Upplýsingar

Veturinn er að verða búinn og næst þegar við hittumst í messu verður sumarið komið. Það er ætlunin að við hjálpuðumst að við það í kvöld að huga ögn að þessum vetri, eins og við lítum oft um öxl á tímamótum. Við ætlum í kvöld að huga að því stóra og smáa í dögunum, bæði í vetur og yfirleitt í lífi okkar. Hvað er það stóra í lífinu? Hvað finnst þér?
Ég get látið mér detta í hug að segja að það sé heilsa okkar, námið, vinnan, fjölskyldan, vinkonurnar og vinir. Ég held það bara. Og hvað gætum við nefnt sem hið smáa? Mér finnst það væru daglegir atburðir eins og máltíðirnar, samtölin, gönguferðir og afþreyingin og góður svefninn á nóttunni. Þegar við teljum þetta upp hvoru tveggja sjáum við hvað þetta er allt stór merkilegt. Hvað við eigum mikið af fjársjóðum í lífi okkar og hvað þeir gefa okkur mikla möguleika. Eða hvað finnst þér? Við ætlum að velta þessu fyrir okkur. Ég ætlaði að sjá hvort þér þætti nýtilegt að hugleiða hvort það væru stóru atriðin eða litlu atriðin sem skiptu meira máli. Af því að ég held að það skipti máli að við hugleiðum það. Af því að ég held að þær stundir komi einatt aftur og aftur að við sjáum ástæðu til að gæta að okkar eigin viðhorfi til lífsins. Og ég held að þær stundir komi í lífi okkar allra að okkur finnist stóru atburðirnir ekki nógu góðir eða smáatriðin heldur dýrðarlaus. Og þá verður það okkur gáta hvernig þetta vinnur saman. Er það skynsamlegt af okkur hinum að segja við þig ef þér finnst orðið leiðinlegt í vinnunni eða heldur að þú sért að missa vinnuna að þú skuli njóta birtunnar og fá þér kaffisopa með góðu fólki? Er það rétt að segja við þær okkar sem finnst lífið orðið obbolítið tómlegt að þær skuli nú þakka fyrir fjölskyldu sína og heilsuna? Spuringarnar geta líka verið svona: Getum við ætlast til þess af okkur að við getum notað smámunina til að uppörva okkur ef meginatriði lífs okkar eru í öryggisleysi? Og: Hjálpar það okkur til að vera í góðu skapi að hugsa um hvað við eigum góðar vinkonur? Ég var að hugsa um að setja upp bjölluspurningar. Fyrsta spurningin er: Skipta stóru atburðirnir mestu? Svarið er: Já. Svarið dæmist rétt. Stóru atburðirnir skipta mestu. Ef við höfum sæmilega heilsu og eitthvað þokkalegt nám og heldur bærilega vinnu og laun til að lifa af og eigum gott fólk til að tala við þá dæmist lífið gott. Þá kemur næsta spurning: Skipta smáu atburðirnir mestu? Svarið er: Já. Það er rétt svar. Smáu atburðirnir skipta mestu. Ef við getum notið sólarlagsins og Laugavegarins og samtalanna og bókanna og góðra hugsana okkar þá dæmist lífið gott. Finnst þér þessar bjölluspurningar bull og della? Mér þætti verulega gott að þér fyndist það ekki. Af því að ég bjó þær til og ég er líka dómarinn. Mér þætti það mikil uppörvun ef þér finnst vit í þessu hjá mér. Ég skal útskýra þetta. Það var einu sinni sögð saga sem ég held að hafi verið um að koma verkunum frá bæði stórum og smáum. Eða kannsi var hún um að nota tímann, sem er nú líklega það sama. Þú mannst þetta kannski. Hún var um glerkrukku sem var fyrst fyllt af sandi og svo settir steinar í þennan sand. Og þetta gekk ekki og það var fullt af sandi eftir og komst ekki í krukkuna þegar krukkan var full. En þegar steinarnir voru fyrst settir í krukkuna og svo sandurinn þá smaug sandurinn milli steinanna og komst allur fyrir. Ég ætla að nota þessa sögu um að nota lífið. Nú skulum við bara sjá. Nú set ég þessi góðu og rauðu epli í skálina. Og svo helli ég kornflexinu yfir. Og við sjáum hvernig það smýgur með eplunum og fyllir skálina. Þetta gæti þýtt að það sé betra að byrja á stóru atburðunum í lífinu og þá getum við notað smáu atburðina til að styðja þá og gleðja okkur. Hvað finnst þér? Mér finnst ég ekki geta sætt mig við þetta. Það er ekki bara af því að ég bjó til bjölluspurningarnar og ætla að styðja mína eigin hugmynd hvað sem hver segir. Það er mest af því að bæði fyrr og síðar verða stórir atburðir lífs okkar svoleiðis í laginu og þyngdinni að þeir jaðra við að verða óviðráðanlegir. Og þá væri svo gott að geta átt smáatburðina til að lyfta okkur upp. Ég veit ekki hvort þú veist að þú ert að halda skilnaðarnámskeið núna í Kvennakirkjunni. Við höldum það fáeinar, en fyrir þína hönd og okkar allra.. Við höldum þau á hverjum vetri af því að við viljum gefa konum sem af einum eða öðrum ástæðum standa í skilnaði tækifæri til að hittast og hjálpast að við að skilja sjálfar sig, eins og við segjum. Það er nóg að taka þetta dæmi um það hvernig stóru atburðirnir fara úr skorðum. En við getum bætt fleiri atburðum við, eins og því sem hún sagði frá