Upplýsingar

Við erum komin til Betlehem. Við berumst með straumnum á götunum sem eru yfirfullar af gestum frá öllum landinu og höfum ekki hugmynd um að í einu húsi í borginni er Guð komin sjálf til að taka þátt í lífi okkar. Hún er smábarnið yndislega sem var lagt í jötuna og ekki nokkur manneskja veit af nema María og Jósef og hirðarnir frá Betlehemsvöllum og vitringarnir frá Austurlöndum.

Hvers vegna komu hún? Hún sem átti alla veröldina og hefði getað gert við hana hvað sem henni sýndist. Hún hefði einfaldlega getað fleygt henni þegar hún sá hvað hún var orðin ómöguleg og langt frá því sem hún var sköpuð til að vera. Svo hefði hún geta skapað allt upp á nýtt. Af því að hún gat allt og átti allt og réði öllu. Veistu hvers vegna hún kom? Veistu af hverju Guð kom og varð Jesús? Já, þú veist það og hefur alltaf vitað það. Alveg síðan þér var sagt það þegar þú varst lítið barn sjálf og hirðar og vitringar í ýmsum myndum fólksins í kringum þig gáfu þér gjafir og sögðu þér þann einfalda og yndislega sannleika að þú værir yndisleg manneskja. Þau vissu að þú varst stundum óþekktarormur en þau elskuðu þig samt, elskuðu þig innilega. Það var þess vegna sem Guð kom. Af því að allt fólkið hennar sem gerði svo ýmislegtsem það átti ekki að gera var samt yndislegt. Og hún elskaði það innilega og það hvarflaði ekki að henni að gera það að engu og búa til allt upp á nýtt. Það verður seinna. Það að hún búi allt til upp á nýtt. En þá verðum við öll með í því. Og hún gerir það ekki af því að hún sé orðin leið á okkur heldur af því að hún vill gefa okkur veröld sem hún skapaði okkur til að búa í, flotta og góða veröld. Það stendur allt í Biblíunni. Það er hún sem er upplýsingabókin um trú okkar. Það er bara hennar vegna sem við vitum að Guð kom og varð manneskja eins og við.

Jesús sem fæddist í Betlehem á fyrstu jólunum. Hann var Guð. Hann var kallaður sonur Guðs. Af því að hann var Guð. Þegar englarnir höfðu sungið fyrir hirðana og Guð hafði talað við vitringana byrjaði nýr tími fyrir þau öll. Og líka fyrir Jesúm. Hann varð lítill drengur í Nasaret og ungur maður sem vissi vel sjálfur að hann var Guð. Við vitum ekki hvernig það var fyrir hann að vita það. Við getum ekki á nokkurn máta skilið það. En hann sagði þeim sem elskuðu hann hver hann væri og þau sögðu öðrum það. Og þrjátíu árum eftir að hann fæddist vissi allt landið að hann sagðist vera Guð. Og þrjátíu árum eftir það vissi fjölmargt fólk um alla veröldina að hann sagði þetta. Og fleiri og fleir trúðu honum. Og meiri og meiri kærleikur streymdi um veröldina. Það var kærleikur hans. Sami kærleikurinn sem hafði fyllt fjárhúsið í Betlehem þegar hann fæddist. Í þessum kærleika gerði fólkið hans miklar og mikilsháttar tilraunir til að útskýra trúna á hann, þessa einstöku trú að Guð væri komin í eigin persónu til að vera hjá fólkinu sínu. Það var flókið. Og það tók þrjú hundruð ár. Það komu fram fjölmargar hugmyndir og það var úr öllu hófi fram erfitt að velja úr þeim. En það var gert. Með allri þessari miklu vinnu og miklum og löngum samtölum við Guð. Það var greipt í orð. Við þekkjum þau og höfum alltaf þekkt þau. Það eru orðin í trúarjátningunni sem við orðum svona: Við trúum á Guð sem skapar og er Jesús sem frelsar og heilagur andi sem er alltaf hjá okkur. Þessi trúarjátning með orðum trúarjátningu postulanna er flutt um alla veröldina þar sem kristið fólk hittist. Fólkið sem streymdi um götur Betlehem nóttina sem Jesús fæddist hafði margs konar trú. Fólkið hafði líka margs konar trú þegar Guð kallaði formóður hans og forföður, Söru og Abraham. Þau áttu að taka á móti þeirri trú að hún ein væri Guð og engin nema hún og allar manneskjur veraldarinnar mætti eignast þá miklu gleði að treysta henni í blíðu og stríðu. Hvað sem gerðist átti þjóð þeirra að eiga það eina markmið að varðveita og boða þessa trú.

