Upplýsingar

Nú höfum við séð og heyrt þennan sterka og litríka boðskap um konurnar sem urðu þess valdandi að ljóðið okkar góða Brauð og rósir var samið. Ég þakka Siggu vinkonu okkar og Öllu sem fann lagið og allri Kvennakirkjunni enn og aftur fyrir að færa mér þetta ljóð sem við eigum allar og syngjum svo oft.
Eigum við að reyna að setja okkur inn í það sem þær horfuðust í augu við? Ég skrifaði um það í bókinni Gleði Guðs hvernig því hefur verið lýst. Þær unnu langa vinnudaga og komu heim til að vinna sín eigin húsverk og annast börnin sín. Þær fengu lág laun og tóku áhættuna af að fara í verkfall og verkfallið stóð lengi. Iðnbyltingin varð þeim bæði til góðs og ills. Hún varð þeim til góðs af því að þær fengu vinnu sem var launuð og sumar gátu gert ýmsa góða hluti sem þær höfðu ekki geta áður. Hún varð þeim til ills af því að vinnan í verksmiðjunum var þrúgandi og heilsuspillandi og kom niður á börnunum þeirra. Sumar tóku börnin með sér í byrjun áður en það var bannað og þau og þær og aðrar konur minnast þess hver þau grétu í rykinu. Börnin minnast þess að þau voru vakin klukkan hálf sex alla virka daga og skilin eftir hjá ömmu þeirra eða eldri systur eða öðrum konum. Mamma þeirra kom heim um hádegið og gaf þeim að borða og fór svo aftur. Konur fundu leiðir til að bjarga sér og börnunum. Það voru sömu leiðirnar og við finnum núna. Við hjálpumst að, sumar gæta barna fyrir hinar, sumar elda svo að aðrar geta keypt mat til að hafa með heim, sumar þvo og strauja fyrir hinar. Þær hafa vinnu af því og laun og það verður hinum til hjálpar. Konur unnu við fyrstu spunavélarnir og margir verkstjórarnir voru góðir starfsmenn. Litlar stelpur unnu líka og það var ekki farið illa með þær. En þegar stærri vélar komu í verksmiðjurnar voru þær fengnar mönnum og konurnar fengu lægri laun. Þær fengu ekki að ganga í verkalýðsfélögin og þeim var legið á hálsi fyrir að vilja haga vinnunni eftir störfunum heima. Alveg eins og núna. Það var vegna þessa alls sem konurnar sem er skrifað um í Brauð og rósir fóru í verkfall. Þær urðu að snúa aftur án þess að launin yrðu hækkuð en þær öðluðust ígildi háskólamenntunar í baráttunni. Við getum litið víðar til kvenna sem tókust á við óréttlæti og sigruðu. Ég horfði á fyrrakvöld á myndina Móna Lísu brosið í sjónvarpinu sem hef ég líka séð áður og var um árin kringum 1954. Ég sá það einu sinni enn hvað kvennabaráttan hefur skilað okkur miklum sigrum. Þótt við tökum ekki nema fimmtíu ár af henni hafa þau fimmtíu ár gjörbreytt heiminum. Það var eitthvað eitthvað í allri þessari baráttu, bæði árið 1912 og 1954, sem hvatti konurnar sem börðust til að berjast. Það lá í loftinu. Og það þarf alltaf eitthvað að liggja í loftinu svo að við getum barist. En hvað var það sem lét þessa miklu hvatningu og baráttugleði liggja í loftinu? Það var barátta annarra kvenna sem höfðu gengið á undan þeim og breytt andrúmsloftinu svo að þær sem börðust fundu andann til að berjast. Og nú erum við hérna í kvöld í nýju kirkjunni hennar séra Sigríðar vinkonu okkar og samgleðjumst henni sem kirkjuna sína og söfnuðinn allan og allt sem hún er að gera. Við sitjum hver við annarrar hlið og samgleðjumst okkur öllum með það að vera hér í kvöld. Því að nærvera okkar er vitnisburður um baráttu okkar fyrir betra heimi. Hún er vitnisburður um löngun okkar til að verða til góðs, bæði sjálfum okkur og öðrum. Við getum það saman. Við höfum unnið saman og við höldum því áfram Það var í jólamessunni sem við tókum að okkur forystu í kreppunni. Við sem vorum þar gerðum það líka fyrir ykkar hönd sem voruð þar ekki. Við gerðum það af því að við treystum samstöðu okkar og því að það er hún sem gerir okkur svo sterkar. Ég veit þú veist að ég er ekki að meina að við höfum einar verið í forystu. Og að ég er ekki að meina að við höfum verið í forystu sem við vildum að yrði skrifað um í blöðin og sagt frá í sjónvarpinu. Við höfum samt verið í forystu. Hvernig? Grunur og sannanir um ringulreið sem ekkert okkar dreymdi um hrannast upp núna eins og aldrei fyrr og við þekkjum allar sannar sögur um erfiðleika kreppunnar sem kremja fólk og græta. Það er kannski ekki hrósvert að segjast hafa verið