Upplýsingar

Guð er hjá okkur með náð sína og blessun. Við finnum það. Við erum hver hjá annarri með vináttu okkar og njótum þess. Það er eins í hverri messu. Við komum til að hittast hjá Guði. Og í kvöld eigum við afmæli og óskum hver annarri til hamingju, með okkur sjálfar og alla Kvennakirkjuna.
Ég ætla að segja ykkur sögur. Það eru dagsannar sögur og fyrsta er um konuna með hattinn. Ég fór í hátíðlega samverustund þar sem konur og menn mættu prúðbúin og hógværleg og settust hljóðlega og biðu dagskrárinnar. Svo kom konan með hattinn. Hún var líka prúðbúin og hógvær og settist hljóðlega og beið, alveg eins og hin, nema bara það að hún skar sig alveg úr með því að vera með þennan hatt. Hann var eldrauður með litlum uppbrettum börðum og ljósrauðu bandi og rauðu blómi og grænu laufi. Sérðu hana fyrir þér? Og hvað finnst þér? Þetta er bara ekki gert. Fólk kemur bara á svona samkomur og er eins og hitt fólkið. Ég veit eiginlega ekki hvað hún var að hugsa. Var hún að vekja athygli á sér, eða fannst henni bara svona gaman að eiga þennan rauða hatt að hún varð að koma með hann þar sem ekkert annað fólk var með hatta? Ég segi okkur þessa sögu í afmælismessunni okkar af því að mér finnst við geta verið konan með rauða hattinn. Við komum fyrir fimmtán árumn prúðbúnar og hógværar inn til hinna í kirkjunni og tókum þátt í öllu eins og þau gerðu. Nema bara það að við vorum öðru vísi. Við höfðum messurnar í okkar stíl og svo fórum við að tala um Guð í kvenkyni og tala mál beggja kynja og leggja það þéttingsfast til að öll kirkjan tæki það upp og hefði það í nýju biblíuþýðingunni. Við fórum að halda námskeið fyrir okkur sjálfar um það sem liggur okkur dýpst á hjarta og um það sem getur orðið okkur til skemmtunar og stórkostlegrar gleði. Allt til að gera dagana góða. Það er alls staðar gert í kirkjunni að leggja allt kapp á þetta sama, að gera dagana góða. Við berum fram þær hugsjónir með öllum hinum, en samt með rauða hattinn okkar, kvennaguðfræðina. Sem er öðru vísi en karlaguðfræðin. Hvernig? Hvernig er kvennaguðfærðin öðru vísi en karlaguðfræðin? Hún er öðru vísi af því að hún talar um okkur sjálfar. Og við þurfum að tala um okkur sjálfar. Til að skilja okkur og njóta og nota allt sem í okkur býr. Það eru meira en hundrað ár síðan kvennaguðfræðin sem við eigum núna leit dagsins ljós. Og það er óendanleg gæfa okkar að hún skyldi berast alla leið til okkar, sterk, björt og glaðvær. Það er þess vegna sem við sitjum hér saman í kvöld. Þegar við vorum að byrja fyrir fimmtán árum spurðu konur okkur ýmissa spurninga. Sumar spurðu hvort við værum fylgjandi spíritisma, aðrar hvort við værum til í að boða gyðjutrú. Við sögðum, við sjö sem stofnuðum Kvennakirkjuna, að við ætluðum hvorugt, en allar konur væru velkomnar í Kvennakirkjuna hvaða skoðanir sem þær hefðu. En trú Kvennakirkjunnar væri kristin kvennaguðfræði. Núna erum við spurðar um menntun okkar og fjárhag. Við segjum sem satt er að við séum allar menntakonur en höfum menntast víða, heima og heiman og í skólum og utan. Og við segjum að við sjáum fyrir okkur með því að borgar árgjald, selja hver annarri kaffi, fá styrk frá kirkjunni og gefa vinnu okkar. Núna, elskulega kvennakirkjukona, ert þú að halda dúndurnámskeið um streituna á mánudagskvöldum í herbergjum okkar og námskeiðið byrjar á kvöldverði. Það eru flottir kennarar og flottir kokkar og flottar konur sem verða minna streittar með hverju mánudagskvöldinu. Næsta námskeið, marsnámskeiðið, verður um samtöl á fundum og samverustundum þegar þarf að tala skipulega. Við skulum læra það? Að standa fyrir máli okkar og hlusta á hitt fólkið og láta okkur líða vel, líka þegar við vildum helst fara eitthvað annað og hitta annað