Upplýsingar

Orðið er innra með okkur alla ævi þegar búið er að sá því inn í barnssálina. Mín fyrsta minning um guð er þegar ég var lítil. Það var þegar mamma settist á rúmstokkinn hjá mér og lét mig spenna greipar og fór með faðirvorið. Þá komu orðin sem ég hafði eftir henni og hafa verið með mér alla tíð síðan. Þarna var búið að sá trúarsæði með bænastund í barnssálina sem gaf mér þá vissu að guð er til.
Strax á barnsaldri fer ég í KFUK og stundaði þar mínar guðþjónustur. Mér fannst mest gaman að söngnum og að fara í handavinnutímana. Þarna eignaðist ég mína barnatrú og ef ég hefði ekki vaxið í trúnni þá hefði ég bara haft mína barnatrú eins og fólk segir svo oft þegar það er spurt hvort það sé trúað. En það var öðru nær. Enn í dag er ég að bæta við mína barnatrú sem gaf mér þá vissu að vera barn guðs. Sem sagt það var búið að sá fræinu. Ég hef alltaf átt gott með að hafa góð samskipti við fólk og sérstaklega við börn sem eru guðs gjöf. Þar finnum við strax hvað guð er nálæg okkur í þeim.

Með þetta veganesti fer konan sem hér stendur út í lífið. Ég fór með syni mína í barnaguðþjónustur og svo með barnabörn mín í guðþjónustur þegar þau voru hjá mér og lét þau fara með sínar bænir þegar þau gistu hjá mér. Síðan fer ég að starfa með Kvenfélagi Langholtssóknar um 30 ára tímabil og sótti allar messur þar. Við kvenfélagskonur lögðum fram mjög mikla vinnu við uppbyggingu kirkjunnar og safnaðarstarf hennar með fjölbreyttum fjáröflunaraðferðum. Þarna var mikill kraftur í konum sem þá var með stærstu kvenfélögum hér í borg. Eitt sinn seldum við happdrættismiða fyrir tvær milljónir sem var andvirði þriggja herbergja íbúðar á áttunda áratugnum. Það fór allt í kirkjuhúsið sem var í byggingu.
Í Langholtskirkju voru mörg þjónustustörfin. Það gaf mér til dæmis mikla ánægju að aðstoða við fermingar þroskaheftu barnanna og hafði mikil áhrif á mig. Þau geisluðu af gleði og þetta snart mig sérstaklega því hér á árum áður voru alls ekki öll þroskaheft börn fermd. Sem var misskilningur vegna þess að þau voru ekki skólagengin.
Þannig hafa sumir haldið að trú þessara barna sé minna virði en trú okkar sem heilbrigð erum. Takk, elsku guð að hafa opnað augu okkar.

Það var mín gæfa að kynnast Kristínu Ragnarsdóttur. Ég byrjaði að passa börnin hennar og síðan gerði hún mig að aðstoðarstúlku á tannlæknastofunni sinni. Það var gefandi starf og gott að að vera í hennar návist alla daga í nær 20 ár. Þakka ég guði fyrir að hafa leitt mig til hennar. Svo er það svo oft að vinkonur leiðast saman og miðla þeim áhuga sem þær hafa. Þannig kynnist ég Kvennakirkjunni og Auði Eir. Við fórum á námskeið er haldið var í Þingholtsstrætinu fyrir konur sem vildu kynna sér kvennaguðfræði. Þarna opnast fyrir mér nýr heimur. Þetta voru yndislegar stundir undir leiðsögn Auðar Eir. Hún lét okkur finna að við erum alltaf í hendi guðs. Fyrir mér var þetta frelsun gagnvart trúnni. Ég skildi allt miklu betur í Biblíunni og að Jesús er á bak við hverja bæn. Síðan hef ég verið viðkvæm fyrir blóti og áhrifum þess. Ég hef líka fundið allt annað viðhorf gagnvart fólki sem er ekki á sama máli og ég, bæði í trúnni og í öðrum málefnum.

Ég hlusta á Lindina sem er kristileg útvarpsstöð sem hefur verið stafandi frá 1995 .Nótt eina gat ég ekki sofið og fann þessa stöð í útvarpinu. Þar var verið að færa boðskap um von, frið og kærleika Guðs. Þá vildi ég vera með í þessari blessun og gerðist stuðningsaðili og kynnist hjónunum Mike og Sheilu. Þau komu frá Bandaríkjunum og settu upp þessa útvarpstöð sem er búin að vera mikil blessun fyrir landið og hefur vaxið í kringum allt land . Það er beðið þrisvar á dag. Tel ég að þetta sé stærsti bænarhringur sem biður saman í beinni útsendingu. Ég gef mér alltaf tíma til að vera með í einni bænastund á dag. Ég finn að ég hef mikla þörf fyrir að biðjast fyrir og finn að ég er bænheyrð. Ég er þakklát fyrir hvern dag sem Guð gefur mér. Þakklát fyrir heilsuna mína og þann trúarstyrk sem ég hef og reyni að miðla því sem ég hef upplifað með orðinu.

Sálmur 119,11 vers: Þitt orð er lampi og ljós á vegum mínum.

Mér finnst þið allar vera yndislegar hér í Kvennakirkjunni. Þetta eru mér dýrmætar stundir að koma og hitta ykkur og taka þátt í messunni okkar. Hjartans þakkir fyrir að hlusta.