Og við sem erum kristin eigum það eina markmið að varðveita og boða kristna trú. Við gerum það með ýmsum hætti og gerum margt í mætti trúar okkar. Eins og Jesús sjálfur sem alltaf barðist fyrir sannleikanum en naut alltaf lífsins um leið. Við boðum alltaf trú okkar og við njótum og notum lífið um leið. Við spyrjum um allt hitt fólkið sem streymdi um göturnar í Betlehem og vissi aldrei neitt um Jesúm. Eða það sem heyrði um hann og kærði sig ekkert um hann. Og um allt fólkið núna sem hefur fæðst í allt öðrum trúarbrögðum. Hvað um það? Það vitum við líka. Af því að Biblían segir okkur það. Hún segir: Það er ekki á okkar snærum. Það er á snærum Guðs. Og við vitum að það er nú gott. Af því að þótt við séum yndislegar manneskjur og treystum Guði þá ráðum við ekkert við þessa spurningu. Það er líka alveg nóg fyrir okkur að spyrja um okkur sjálf. Og treysta því að í okkar eigin trú megum við verða til gagns og blessunar fyrir sjálf okkur. Þessa miklu veröld sem Guð skapaði og kom svo sjálf til að taka þátt í og blessa með nærveru sinni. Við veltum okkar eigin lífi fyrir okkur. Og við þurfum líka að gera það. Þessar hugsanir verða hátíðlegri og innilegri um jólin. Af því að þá er allt svo hátíðlegt. Í kvöld getum við varpað fram sameiginlegum spurningum um tímann sem er að baki og tímann sem bíður okkar á næsta ári. Þennan yndislega hversdag sem er aðeins öðru vísi en hátíðisdagarnir en á svo vel við hátíðleikann. Og nú opna ég ofurlitla jólagjöf til okkar allra.

Ég dreg hérna fram örlítinn pakka og þessa litríku skyrtu og spyr þig: Hvort vildirðu vera smáborgari eins og lítill böggull eða bóhem eins og skyrtan? Og svo dreg ég fram þetta kökuform og svo rjómaþeytara. Hvort viltu að þau sem þú deilir með trú þinni sé formfast eða í lausu lofti? Ég hugsa að ég svari fyrir okkur öll en þú tekur bara ekkert svarið til þín ef það hentar þér ekki. Mitt svar er svona: Ég vil hvorki vera smáborgari né bóhem. Ég vil hvorki vera í formföstu trúfélagi né loftkenndu. Ég vil vera borgari. Og ég vil vera í sterku og hlýju kristnu samfélagi sem talar um örugga trú á glaðværan hátt. Ég vil vera í Kvennakirkjunni. Ég vil vera þar með þér. Og takk fyrir að mega það. Við höldum áfram að segja hver annarri aftur og aftur og aftur þau yndislegu tíðindi sem gerðust fyrst á jólunum og svo aftur og aftur hvern einasta dag. Guð er komin., hún er komin sjálf. Vinkona okkar. Amen.

Einhvern tímann verða jólin 2009 minning. Vonandi góð minning. Nú þegar er aðventan er hafin svona falleg, og verður fallegri ef við munum eftir elsku Guðs innra með okkur og enn bætist í ef við tökum eftir englunum sem koma færandi hendi til okkar dag hvern – við þurfum ekkert að bíða eftir þeim, þeir koma alltaf þegar við hugsum til þeirra og vinátta Guðs flæðir í þig – flæðir svo sem lifandi vatn frá hjarta þínu sem ert hér í kvöld, frá dásamlega fólkinu sem statt er í Dómkirkjunni og hefur tekið frá stundina til að helga hana Guði og sjálfu sér. Verum vakandi, hlustum, horfum og tökum eftir englunum sem sendir eru. Englarnir segja okkur meðal annars að kvíða ekki, óttast ekki, gleðjast og fagna því að við eigum, hvað sem á dynur, alltaf Guð sem gengur með okkur. Vináttu Guðs. Guði finnst eflaust voða notalegt að fylgjast með okkur seint á aðfangadagskvöld þegar við erum búin að ganga frá öllu eftir kvöldið, þegar við læðumst upp í rúm í brakandi hrein sængurfötin, kannski með ískalda mjólk og smákökur og lesum í jólabókinni okkar eða hlustum á fallega tónlist. Þetta eru stundirnar með sjálfum okkur þar sem við uppfyllum væntingar Guðs um að elska okkur. Þannig erum auðvitað bara flottust og ótrúlega verðmæt vinir og vinkonur okkar sjálfra. Englarnir verða aldrei þreyttir á að sendast fyrir okkur og til okkar, þeir eru alltaf að, þeir fluttu boð um Jesúbarnið fyrir tvöþúsund árum og gera það enn: Guðs engill flytur ennþá boð með undurskærri raust um sálarfrið, um frelsi til að fagna óttalaust. Á jólahátíð heilög kyrrð fær hugann leyst úr þröng, Því heimurinn á hljóða stund og heyrir englasöng. Eigum gleðileg jól, öndum að okkur Guði, vonum hið besta og gefum hvert öðru bros í aðventugjöf.