Upplýsingar

Náð Guðs er með okkur. Og við höldum áfram að njóta nærveru hennar og næveru hinna sem komu líka í kvöld til að vera með henni og okkur. Þetta er fyrsta innandyra messa haustsins. Við héldum síðsumarmessu í Heiðmörk í ágúst og vorum tólf. Stóðum þétt í dynjandi rigningunni og sungum af öllu hjarta, og báðum fyrir öllum konum Kvennakirkjunnar hvar sem þær væru á þessari góðu síðdegisstundu. Við báðum fyrir Kvennakirkjunni okkar sem við elskum. Svo grilluðum við og sólin kom og stundin var yndisleg.
Okkur fannst við njóta sömu stemningarinnar og við hugsum að hafi ríkt í frumsöfnuðunum á fyrstu öldinni. Þegar litlir hópar hittust, sungu, báðu saman og borðuðu saman. Við njótum þessarar blessunar líka í kvöld. Við njótum alltaf þeirra sem gengu á undan okkur í trúnni sem við eigum líka. Við ætlum í kvöld að tala um fyrirgefninguna. Og heyra hvað fólkið í frumsöfnuðinum fékk að heyra um fyrirgefninguna. Það er alltaf það sama í gildi um hana þótt ýmislegt breytist í guðfræðinni í aldanna rás. Við tölum oft um fyrirgefninguna í Kvennakirkjunni og tölum um hana í kvöld í fyrstu innimessu haustsins af því að hún er grundvöllur lífs okkar. Hversdags okkar, sem er okkar sífellda viðfangsefni. Við segjum það aftur og aftur að fyrirgefning Guðs er undirstaða þess að okkur megi líða vel og að okkur auðnist að nota dagana til góðs. Hvernig er þetta með fyrirgefninguna? Við lesum í Biblíunni um Guð vinkonu okkar sem skapaði himin og jörð og fólkið sem hún elskaði. Við lesum um það að allt fór úr skorðum og ógurleg vond öfl gagntóku allan heiminn. Öll kristin kirkja játar að eftir þessa miklu ógæfu séum við ófær um að lifa lífinu eins og það væri best fyrir okkur sjálf, hin sem við umgöngumst og Guð sem elskar okkur. Við gerum alltaf eitthvað sem við ættum ekki að gera og kemur okkur og öðrum illa. Við skulum ekki reyna að geta okkur til um það hvers vegna allt fór úr skorðum. Það er nóg að við finnum að það er farið úr skorðum. Kristin trú er óbifanlega sannfærð um að hjálpin í þessari ógn sé Guð. Hún skapaði, hún fylgdi fólkinu sínu út í baráttuna við ógnina og stendur þar trúfastleg með því, hún kom og varð frelsari þess, Jesús. Hann tók þátt í lífinu í þessari miklu ógn sem endaði með dauðanum. Og hann dó eins og allt fólkið. Enn hann gerði það sem ekki nokkur önnur manneskja hafði getað. Hann reis aftur upp frá dauðum. Með því braut hann vald dauðans. Samt ríkir þetta vald enn í veröldinni eins og við sjáum. Það ríkir líka inni í huga okkar, eins og við finnum. En við erum ekki ofurseld því. Við eigum hjálp Guðs. Og þessi hjálp er fyrirgefning hennar. Það er bæði gaman og gagnlegt fyrir okkur að líta aðeins, þótt lítllega sé, út fyrir kristna trú og sjá hvað einhver önnur trúarbrögð og einhverjar aðrar greinar en guðfræðin segja um það hvernig við getum brugðist við ógnuninni sem hrifsar af okkur máttinn til að vera eins og væri best fyrir okkur. Við skulum líta til Búddatrúarinnar. Búdda var uppi í Indlandi um 5oo fyrir Krist. Fyrir 2500 árum. Hann sagði að lífið væri þjáning sem við yrðum að snúa til aftur og aftur, fæðast hvað eftir annað, til að gera upp það sem okkur hafði ekki tekist í síðasta lífi. Hann sagði að það væri enginn eilífur guð til, og loks þegar við hættum að endurfæðast myndum við öðlast það að hverfa inn í nirvana, algleymið, þar sem við værum ekki lengur til sem einstaklingar. Þessi mikla ógn sem tæki af okkur máttinn væri þrá okkar eftir einu og öðru. Við ættum ekki að þrá neitt. Við ættum að miða að því að loka huga okkar frá því að þrá nokkurn skapaðan hlut. Og ef við spyrðum félagsfræðinga um hinar ýmsu ófarir okkar myndu þau segja að það sé nú einmitt rannsóknarefnið sem við verðum að snúa okkur að. Þau tala ekki um aðskilnað okkar frá Guði eins og guðfræðin gerir og hjálpina sem finnist aðeins í fyrirgefningu hennar og vináttu, heldur rannsóknir á hinum ýmsu möguleikum til að finna lausnir. Við sem treystum kristinni trú fyrir einu og öllu í lífi okkar getum haft gagn af ýmsu í kenningum búddista og félagsfræðinga. Við getum gætt að því hvaða þrár við höfum sem við ættum ekki að hafa. Og það gerði guðfræðin strax á fjórðu öldinn þegar Ágústínus kirkjufaðir sagði að það væri þrá okkar eftir yfirburðum sem væri raunveruleg synd okkar. Og við getum slegist í hópinn með félagsfræðingum og rannsakað okkar eigin aðstæður og aðstæður annarra í þjóðfélaginu sem við eigum saman. Og aðstæðurnar í okkar eigin huga, hvernig við hugsum. Til að sjá hvers vegna við hugsum eins og við hugsum og