Jólamessa í Háteigskirkju 28. desember 2008

Gleðileg jól góða fólk. Guð blessar okkur. Ég vona að jólin hafi verið þér góð og þú hafir glaðst í trú þinni. Yfir jólaguðspjallinu sem barst okkur einu sinni enn með undursamlegan boðskap sinn. Einu sinni enn heyrum við jólaguðspjallið í kvöld og hugleiðum englasönginn á Betlehemsvöllum. Og ferð hirðanna inn í fjárhúsið þar sem þau sáu Jesúm. Guð var komin, frelsarinn var fæddur. Nú varð allt nýtt.

Ættum við að hugsa okkur að við stæðum hérna fyrir framan kirkjuna eða kannski úti á Klambratúni hérna rétt hjá eða uppi í Öskjuhlíð sem er líka svo nálægt? Allar saman í kvöldmyrkinu. Og þá heyrum við englana syngja. Fyrir okkur. Og bjóða okkur til að fara og sjá Jesúm. Og við förum niður í Þingholtsstræti þar sem við hittumst fyrr í Kvennakirkjunni. Það er svo einfalt að hugsa okkur að við göngum þar inn af götunni. Og þar eru þau, María og Jósef og þetta undursamlega litla barn. Eða gætirðu hugsað þér að það væri heima hjá þér? Að þú værir þar í grenndinni með öllu fólkinu þínu og allri stórfjölskyldunni og vinkonum og vinum. Og englarnir syngja og þið farið öll heim og þar er Jesús nýfæddur af því að þið gáfuð þeim Maríu og Jósef húsaskjól.
Það er svo gott að hafa leyfi til að flytja þennan mikla heimsviðburð inn í okkar eigið líf. Og njóta hans eins og allar aðrar manneskjur um alla veröldina fyrr og síðar mega gera og hafa gert, svo margar svo margar, og orðið öllum hinum til blessunar með trú sinni. Af því að viðburður jólaguðspjallsins hefur breytt allri veröldinni. Ekki höfðu hirðarnir hugmynd um það hvernig fagnaðarerindið sem þau heyrðu á völlunum og í fjárhúsinu átti eftir að fara um […]

Hún er vinkona mín – Prédikun 12. október 2008

Við ætlum að tala um vináttu Guðs í kvöld. Við ætlum að tala um Guð sem er vinkona okkar. Við tölum um þetta í hverri messu á einn og annan máta, um okkur og hana og okkur og hinar og annað fólk. Ég ætla að segja okkur sögur, eins og stundum, og þið skuluð láta fara vel um ykkur eins og alltaf þegar við hlustum á sögur.
Mér finnst það tilheyra á þessum tímum að segja sögur af ýmiskonar kreppum og kreppulausnum sem vinkona okkar Guð hefur tekið þátt í með fólki sínu fyrr og síðar. Hún tekur þátt í öllu með okkur og Biblían frá upphafi til enda er frásagan um það. Þess vegna fóru guðfræðingar á nítjándu og tuttugustu öldinni að tala um frelsunarsöguna í Biblíunni. Hún er sagan af hinum miklu og mörgu máttarverkum Guðs um alla sögu Gamla testamentisins sem heldur áfram í sögu Jesú og sögu kirkjunnar. Við lesum um kreppuna þegar Ísraelsfólkið var orðið að þrælum í Egyptalandi svona tæplega tvöþúsund árum fyrir Krist. Þau hrópuðu til Guðs og hún heyrði hróp þeirra og leysti þau úr kreppunni. Hún leiddi þau út úr þrældómnum inn í frelsið í landinu sem hún gaf þeim. Og sagan hélt áfram og þjóðin heimtaði konung eins og hinar þjóðirnar áttu. Og Guð gaf þeim konunga, Sál og svo Davíð og Salómon. Það var um þúsund árum fyrir Krist. Davíð sameinaði allar ættkvíslir Ísraels í eitt afar stórt konungdæmi og Salómon sonur hans sem var heimsfrægur fyrir gáfur sínar hóf konungdóm sinn með því að biðja Guð um leiðsögn. En hann endaði í gífurlegri kreppu og tómleika og svartsýni og eftir hann klofnaði ríkið í tvennt. Og sagan hélt áfram og um sjö hundruð árum […]