finnska konan sem kom í stofurnar okkar á Laugavegi um daginn. Hún er utan úr heimi og býr þar, úti í löngum, og hefur langa og mikla menntun. Hún vildi fá að kenna í einhverjum háskólanum heima hjá sér en hún fær enga vinnu. Einfaldega af því að það er svo margt annað fólk með svo langa og mikla menntun að það er alveg ómögulegt að þau fái öll vinnu. Hérna heima hjá okkur er alveg sama sagan. Eins og þú veist. Við erum svo mörg sem erum guðfræðingar að við fáum ekki öll prestvígslu og starf. Það eru svo mörg sem hafa svo mikla menntun í læknisfræði að þau komasts ekki öll að. Og svo framvegis. Mér þætti svo gott að vita til þess að á meðan við erum að hugleiða það hvernig má bæta úr þessum stóratburðum og byrja nýjan kafla í menningarsögu okkar þá gætum við notið hins smáa. Eða þegar við erum að bæta úr stóratburðum okkar eigin lífs svo að við getum byrjað nýjan kafla þar. Svo að lífið verði samt gott á leiðinni að því sem verður að verða betra. Ég held það. Ég held að við verðum að finna nýjar leiðir í stóratburðunum. Og nota smáatburðina til að gefa okkur gleði í leitinni og framkvæmdinni. Hvað heldur þú? Nú skulum við sjá skálina aftur. Nú tek ég eplin upp úr, tek stóru atburðina og legg þá til hliðar. Við látum kornflexið vera á botninum. Og svo setjum við eplin ofaná. Við látum litlu atburðina, atburði hversdaganna, vera grundvöllinn. Og látum þá bera stóru atburðina uppi. Sjáðu bara. Þetta gengur alveg. Heldurðu ekki bara að sú daglega gleði sem við eigum geti í rauninni hjálpað okkur á erfiðum tímum? Á meðan við náum aftur áttum og komum hinum stóru atburðum einhvern veginn í lag, annað hvort með því að sjá að þeir eru ekki sem verstir eða með því að halda áfram að gera þá betri? Það er áreiðanlega svo um ýmsa atburði sem okkur finnst við verða að ná en getum bara ekki, að við getum lifað án þeirra. Ef við höfum þá eitthvað annað í staðinn fyrir þá. Þá getum við hætt að hugsa um þá af því að við höfum eitthvað annað og betra til að hugsa um og lifa við okkur til hamingju. Ég held þetta skipti svo miklu máli fyrir okkur öll. Og ég held að við eigum núna í vetrarlok og sumarbyrjun að tala um þetta við Guð. Og heyra hana svara. Af því að hún svarar alltaf. Og nú tek ég tvö epli upp úr skálinni og set tvær appelsínur í staðinn. Það er allt í lagi að hafa þessar appelsínur. Og þær gera skálina meira að segja fallegri með litnum sem fer svo vel við eplin. Það er líka svona með þetta bráðflókna líf sem við lifum. Eða hvað heldur þú? Það er sagt að hamingja okkar sé á leiðinni sem við göngum. Biblían segir að það sé svoleiðis. Á leiðinni drekkum við af vatninu, segir í Jesaja. Og þar stendur að Guð segi við okkur þegar okkur finnst allt komið í óefni: Komdu út í birtuna. Haltu áfram og ég skal alltaf láta þig fá mat á leiðinni, líka þar sem enginn matur er til, þar sem hæðirnar eru gróðulausar. Ég skal gæta þín. Þið skulul fagna og gleðjast af því að ég hughreysti þig og er hjá þér. Þetta stendur í 49. kafla Jesaja. Í hverri messu, á hverju námskeiði og ferð sem við förum saman segjum við hver annarri að við skulum treysta því að Guð veit allt um okkur. Orð Biblíunnar uppörva okkur alltaf og í öllu. Öll þessi uppörvunarorð sem ég les núna uppúr þessu eru úr spádómsbók Jeremía sem var skrifuð fyrir um tvö þúsund og fimm hundruð árum og eiga jafn vel og þá við allar hugsanir sem glíma við gátur lífsins. Jeremía sagði við Guð: Læknaðu mig, Guð, svo að ég verði heill. Hjálpaðu mér svo að mér verði hjálpað. Og Guð svaraði Jermína og allri þjóðinni sem hann vann fyrir: Ég vil láta ykkur finna mig. Ég þekki þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með ykkur. Það eru fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju og þær veita ykkur vonarríka framtíð. Jer. 29.13. Ég bý þig til uppá nýtt þegar þér mistekst. Jer. 18. 3. Við förum heim með þessa undursamlegu vissu í hjarta okkar. Guð er hjá okkur og hlustar og talar. Hún sagði okkur í ritningaralestrinum sem fluttu okkur orð Jesú að við skyldum fela sér allt og treysta sér fyrir öllu lífi okkar. Ef þú ætlar að gera þetta á eigin spýtur og finna þín eigin ráð verða þau öll að engu. En ég skal hjálpa þér til að finna út úr málunum, sagði Jesús. En svo gagnar þér það heldur ekkert þótt þú eignist allan heiminn ef þú tapar af sjálfri þér. Af því, sagði Jesús, það er bara með því að þekkja mig sem þú lærir að þekkja þig. Höfum það alltaf í huga okkar að Jesús er Guð sem kom. Guð vinkona okkar sem þekkir okkur og gefur okkur meiri og meiri skilning á sjálfum okkur, öðru fólki og öllu lífinu. Amen.