Upplýsingar

Góða fólk. Takk fyrir samveruna í kvöld sem við höldum áfram með því að halda áfram að láta fara vel um okkur í þessum góðu sætum kirkjunnar. Ég ætla að segja okkur sögu. Eina langa sögu. Það er sagan af Madam Ramotswe í Kvenspæjarastofu númer eitt suður í Bostvana í Afríku og þeim gildum sem hún og hennar fólk höfðu í lífi sínu.

Madam Ramotswe er persóna í nokkrum leynilögrelgusögum eftir Alexander McCall Smith. Hann er lagaprófessor í Edinborg en fæddist í Afríku og það er ekki langt síðan sjónvarpið sýndi þátt um hann. Það er Helga Soffía Einarsdóttir sem hefur þýtt bækurnar á íslensku. Madam Ramotswe stofnaði Kvenspæjarastofu númer eitt fyrir arfinn frá pabba sínum, herra Obed Ramotswe sem fæddist árið 1930. Hann vann í demantsnámunum í Botswana en missti konu sína þegar Precious var lítil og ól hana upp með aðstoð ættingja í þorpinu Mochudi. Herra Obed Ramotswe, sem Precious kallaði pápa, féll frá þegar hún var orðin fullorðin kona. Þá hafði hann keypti nautgripi fyrir ævilaun sín og fyrir andvirði þeirra gat Madam Ramotswe keypt hús við Zebra Drive í Gaborone og líka komið á fót Kvenspæjarastofu númer eitt. Hún hafði þá verið í stuttu og vondu hjónabandi með glaumgosa og eignast barn þeirra sem dó við fæðingu. En hún trúlofaðist seinna og giftist herra J.L.B. Matekoni sem var bifvélavirki og eigandi Tlokweng spíttmótora og andstæða fyrri manns hennar í einu og öllu. Ef J.L.B. Matekoni sagði viðskiptavinum sínum að bíllinn þeirra yrði tilbúinn klukkan fimm á fimmtudegi var hann tilbúinn klukkan fimm á fimmtudegi. Og ef hann hafði nefnt verðið stóð það, þótt viðgerðin hefði verið meiri en hann hélt.

Madam Ramotswe var eini kvenspæjarinn í Botswana og það fóru brátt sögur af snilld hennar. Hún var líka dáð fyrir hefðbundið vaxtarlag sitt. Þegar þau herra J.L.B. Matekoni fóru til að kaupa trúlofunarhring handa Madam Ramotswe gat demantssalinn ekki stillt sig um að votta herra J.L.B.Matekoni aðdáun sína fyrir að eiga svona feita konu. Henni var oft hrósað fyrir að vera feit og ávörpuð sem feita konan. Hún var góð kona. Og herra J.L.B. Matekoni var góður maður. Það var fleira gott fólk sem hún hitti og það hafði eins og þau í heiðri gömlu gildin í Botswana. Það var hins vegar að hverfa og ungt fólk lærði ekki að njóta þeirra. Eftir þessum gildum sagði fólk hvert við annað í samtölum sínum: Þú ert góð kona. Þú ert góður maður. Og það byrjaði samtöl sín með því að spyrja um heilsu hinna. Og þau sem voru spurð svöruðu: Þakka þér innilega. Mér líður vel og ég sef vel. Og þótt þau væru ókunnug buðu þau hvert öðru vatn eða te til hressingar. Og þau kölluðu hvert annað systur og bræður. Hvít amerísk kona sem kom til Madam Ratmotswe til að fela henni leynilögreglustarf sagði henni að hún hefði alltaf dáðst að þessum ávörpum og farið að gráta þegar hún var kölluð systir í fyrsta sinn.

