Upplýsingar

Predikun sr. Auðar Eir í guðþjónustu Kvennakirkjunnar í Hallgrímskirkju sunnudagskvöldið 19. september 2021
Er það ekki stórkostlegt að hittast eftir þessa löngu fjarveru?  Og eins og alltaf svo gaman að sjá hvernig við komum ein af annarri í messuna og verðum glaðari og glaðari þegar við komum ein eftir aðra og  fleiri og fleiri.  Í kvöld erum við að tala um nýjustu bókina okkar Göngum í hús Guðs.  Guðþjónustan okkar.
Við skulum tala um kafla í inngangsorðunum með nokkrum spurningum sem komu frá alheimshreyfingum innan lútersku kirkjunnar.  Það var fyrir löngu, fyrir 40 árum  en spurningarnar og svörin eru enn efst á blaði hjá okkur.
Þar er spurt:  Hvers vegna komum við?  
Hvað segir þú?  
Þau segja að við komum til að íhuga hjálp Guðs sem við finnum í Ritningunni.
Og sjáum í  nærveru Guðs og máttarverkum í hversdeginum.  
Við hittumst til að tala við Guð um dýpsta ótta okkar og gleði okkar og vonir.  
Og finna gæsku Guðs í lífi okkar og lífi safnaðarins.  
Og þakka Guði ást hennar í Jesú Kristi og bera boðskapinn áfram.  
Það er yndislegt að fá að vera í þessum hópi og með svo fjölmörgu fólki um alla veröldina.  Sumar okkar muna þegar það var sagt að fólk væri bara í kirkjunni í tómu meiningarleysi og kannski væri betra að kirkjan væri hópur sem meinti i alvöru það sem hann segði.
Kannski.  Hvort sem það er betra eða verra erum við nú í alheimskirkju sem er miklu minni en fyrir hálfri öld.  Það breytir engu fyrir okkur.  Við eigum núna eins og þá þessa undursamlegu gjöf að vera vinkonur Guðs.  Eða kannski kirkjan sé ekkert minni núna.  Af því að þótt Vesturlönd afneiti kristinni trú taka Austurlöndin henni fagnandi og flykkjast til hennar.  
Svörin segja okkur að við skulum lesa Biblíuna saman. Af því að þá sjáum við hver Guð er og hverjar við erum sjálfar.  Við sjáum að við óttumst og kvíðum eins og er svo mikið talað um núna.  Við sjáum að það er ekkert nýtt.  Það er alveg eðlilegt.  Lífið hefur alltaf verið flókið.  Fólk Biblíunnar óttaðist kannski enn meira en við og talaði enn meira um það.  Það sem bjargaði því var óendanleg og örugg hjálp Guðs.  Þau segja að hún hafi aldrei aldrei brugðist.  
Svörin segja okkur að við skulum treysta sjálfum okkur.  Guð hjálpar okkur til þess af því að hún segir að það skipti okkur svo miklu að hafa trú á sjálfum okkur.  Og við megum það og getum það af því að hún hefur trú á okkur.
Við skulum þakka Guði fyrir kirkjuna okkar, Kvennakirkjuna sem við eigum og mótum.  Við skulum þakka fyrir allt sem við gerum og hver fyrir aðra og biðja hver fyrir annarri.  Hugsum hver til annarrar og gleðjumst yfir að vera Kvennakirkja saman.  Við hjálpum hver annarri til að bera boðskapinn áfram.  Við gerum það með daglegu lílfi okkar.  Þökkum Guði fyrir þjóðkirkjuna.  Fyrir kirkju allrar veraldarinnar.
Þess vegna komum við.  Við komum til að fyllast von og gleði og kjarki til að llifa í voninni og gleðinni.
Hvað segirðu?  Á morgun verður fyrsta mánudagssamvera okkar og við ætlum að tala um guðþjónustuna.  Hvað finnst þér?  Við hlustum alltaf hver á aðra og förum eftir því.  Guðþjónustan er til að hitta Guð.  Til að sjá hvað orðið hennar, Biblían segir okkur.  Og bráðum gefum við út okkar eigin biblíuskýringar og lesum þær samana á mánudagsfundunum.  Ég veit þú fylgist með og sérð hvernig þú getum tekið þátt í þessu.  Guð blessar þig.  Amen.