Fyrirgefningin – Prédikun 15. september 2008

Náð Guðs er með okkur. Og við höldum áfram að njóta nærveru hennar og næveru hinna sem komu líka í kvöld til að vera með henni og okkur. Þetta er fyrsta innandyra messa haustsins. Við héldum síðsumarmessu í Heiðmörk í ágúst og vorum tólf. Stóðum þétt í dynjandi rigningunni og sungum af öllu hjarta, og báðum fyrir öllum konum Kvennakirkjunnar hvar sem þær væru á þessari góðu síðdegisstundu. Við báðum fyrir Kvennakirkjunni okkar sem við elskum. Svo grilluðum við og sólin kom og stundin var yndisleg.
Okkur fannst við njóta sömu stemningarinnar og við hugsum að hafi ríkt í frumsöfnuðunum á fyrstu öldinni. Þegar litlir hópar hittust, sungu, báðu saman og borðuðu saman. Við njótum þessarar blessunar líka í kvöld. Við njótum alltaf þeirra sem gengu á undan okkur í trúnni sem við eigum líka. Við ætlum í kvöld að tala um fyrirgefninguna. Og heyra hvað fólkið í frumsöfnuðinum fékk að heyra um fyrirgefninguna. Það er alltaf það sama í gildi um hana þótt ýmislegt breytist í guðfræðinni í aldanna rás. Við tölum oft um fyrirgefninguna í Kvennakirkjunni og tölum um hana í kvöld í fyrstu innimessu haustsins af því að hún er grundvöllur lífs okkar. Hversdags okkar, sem er okkar sífellda viðfangsefni. Við segjum það aftur og aftur að fyrirgefning Guðs er undirstaða þess að okkur megi líða vel og að okkur auðnist að nota dagana til góðs. Hvernig er þetta með fyrirgefninguna? Við lesum í Biblíunni um Guð vinkonu okkar sem skapaði himin og jörð og fólkið sem hún elskaði. Við lesum um það að allt fór úr skorðum og ógurleg vond öfl gagntóku allan heiminn. Öll kristin kirkja játar að eftir þessa miklu ógæfu séum við ófær um að lifa lífinu eins og […]

Prédikun við Þvottalaugarnar 19. júní 2008

Guð fílar fjölbreytni – sagði góður maður við mig á dögunum. Umræðuefnið var ekki fjölbreytni mannlífsins heldur fjölbreytni náttúrunnar í allri sinni dýrð, sem vísindamenn kalla líffræðilega fjölbreytni. Vel að orði komist, hugsaði ég.

Í heimi þar sem sífelldar og stöðugar tilraunir eru gerðar til þess að fella allt í sama mót og umburðarlyndi fyrir því sem talið er öðru vísi er af skornum skammti er gott að leiða hugann að óendanlegum fjölbreytileika sköpunarinnar.

Verk guðs er fyrir augum okkar alla daga og hvert sem við förum. Og ólíkt sumum mannanna verkum þá virðist guð aldrei klikka. Hún vandar sig.
Predikun Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, í messu kvennakirkjunnar við þvottalaugarnar í Laugardal 19. júní 2008.

Guð fílar fjölbreytni – sagði góður maður við mig á dögunum. Umræðuefnið var ekki fjölbreytni mannlífsins heldur fjölbreytni náttúrunnar í allri sinni dýrð, sem vísindamenn kalla líffræðilega fjölbreytni. Vel að orði komist, hugsaði ég.

Í heimi þar sem sífelldar og stöðugar tilraunir eru gerðar til þess að fella allt í sama mót og umburðarlyndi fyrir því sem talið er öðru vísi er af skornum skammti er gott að leiða hugann að óendanlegum fjölbreytileika sköpunarinnar.

Verk guðs er fyrir augum okkar alla daga og hvert sem við förum. Og ólíkt sumum mannanna verkum þá virðist guð aldrei klikka. Hún vandar sig.

En hvað segir umgengni mannsins um náttúruna okkur um samband hans við guð almáttuga?
Svokallaðir eco-femínistar segja stöðu umhverfismála endurspegla 5 þúsund ára gamalt feðraveldi – patríarki – sem enn lifi góðu lífi þótt 20. öldin hafi fært konum réttindi sem þær aldrei höfðu áður, m.a. kosningaréttinn sem við fögnum í dag.

