Upplýsingar

Ræða á 19. júní við Kjarvalsstaði – Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Smásaga í upphafi:  Ég sat í hádegisverði í miðbænum með vinkonum mínum og konur sátu við öll hin borðin en eitt var laust.  Þá kom tignarleg kona og settist þar, ég vissi að hún var íslensk og nýlega gift útlendum manni í hárri stöðu við alþjóðafyrirtæki.  Allar konurnar við öll borðin risu á fætur og fóru til hennar.  Allar nema ég auðvitað sem þekkti hana ekki.  En sagan er um það að ég fylltist undarlegum tilfinningum sem ég veit ekki hverjar voru, kannski varð ég einmana, kannski fannst mér lífsstíll þeirra ógna mér eða kannski fannst mér eitthvað annað.  Sagan búin og geymd til að segja meira um á eftir.

Ég ætla að tala um tilfinningar.  Ekki almennt og ekki um fólk úti í heimi eða úti í bæ.  Bara okkar.  Og biðja þig elskulegast að halda þessa predikun með mér.   Mér finnst við verða að halda ræðuna saman  um þetta merkilega viðfangsefni, tilfinningar sjálfra okkar.

Fólk er að tala um kvíðann.  Ert þú kvíðin?  Stundum hugsa ég.  Eins og ég líka og líklega allar hinar.  Svona rétt umyrðalaust ætla ég stinga upp á öðru heiti um kvíðann.  Hvað finnst þér um að kalla hann lífsótta? 

Þá er hann einfaldlega óttinn við lífið, alla vega og óútreiknanlegt lífið.  Þessi kvíði hefur alltaf verið til og fólk skrifaði mikið um hann í Biblíunni.  Það gerist alltaf svo margt sem ætti ekki að gerast.  Skyldi ekki sagan sem ég sagði fyrst vera hluti af honum?  Er hann ekki líka ótti við ýmsa smávægilega atburði sem gerast aftur og aftur í daglegu lífi okkar?  Finnst þér betra fyrir þig að gera þér einhverja grein fyrir tilfinningunum um lífið?  Finnst þér það?  Skyldi það vera að ef við gerum okkur grein fyrir smáa óttanum getum við heldur skár ráðið við mikla óttann?  Hugsum um það meðan Anna Sigga syngur fyrir okkur.

Nú er seinni hlutinn og ég skal segja þér aðra sögu.  Hún er um konuna sem kom til geðlæknisins og sagðist hafa svo miklar áhyggjur af vandamálum heimsins.  Það er alveg eðlilegt, sagði geðlæknirinn.  Við höfum öll svona áhyggjur.  Já, sagði konan en ég hef svo miklar áhyggjur af því að mér finnst ég geta leyst þau.

Ég er í sömu sporum og konan.   Ég er að bjóða þér að vera þar líka.  Mér finnst við geta leyst mörg vandamál okkar.  Ekki öll heldur sum.  Ekki ég ekki heldur við.  Ekki vandamál heimsins og ekki einu sinni fólks úti í bæ.  Bara okkar.  Hvað segir þú? 

Það er eitthvað vitlaust sem við gerum.  Þess vegna verður kvíðinn svona mikið umtalsefni núna.    Og mikill raunveruleiki.  Það var líka eitthvað vitlaust sem fólkið sem var með Jesú gerði.  Hann gaf því mörg ráð við því. 

Hann sagði að við skyldum taka okkar eigið daglega líf í okkar hendur.  Segjum þetta aftur.  Af því að það er svo mikilvægt.  Jesús sagði:  Taktu þitt daglega líf í hendur þínar. 

Vertu vinsamleg.  Bæði við annað fólk og sjálfa þig.  Ekki dæma, ekki troða á fólki og láttu ekki annað fólk troða á þér.  Sinntu samfélaginu og borgaðu það sem þú átt að borga.  Berstu fyrir betra  samfélagi.  Og njóttu lífsins um leið. Vertu í fallegum fötum ef þú átt þau og langar til þess,  Vertu með góðu fólki.   Ekki láta hugmyndirnar í kringum þig fylla þig örvæntingu.  Fylltu þig friði og vertu kjarkmikil. 

Jesús sagði líka að við skyldum ekki láta samkeppnina í kringum okkur buga okkur.

Karen Horney  var með allra fyrstu sálgreinum okkar tíma og var uppi á síðust öld.  Hún sagði að  samkeppnin eyðilegði líf okkar.  Mér fannst það lengi.  Þangað til mér fannst það ekki lengur.  Það var af því að mér fór að finnast að það væri annað og nú skal ég segja þér það. 

Það vitlausa sem við gerum og veldur okkur lífsóttanum er að treysta ekki sjálfum okkur.  Ég held bara að Jesús hafi sagt það.  Hvað heldur þú?  Við megum vera handvissar um það.

Jesús sagði að við ættum að treysta sjálfum okkur.  Hann sagði það.  Treystu þér.  Þú getur það með því að treysta mér.  Hann sagði að við myndum ekki alltaf fara eftir góðu ráðunum sem hann gefur okkur.   En þau eru góð og við getum tekið þau upp aftur þótt við förum í stundum rolukast og missum af þeim í bili.

Jesús sagði ekki að öll þessi góðu ráð væru grundvöllur lífs okkar.  Þau vaxa upp úr grundvellinum.  Og hver er grundvöllurinn? 

Jesús sagði það.  Hann sagði:  Ég er grundvöllurinn.  Hann sagði það.  Trúðu mér, sagði hann.  Trúðu á mig.  Láttu allt líf þitt vera umvafið vináttu Guð.  Og gleðið Guðs.

Það er það sem gerir líf þitt að lífi.  Ræðan er búin.  Takk fyrir að halda hana með mér.  Var hún ekki bara góð?  Amen.