í forystu. En ég segi það samt aftur: Við vorum í forystu. Og ég spyr aftur: En hvernig? Með því að halda áfram að lifa lífi okkar dag eftir dag. Taka þátt í umræðunni. Opna augu okkar eins og við getum fyrir raunveruleikanum og leggja okkur fram um að skilja það sem við treystum okkur til, og láta hitt vera. Svo að það sem okkur er ómögulegt að skilja geri okkur ekki máttlausar en það sem við sjáum og skiljum geri okkur að lifandi þátttakendum með öllum hinum, til að komast í gegn og út. Við vitum mætavel að það þýðir ekkert að þrasa og þusa en það þýðir heldur ekkert að láta það vera að hlusta og tala. Við höfum ýmsar skoðanir og það er bara gott að við segjum hver annarri hug okkar og sannar sögur úr umhverfi okkar sem er ekki eins hjá okkur öllum. Við höfum gert þetta. Við höfum haft opið umræðutorg á mánudögum frá jólum og það hefur verið gott. Við sem vorum þar vorum þar líka fyrir þína hönd sem varst annars staðar að gera eitthvað annað skynsamlegt og skemmtilegt og gagnlegt. Við erum allar að gera eitthvað gott. Og við gerum það allar í sameiningu þótt það sé á ýmsum stöðum og við ýmis verkefni. Við höfum spurt hver aðra á Torginu í vetur hvernig við vildum lifa lífi okkar? Sumar okkar sem komu á Torgið hafa staðið fremst í baráttunni og borið þungann af henni opinberlega. Við hinar sem stöndum þar ekki höfum beðið fyrir þeim, í vináttu okkar til að minna Guð á að styrkja þær og gleðja, þótt við vitum að hún man það alltaf. Sumar okkar sögðu: Ég vil fá frelsi og frið til að vinna vinnuna mína, sinna fólkinu mínu, njóta vináttu, gera það sem mig langar til þegar tíminn gefst, treysta Guði, mér og öðrum og lífinu. Það var spurt hvað hefði aftrað okkur frá þessu áður en kreppan kom. Sumar okkar sögðu: Það var samkeppnin. Allar kröfurnar. Líka um fínni föt fyrir börnin okkar á leikskólanum svo að þau væru ekki verr klædd en hin. Og svo framvegis og svo framvegis, við þekkjum þetta allar og það er óþarfi að endurtaka það frekar. Ég keyrði spöl í leigubíl um daginn og Viðar bílstjóri sagði að sér liði betur núna en fyrir kreppuna. Hann tók aldrei þátt í þenslunni, var bara á brautinni, bara að keyra og engum fannst til um það. En núna er hann og hans líkir metnir fyrir að eiga bíla og hafa vinnu og stunda hana vel. Fólk sem vinnur vinnuna okkar vel erum gulls ígildi. Það fer aftur að sjást núna og verða metið. Það var það sem konurnar í verkfallinu árið 1912 börðust fyrir. Þær börðust fyrir því að fá laun fyrir daglega vinnu sína sem var heiðarleg og nauðsynleg. Þær börðust fyrir því að þær sem unnu störfin væru metnar fyrir þessi miklu störf. Það er líka barátta okkar. Við viljum fá að vinna vinnuna okkar og njóta lífsins, meta fólkið okkar og annast það. Við viljum brauð og líka rósir. Alveg eins og þær. Við höfum unnið í trú okkar. Við höfum talað um trúna og þessa undarlegu tíma og við höfum haldið áfram dag eftir dag. Og við höldum því áfram. Við stöndum saman eins og konurnar sem eignuðust sönginn um Brauð og rósir. Ef eitthvað sérstakt er í loftinu þá bregðumst við við og gerum eitthvað eftirtektarvert. Annar lifum við dagana án þess að biðja fólk að taka eftir okkur. Í trausti til Guðs og sjálfra okkar. Við biðjum hver fyrir annarri, við gleðjumst yfir samstöðu okkar og njótum lífsins og höldum áfram að opna augun fyrir og hlusta á það sem við þurfum að heyra og skilja. Guð er með okkur. Hún er alltaf með okkur. Heyrum að lokum skilaboð frá Jesú frelsara okkar og vini sem eru í samhljómi við sæluboðin úr Fjallræðunni sem Steinunn las fyrir okkur í upphafi. Gætið að sjálfum ykkur. Þið skuluð ekki láta óreiðu eða áhyggjur yfirbuga ykkur heldur vera vakandi. Verið þrautseig og gefist ekki upp. Notið það góða sem þið hafið því það gefur ykkur meiri gæði. Ef þið einblínið á það sem þið hafið ekki þá hafið þið minna og minna. Ekki gera mikið úr ykkur því það verður ykkur til ills. En hógværðin verður ykkur til góðs. Treystið mér. Lífið er meira en fötin og maturinn. Sjáðu liljurnar og fuglana. Leitaðu fyrst guðsríkisins, þess sem Guð býður þér að vinna við með sér. Og þá færðu allt annað sem þú sækist eftir. Það er ég sem gef ykkur þetta allt, sagði Jesús.