Upplýsingar

Ég ætla að segja okkur tvær sögur. Það eru sögur sem ég er alltaf að segja aftur og aftur og aftur, og ég veit það. Ef þú værir að tala myndir þú líka segja þær . Af því að þær eru mestu sögur allra tíma og staða.
Fyrri sagan er um göngu Ísraelsfólksins yfir eyðimörkina fyrir rúmum þrjú þúsund árum, svona þrjú þúsund og þrjú hundruð árum. Hún er um fólkið sem Guð hafði kallað til að vera frjálst og boða öðrum þjóðum orð sitt. En nú var það orðið að þrælum í Egyptalandi. Þá hrópaði það til Guðs og hún heyrði hrópið. Hún brást strax við til að frelsa þau. Hún sendi Móse til að leiða þau gegnum Rauðahafið og gegnum eyðimörkina í fjörutíu ár og inn í landið sem hún gaf þeim. Fólkið möglað og Móse og Guð töluðu saman og loksins komst fólkið til fyrirheitna landsins. Þetta er hin mesta frelsunarsaga Gamla testamentisins. Hin sagan er framhald þessarar sögu í Nýja testamentinu. Hún er um það þegar allt fólk Guðs var orðið þrælar í sínum eigin hugsunum og þess vegna í sínu eigin lífi. Guð sá þetta allt. En hún sendi enga. Hún kom sjálf. Hún var Jesús. Og Jesús talaði og gerði kraftaverk og dó og reis upp frá dauðum í raunverulegum líkama og braut bönd dauðans og hélt áfram að vera í hjörtum þeirra sem tóku á móti honum. Hann frelsaði þau frá hugsunum sem bundu þau. Aftur og aftur á hverjum nýjum degi. Ég held að munurinn á fyrri sögunni og seinni sé sá að í fyrri sögunni talaði Guð við foringja sem talaði við fólkið. En í seinni sögunni talaði hún beint við hverja einustu manneskju. Jesús lagði hún lykkju á leið sína til að tala við venjulegt og alveg ófrægt fólk sem hann vissi að þurfti að tala við. Nú ætla ég að segja þér enn eina sögu úr Biblíunni. Bara rétt um þrjú hundruð árum eftir að Guð sýndi fólkinu sínu eilífa ást sína með því að leysa það úr þrældómnum í Egyptalandi heimtaði þetta sama fólk að fá kóng eins og hinar þjóðirnar höfðu. Þá var Samúel spámaður Guðs og leiðtogi þjóðarinnar í samráði við Guð. Guð talaði við Samúel og Samúel talaði við fólkið. Og Samúel sagði: Ég finn svo til, Guð. Þau vilja mig ekki, þau hafna mér. Og Guð sagði, nei, Samúel, þau hafna þér ekki. Þau hafna mér. Láttu þau fá kóng. Og Samúel sagði við fólkið: Kóngarnir munu taka syni ykkar og dætur og þræla þeim út og taka lönd ykkar og allt sem þið eigið handa sjálfum sér og sínum vinum. Hann var að segja þeim að þau væru að óska sér þess að verða aftur þrælar eins og í Egyptalandi. En fólkið vildi samt kóng. Og það fékk kóng. Og með því missti það af tækifærinu til að eiga Guð sem konung sinn. Þau misstu af tækifærinu til að eiga Guð sem vinkonu sína. Fólkið kaus aðrar manneskjur í staðinn fyrir Guð, manneskjur til að líta upp til og láta stjórna sér svo að þau þyrftu ekki að hugsa sjálf. Og nú sný ég að sögunni að sjálfum okkur. Skyldi þaða vera að við, víkingaþjóðin hamingjusama, viljum helst af öllu hafa kónga? Eitthvað fólk til að líta upp til og láta segja okkur hvernig við eigum að vera? Þegar ég fer að hugsa um það held ég að við frjálsborin og yndisleg séum í rauninni höfðingjasleikjur. Það er ekki huggulegt. En ég held það sé satt. Ég held að við séum alltaf að kalla yfir okkur kónga. Ég held við séum góðar og duglegar manneskjur og ég veit að Guð elskar okkur. Ég held samt að við séum höfðingjasleikjur. Af því að við flöðrum óeðlilega upp um fólk sem við höldum að sé meira en við sjálf og annað venjulegt fólk. Af því að það ræður meiru en við, á meiri peninga en við, hefur meiri menntun en við og er frægara en við og meira áberandi en við. Ég er svo innilega handviss um þetta að ég held að það væri gott að þú færir heim þeim þetta orð sem ég nota um okkur, orðið höfðingjasleikjur, og hugleiðir það í nokkra daga. Við