fólk. Fólk segir í velvild að við séum gamaldags í fjármálum, það sé gamaldags að gefa vinnu sína og út í bláinn að hafa svona lág gjöld eins og við höfum í árgjaldinu og námskeiðsgjaldi. Og við svörum, líka fyrir þína hönd, að við séum framúrstefnukonur sem sjá að það verður framtíðin að við vinnum hver fyrir aðra í vináttu. Svo takk og aftur takk og svo ennþá meiri þakkir og hrós til allra sem vinna fyrir okkur hinar í gleði og vináttu – við námskeiðin, við ferðalögin, við messurnar með prédikunum og söng og hljóðfæraslætti, og við kvöldköffin eftir messurnar, við þökkum ykkur öllum sem komið með kökurnar og brauðið og hitið kaffið og þvoið upp svo að við getum átt þær góðu stundir við að spjalla saman. Þið eruð yndislegar. Og við erum allar í þessum hópi, því það að koma og vera hjá hinum, það er líka mikil gjöf. Ég ætla að segja tvær sögur í viðbót við söguna um konuna með rauða hattinn. Það var kirkja á Ítalíu sem stóð uppi á hæðinni fyrir ofan lítið þorp. Á sunnudagskvöldum í hlýju sumarhúminu og köldu vetrarmyrkrinu byrjaði kirkjan að lýsast upp, þegar fólkið kom eitt eftir annað með ljósin sín að heiman. Þegar þau voru öll komin ljómaði kirkjan út í myrkrið. Og það var lítill bóndabær hérna á Íslandi þar sem kyndingin var engin önnur en þau sem bjuggu þar. Er ekki nokkuð kalt hérna í bænum, var spurt. Og húsfreyjan svaraði: Það er nú hlýtt þegar við erum öll komin inn. Þetta gæti líka verið um Kvennakirkjuna. Fyrri sagan gæti verið um fyrstu messuna okkar í kirkjunni uppi á hæðinni í Kópavogi og báðar um allt samfélag okkar. Og nú spyrjum við sjálfar okkur. Í kvöld eins og alltaf. Og hvað svo? Hvað geri ég við kvennaguðfræðina okkar? Hvernig nota ég hana og hvert fer ég með hana? Hvað finnst þér? Markmið Kvennakirkjunnar er það að kvennaguðfræðin, daglegar hugsanir okkar um Guð og okkur sjálfar, verði okkur sífelld uppspretta að mildi og mætti. Það gerist bara með ástundun okkar. Kvennaguðfræðin okkar verður okkur uppspretta mildi og máttar bara með því einu að hafa hana hjá okkur, hugsa um hana og nota hana. Guð vinkona okkar gefur okkur góðar hugsanir dag eftir dag, alltaf, alltaf, alltaf. Nú í lokin ætla ég að leggja fram eina hugsun. Það er framhald af guðfræðinni sem við höfum hugsað lengi. Við höfum lengi hugsað um fyrirgefninguna og sagt hver annarri að hún sé undirstaða lífsins. . Guð fyrirgefur okkur. Þess vegna megum við fyrirgefa sjálfum okkur. Það er yndislegt, segjum við hver við aðra, það besta sem við eigum. En það getur verið erfitt og stundum er það alveg ómögulegt að fyrirgefa sjálfum okkur. Við getum ekki sleppt því sem heldur okkur föstum við það sem við viljum samt ekki hugsa um. Og hérna kemur kvennaguðræði kvöldsins: Við þurfum ekki að sleppa. Við getum það ekki. En Guð getur látið okkur sleppa. Hún getur tekið dimmu og krumpuðu hugsanir sem þvælast fyrir okkur. Hún gerir það með því að gefa okkur nýjar hugsanir sem fylla huga okkar. Það eru hennar hugsanir, hennar eigin fyrirgefandi og sterku og glaðværu hugsanir. Og sjáðu nú þessar tvær stóru servéttur. Þegar ég var í Miðbæjarskólanum voru stelpurnar alltaf að bítta servéttum. Þú veist kannski hvernig það var. Og núna skulum við sýna hver annarri hvernig við getum fengið að býtta sérvéttum við Guð. Við gefum henni krumpuðu og dökku sérvéttuna úr huga okkar. Og hún gefur okkur sína, yndislega og fallega. Við förum til hennar og segjum að við getum bara ekki losnað hugsanir okkar. Og hún tekur þær og gefur okkur nýjar. Þetta er afmæliskvennaguðfræðin á 15 ára afmælinu. Við megum fara með hana heim og í vinnuna og hvert sem við förum. Hún er afmælisgjöf frá Guði vinkonu okkar. Til hamingju með daginn og sjálfa þig og okkur hinar. Amen