Kynvitund, kynverund og transfólk

Námskeið Kvennakirkjunnar í febrúar og mars kallast Kynvitund, kynverund og transfólk.  Á þessu námskeiði fáum við tækifæri til að kynnast nýjum hugmyndum sem enn eru lítið kynntar hér.  Þær fjalla um kynvitund og kynverund og fólk sem finnst það hafa fæðst í röngum líkama.  Suður í Þýskalandi er nú mögulegt að bíða með að skrá kynferði barna þar til það kemur í ljós hvers kyns þau eru. Námskeiðið er í Þingholtsstræti 17,  fjögur mánudagskvöld og stendur frá 19.30 til 21 – frá hálf átta til níu um kvöldið og kostar 4000 krónur

Mánudagskvöldin 17. og 24. febrúar
talar dr. Sólveig Anna Bóasdóttir kennari við guðfræðideild HÍ um kynvitund og kynverund og transfólk.

Mánudagskvöldin 3. mars
talar Svandís Anna Sigurðardóttir kynjafræðingur og jafnréttisfulltrúi HÍ. Svandís Anna  ræðir um kynja- og kynhneigðarkerfið, endursköpun á ríkjandi hugmyndum og jaðarsetningu hinsegin fólks, í tengslum við MA ritgerð hennar í kynjafræði þar sem hún gagnrýndi hvernig kynjakerfið byggir upp einungis tvö kyn sem þá útiloka/jaðarsetja trans fólk.
Mánudagskvöldið 10. mars
Ugla Stefanía Jónsdóttir og Örn Danival Kristjánsson frá Trans Ísland segja frá starfsemi félagsins og reynslu sinni af að fara í kynleiðréttingu.

Verum allar innilega velkomnar til þessa góða tækifæristil að kynnast því sem bráðum verður veruleiki hér  sem við þurfum að þekkja.

By |6 febrúar 2014 15:04|Fréttir|

Biblíuleg íhugun á stefnumóti við Guð

Næsta mánudagskvöld, 3. febrúar verður þriðja skiptið í námskeið Kvennakirkjunnar, Stefnumót  við Guð – Kristin íhugun og hugleiðsla. Þetta kvöld verður farið í Biblíulega íhugun, Lectio Divina sem er ævaforn íhugunaraðferð innan kristinnar hefðar þar sem íhugað er eftir textum Biblíunnar. Stefnumótið hefst kl. 19:30 og er haldið í Þingholtsstræti 17. Lýsingu á námskeiðinu í heild sinni má sjá hér að neðan. […]

By |30 janúar 2014 16:15|Fréttir|

Afmælismessa Kvennakirkjunnar

Næsta messa Kvennakirkjunnar er afmælismessa og verður hún haldin í Neskirkju Sunnudaginn 16. febrúar  kl. 14:00. Tökum eftir breyttum messutíma !

By |30 janúar 2014 15:45|Fréttir|

Næstu messur okkar verða kl.14

Við höfum rætt  vandlega um hugsanlega breytingu á messutíma, gá hvort sunnudagssíðdegin henti betur en kvöldin, nú meðan myrkrið er.  Það fellur í góðan jarðveg í umræðum að prófa þennan tíma.   Þess vegna verða þrjár næstu messur klukkan 14 á sunnudögum, hin fyrsta sunnudaginn 16. febrúar í Neskirkju við Hagatorg. 

By |30 janúar 2014 15:38|Fréttir|

Messa í Laugarneskirkju

Fyrsta messa Kvennakirkjunna þetta árið verður í Laugarneskirkju, sunnudaginn 19. janúar kl. 20. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar. Kór Kvennakirkjunnar leiðir söng undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur og Anna Sigríður Helgadóttir syngur. Að venju verður boðið til messukaffis og  þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti á kaffiborðið fá alúðar þakkir. Tökum frá tíma í dagsins önn og mætum í samfélag Guðs.