þurfum nefnilega að komast út úr þessari óvirðulegu stöðu. Ég er ekki að segja að engin skari fram úr eða að engin eigi að skara fram úr okkur hinum. Sum okkar eru meira framúrskarandi en við hin og við skulum þakka þeim fyrir fyrirhöfnina sem þau leggja á sig og dást að þeim. Af því að við þörfnumst þeirra og þau þarfnast stuðngins okkar. Það er ekki þeim að kenna að við erum höfðingjasleikjur. Það er okkur að kenna, okkur venjulegum manneskjum sem erum hætt að meta það mikils að vera venjuleg góð manneskja. Við seljum frelsið til að njóta okkar og kjósum okkur kónga, marga smákónga og smádrottningar til að líta upp til. Við eigum að snúa við og fara aftur að meta hvert annnað og sjálf okkur fyrir að vera gott og heiðarlegt og skemmtilegt og hjálpsamt og viðkunnanlegt fólk. Og það er í svoleiðis samfélagi sem afbragðsfólkið vex upp sem er bæði eins og við hin og líka meira en við hin. Báðar gerðirnar eru nauðsynlegar, þau og við. Ég held þetta sé svona. Hvað heldur þú? Við skulum heyra hvernig framhaldið af kóngasögunni er í Nýja testamentinu og það verður síðasti kafli þessarar ræðu. Við heyrðum Margréti lesa það úr guðspjöllunum. Einu sinni voru vinkonur og vinir Jesú að hnakkrífast um það hvert þeirra væri mest. Þá sagði Jesús: Þið eigið ekki að vilja verða mest eins og fólkið í kringum ykkur vill verða mest. Þið eigið að hugsa öðru vísi. Sjáið þið bara kóngana sem ráða og frekjast og vita ekkert um stjórnun en hampa sjálfum sér. Og svo segir allt fólkið að þeir séu alveg frábærir þótt þeir séu kolómögulegir og stórhættulegir. En þið eigið ekki að hafa þetta svona hjá ykkur. Þau ykkar sem stjórna eiga að þjóna þeim sem þau stjórna. Og þau sem þiggja forystu þeirra eiga að þakka fyrir hana, aldrei að ógna, alltaf að styrkja. Og þau eiga sjálf að verða stjórnendur sem þjóna. Og vináttan á að umvefja allt sem þið gerið. Og svo sný ég okkur aftur að okkur sjálfum. Við eigum kristna trú okkar. Og kristin trú er trúin sem Guð fól okkur að nota og varðveita. Það er ekki á okkar snærum hvernig Guð talar við annað fólk sem á aðra trú. Hún fól okkur að vera kristin. Guð talar við þig. Hún hefur alltaf talað við einstaklinga. Líka í Gamla testamentinu. Það var bara skrifað um foringja af því að þá ríktu hugmyndir höfðingjaveldisins. En það ríkir ekki núna. Það er löngu komið kvenfrelsi sem bæði konur og menn eiga saman. Og við sjáum fyrir augum okkar að þegar konur koma núna ein eftir aðra til að taka að sér mikla forystu nota flestar þeirra nýjan stíl. Það er stíll sem kvennahreyfingin í miklum bylgjum sínum barðist fyrir og innleiddi. Það er stíllinn sem Jesús boðaði. Þær sem stjórna þjóna. Þetta er bylting allra byltinga og hún er bylting Jesú. Við erum þrjú félög sem stöndum að þessarri guðþjónustu ár eftir ár. Með þér. Og takk fyrir að vera hérna og halda þessa guðþjónustu. Við vinnum öll að þessari byltingu hvert á sinn hátt, Kvenéttindafélagið, Kvenfélagasambandið og Kvennakirkjan. Í Kvennakirkjunni ætlum við að vinna saman í sumar og skrifa litla bók um ráðleggingar Jesú. Við byrjum á mánudaginn klukkan fimm í stofum okkar að Laugavegi 59 og þú ert innilega velkomin til að vera með. Við skulum njóta þess í öllu daglegu lífi okkar að eiga Guð sem er vinkona okkar. Við erum öll útvaldar vinkonur hennar og vinir sem höfum persónulega fengið það hlutverk að láta til okkar taka í að gera íslenskt þjóðfélag að því góða og heila samfélagi sem Guð gefur okkur. Við fáum verkefnið. Og við fáum líka máttinn og gleðina. Hvert um sig. Og öll saman. Metum hvert annað. Styrkjum hvert annað. Sýnum hvert öðru vinsemd. Seljum ekki tækifærið til að eiga Guð sem vinkonu okkar. Hugsaðu um það: Guð elskar þig. Hún treystir þér. Takk. Amen.