Það var alveg óþarfi fyrir Madam Ramotswe að hafa ritara og kvenspæjarastofan bar alls ekki tvær stöður. En eftir gömlu gildunum í Botswana átti fólk að veita öðrum með sér. Þess vegna, og líka vegna þess að það var virðulegt utan frá, réði Madam Ramotswe Madam Makutsi sem ritara. Þegar stundir liðu fannst Madam Makutsi það samt ekki nóg að verða ritari alla ævina og langaði afar mikið til að verða kvenspæjari við hlið Madam Ramotswe. Þegar Madam Ramotswe heyrði það gerði hún Madam Makutsi að kvenspjæara með sér. Hún fékk henni sjálfstæð verkefni en hjálpaði henni með reynslu sinni. Madam Ramotswe hafði sjálf notið kærleika. Þegar hún var lítil stelpa í Mochudi vakti hún aðdáun allra fyrir kunnáttu sína í teikningu. Kennararnir hennar hvöttu hana og myndir hennar voru valdar framan á Botswana-almanakið. Skólinn í Mochudi frétti af myndlistakeppni fyrir börn og Precious var beðin að teikna hvað sem hún vildi til að senda í keppnina til Gaborone. Hún teiknaði myndina á laugardegi og afhenti kennaranum á mánudegi og allt fólkið varð stórhrifið og sendi myndina milli tveggja arka af bylgjupappa í ábyrgðarpósti til Gaborone. Þau voru öll viss um að hún Precious þeirra myndi fá verðlaunin.

En það heyrðist ekkert frá Garorone og þau gleymdu öll þessari keppni. En eftir fimm vikur kom bréf sem kennarinn las fyrir Precious: Þú hefur unnið fyrstu verðlaun og átt að fara til Gaborone til að taka á móti þeim. Þau fóru mörg í bíl skólastjórans og komu alltof snemma til Gaborone. Myndin hékk uppi á vegg og merkt Precious og undir henni stóð: Nautgripir við stíflu. Precious Ramotswe, litla stúlkan frá Mochudi, stóð stjörf. Ráðherrann var kominn til hennar og var að byrja á ræðunni. Hún leit upp til hans og hann brosti hlýlega til hennar. Þú ert mjög flinkur listamaður, sagði hann. En hún hvíslaði: Þetta er ekki mynd af nautgripum. Þetta er mynd af geitum. Ráðherrann leit á myndina og svo á Precious og sagði: Dómnefndin hefur gert mistök. Ég get ekki séð að þetta séu nautgripir. Mér sýnist þetta vera geitur. Og svo hélt hann ræðu og veitti Precious Ramotswe verðlaunin.

Ég varð snortin af öllu þessu fólki. Og líka af kvenspæjarastörfunum sem eru afar skemmtileg. Mér finnst að gildin sem þetta góða fólk hafði í huga sér, gömlu Botswana gildin, væru heiðarleikinn, vinsemdin og trúin á sitt eigið fólk, og trúin á Botswana. Og trúin á lífið sem þau gátu notið eftir öllum þessum gildum. Madam Ramotswe byrjaði morgnana með því að drekka runnate úti á pallinum við húsið sitt við Zebra Drive og hlusta á fuglana. Á kvöldin kom hún heim og eldaði kvöldmat, soðið grasker og kjöt og hvað annað góðgæti. Í dagsins önn og friði drakk Madam Ramotswe marga bolla af runnatei og Madam Makutsi hellti stöðugt upp á te fyrir viðskiptavinina. Þegar þau báru rautt og heitt teið upp að vörunum varð lífið allt miklu betra.

