Upplýsingar

Guð fílar fjölbreytni – sagði góður maður við mig á dögunum. Umræðuefnið var ekki fjölbreytni mannlífsins heldur fjölbreytni náttúrunnar í allri sinni dýrð, sem vísindamenn kalla líffræðilega fjölbreytni. Vel að orði komist, hugsaði ég.

Í heimi þar sem sífelldar og stöðugar tilraunir eru gerðar til þess að fella allt í sama mót og umburðarlyndi fyrir því sem talið er öðru vísi er af skornum skammti er gott að leiða hugann að óendanlegum fjölbreytileika sköpunarinnar.

Verk guðs er fyrir augum okkar alla daga og hvert sem við förum. Og ólíkt sumum mannanna verkum þá virðist guð aldrei klikka. Hún vandar sig.
Predikun Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, í messu kvennakirkjunnar við þvottalaugarnar í Laugardal 19. júní 2008.

Guð fílar fjölbreytni – sagði góður maður við mig á dögunum. Umræðuefnið var ekki fjölbreytni mannlífsins heldur fjölbreytni náttúrunnar í allri sinni dýrð, sem vísindamenn kalla líffræðilega fjölbreytni. Vel að orði komist, hugsaði ég.

Í heimi þar sem sífelldar og stöðugar tilraunir eru gerðar til þess að fella allt í sama mót og umburðarlyndi fyrir því sem talið er öðru vísi er af skornum skammti er gott að leiða hugann að óendanlegum fjölbreytileika sköpunarinnar.

Verk guðs er fyrir augum okkar alla daga og hvert sem við förum. Og ólíkt sumum mannanna verkum þá virðist guð aldrei klikka. Hún vandar sig.

En hvað segir umgengni mannsins um náttúruna okkur um samband hans við guð almáttuga?
Svokallaðir eco-femínistar segja stöðu umhverfismála endurspegla 5 þúsund ára gamalt feðraveldi – patríarki – sem enn lifi góðu lífi þótt 20. öldin hafi fært konum réttindi sem þær aldrei höfðu áður, m.a. kosningaréttinn sem við fögnum í dag.

Ekófemínistar segja valdakerfi feðraveldisins – sem alltaf hefur byggst á kúgun kvenna – endurspeglast í viðhorfi feðraveldisins til náttúrunnar. Með öðrum orðum að náttúruna þurfi að brjóta undir sig og dóminera. Náttúran sé þar með einungis fyrirstaða (eða auðlind) sem manninum betri heilög skylda til þess að nýta með öllum tiltækum ráðum. Í slíku kerfi hefur óraskað land ekkert gildi, ekki frekar en á sem rennur ótrufluð að ósi sínum.

Arfleifð feðraveldisins er lifandi fyrir augum okkar á síðum dagblaðanna og í annarri opinberri umræðu, svo sem í deilum á vettvangi stjórnmálanna um auðlindir og nýtingu þeirra. Í íslenskri orðræðu um vernd umhverfisins er lítið rúm fyrir fjölbreytni og litagleði, en þeim mun meira rúm fyrir einstrengingslegar yfirlýsingar og heitstrengingar á báða bóga.

Í jarðsögulegu samhengi er líf mannsins í a jörðinni ógnarstutt en ekkert spendýr – engin skepna – hefur haft meiri áhrif á umhverfi sitt en homo sapiens. Margt til góðs en um leið hefur manninum tekist á síðustu 250 árum að hafa djúpstæðari áhrif á lífsskilyrði sín á jörðinni en nokkur dæmi eru um. Loftslagsbreytingar af manna völdum eru gleggsta dæmið um það.

Jörðin er eina plánetan sem við þekkjum sem fóstrar líf. Okkur – mannkyni – ber skylda til að vernda lífið á jörðinni. Lífheimurinn er ekki einungis merkilegur vegna fjölbreytni hinna milljóna tegunda lífvera, heldur ekki síður vegna flókinna tengsla lífveranna innbyrðis og við umhverfi sitt. Lífið hefur til dæmis haft áhrif á andrúmsloftið, samsetningu þess og hitastig og þrátt fyrir miklar framfarir í vísindum þekkjum við ekki endilega til hlítar alla þætti í hinum óraflókna vef lífheimsins.

Ísland er ekki eyland í þessum vef, við þurfum til dæmis að gæta vel að þeim fuglategundum sem hingað koma til að verpa eða staldra við á leið til annarra heimkynna. Okkur ber að huga sérstaklega að þeim svæðum þar sem lífríkið er hvað ríkulegast. Þannig hlúum við líka að sköpunarverki guðs.

Lífheimurinn sér okkur fyrir fæðu og mörgum öðrum af helstu þörfum okkar. Það er önnur skylda okkar gagnvart lífheiminum og okkur sjálfum og framtíðinni að nýta þessa auðlind á skýnsamlegan og sjálfbæran hátt. Fáar þjóðir hafa lært þessu lexíu eins vel og Íslendingar. Hinn græni lífhjúpur landsins er að stórum hluta í tætlum eftir ofnýtingu og uppblástur liðinna alda. Við þurfum líka að reyna að græða þau sár sem við höfum valdið. Ástin á landinu er ástin á lífinu og fyrirgefningin guðs, sem við eigum vísa, og því þurfum við að fyrirgefa okkur sjálfum vegna mistakanna.
Moldin undir fótum okkar og sá aragrúi af smásæju lífi sem þar býr er, í bókstaflegum sem óeiginlegum skilningi, undirstaða lífsins á landi og velferðar okkar mannanna. Við höfum glatað stórum hluta fósturmoldarinnar og verðum að endurheimta hana. Við þurfum að hlúa betur að moldinni og lífinu.

Við erum aðeins ein tegund af milljónum og tilvera okkar er háð hinum. Jörðin fóstraði hinn viti borna mann eftir fjögurra milljarða ára tilraunastarfsemi með kvikt líf og við eigum ekki að halda okkur óbundin af lögmálum þess. Öll höfum við frá upphafi lífs á jörðinni hlotið náð fyrir augum guðs – konur og karlar, köngulær og krókódílar.

Já, guð fílar fjölbreytni! Leggjum rækt við hana í lífríkinu og í mannlífinu. Það er hennar vilji. Amen.