Trúarreynslan mín. Prédikun 12. maí 2009

Orðið er innra með okkur alla ævi þegar búið er að sá því inn í barnssálina. Mín fyrsta minning um guð er þegar ég var lítil. Það var þegar mamma settist á rúmstokkinn hjá mér og lét mig spenna greipar og fór með faðirvorið. Þá komu orðin sem ég hafði eftir henni og hafa verið með mér alla tíð síðan. Þarna var búið að sá trúarsæði með bænastund í barnssálina sem gaf mér þá vissu að guð er til.
Strax á barnsaldri fer ég í KFUK og stundaði þar mínar guðþjónustur. Mér fannst mest gaman að söngnum og að fara í handavinnutímana. Þarna eignaðist ég mína barnatrú og ef ég hefði ekki vaxið í trúnni þá hefði ég bara haft mína barnatrú eins og fólk segir svo oft þegar það er spurt hvort það sé trúað. En það var öðru nær. Enn í dag er ég að bæta við mína barnatrú sem gaf mér þá vissu að vera barn guðs. Sem sagt það var búið að sá fræinu. Ég hef alltaf átt gott með að hafa góð samskipti við fólk og sérstaklega við börn sem eru guðs gjöf. Þar finnum við strax hvað guð er nálæg okkur í þeim.

Með þetta veganesti fer konan sem hér stendur út í lífið. Ég fór með syni mína í barnaguðþjónustur og svo með barnabörn mín í guðþjónustur þegar þau voru hjá mér og lét þau fara með sínar bænir þegar þau gistu hjá mér. Síðan fer ég að starfa með Kvenfélagi Langholtssóknar um 30 ára tímabil og sótti allar messur þar. Við kvenfélagskonur lögðum fram mjög mikla vinnu við uppbyggingu kirkjunnar og safnaðarstarf hennar með fjölbreyttum fjáröflunaraðferðum. Þarna var mikill kraftur í konum sem þá var með stærstu kvenfélögum hér […]