Ekófemínistar segja valdakerfi feðraveldisins – sem alltaf hefur byggst á kúgun kvenna – endurspeglast í viðhorfi feðraveldisins til náttúrunnar. Með öðrum orðum að náttúruna þurfi að brjóta undir […]

Það smáa og það stóra – Prédikun í messu 20. apríl 2008

Veturinn er að verða búinn og næst þegar við hittumst í messu verður sumarið komið. Það er ætlunin að við hjálpuðumst að við það í kvöld að huga ögn að þessum vetri, eins og við lítum oft um öxl á tímamótum. Við ætlum í kvöld að huga að því stóra og smáa í dögunum, bæði í vetur og yfirleitt í lífi okkar. Hvað er það stóra í lífinu? Hvað finnst þér?
Ég get látið mér detta í hug að segja að það sé heilsa okkar, námið, vinnan, fjölskyldan, vinkonurnar og vinir. Ég held það bara. Og hvað gætum við nefnt sem hið smáa? Mér finnst það væru daglegir atburðir eins og máltíðirnar, samtölin, gönguferðir og afþreyingin og góður svefninn á nóttunni. Þegar við teljum þetta upp hvoru tveggja sjáum við hvað þetta er allt stór merkilegt. Hvað við eigum mikið af fjársjóðum í lífi okkar og hvað þeir gefa okkur mikla möguleika. Eða hvað finnst þér? Við ætlum að velta þessu fyrir okkur. Ég ætlaði að sjá hvort þér þætti nýtilegt að hugleiða hvort það væru stóru atriðin eða litlu atriðin sem skiptu meira máli. Af því að ég held að það skipti máli að við hugleiðum það. Af því að ég held að þær stundir komi einatt aftur og aftur að við sjáum ástæðu til að gæta að okkar eigin viðhorfi til lífsins. Og ég held að þær stundir komi í lífi okkar allra að okkur finnist stóru atburðirnir ekki nógu góðir eða smáatriðin heldur dýrðarlaus. Og þá verður það okkur gáta hvernig þetta vinnur saman. Er það skynsamlegt af okkur hinum að segja við þig ef þér finnst orðið leiðinlegt í vinnunni eða heldur að þú sért að missa vinnuna að þú skuli njóta […]

15. ára afmæli Kvennakirkjunnar – 17. febrúar 2008

Guð er hjá okkur með náð sína og blessun. Við finnum það. Við erum hver hjá annarri með vináttu okkar og njótum þess. Það er eins í hverri messu. Við komum til að hittast hjá Guði. Og í kvöld eigum við afmæli og óskum hver annarri til hamingju, með okkur sjálfar og alla Kvennakirkjuna.
Ég ætla að segja ykkur sögur. Það eru dagsannar sögur og fyrsta er um konuna með hattinn. Ég fór í hátíðlega samverustund þar sem konur og menn mættu prúðbúin og hógværleg og settust hljóðlega og biðu dagskrárinnar. Svo kom konan með hattinn. Hún var líka prúðbúin og hógvær og settist hljóðlega og beið, alveg eins og hin, nema bara það að hún skar sig alveg úr með því að vera með þennan hatt. Hann var eldrauður með litlum uppbrettum börðum og ljósrauðu bandi og rauðu blómi og grænu laufi. Sérðu hana fyrir þér? Og hvað finnst þér? Þetta er bara ekki gert. Fólk kemur bara á svona samkomur og er eins og hitt fólkið. Ég veit eiginlega ekki hvað hún var að hugsa. Var hún að vekja athygli á sér, eða fannst henni bara svona gaman að eiga þennan rauða hatt að hún varð að koma með hann þar sem ekkert annað fólk var með hatta? Ég segi okkur þessa sögu í afmælismessunni okkar af því að mér finnst við geta verið konan með rauða hattinn. Við komum fyrir fimmtán árumn prúðbúnar og hógværar inn til hinna í kirkjunni og tókum þátt í öllu eins og þau gerðu. Nema bara það að við vorum öðru vísi. Við höfðum messurnar í okkar stíl og svo fórum við að tala um Guð í kvenkyni og tala mál beggja kynja og leggja það þéttingsfast til […]