Upplýsingar

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Predikun í guðþjónustu Kvennakirkjunnar í Seltjarnarneskirkju 14. nóvember 2021
Þá sagði Jesús:  Sáðmaðurinn fór út að sá.  Sum fræin féll við götuna og fuglar komu og átu þau.   Sum féllu í grýtta jörð og visnuðu í heitu sólskininu.  Sum féllu í þyrna og þistla sem kæfðu þau.  En sum féllu í góða jörð og komu upp og urðu að stórkostlegri uppskeru.
Nú skaltu hlusta á þetta, sagði Jesús.  Guð blessar okkur orðið sitt.  Amen
Ég kem ekki til með að segja eitt einasta aukatekið orð sem þú hefur ekki heyrt mig segja áður.  Ég lofa þér því eins og er sagt til að fullyrða eitthvað.  Það er auðvitað hallærislegt að sitja hérna og segja ekkert annað en það sem þú hefur heyrt hundrað sinnunm. Hvað er gaman að því?  Það er sérlega ömurlegt af því að  við erum í sporum frelsara okkar sem sagði það sem fólk hafði aldrei heyrt áður.  Þau urðu svo frá sér numin að þau urðu nýjar manneskjur og allt lífið breyttist.   
Við erum búnar að lesa fyrstu fimm kaflana í Markúsi.  Það stendur þar hvernig þetta var.  Það var ekki allt fólkið sem heyrði Jesúm tala sem heyrði hvað hann sagði.  Eins og við heyrðum í ritningarlestrinum.  Sum nenntu ekki að pæla í því.  Sum vildu heldur hlusta á eitthvað annað.  Sum máttu bara ekki vera að því.  En.  Sum heyrðu og hlustuðu og urðu nýjar manneskjur.
Jesús talaði við allt þetta fólk.  Hann gaf því alveg ný ráð til að nota í daglegu lífinu.  Daglegt lífið skiptir okkur mestu.  Vertu ekki alltaf að dæma, sagði hann.  Ekki dæma hin.  Og ekki dæma sjálfa þig.  Gerðu það sem þér finnst rétt, hafðu trú á þér og haltu þínu striki.  Ef þér finnst þú eiga að breyta skaltu gera það.  Og ef þér finnst réttast að hætta við skaltu bara gera það.  Þá finnurðu eitthvað nýtt og ég verð með þér   Það er gott og nauðsynlegt að hafa reglur.  En þær mega ekki stjórna þér.  Vertu heldur eins og liljur vallarins og fuglar himinsins.
Hann sagði þetta líka við kallana sem stjórnuðu landinu.  Ekki kremja fólkið með öllum þessum reglum.  Þær er vondar.  Hættið þessu bara.  Ég skal hjálpa ykkur.  En þeir vildu ekki hlusta á hann og sögðu að hann væri fjandinn sjálfur og við vitum hvernig það endaði. 
Hann sagði við allt fólkið, sinn eigin hóp, fólkið sem kom til hans, kallanna í stjórninni, hann sagði:  Þið verðið að sjá hvað er aðalatriði og hvað er aukaatriði.
Reglurnar geta verið svo góðar.  Og bráðnauðsynlegar.  Við verðum að hafa ýmsar reglur.  En ekki troða lífinu inn í reglur.  Sjáðu hvað er aðalatriðið.
Hvað er aðalatriðið? 
 Það er ég.  Ég er Guð sem er komin til að taka þátt í heiminum.  Og í þér.  Í þínu eigin hjarta og öllu lífi þínu.  Þess vegna get ég breytt þér meira en þig dreymir um.  Ég get gert þig að ljósi heimsins og salti jarðarinnar og gert þig frjálsa, fallega, hugrakka og yndislega eins og liljur vallarins og fulgla himinsins.  Ég gerir það aftur og aftur.  Ég geri þig nýja aftur og aftur.
Þetta er ekkert nýtt fyrir okkur sem hittumst hérna í kvöld.  Eins og við höfum hitt hver aðra í næstum 30 ár.   Við höfum sagt þetta sama hver við aðra aftur og aftur.   Það er samt nýtt.  Einmitt af því að við höfu heyrt það og hlustð á það og það er orðið hluti af okkur sjálfum.  Það er alltaf nýtt.  Í hverri messu, hverri samveru okkar og á hverjum morgni heima hjá okkur.  
Við þurfum að sjá aukaatriðin og aðalatriðið.  Við þurfum að halda ró okkar.  Þótt aukaatriðin verði að fjöllum og aðalatriðið sé alls ekki tekið með.  Það gerist.   Það gerist núna í aðdáun svo margra í þjóðfélaginu á einhverju öðru en kristinni trú.   Við skulum halda ró okkar.  Við höldum áfram eins og alltaf að þakka Guði fyrir aðalatriðið,  hana sjálfa sem er komin til okkar og er vinkona okkar.  Á hverjum degi.  Það er alltaf nýtt.  Og aftur og aftur stöndum við á öndinni af gleði.  Guð blessar okkur, amen