By |14 janúar 2014 19:22|Fréttir|

Stefnumót við Guð – Kristin íhugun og hugleiðsla

Skipuleggur þú stefnumót við Guð? Hefur þú áhuga á að dýpka samband þitt við Guð? Fjögurra kvölda námskeið Kvennakirkjunnar þar sem kristnar íhugunar- og hugleiðslu aðferðir verða kynntar og iðkaðar. Námskeiðið stendur yfir 4 mánudagskvöld, frá 20. Janúar til og með 10. febrúar í stofum Kvennakirkjunnar, Þingholtsstræti 17. Námskeiðið kostar 4000,- kr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn prestur Kvennakirkjunnar kennir fyrstu 3 kvöldin og Þóra Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur kennir síðasta kvöldið.

Með aldagömlum aðferðum kristinnar trúar lærum við að opna hjarta okkar og taka á móti Guði, í þögn og kyrrð og dýpka þannig  tengslin við Guð og þroska trú okkar.

20. janúar kl. 19:30. Með Guði í kyrrð: Kynning á aðferð Kyrrðarbænarinnar (Centering Prayer) fyrri hluti
27. janúar kl. 19.30  Með Guði í kyrrð; Kynning á aðferð Kyrrðarbænarinnar (Centering Prayer) seinni hluti
3. febrúar kl. 19:30  Með Guði í Biblíunni: Biblíuleg íhugun (lectio divina)
10. febrúar kl.19:30 Upppörvun og slökun með Þóru Björnsdóttur hjúkrunarfræðing

By |12 janúar 2014 15:38|Fréttir|

Hugmyndafundur Kvennakirkjunnar

Um leið og Kvennakirkjukonur óska öllum nær og fjær  velfarnaðar á nýju ári er blásið til hugmyndafundar næstkomandi fimmtudag, 9. janúar. Hugmyndafundurinn verður í sölum Kvennakirkjunnar að Þingholtsstræti 17 og hefst kl. 17:30. Á fundinum verða settar fram og unnið úr hugmyndum um starfið framundan, námskeið og guðsþjónustur.

By |6 janúar 2014 15:23|Fréttir|

Jólamessa í Háteigskirkju

Jólamessa Kvennakirkjunnar verður haldin í Háteigskirkju 27. desember kl. 20:00. Séra Arndís G. Bernhardsdóttir Linn prédikar,  Hallfríður Ólafsdóttir leikur á þverflautu og Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng.  Aðalheiður Þorsteinsdóttir leiðir jólasöng með kór Kvennakirkjunnar og á eftir verður jólakaffi.

By |21 desember 2013 23:29|Fréttir|

,,Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi“ til sölu

Þá hefur annað upplag að nýútkomnu hefti í ritröð Kvennakirkjunnar, Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi  eftir Auði Eir Vilhjálmsdóttir verið gefið út.

Þetta er lítið hefti í 5 köflum og 5 fallegum litum og er um möguleikana til að lifa hversdagslegu lífi okkar með hin undursamlegu ráð Fjallræðunnar í hjarta okkar. Heftið var upprunalega kynnt á nýafstöðu námskeiði í Kvennakirkjunni með sama nafni.
Heftið fæst á 1500 krónur.

Hægt er að hafa samband  við þær sem bralla daglega í Þingholtsstræti – og svo verður heftið  líka til sölu í Kirkjuhúsið.  Síminn okkar er 551 3934 og netfangið kvennakirkjan (hja) kvennakirkjan.is. Nú svo er líka hægt að hringja til Auðar í 864 2534.

Bókin vakti svoddan lukku á námskeiðinu að konum fannst nauðsynlegt að gefa tækifæri til að hafa hana til gjafa svo Aðalheiður prentsmiðjustóri okkar prentaði meira fyrir okkur.

By |3 desember 2013 14:23|Fréttir|

Aðventumessa Kvennakirkjunnar 1. desember

Aðventumessa  verður 1.  desember klukkan 20 í Kirkju Óháða safnaðarins við Háteigsveg á fyrsta sunnudegi í aðventu
Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar. Kór Kvennakirkjunnar leiðir aðventusöng undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur
Kaffi á eftir . Þær sem sjá sér fært að færa okkur góðgerðir með kaffinu fá alúðarþakkir

Við komum til að finna frið og hugrekki og förum heim  með þessar undursamlegur gjafir Guðs

By |27 nóvember 2013 13:55|Fréttir|