hvað við getum gert til að bæta úr því. Og líka það hefur kristið fólk gert alveg frá upphafi eins og við sjáum bæði í Nýja testamentinu og sögu kirkjunnar. Páll postuli sagði að við yrðum óhamingjusöm ef við ætluðum að fylgja öðrum guðum og ímynda okkur að þeir væru yfirleitt til. Katherine Booth og William maður hennar, hjónin sem stofnuðu Hjálpræðisherinn rétt fyrir aldamótin 1900, sögðu að það yrði að komast að því hvers vegna fólkið í London væri svo illa statt. Það var svo illa statt af því að það bjó við ömurleg kjör og af því að það átti ekki þessa undursamlegu og glaðlegu trú á Guð sem gaf því kjarkinn til að lifa og gera lífið betra. En það var vel hægt að bæta úr þessum hörmulegu kjörum með því að hjálpa þessu fólki til að fá vinnu, spara peninga og fá tækifæri til að gleðjast í sameiginlegri trú á Jesúm Krist. Hugmyndir kristinnar trúar koma víða fram. Í trúarbrögðum og fræðigreinum. Gæska hennar og hugrekki. En kristin trú er einstök og sker sig úr öllum öðrum trúarhugmyndum og kenningum með því að fullyrða að það sé aðeins fyrir Guð sem við verðum þær sem við ættum að vera og getum líka orðið og verið. Það er aðeins Guð, hún sem kom og varð Jesús sem dó og reis upp frá dauðum fyrir okkur, sem getur gert okkur aftur að þeim manneskjum sem við vorum skapaðar til að vera. Hvað máli skiptir þetta fyrir okkur í daglegu lífi okkar? Við vitum það allar. Og það er svo gott fyrir okkur að segja það hver annarri og hvert öðru aftur og aftur. Það skiptir okkur öllu af því að möguleikar okkar eru ekki möguleikar okkar heldur möguleikar Guðs. Við þurfum ekki að brotna þótt okkur mistakist. Þótt við getum alveg ómögulega fyrirgefið sjálfum okkur og heldur ekki öðrum en finnum vanlíðanina af því að vera fastar í hugsunum sem binda okkur og eru okkur til ama og vanlíðanar. Það getur verið vanmáttur okkar eða tilgangslaus reiði eða hroki okkar eða afskiptaleysi. Hvaða vondar hugsanir og framkoma og framkvæmdir sem er. Guð fyrirgefur okkur. Allt. Hún gefur okkur hugsanir sínar í staðinn fyrir hugsanir okkar. Svo að við hugsum góðar hugsanir. Og komum vel fram. Og gerum góða hluti sem verða til góðs. Og við fyrirgefum sjálfum okkur. Við verðum frjálsar og finnum frið í hjarta okkar. Ekki af því að við gerðum andlegar æfingar sem snérust um sjálfar okkur, heldur af því að við fluttum bænir okkar til Guðs og tókum á móti fyrirgefningu hennar og mildi og mætti og lögðum okkur fram um að vera þær sem hún gefur okkur möguleikana til að vera.. Ég kom einu sinni í Boeng flugvélaverksmiðjuna í Svíþjóð. Við komum inn í stóran sal þar sem var verið að smíða flugvélar. Og sá sem sýndi okkur salinn sagði að ef það væri svo mikið sem örlítill halli á gólfinu yrði allt verkið skakkt. Og ég hugsaði með mér að svona væri það líklega líka með lífið. Ef það er svosem örlítil skekkja í lífi okkar verður allt skakkt. Við getum séð það í lífi okkar og annarra sem segja okkur frá lífi sínu. Afinn drakk og öll börnin urðu bæld af ofbeldi hans. Og börnin þeirra voru alin upp við reiði þeirra og magnleysi. Einhver voru höfð útundan í barnaskólanum og fannst alltaf að þau væru útundan, líka í fjölskyldunni sem þau stofnuðu sjálf, hvernig sem fjölskyldan og vinafólkið sagði þeim hvað þau væru góðar manneskjur. Við getum nefnt mörg dæmi. En ég hætti að hugsa svona eins og ég gerði í flugvélaverksmiðjunni í Svíþjóð. Ég held ekki að það sé svona. Ég er viss um að þótt ýmislegt vont og meira að segja hörmulegt gerist í lífi margs fólks þá eigi það möguleika á að gera gott úr því. Af því að Guð gefur þeim möguleikana. Það er fyrirgefning hennar. Fyrirgefningin losar okkur frá erfiðu hugsununum sem binda okkur og taka svo mikið pláss í huga okkar. Og þá er pláss fyrir betri hugsanir og gleði og kjark. Nú skulum við sjá þennan bakka sem er eins og gólfið í Boeng verksmiðjunum. Ef við höllum honum verður allt skakkt sem stendur á honum. Og ef við höllum honum mikið rennur það út af honum og er þar ekki lengur. Þetta gerist í lífinu. Lífi heimsins og lífi einstaklinga og okkar sjálfra. Við finnum að allt mögulegt er öðruvísi en það á að vera. Við missum kjarkinn. Við vitum hvernig það er. En við erum ekki eins og flugvélarnar. Sem eru smíðaðar af þessu merkilega og duglega og hæfileikaríka fólk sem getur svo mikið. Við erum vinkonur Guðs og vinir hennar. Það er hún sem skapaði okkur. Og það er hún sem heldur okkur í höndum sér. Það er hún sem réttir líf okkar þegar það skekkist. Það er fyrirgefningin. Við eigum hana. Fyrirgefum nú sjálfum okkur. Amen