Andartök Guðs

Einu sinni týndi ég hönskunum mínum góðu og hlýju. Nema hvað, á köldum haustdegi kom vinkona mín í heimsókn með þessa líka fínu hanska, sem hún sagðist hafa fundið heima í skáp í forstofunni og hefði ekki hugmynd um hver ætti. Ég fór í þá og fann hlýjuna af hennar höndum í mjúku kanínufóðrinu og sagðist eiga þessa hanska. Hún var bráðfegin að hafa látið sér detta i hug að setja þessa alltofstóru hanska á sig einmitt þennan dag. Og  ég var fegin að finna þá og hlýju vináttu okkar. Guð gefur okkur mörg slík andartök í lífi okkar, þegar við finnum vináttu Guðs og vináttu almennt, sem gefur okkur styrk. Og tækifæri til að hlæja og gleðjast. Mér finnst ómetanlegt að eiga slíkar minningar og ég þakka Guði hvern daga fyrir vináttuna.

Með bestu kveðjum

Yrsa Þórðardóttir

By |3 október 2015 13:04|Dagleg trú|

Miskunn Guðs varir allan daginn

Það stendur fleira um dagana í Davíðssálmum.  Það stendur að um daga
muni sólarhitinn ekki vinna okkur mein og að við skulum lofa Guð
sem ber byrðar okkar dag eftir dag.   Sálmarnir 121.6  og 68.20.

Fögnum trú okkar. Fögnum hverjum degi  sem bíður okkar.
Fögnum því að eiga vináttu Guðs sem er vinkona okkar.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |1 október 2015 13:01|Dagleg trú|

Fögnum hverjum degi

Það verður í vetur sem aðra vetur að lífið er samstarf Guðs og okkar.
Hún mun sem fyrr senda okkur þessar líka gjafirnar af atburðum og
öllu því skapi sem við þurfum á að halda í blíðu og stríðu – hugrekki
og glaðlyndi og hverju sem er eftir dögum og tímabilum.

Ekki fannst mér slæmt að lesa á baki afgreiðslufólksins í Ikea eitt
árið þessa fínu setningu:  Fögnum hverjum degi.
 Rétt eins og þau hefðu lesið Biblíuna með morgun kaffinu – og kannski
lásu þau einmitt úr Davíðssálmum, 52.3:  Miskunn Guðs varir allan daginn.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |29 september 2015 12:58|Dagleg trú|

Gleðjumst og fögnum yfir komandi dögum

Góðu vinkonur.  Þá förum við að breyta ögn um lífsstíl, föt og hvaðeina.
Það gerist alltaf með haustinu eins og við höfum allar vitað árum saman.
Nú  kveikjum við á kvöldljósum og njótum lífsins örlítið öðru vísi
en í síbjörtu  sumrinu.

Ég óska okkur góðra daga með góðum hugsunum og hugrekki til að
lifa lífinu í takt við það sem gerist.   Og láta það sem gerist verða
sem allra best og skemmtilegast eftir því sem við höfum tök á.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |26 september 2015 11:29|Dagleg trú|

Hver dagur verður ævintýri með Guði vinkonu minni

Á hverjum morgni vakna ég með gleði í hjarta. Það koma þó þeir dagar sem mér er þungt fyrir hjarta vegna erfiðra verkefna sem bíða dagsins  en man þá að ég á mér góðan förunaut, Guð almáttugan sem fylgir mér allan daginn, sama hversu erfið verkefnin verða. Ég byrja hvern morgun með því að kveikja á kerti og biðja fyrir þeim sem mér eru kærir. Bið svo fyrir sjálfri mér og þá veit ég að dagurinn verður góður því kærleiksrík er Guð og hún fylgir mér í dag og alla daga styður mig og styrkir  hvert sem liggur leið. Hver dagur verður þá sem ævintýri.

Bestu kveðjur,  Auður Inga

 

By |24 september 2015 15:59|Dagleg trú|

Það er alltaf vegur framundan

 

Stundum leiða vonirnar okkur alltof langt. Ég hugsa stundum um það þegar fólk er mjög vongott og telur sig hafa vissu fyrir einhverju, er kannski að sækja um starf á nýjum stað. Og hugurinn ber það hálfa leið; á nýja staðnum verður allt svo gott, þar er skólinn fyrir börnin svo vel rekinn og boðið upp á einmitt það sem þau þurfa, húsið sem þau hafa skoðað er óskahúsið, hægt að stunda skíði og þarna eru svo hugguleg kaffihús. Og þau sem vona eiga það svo sannarlega skilið að hljóta þetta nýja.  Svo, fær einhver annar allt þetta.  Hrunið er hátt.

