About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 447 blog entries.

Gleðileg Jól!

GLEÐILEG JÓL

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól. Með frið í hjarta okkar, eftirvæntingu eftir því sem
bíður okkar og þakklæti fyrir það sem er liðið.  Það er gott að hugsa við kertaljósin.  Þá finnum við friðinn sem umlykur okkur einmitt núna.  Núna á þessari aðventu og þessum jólum.  Kannski hugsum við um það sem hafði áhrif á okkur einu sinni, það sem var gott og það sem var ekki verulega gott.  Það hefur áhrif á okkur núna.  Og á það sem við gerum á árinu sem bíður eftir því að við sláumst í hópinn.  Er ekki gott að segja það við sjálfar okkur að það sem var ekki gott er búið? Það er farið.  Guð tók hugsanirnar um það frá okkur.  En það sem var gott er ekki farið.  Guð geymir það fyrir okkur og gefur okkur minningarnir.  Þess vegna er gott að eiga friðinn núna, djúpan og yndislegan.  Og vænta góðrar framtíðar.  Það er allt gjöf Guðs vinkonu okkar sem elskar okkiur.  Hún elskar fólkið okkar nær og fjær og gætir að því. Hugsum hver til annarrar og biðjum hver fyrir annarri.  Tökum einu sinni enn á móti jólagleði Guðs.  Það er yndislegt.

Gleðileg jól og blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |15 desember 2021 21:46|Fréttir|

Biblíulestrarnir

Margar okkar lesa nýju bækurnar okkar.  Sumar kjósa sína eigin röð og byrja kannski á Gamla testamentin eða Postulasögunni.  Við gerum þetta allar nákvæmlega eins og við viljum.  Það er svo gott að vita að sumar lesa heima á eigin spýtur en fylgjast með okkur sem hittumst og tölum saman í Þingholtsstræti á mánudagskvöldunum.  Við allar kristnar konur um alla veröldina þurfum að lesa Biblíuna saman, segja kvennaguðfræðingarnir sem hófu lesturinn á síðustu öld og gengu í fótspor kvennanna sem fóru á undan.  Þær segja að með því að lesa sjáum við að Biblían er auðlegð okkar.  Biblían er auðlegð okkar.  Yndisleg orð.  Finnst þér það ekki?  Þökkum hver annarri fyrir samstarfið nær og fjær.

By |13 desember 2021 21:44|Fréttir|

Aðventuguðþjónusta í Grensáskirkju

Aðventuguðþjónusta í Grensáskirkju

Sunnudagskvöldið 12. desember kl. 20.00 verður aðventuguðþjónusta Kvennakirkjunnar í Grensáskirkju. Séra Dalla Þórðardóttir á Miklabæ flytur okkur hugvekju og við
 syngjum um eftirvæntinguna og hlustum í kyrrð og friði á hljómlist Önnu Siggur Elínar Þallar og Ragnheiðar Ragnars. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söngnum.  Drekkum kaffi og tölum saman í gleði hjarta okkar. Verum innilega velkomnar hver til annarrar.

By |10 desember 2021 19:14|Fréttir|

Áfram lesum við Markús í Þingholtsstrætinu

 Við lesum núna sjötta kaflann hjá Markúsi og tölum um hann á mánudaginn kemur.  Hann er um predikun Jesú í heimabænum og góðar móttökur sem breyttust í vondar.   Hvað þykistu vera?  Svo segir frá því að hann sendi postulana út til að predika.  Næst frá veislunni hjá Heródesi og stúpdótturinni sem dansaði fyrir gestina og mömmu hennar sem lét koma með höfuð Jóhannesar skírara á fati inn í veisluna.  Og síðast frá samveru Jesú með hópnum sínum, brauðveislunni með fólkinu úti í náttúrunni, storminum á vatninu og lækningunni þegar fólkið streymdi til Jesú til að læknast.  

Við lesum um postulana sem Jesús valdi til að vinna með sér.   Það voru ekki bara menn heldur líka konur og að það breytti sögu veraldarinnar. 

By |20 nóvember 2021 17:48|Dagleg trú|

Hvað um það þegar við læknumst ekki?

