Pistill úr fréttabréfinu

DAGAR PÁSKANNA

Nú birtist okkur enn einu sinni tækifærið til að

hugsa djúpar hugsanir.  Það er auðvitað alltaf

fyrir hendi og við þiggjum það á einn eða annan

veg á hverjum degi.  Og núna megum við íhuga

hina miklu atburði páskanna, pálmasunnudags,

skírdags, föstudagsins langa og páskamorguns.

 

Við megum spegla daga heimsins í þeim öllum.  Og

okkar eigin daga, þá sem bærast áfram í misjöfnu

ásigkomulagi og með misjöfnum hraða eins og við

vitum svo mætavel.  Dagarnir fyrir páska sýna

okkur misjafnar hugsanirnar sem bærðust í hjarta

sögufólks; skammvinna hollustu þeirra sem veifuðu

pálmagreinunum, misskilning foringjanna sem

heimtuðu krossfestinguna og kæruleysi fólksins sem

lét hafa sig út í að slást í hópinn.  Og hugleysi

Pílatusar sem dæmdi Jesúm gegn betri vitund.  Sorgina

sem fyllti Jesúm þegar honum fannst Guð hafa yfir-

gefið sig.

 

Nú skulum við nota tækifærið og staldra og hugsa.

Og biðja Guð að gefa okkur djúpar hugsanir.  Svo að

við sjáum einu sinni enn í gleði og þakklæti að við erum

með í páskagleði hópsins á fyrsta páskamorgninum sem

sá og vissi að Jesús er upprisinn, hann er Frelsarinn,

alltar veraldarinnar og okkar allra.

 

Gleðilega páska, Auður

By |2 apríl 2014 22:34|Dagleg trú|

Mánudagssamverum lýkur með vöfflum

Mánudagskvöldið 7. apríl klukkan háf átta hittumst við í Þingholtsstræti og ljúkum mánudagssamverum vetrarins.  Verum allar velkomnar.  Við bökum vöfflur og hitum kaffi og tölum um hvað sem við viljum.  Ekki væri nú leiðinlegt að sjá þig birtast.

By |2 apríl 2014 22:31|Fréttir|

Næsta guðþjónusta Kvennakirkjunnar í Dómkirkjunni

Næsta guðþjónusta Kvennakirkjunnar verður í Dómkirkjunni sunnudaginn 6. apríl kl. 14:00. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar um föstudaginn langa. Anna Sigríður Helgadóirttir syngur einsöng. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söng með kór Kvennakirkjunnar. Kaffi á kirkjulofti eftir messu. Þær sem sjá sér fært að koma með kaffibrauð fá alúðarþakkir. 

By |31 mars 2014 22:30|Fréttir|

Höldum áfram að gera upp við okkur og Guð

Hættum að ganga alltaf í sömu  hringina, hættum að tipla á yfirborðinu,  hættum að láta eins og við vitum ekki hvers við iðrumst í rauninni.
Nefnum það.  Segjum Guði það.  Hlustum á hana fyrirgefa okkur.  Hlustum á hana endurnýja okkur. Fyrirgefum sjálfum okkur og njótum þess hvað
við erum yndislegar vinkonur Guðs.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |24 mars 2014 10:40|Dagleg trú|

Auður Eir talar á hugvísindaþingi

Laugardaginn 15. mars sl stóð Hugvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir hugvísindaþingi. Meðal fyrirlesara var séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prestur Kvennakirkjunnar sem talaði í málstofu sem Pétur Pétursson prófessor við guðfræðideild stýrði og bar heitið Framtíð íslenska þjóðkirkjufyrirkomulagsins. Fyrirlestur Auðar Eirar bar heitið Nú er tími til siðbótar – eins og alltaf og byggir á efni bókar hennar Bakarí Guðs sem Kvennakirkjan gaf út árið 2012. Þar reifar Auður Eir nýjar hugmyndir um veitingu prestembætta og hvetur til þess að prestar verði hreyfanlegir á milli staða en einangrist ekki hver á sínum stað áratugum saman. Í hugmyndinni felst einnig hvatning til samvinnu og að sumir prestar hafi ekki alltof mikið að gera þegar aðrir hafi of lítið að gera. Eftirfarandi útdráttur var birtur í dagskrá þingsins:

Lútersk kirkja á að vera siðbótarkirkja á öllum tímum. Hún á að fylgja þeirri lútersku guðfræði að við séum öll prestar hvaða starf sem við höfum.  Hún þarf að horfast í augu við tilhneigingu sína til kaþólskra messusiða. Og hún þarf að breyta ýmsu í grundvallarskipulaginu, í fyrsta lagi að breyta ráðningu prestanna. Svo að prestar verði ekki keppinautar heldur samheldinn hópur í boðun fagnaðarerindisins. Það þarf að ræða málin og gefa langan tíma til að tala vandlega saman.

Fyrirlestur Auðar Eirar mun birtast í útgefnu efni Hugvísindaþings 2014 og verður líka aðgengilegur á heimsíðu okkar.

By |19 mars 2014 22:18|Fréttir|

Áframhald uppgjörsdaga til páska

Ég ætla að leggja það til að við teljum það upp fyrir okkur sem við sjáum eftir.  Að við segjum ekki bara að við sjáum eftir hinu og þessu og svona sé nú lífið. Það er auðvitað svona,  eins og við vitum allar.  En það er engin endastöð að segja það.  Endastöðin er nokkrum stoppistöðum lengra.  Þær eru merktar með:  Nefndu það, horfstu í augu við, gerðu það upp við þig, taktu á móti fyrirgefningu Guðs, fyrirgefðu sjálfri þér,
haltu áfram í nýrri  gleði.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |17 mars 2014 10:37|Dagleg trú, Óflokkað|

Hvar eru Kvennréttindi núna?

Næsta námskeið Kvennakirkjunnar köllum við : HVAR ERU KVENRÉTTINDIN NÚNA ? Á námskeiðinu koma til okkar sérfræðingar sem velta fyrir sér kvennréttindum í samtímanum frá ýmsum sjónarhornum.

Námskeiðið er í stofum Kvennakirkjunnar í Þingholtsstræti 17 . frá 19.30 til 21 og kostar 1000 krónur á kvöldi
Verum allar innilega velkomnar og komum sem getum

By |10 mars 2014 23:09|Fréttir|

Dagar hins dæmalaust góða uppgjörs

Það eru þessir dagar, dagarnir til páska.  Næstum tvær heilar vikur.  Nógur tími.  Kirkjan breiðir út fjólubláa messulitinn og talar um iðrun okkar.  Við getum allt eins vel talað um uppgjör okkar.  Við höfum tækifæri til að gera upp allt það sem við iðrumst og vildum hafa haft  öðruvísi.  Gerum það.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |10 mars 2014 10:35|Dagleg trú|

Næsta guðþjónusta í Seltjarnarneskirkju

Guðþjónusta  í Seltjarnarneskirkjusunnudaginn 16. mars klukkan 2 . Athygli er vakin á messutíma. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar og ræðuefni:  Uppgjör við okkur og Guð. Stefanía Steinsdóttir segir frá trú sinni. Laufey Sigurðardóttir leikur á fiðlu og Anna Sigríður Helgadóttir syngur. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söng með kór Kvennakirkjunnar. Kaffi á eftir.  Þær sem sjá sér fært að færa  kaffibrauð fá alúðarþakkir

By |10 mars 2014 10:29|Fréttir|

Kvennakirkjukonur á faraldsfæti

Alla og Anna Sigga, Aðalheiður Þorsteinsdóttir tónlistarstjóri Kvennakirkjunnar og Anna Sigríður Helgadóttir söngkona, voru nú um helgina á Skagaströnd hjá séra Bryndísi Valbjarnardóttur.  Þær gáfu kirkjukórnum raddþjálfun og kenndu nýja sálma.  Gleðin streymdi milli allra sem töluðu og borðuðu og sungu saman og heilluðust hvert af öðru.   Á sunnudaginn var sunnudagaskóli klukkan 11 í Hólaneskirkju og uppskeruhátíð tónlistardaga kl. 2  undir yfirskriftinni Drottinn gerðu hljótt í hjarta mínu.     Við hinar Kvennakirkjukonurnar gleðjumst með þeim.

By |10 mars 2014 10:23|Fréttir|