Allt þetta hvíldi á rótfastri trúnni á Guð. Guði sem Biblían sagði frá og var Jesús Kristur, sem hafði lifað og dáið og risið upp frá dauðum, eins og þeim hafði verið kennt í kristniboðsskólanum og kirkjunni. Það var þess vegna sem þau gátu metið hin gömlu gildi Botswana og notið þeirra. Þau leystu verkefni daganna og gátu horfst í augu við að það voru ekki bara til góðar manneskjur. Það var líka til vont og afar vont fólk. En kvenspæjarstofan leysti líka úr málum fyrir gott og afar gott fólk sem hafði komist í klípu eins og alltaf gat hent besta fólk. Hvað segjum við nú? Mér datt í hug að þið vilduð eins og ég taka á móti þessari uppörvun. Og bera gömlu gildin í Botswana saman við gömlu íslensku gildin okkar. Þau eru nefnilega þau sömu. Eða það held ég. Það eru gildi heiðarleikans, vináttunnar og vinsemdarinnar, traustsins á okkar eigið fólk og trúin á okkar eigið land. Við lifum kreppuna af og fáum aftur atvinnu handa okkur öllum. Af því að við eigum heiðarleikann og vináttuna og traustið á fólkið okkar og okkur sjálf og hvert annað og okkar eigið undursamlega Ísland. Og gömlu gildin. Sem við fengum og eigum og notum, kynslóð eftir kynslóð. Gildi kristinnar trúar. Mér þykir það svo aðdáunarvert í gildum Madam Ramotswe hvað hún metur mikils daglegt lífið eins og það er. Eins og hún hefur gert það í kristinni trú sinni eftir gömlu gildunum í Botswana. Hún lætur ekki vaða yfir sig og hún veður ekki yfir annað fólk. Hún tekur ekki lífsstíl annarra fram yfir sinn eigin lífsstíl. Og hún heimtar ekki að annað fólk hafi sömu hugmyndir og hún. Hún treystir sínum eigin hugmyndum og byggir lífið á því trausti. Hún er sjálfstæð, hugrökk, vingjarnleg og reisnarleg. Hún er góð kona. Og hún sefur vel. Það sem ég vildi leggja fyrir okkur með þessari prédikun en einfaldlega þetta: Þú, elskan mín, átt líka undursamleg kristin gildi. Þú hefur alltaf notað þau. Þess vegna ertu svona góð manneskja. Og þess vegna finnst okkur hinum svo gott að vera með þér. Og þökkum þér fyrir að koma í kvöld og vera með okkur í staðinn fyrir að gera eitthvað annað. Við hittumst saman hjá Guði í messunum okkar. Gefum og þiggjum. Og sendum hvert annað heim með nesti til morgundagsins svo að við getum leyst gáturnar og fengið okkur og öðrum þá góðu uppörvun sem Madam Ramotswe átti í runnateinu sínu.

Það væri með öllu óviðeigandi að segja hér frá hinum góðu gildum Kvenspæjarastofu númer eitt og söguhetjunni Madam Precious Ramotswe án þess að segja frá einu verkefni hennar. Sérlega þar sem hún greip til biblíulegra ráða til að leysa gátuna. Ein af allra fyrstu viðskiptavinum hennar var ung kona sem hér Happy Baptesi. Hún sagði Madam Romotswe sögu sína yfir ilmandi bollum af rauðrunnatei. Sagan var sú að pabbi hennar bankaði upp á hjá henni einn daginn og settist að hjá henni. Þessi afríska hefð að halda uppi ættingjum sínum getur lamað fólk, hugsaði Madam Ramotswe þegar hún keyrði af stað til að leysa málið. En þetta voru nú samt gildin sem þurfti að hafa í heiðri. Happy Baptesi var orðin vel efnuð og sjálfstæð kona og mamma hennar hafði sagt henni að pabbinn hefði bara horfið úr lífi þeirra. En nú var hann kominn og breiddi sig yfir líf Happy og þáði mat og húsaskjól og eyddi peningunum hennar. Kannski er hann alls ekki pápi minn, sagði Happy. Madam Ramotswe hugsaði með sér að það mætti taka blóðsýni, en það var til betri leið. Það var leið Salómons konungs í Gamla testamentinu sem fann út um tvær konur sem báðar sögðust eiga sama barnið. Sú sem sætti sig við að láta skipta því í tvennt og láta hvora hafa sinn helminginn gat ómögulega verið móðir þess. Madam Ramotswe fékk lánaðan hjúkrunarkvennabúning hjá vinkonu sinni. Hann var heldur þröngur og sérstaklega um handleggina, en hvað um það. Hún keyrði af stað í litla hvíta sendiferðabílnum og brunaði með miklum hraða upp að húsinu hennar Happy. Pápinn sat á pallinum og lét fara vel um sig. Það varð ógurlegt slys, sagði Madam Ratmoswe. Þú verður að koma og gefa dóttur þinni blóð. Það er hættulegt. Þú þarft að gefa helminginn af öllu blóðinu í þér. Þú gætir dáið. En þú verður að koma strax. Æ, ég get það ekki, sagði pápinn. Ég vil það ekki. En þú verður, sagði Madame Ramotswe. Sjáðu, sagði pápinn. Ég er ekki alvöru pápi hennar. Jæja, sagði Madam Ramotswe. Farðu þá burtu. Farðu heim til þín. Og hættu þessum vesaldómi og farðu að rækta melónur. Þegar Happy kom heim var pápinn farinn. Kannski hittirðu rétta pápann einhvern daginn, sagði Madam Ratmoswe þegar Happy kom til að þakka henni. En kannski ekki, bætti hún við. En þú verður alltaf Happy. Amen.