Jesús hrindir burtu því sem slær niður. Það má ekki taka frá manni lífið. Við megum ekki festa okkur við eina von. Það er hann sem er okkar von. “Ég er Drottin Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa. “ Fyrsta boðorðið þýðir þetta sama:   Þegar ekkert virðist eftir, þá er það ekki rétt.

Guð er að tala við þig , stöðugt, og benda á tilgang í tilverunni, það er til vegur framundan.

Með bestu kveðjum,  Dalla Þórðardóttir

 

By |12 september 2015 21:24|Dagleg trú|

Hvað segir Jesús um vonbrigði okkar?

 

Morgunn, tilhlökkun, ný byrjun, von, allt er að fara af stað.

Taktu þetta til þín. Um þetta eru páskarnir. Guð er að senda þér þessa gjöf. Taktu þig til. Hristu upp í þér. Vonin er til. Hún er þar þótt þú sjáir hana ekki.

Það er svo skrítið, að stundum erum við þreytt og hundleið á öllu á þessum tíma.   Það kom nefnilega bakslag í veðrinu og maður hefur  ekki lengur þol til að taka því.

Það eru vonbrigði. Vonirnar voru farnar á loft,við hugsum:” Æ, nú er þetta að verða búið, við höfum verið svo dugleg og sýnt langlundargeð og þetta er umbunin.” Svo þegar allt fer í sama horf, getur maður varla tekið því.  Brostnar vonir. Það er erfitt að lifa þær.  Þá heyrist rödd þess sem gekk um dal dauðans og sigraði allt þetta sem lemur niður; “Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja”

 

Með bestu kveðjum,  Dalla Þórðardóttir

By |10 september 2015 21:22|Dagleg trú|

Og meira um fyrirgefninguna

Já, ég ætlaði að segja að fyrirgefningin tekur ekki af okkur frumkvæðið heldur hvetur okkur.  Við látum okkur ekki detta í hug að fyrirgefning Guðs geri okkur stikkfrí frá því að lifa lífinu með möguleikum þess og ómöguleikum.  Fyrirgefningin gerir okkur frjálsar til að mæta því sem við mætum, njóta lífsins og nota það, gera það sem þarf að gera og gera það vel.   Og taka því sem þarf að taka og standast það og horfast i hugrekki í augu við þá lífsreynslu sem við hefðum vilja komast hjá.    Eða hvað segir þú?

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |3 september 2015 21:17|Dagleg trú|

Fyrirgefningin

Ég skrifaði að ég teldi að fyrirgefning Guðs væri grundvöllur lífs okkar og mesta hamingja okkar að taka á móti henni og fyrirgefa sjálfum okkur.  Dag eftir dag, á hverjum degi.  Ég hitti stundum fólk sem er alveg á móti þessu og ber oft fyrir sig fyrirgefninguna í kaþólskum skriftum, að fremja glæp, fá fyrirgefningu og fara og fremja sama glæpinn eða aðra.  Það er bara vitleysa að tala svona.  Þetta er ekki fyrirgefningin sem nokkur kirkjudeild boðar.  Þetta er vanþekking ef ekki fyrirlitning, jú, fyrirlitning, á þeirri miklu náð sem þau finna sem koma til Jesú með sorg sína yfir eigin verkum eða hugsun og fá fyrirgefningu, óendanlegan létti sem bjargar lífi þeirra.

Blíðar kveður,  Auður Eir

By |1 september 2015 21:15|Dagleg trú|

Þau skuldbundu sig til að vinna engin vond verk

Kristin trú var tortryggð og kristið fólk var ofsótt.  Þau voru áskökuð um stórfellda glæpi, gjálífi og drykkjuskap og meira að segja mannát – hvað var það eiginlega þegar þau sögðust eta hold þessa manns sem þau sögðust trúa á?  Embættismaður keisarans, hann hét Plíníus og keisarinn Trajanus,  gerði sína eigin rannsókn til að senda keisaranum.  Það var  í byrjun annarrar aldar.  Hann komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri meinlaust fólk.  Það hittist snemma á fyrsta degi vikunnar og syngi lofsöng um  Krist sem þau sögðu að væri Guð.  Seinna um daginn hittust þau aftur til að borða saman venjulegan mat.  En morgunsamverunni lauk með því að þau unnu eið að því að fremja ekki vond verk.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |29 ágúst 2015 21:08|Dagleg trú|