjum. Við höfum heitið hver annarri hérna í Kvennakirkjunni að hjálpast að við að taka málið skynsamlegum tökum. Til að láta ekki hrekjast fyrir umræðu sem er löngu orðin eins og sífelldur þakleki í eyrum okkar. Til að finna hvar við stöndum og standa fastar í trú okkar, lifandi og sterkri Það er ekki á okkar færi að leysa efnahagsmálin en það er á okkar færi að styrkja sjálfar okkur og þau sem eru í kringum okkur. Ég held að við ættum að hugsa verulega rækilega um það. Við getum ekki ráðið bót á allri kreppunni en við getum alveg áreiðanlega mildað sársaukann og flýtt fyrir batanum með því að hafa góð áhrif á þau sem eru í kringum okkur. Og það er stórkostlegt að geta það. Við gerum það með því að halda fast í Guð. Og þegar við höldum okkur fast í Guð fáum við gleðina til að hafa góð áhrif. Nú langar mig svo til að segja ykkur tvær sögur. Fyrri sagan er eftir Björnstjerne Björnsson og ég las hana fyrir langa löngu. Hún er um tvo menn í einhverri byggðinni í Noregi. Annar var í sveitarstjórninni og þurfti að vasast í málum bæði seint og snemma og fékk alltaf ráðleggingar hjá hinum sem vildi alltaf vera heima og aldrei tala á fundum. Hann tuggði stráið sitt og gaf vini sínum gullgóð ráð sem hann bar fram í sveitarstjórninni. En einn daginn þegar átti að kjósa í sveitarstjórnina tók heimamaðurinn stráið út úr sér og sagðist sjálfur ætla í sveitarstjórnina. Og hann var kosinn. Og hinn missti hlutverk sitt og var allt í einu orðinn utanveltu og einmana og einskis virði. Hvað gerði hann þá? Hann settist upp í kerruna sína og keyrði heim. Þegar hann kom heim sátu börnin hans kringum eldhúsborðið og konan hans var að ausa ilmandi grauti upp í litlu skálarnar þeirra. Það var svo falleg birta í eldhúsinu og þau störðu öll á hann bæði hissa og glöð yfir að hann skyldi vera kominn svona óvænt, hann sem var alltaf úti í sveit að vesenast með öðru fólki. Og hann fann að hann var kominn heim. Og hann fann að hann var hvorki utanveltu, einmana eða einskis virði. Þetta var fyrri sagan. Mér finnst hún vera um það sem ég hef heyrt margar okkar segja svo oft á síðustu vikum: Nú skulum við finna það sem við eigum en höfum ekki haft vit á að njóta nógu vel í öllu veseninu í okkur við að vera úti um allar sveitir, í alltof mikilli vinnu og allt of miklum ferðalögum og ýmsu svoleiðis og allt of miklu hugsunarleysi. Hvað finnst þér? Ég held að svar Guðs sé í þessu. Komum nú heim til sjálfra okkar, heim til þess sem við eigum í lífi okkar og heim til þess sem við erum inni í okkur. Og finnum að það er gott að vera komnar heim til góðu hugsana okkar og finna að Guð er hjá. Og finna að hún var líka hjá okkur í fyrra og árin þar áður þegar allt var öðru vísi. Af því að hún er alltaf hjá okkur. Við vorum líka hjá Guði í fyrra. Við skulum minna sjálfar okkur og hver aðra og hvert annað á það. Við erum og vorum vinkonur og vinir Guðs. En við skulum líka taka sjálfar okkur og hver aðra tali um það að það er ekki bara ruglingur í fjármálum sem hefur ausist yfir okkur. Það er líka ruglingur í trúmálum. Ég held það. Ég held að við höfum búið við svo mikið flæði af ýmiskonar braki úr ýmiskonar trúmálum á undanförnum árum að nú sé mál til komið að við tökum í taumana. Það er nú svo sem betur fer að allar megum við hugsa okkar eigin hugsanir um og móta okkar eigin trú, eins og við segjum hver annarri seint og snemma. Og allt fólk í öllu þjóðfélaginu hefur þetta sama frelsi. Og ég segi aftur: Guði sé lof. Og það er einmitt þess vegna, í frelsi okkar til að móta trú okkar, sem mér finnst að mál sé komið til að við tökumst alvarlegu tali um grundvöll trúar okkar og gáum hvað kristin trú er. Hvað er ég nú að meina þegar ég segi að ýmislegt brak úr öðrum trúmálum hafi ausist yfir okkur? Ég meina að allt heila þjóðfélagið er farið að tala og tala um hina og þessa trú sem er brot af miklum trúarstefnum, og það er talað um þessi brot eins og þau væru ekki önnur og mikilúðleg trúarbrögð heldur hluti af kristinni trú og betri en ýmislegt sem er sagt í kristinni trú. Ég held að þetta tal verði til þess að við gleymum grundvelli kristinnar trúar. Og efvið gleymum honum gerum við sjálfum okkur ólýsanlegan skaða. Við tölum með feginleika um það sem búddatrú getur kennt okkur um þolinmæðina eða slökunina eða önnur austurlensk trúarbrögð geta kennt okkur um hugleiðsluna eða gildi smámunanna. Er ég þá kannski að tala gegn búddatrú eða jóga eða Dalai Lama eða Gandi? Nei, það er langt frá því. Ég er að segja að þetta sé allt gott og gagnlegt og rétt að tala um það með feginleik og þakklæti. En ef það verður trúarbrögð okkar verður það til þess að við missum af okkar eigin kristnu trú sem er sjálfum okkur, kristnu fólki, miklu meira virði. Kristin trú er trúin sem okkur er gefin og við berum ábyrgð á. Og kristin trú er um Guð sem kom og var Kristur. Hann er hún sem kom. Hún kom og var Kristur. Og það er svarið við spurningunum sem við spyrjum núna um það hvernig við getum mætt kreppunni. Svarið er ó langri langri sögunni um Guð sem leiddi fólkið sitt út úr kreppu eftir kreppu sem Gamla testamentið segir frá og kom svo sjálf og leiddi okkur út úr kreppunni sem við eigum við sjálfar okkar, í hugsununum sem við ráðum ekki við. Ég skal hjálpa þér að ráða við hugsanir þínar, ég skal hjálpa þér til að ráða við líf þitt, ég skal hjálpa þér til að verða öðrum að blessun, sagði Jesús. Nú erum við búnar að búa til Torgið okkar sem við erum búnar að tala um síðan um áramótin. Við ætlum að hittast á mánudögum klukkan fimm og vera saman í klukkutíma eða einn og hálfan tíma, eftir því sem okkur sýnist í sameiningu. Og við ætlum að skrifast á á netinu og uppörva hver aðra eins og okkur langar til. Við komum til með að spyrja spurningar eins og þessara: Hvernig svarar Guð? Hvernig hölfum við áfram að búa til guðfræði um Guð sem er vinkona okkar og líka vinur okkar Jesús? Hvað segjum við um allt það góða sem er í annarri trú? Og ýmsar aðrar spurningar sem þú vilt spyrja. Og við hjálpumst að við að svara. Ég held að Torgið okkar sé eitt af svörunum frá Guði svo að við getum fundið svörin við spurningunum sem við viljum spyrja. Verum velkomnar á morgun klukkan fimm í stofurnar okkar á Laugavegi 59 og alla næstu mánudaga á eftir. Og á Torgið á netinu. Og svo kemur í lokin seinni sagan sem ég ætlaði að segja okkur.