Laugardaginn 15. mars sl stóð Hugvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir hugvísindaþingi. Meðal fyrirlesara var séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prestur Kvennakirkjunnar sem talaði í málstofu sem Pétur Pétursson prófessor við guðfræðideild stýrði og bar heitið Framtíð íslenska þjóðkirkjufyrirkomulagsins. Fyrirlestur Auðar Eirar bar heitið Nú er tími til siðbótar – eins og alltaf og byggir á efni bókar hennar Bakarí Guðs sem Kvennakirkjan gaf út árið 2012. Þar reifar Auður Eir nýjar hugmyndir um veitingu prestembætta og hvetur til þess að prestar verði hreyfanlegir á milli staða en einangrist ekki hver á sínum stað áratugum saman. Í hugmyndinni felst einnig hvatning til samvinnu og að sumir prestar hafi ekki alltof mikið að gera þegar aðrir hafi of lítið að gera. Eftirfarandi útdráttur var birtur í dagskrá þingsins:

Lútersk kirkja á að vera siðbótarkirkja á öllum tímum. Hún á að fylgja þeirri lútersku guðfræði að við séum öll prestar hvaða starf sem við höfum.  Hún þarf að horfast í augu við tilhneigingu sína til kaþólskra messusiða. Og hún þarf að breyta ýmsu í grundvallarskipulaginu, í fyrsta lagi að breyta ráðningu prestanna. Svo að prestar verði ekki keppinautar heldur samheldinn hópur í boðun fagnaðarerindisins. Það þarf að ræða málin og gefa langan tíma til að tala vandlega saman.

Fyrirlestur Auðar Eirar mun birtast í útgefnu efni Hugvísindaþings 2014 og verður líka aðgengilegur á heimsíðu okkar.