Við töluðum um 5. kaflann hjá Markúsi á mánudaginn var.  Töluðum mest um konuna með blæðingarnar.  Hún treysti Jesú.  Hann læknaði hana.  Hvað um það þegar við læknumst ekki?  Hvað um allt mótlætið sem hann frelsar okkur ekki frá?  Við vitnuðum í orði Jesú í síðustu kvöldmáltíðinni:  Ég ætla ekki að taka ykkur út úr þessum flókna heimi heldur gefa ykkur styrkinn til að vera þar.  Svo sagði hann:  Þið erum með mér í baráttunni við mótlætið.  Ég verð alltaf með ykkur.  Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |16 nóvember 2021 17:47|Dagleg trú|

Tvær Vinkonur okkar

Tvær vinkonur okkar

Tvær vinkonur okkar í hverfinu hafa fallið frá,   Þuríður Bergmann og Vilborg Dagbjartsdóttir.  
Þuríður bjó úti í Þingholtsstræti í húsi sem hún  gerði upp fyrir áratugum af miklu hugrekki og 
ræktaði garð sem var ævintýri. Hún var með fyrstu konum í Reykjavík til að annast glugga-
útstillingar.  Hún bauðst til að lána okkur stólana sína þegar við áttum ekki nógu marga fyrir allar 
konurnar sem komu til okkar.  Við kölluðum hana alltaf Þuríði á 13.

Vilborg bjó hérna niðri við Bókhlöðustíginn og kom stundum inn til okkar eða við spjölluðum 
á gangstéttinni.  Hún sagði að það væri mesti  misskilningur að vinstrafólk eins og hún væri ekki 
trúað, hún hefði alltaf farið í kirkju.   Vilborg var kennari og þjóðfræg  fyrir fallegu ljóðin sín.

By |13 nóvember 2021 22:16|Dagleg trú|

Tilboð Jesú

Góða vinkona.  Á mánudaginn var lásum við 4. kaflann í Markúsi.  Við töluðum mest um það mikla tilboð Jesú að taka það alvarlega sem hann býður okkur.  Svo að við  tökum ekki aðrar hugmyndir um gleði lífsins fram yfir hugmyndir hans.   Og látum ekki verkefnin sem mæta okkur, góð og erfið kæfa trú okkar.  Við skulum treysta Jesú, Guði vinkonu okkar svo að líf okkar haldi áfram að vera yndislegt.  Hvað hugsaðir þú? Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |13 nóvember 2021 16:21|Dagleg trú|

Samvera okkar á mánudögum

SAMVERAN OKKAR Á MÁNUDÖGUM er milli klukkan hálf fimm og sex
í stofum okkar í Þingholtsstræti 17

Við höldum áfram að lesa Markúsarguðspjall eftir nýju bókinni okkar Kaffihús vinkvenna Guðs.

Við höfum verið á ferðinni til að færa öllum kvennakirkjukonum bókina að gjöf frá okkur öllum
til að þakka fyrir trúfesti  og ómetanlegan stuðning. Nýjar kvennakirkjukonur hafa bæst í hópinn

Sumar vilja frekar lesa heima heldur en að koma á mánudögum og við erum allar
einn yndislegur hópur.

By |12 nóvember 2021 22:19|Fréttir|

Biðjum hver fyrir annarri

Það er svo gott að geta beðið hver fyrir annarri, alltaf fyrir okkur öllum.  Þegar sérstakt ber að  biðjum við sérstaklega fyrir því.  Nú biðjum við fyrir vinkonum okkar sem hafa veikst.   
Við treystum Guði.  Alltaf.  Við höfum séð að hún er með okkur og hjálpar alltaf.  

By |12 nóvember 2021 22:15|Dagleg trú|

Treystum Guði æ og ætíð

Biblíufólkið sagði það.  Og gerði það.  Við líka.  Það er best af öllu.  Hún brallar svo, segjum við.  Af því að hún er alltaf að bralla  og hlaða á okkur gjöfum. 

Við skulum halda áfram að sjá allar þessar gjafir í daglegu lífi okkar.  Hvað finnst þér gleðja þig mest í dag?  Það er svo mikið sem berst að okkur.  Og líka mikið sem við fáum að gefa öðrum.   Við megum treysta því að við verðum einhverjum til hjálpar og blessunar.  Mörgum.

Við höfum alltaf verið sammála um að við eigum að hafa álit á sjálfum okkur.  Það er bæði bráðnauðsynlegt og engu síður fallegt, gott og skemmtilegt.  Við erum vinkonur Guðs og hún
gerir okkur mildar og máttugar.  Hún fyrirgefur okkur mistökin og gefur okkur gott og fallegt sjálfstraust til að láta mistökin ekki íþyngja okkur lengi en halda áfram í góðu lífi okkar.  Finnst þér það ekki?

Tökum nú eftir því hvað mikið af blessun berst að okkur í dag.  Sumt er það sama og í gær og miklu fleiri daga, sumt er eitthvað sérstakt.  Það er lífslist að sjá það, taka á  móti því og njóta þess.  Gerum það.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |11 nóvember 2021 22:13|Dagleg trú|